23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2328)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Út af frv. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 70 og nú hefur verið gerð grein fyrir af hv. flm. þess, vil ég segja, að ég er efnislega sammála í stórum dráttum þeirri till., sem þar er fram borin til breytinga á l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og mundi fylgja slíkri till. eða öðrum líkum. Ég tel þó, að vandamálið, sem við er að glíma, sé viðtækara en þessi hv. flm. hefur gert sér grein fyrir eða gert okkur grein fyrir í sínu máli og þurfi sú n., sem þetta mál fær til meðferðar, að athuga það nánar.

Nú þyrfti víst ekki að vera lengri mín ræða, ef ég ætti að binda mig við efni frv. En hv. flm. notaði langan tíma, ekki til þess að gera grein fyrir efni þessa frv. sérstaklega, heldur til að gera að umtalsefni embættisveitingu bæjarfógetaembættisins í Hafnarfirði og sýslumannsembættisins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og hef ég auðvitað ekkert um það að sakast. Mér er aðeins kærkomið að fá tækifæri til þess, að það mál komi til umr. hér. Ég hefði gjarnan óskað eftir að fá að heyra sjálfstæðari skoðanir á því máli en hv. flm. þessa máls lét í ljós, því að sannast að segja kannast maður nú við flest, enda mikið af því upplestur úr blöðum undanfarinna daga frá öðrum mönnum, sem hann vildi nota máli sínu til stuðnings í sambandi við þær ásakanir, sem hann bar fram í minn garð um misrétti í þessari umræddu embættisveitingu.

Ég hef gert grein fyrir viðhorfi mínu til þessarar embættisveitingar í stuttu viðtali í Morgunblaðinu, skömmu eftir að embættið var veitt. Hv. flm. þessa máls segir, að það viðtal hafi sannfært fáa. Um það skal ég ekkert sakast við hann, og þýðir lítið um að deila, en þar er þó í fáum dráttum fram dregið það, sem ég vildi mega halda, að margir teldu vera nokkuð veigamikil atriði í þessu sambandi. Þegar stundum er vitnað í rök, sem ég flutti fram í þessu viðtali, hafa bæði blöð og þessi flm. iðulega látið sér sæma að fella úr því, sem ég sagði, og hætta í miðjum setningum, þar sem það hentaði þeim.

Mér þykir alveg sérstaklega ástæða til að víkja að einu atriði, sem margsinnis hefur verið haft eftir mér, „að setning í embætti skapi hvorki lagalegan, venjubundinn né siðferðilegan rétt til skipunar í embætti.“ Á þessu hafa menn furðað sig, og það gerði þessi hv. flm. einnig. En það stendur bara áfram í viðtalinu við mig: „umfram fjölmargt annað, sem til álita kemur og veitir rétt að sínu leyti, meiri eða minni, til embættisskipunarinnar“. Ég hef m.ö.o. ekki sagt, að setning veiti ekki að sínu leyti rétt, þegar meta á, hvort veita skuli einum eða öðrum embætti, en ég álít ekki, að hún veiti neinn fortakslausan rétt, og það sé ekki einsætt, að þeim, sem hefur verið settur einhvern tíma, tilheyri þar með embættið. Þarna skilur okkur á, og það má segja, að hér séum við í raun og veru að fjalla um þungamiðju málsins. Er það svo, ef maður hefur verið settur í embætti lengri eða skemmri tíma, að þá skeri það endilega úr um það, að hann skuli verða skipaður í þetta embætti, þegar það losnar? Ég hef leyft mér að hafa þá skoðun, að svo bæri ekki að líta á þetta mál, og ég tel það rangt, ef svo væri litið á málið. Ég hef gert nokkra grein fyrir því, af hverju ég tel það rangt, m.a. vegna þess, að þá er gengið fram hjá þeim rétti, sem aðrir eiga til þess að sækja um þessi embætti og láta meta sína hæfileika og sína aðstöðu til móts við viðkomandi aðila. Og réttur hinna mörgu er að mínu viti í þessu sambandi alls ekki minni en réttur hins eina.

Menn skilja kannske betur, hvað ég á við, ef við lítum á þetta í ljósi staðreyndanna. Þá liggur málið þannig fyrir, að embættið í Gullbringu og Kjósarsýslu var auglýst til umsóknar árið 1935. Síðan hefur það ekki fyrr en nú verið auglýst til umsóknar. Nú er það svo, að það er lagaskylda að auglýsa embætti, en það hefur mér skilizt, bæði á flm. þessa máls og öðrum, að það hafi ekki skipt neinu máli í þessu sambandi, það hafi bara verið formsatriði, sá setti hefði átt að fá þetta embætti, í augum þessara manna átti bókstaflega ekki að líta á réttarstöðu annarra manna. Segjum þá, að ég hefði viljað fara að ráðum þessara manna og skipað embættið þessum tiltekna embættismanni, sem þarna hafði verið settur. Það er maður á bezta aldri. Hann gat hæglega verið í embættinu í 24 ár, eða fram til hámarksaldurs embættismanna. Ef þessi háttur hefði verið á hafður, hefði engum öðrum sýslumönnum og bæjarfógetum þessa lands né öðrum lögmönnum gefizt kostur á að sækja um embættið í Hafnarfirði og Gullbringu- og Kjósarsýslu í um 55 ár ! Þetta fær að mínum dómi með engu móti staðizt, og þetta væri ranglæti, eins og ég sagði áðan, gagnvart fjöldamörgum öðrum.

