29.03.1966
Efri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

81. mál, loðdýrarækt

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að minn málflutningur hefði verið mjó veikur. Það er ekki mitt að dæma um það. Ég læt hv. þdm. dæma um það og skal ekki kveða upp neinn úrskurð um það. Hann vildi halda fram, að sinn málflutningur væri ákaflega sterkur. Ég ætla heldur ekkert að segja um það. En ég varð ekki var við, að ég þyrfti að svara í raun og veru miklu eftir þessa ræðu hv. 9. þm. Reykv. Hann var með sömu fullyrðingarnar og í sinni fyrri ræðu. Hann vildi gera mikið úr því atriði, að það væri tekinn réttur af sveitarstjórnum til þess að segja um það, hvort heimilt væri að setja upp minkabú i viðkomandi sveitarfélagi, og spurði mig, hvað ég teldi um það.

Hvaða þýðingu hefur þetta? Allur málflutningur hv. ræðumanns hefur snúizt og mótazt af hræðslunni við villiminkinn. Mér hefur skilizt, að það væri aðalatriðið í hans málflutningi, að við ættum ekki að hætta á það, að villiminknum fjölgaði, þó að hann geri það nú kannske, hvort sem við leyfum minkarækt eða ekki. Ef þetta sjónarmið er lagt til grundvallar, er það þá sanngjarnt að leggja þetta vald í hendur sveitarstjórna, að ákveða, hvort það megi hafa minkarækt eða ekki? Er það víst, ef minkurinn sleppur út, að hann fari ekki út fyrir sveitarmörkin? Frá sjónarmiði hv. ræðumanns sé ég ekki betur en það sé algert aukaatriði og jafnvel óréttmætt að láta eina sveitarstjórn segja til um þetta, þannig að ég er ekkert viss um, að það skipti nokkru máli og sé til nokkurs skaða að fella þá heimild niður. Ég held, að þetta verði að metast eftir öðrum sjónarmiðum, og það fer bezt á því, að það sé gert af þeim ráðh., sem hefur með þessi mál að gera.

Ég sagði, að málflutningur hv. 9. þm. Reykv., og hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) raunar líka, virtist fyrst og fremst miðast við hræðsluna við villiminkinn. En þeir voru að spyrja svo um það, hver væri hagurinn þjóðhagslega séð af því að hafa þessa framleiðslu hér í okkar landi. Þeir sögðu ekki beint, að það mundi vera óhagur að því. En dettur þessum mönnum í hug, að hér fari menn að fara út í minkarækt af einhverri ást á minknum, ef það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir þessum atvinnurekstri? Ég held, að það sé fullkominn misskilningur að halda slíkt. Það er að mínu viti fávíslegt að vera með slíkan málflutning sem þennan.

Ég hef séð sett upp dæmi og ýmis dæmi, sem benda til þess, hvaða þjóðhagslega þýðingu þessi atvinnurekstur, ef tekst hér á landi, getur haft. Ég er því miður ekki með við höndina flest af því, sem ég hef séð um þetta efni, en ég hygg, að ég fari rétt með eitt dæmi, sem ég hef heyrt og er reiknað út af manni, sem hefur sérstaklega kynnt sér þessi mál. Fískúrgangur eða fiskur er aðalfæðutegund minksins. 1963 munu hafa farið um 100 þús. tonn af fiskúrgangi í fiskimjölsverksmiðjur landsins, og þá mun hafa verið greitt fyrir þennan fisk af verksmiðjunum 5560 aurar á kg. Slíkt hráefni keyptu minkaframleiðendur í Danmörku á sama tíma fyrir sem svaraði 3 kr. íslenzkum. Ef við setjum nú þetta dæmi upp þannig, að það þurfi 35 kg af þessu fóðri til þess að framleiða eitt minkaskinn og að öllu væri varið til slíkrar framleiðslu, þá mundi vera hægt að framleiða 2.5—3 millj. minkaskinna. Verðmæti þessara skinna mundi vera um 1500—2000 millj. kr. Þetta er aðeins dæmi. Og þetta er algerlega óraunhæft dæmi að því leyti, að sú tilraun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir með minkarækt, mundi ekki þýða það, að við gætum farið að reikna með slíku nú. En dæmið er, eftir því sem ég bezt veit, rétt reiknað. Og þá gætu þessir hv. ræðumenn, bæði 9. þm. Reykv. og 1. þm. Vesturl., kannske gert sér nokkra grein fyrir því, hvort það gæti haft þjóðhagslega þýðingu fyrir okkur að fara út í þennan atvinnurekstur eða ekki.