30.04.1966
Efri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2319)

81. mál, loðdýrarækt

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kemur af þeim nál., sem fyrir liggja, varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa frv. En það var rakið hér við 1. umr. þessa máls, að frv. er afar óljóst og illa samið á allan hátt. Og enda þótt það komi hvergi fram í frv., á hvern hátt á að rækta valin loðdýr, hvort það á að gera það af þeim stofnum, sem þegar eru fyrir í landinu, af íslenzka refastofninum eða þeim villta minkastofni, sem er í landinu, eða þeim öðrum loðdýrum, sem kannske fyrirfinnast í landinu, það segir ekkert um þetta í frv. Ef þetta er ekki til staðar, að það eigi að rækta þessi völdu loðdýr, sem fyrir eru í landinu, liggur ekki annað fyrir en það sé um innflutning loðdýra að ræða, enda þótt það sé hvergi á það drepið í þessu frv. Hygg ég þó, að það sé meginkjarni þessa máls, að hefja eigi innflutning nýrra loðdýrategunda, því að ég geri ráð fyrir, að það væri ekki almennt talið af þeim, sem hafa vel vit á loðdýrum, að hér sé um ræktaða stofna innlenda að ræða.

Ég mun því snúa máli mínu að því að rekja nokkuð sögu innflutnings hér á landi, bæði loðdýra og búfjár, því að þetta hefur allt sett sinn svip á landið og allur innflutningur erlendra búfjárkynja og erlendra loðdýra hefur sagt sína sögu hér á landi. Og þótt það hafi verið fyrsta atriðið varðandi innflutning búfjár og innflutning loðdýra, að það væri málefni, sem þjóðin mundi í framtíðinni hagnast mikið á, og hafi verið komið með tölur þar um, hefur reynsla okkar í þeim efnum sýnt yfirleitt annað. Vera má, að við höfum ekki verið menn, Íslendingar sjálfir, til að fara með þessi mál eins og þarf, af því að það er að sjálfsögðu ekki sama, hvernig til tekst og í höndum hverra manna slíkur innflutningur er hverju sinni.

Það liggja fyrir umsagnir um þetta mál frá ýmsum aðilum, sem hafa mikla þekkingu til að bera varðandi loðdýr og loðdýrarækt og einnig það, hvernig villt loðdýr hafi farið með landið, náttúru landsins, og hafa farið með sum auðæfi landsins, bæði að því er varðar fuglalífið, æðarvarpið og einnig að því er varðar veiði í vötnum og ám, því að það verðum við að hafa í huga líka, að þetta eru verðmæti, sem okkur ber að varðveita engu síður og hafa í heiðri heldur en þótt við eygjum mikla fjárhagslega möguleika í innflutningi á loðdýrum.

Björn Guðbrandsson hefur sent bréf til Alþingis 28. marz s.l., og hann skrifar það fyrir hönd Fuglaverndarfélags Íslands, en þar segir, með leyfi forseta:

„Félagið vill benda á, að allir sérfræðingar í náttúrufræði, sem fjallað hafa um þetta mál, eru mótfallnir því, að loðdýrarækt verði aftur leyfð á Íslandi, einnig, að hversu vandlega sem dýranna er gætt, hljóti alltaf hluti af þeim að sleppa út. Ef loðdýrarækt er leyfð í Vestmannaeyjum, mundi minkur komast þar út um allar eyjar og eyðileggja fuglalíf í Vestmannaeyjum, og yrði mjög óhægt um vik að útrýma mink á þeim slóðum. Félagið vill einnig beina þeirri spurningu til valdhafa, hvort nægilega hafi verið rannsakað, að ekki berist með nýjum minkastofni veirusjúkdómar, sem geti orðið hættulegir hérlendis.“

Þetta segir Fuglaverndarfélag Íslands. Umsögn liggur líka fyrir frá ýmsum kvenfélagasamböndum hér á landi, en ég hefði nú haldið, að það væri kannske fyrst og fremst kvenþjóðin hér á landi, sem væri fýsandi þess, að slíkur innflutningur yrði hafinn, þar sem um loðdýr er að ræða, því að vissulega er það kvenþjóðin, sem þar hefur ráðið — ég vil segja: lögum og lofum, því að þessar loðdýrakápur eða loðdýrafeldir, sem kvenþjóðin notfærir sér víðs vegar í heiminum, er það, sem hefur ráðið því hverju sinni, hversu verðmæt einstök loðdýr hafa verið. Og því var haldið fram hér fyrir rúmum 30 árum, þegar refaræktin var sem mest hér á landi, að þarna væri um arðvænlegan atvinnuveg að ræða, þar sem væri silfurrefur, platínurefur, blárefur og hvað það nú heitir. En þeir einir græddu á þessari refaræktun, sem seldu lífdýrin, en þegar fjöldinn var búinn að koma sér upp loðdýrabúum, voru skinnin fallin í verði. Þarna er um miklar breytingar að ræða, og yfirleitt er það svo, þar sem tízkan ræður verðlaginu, að þótt það virðist hátt í dag á einhverju loðdýri eða einhverjum loðdýrafeldum, getur eftir 1—2 ár verðlagið verið hrunið á þessari tegund loðdýra, en aftur hækkað á öðru. Hér er því varla hægt að hugsa sér, að sé um mjög staðbundið verðlag að ræða.

Birgir Kjaran, formaður náttúruverndarráðs, segir í umsögn til landbn. Nd., með leyfi forseta; „Náttúruverndarráð er með tilliti til fenginnar reynslu af skaðsemi minksins í náttúrulífi landsins andvígt þeirri heimild til loðdýraræktar, sem frv. gerir ráð fyrir, og þeim innflutningi loðdýra, sem væntanlega kæmi í kjölfar þeirrar heimildar:

Þetta segir Birgir Kjaran, sem er mjög mikill unnandi alls náttúrulífs hér á landi. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur líka sent sína umsögn eða Finnur Guðmundsson fyrir hennar hönd, og hann segir, með leyfi forseta: „Vegna afskekktrar legu hefur Ísland nær algera sérstöðu að því er varðar fábreytni gróðurs og dýralífs. Innflutningur dýra, hvort sem um húsdýr eða villt dýr er að ræða, til slíkra landa getur því og hefur raunar oft haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Þess vegna ber að gæta ýtrustu varúðar í sambandi við innflutning dýra til Íslands, og á þetta jafnt við um villt dýr og loðdýr, sem ætluð eru til eldis í loðdýrabúum. Sannleikurinn er sá, að það hefur aldrei og mun aldrei takast að koma í veg fyrir til fulls, að slík dýr sleppi úr haldi. Þess vegna er algerlega óverjandi að láta vafasama stundarhagsmuni marka stefnuna í málum af þessu tagi.“ „Vafasama stundarhagsmuni marka stefnuna í þessum málum,“ segir Finnur Guðmundsson fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Þegar ég var á búnaðarþingi í vetur, lá þar fyrir bréf til búnaðarþingsfulltrúa frá yfirdýralækni, Páli A. Pálssyni, og margt kemur fram í þessu bréfi, m.a., með leyfi forseta:

„Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands, haldinn að Keldum 31. ágúst 1963, litur svo á, að enn sé þekking manna á ýmsum smitsjúkdómum búfjár takmörkuð, einkum að því er varðar veirusjúkdóma. Teljum við því ógerlegt að búa svo um hnútana við innflutning búfjár og búfjársæðis, að ekki fylgi slíkum innflutningi smithætta.“

Í sama bréfi er umsögn frá Margréti Guðnadóttur, sem er sérfræðingur að því er varðar veirusjúkdóma, og stendur hún fyrir þeim rannsóknum við tilraunastöðina á Keldum. En þessi sérfræðingur segir, með leyfi forseta:

„Öllum, sem við búskap fást, er í fersku minni það tjón, sem mæðiveikin gerði hér, en hún er einn af þeim sjúkdómum, sem hagar sér eins og að framan greinir. Margir smitsjúkdómar, t.d. mæðiveiki, valda ekki sjúkdómseinkennum fyrr en eftir 3—4 ár eftir smitun. Dýrin, sem bera í sér slíkar sóttkveikjur og geta dreift þeim um, virðast alheilbrigð allan þennan tíma. Ef tekið er tillit til þessara eiginleika sumra smitsjúkdóma, virðist augljóst mál, að eigi fullt gagn að verða að sóttvarnaratöð til að forðast útbreiðslu næmra sjúkdóma, verður að reka tilraunastarfsemi í a.m.k. 10 ár í sóttvarnarstöðinni, áður en leyfð er dreifing á sæði þaðan um sveitir landsins. Undirrituð er þeirrar skoðunar, að innflutningur sæðis sé varhugaverður og styttri tími en 10 ár í sóttvarnarstöð komi ekki til greina, eigi að reyna að forðast útbreiðslu sjúkdóma frá sæðinu.“

Því er haldið fram, að minkaeldi muni mjög arðvænlegt hér á landi. Ég skal ekkert um þessa hluti segja, vegna þess að það er eitt, sem flm. og talsmenn þessa máls hér á hv. Alþ. hafa forðazt að upplýsa, þ.e. hversu hagkvæmt loðdýraeldi mundi verða hér á landi. En mér finnst, að það sé fyrsta meginatriðið, sem við verðum að gera okkur Ijóst, þegar um þetta mál ræðir, hvað er hér um mikið hagsmunamál að ræða. Það er fyrsta atriðið. Síðan, þegar það er upplýst, verðum við að gera það upp við okkur, hvort við teljum, að hér sé um það mikið hagsmunamál að ræða, að við viljum eitthvað leggja í sölurnar, einhverja áhættu og einhvern kostnað, til þess að það nái fram að ganga. Og eins og fram kemur í því nál., sem við stöndum að, meiri hl., er það fyrsta skilyrðið um innflutning loðdýra og búfjár, ef um slíkan innflutning sé að ræða, að komið verði upp sóttvarnarstöð í landinu, eins og lög gera ráð fyrir, og á það vil ég leggja áherzlu, að slíkt verði gert hið allra fyrsta, og þá fyrst, þegar sóttvarnarstöð er komin, er tímabært að hugleiða þetta mál og vita, hvort það virðist vera eins mikið hagsmunamál og flm. vilja vera láta.

Ég segi fyrir mig, að ég er engan veginn á móti því, ef loðdýrarækt er verulega arðvænlegur atvinnuvegur hér á landi, að hún sé þegar hafin. En ég vil segja það jafnframt, að ég vil engu fórna, ekki leggja neitt í hættu í þeim efnum, sem getur orðið til þess að skaða náttúru landsins eða flytja sjúkdóma í þann búfénað og þau önnur dýr, sem við höfum hér á landi, hvorki fugla né búfé. En það getum við átt á hættu, og þess er skemmst að minnast, að nú fyrir nokkrum mánuðum geisaði gin- og klaufaveiki af miklum krafti í nágrannalöndum okkar, og þar virtist sem um nýjan stofn af gin og klaufaveiki væri að ræða, annan veirusjúkdóm en áður hafði þekkzt og því meiri erfiðleikar á að útvega meðul gegn þessum sjúkdómi heldur en þeim, sem venjulega höfðu geisað. Og við Íslendingar höfum líka okkar sögu að segja út frá því, þó að gin- og klaufaveiki hafi ekki borizt hingað til landsins, því að ástandið er þannig nú, að enn þá hefur ekki fengizt innflutt neitt grasfræ eða kartöflur eða annað, sem við þurfum nauðsynlega að flytja til landsins nú á þessu vori. Enn þá er ekki hafinn neinn innflutningur á þessum nauðsynjavarningi vegna þeirrar hættu, sem innflutningurinn kann að valda varðandi þennan sjúkdóm.

Mér finnst, að við eigum að flýta okkur hægt í þessum málum og kynna okkur þetta mál ýtarlega, loðdýraræktina, hversu arðvænleg hún kann að vera, og við eigum líka að vinna að því, að byggð verði sóttvarnarstöð, sem tryggi öryggi innflutnings loðdýra og innflutnings búfjár í framtíðinni. Og með þeim rökum, sem ég hef hér fram fært frá ýmsum merkum og mikilsráðandi mönnum hér í þessu landi, og því, sem fram kemur í nál. okkar i meiri hl., leggjum við til, að frv. verði fellt.