Það, sem ég vildi því leggja áherzlu á, er þetta, sem ég hef sagt, að setningin skapar ekki siðferðilegan rétt, og það er alveg sama, hversu lengi setningin er, þá skapar hún ekki siðferðilegan rétt umfram margt annað. Þar verður líka að meta þær misgerðir, sem maður gerði sig sekan um gagnvart öðrum, ef þetta ætti að vera fortakslaus réttur. Það kom alls ekki til fyrst eftir umsóknir um þetta embætti, að ég hafði þessa skoðun á þessu máll, og það er alveg rangt hjá hv. flm. þessa máls hér, að ég hafi þurft stuttan tíma til að gera upp við mig, hverjum ætti að veita þetta embætti. Það er iðulega svo, og var það einnig í þessu sambandi, að embættismenn eða aðrir, sem óska að sækja um embætti, ræða það við veitingarvaldið, og það veit oft um hugi manna til embættanna löngu áður en formlegar umsóknir eru lagðar fram. Mér var þess vegna kunnugt um, að það mundu fleiri sækja um embættið en Björn Sveinbjörnsson, sem mér hafði verið tjáð, að mundi sækja um það og sótti líka um embættið, þegar það hafði verið auglýst. Ég kallaði þá á þennan bæjarfógeta og sýslumann til þess að gera honum grein fyrir þessari skoðun minni, að ég teldi ekki. að setning hans í embættið skapaði honum fortakslausan rétt, umfram margt annað, til þess að hljóta þetta embætti, og það kynnu að koma fram umsóknir um embættið frá mönnum, sem ég teldi eiga ekki síðri eða meiri rétt til embættisins en hann. Honum var alveg ljóst um þessa afstöðu mína. En um leið og ég gerði honum grein fyrir þessu, gerði ég mér grein fyrir, að það stóð að vissu leyti sérstaklega á um hann, að hann var búinn að vera settur lengi, og með því að fá ekki embættið yrði hann a.m.k. í bili embættislaus. Enda hef ég óspart verið ásakaður fyrir það að hafa „kastað þessum embættismanni út á gaddinn“, eins og sumir prestlærðir menn hafa orðað það, og „vikið honum úr embætti“. Mér er nærri að hyggja, að margir, sem hafa mótmælt þessari embættisveitingu, hafi gert það vegna þess, að þeim finnist, að ég hafi vikið manninum úr embætti og kastað honum út á gaddinn. En hvorugt þetta fær staðizt. Auðvitað veit þessi embættismaður eins og aðrir, sem til þekkja, að honum eru engar dyr lokaðar á embættisferli, ef hann óskar að halda honum áfram, enda þótt ég hafi ekki talið einsætt, að hann skyldi hljóta þetta embætti. Það eru tvö auglýst embætti núna til umsóknar, annað hæstaréttardómaraembætti og hitt bæjarfógetaembættið á Siglufirði. Og það munu áreiðanlega losna, og er vitað um, að innan skamms tíma munu losna embætti, sem þessi hv. embættismaður getur að sjálfsögðu sótt um eins og aðrir, og hans verðleikar yrðu þá metnir, þegar þar að kæmi.

Þegar ég ræddi við þennan embættismann, stóð þannig á, að borgarfógetaembættið í Reykjavik hafði verið auglýst laust til umsóknar. Skv. 5. gr. l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er heimilt að taka til greina umsóknir, sem berast, eftir að liðinn er umsóknarfrestur. Með hliðsjón af þeim umsóknum, sem fyrir lágu, bauð ég þessum embættismanni, að ef hann óskaði að sækja um þetta embætti, mundi ég veita honum það, þ.e. borgarfógetaembættið í Reykjavik. Hann tjáði mér, að hans hugur stæði ekki til þess, og ég gat ósköp vel skilið þá afstöðu hans, að hann vildi fá úr því skorið í sambandi við embættisveitinguna í Hafnarfirði og Gullbringu og Kjósarsýslu, hvort bann hreppti það embætti eða annar. Og um þetta urðu engar málalengingar frekar á milli okkar og engar ýfingar. Ég segi þetta aðeins til þess að undirstrika það, að það hefur hvorki verið í mínum huga að kasta þessum manni út á gaddinn né að ég hafi gert neitt það, sem ég teldi í líkingu við það að vísa þessum manni úr embætti.

Þá kem ég nú að því, sem er kannske leiðinlegri hlið þessa máls, að þurfa að víkja svolítið að öðrum embættisveitingum í þessu landi. Ég hef sjálfur sagt það, að ég vilji ekki nota aðrar embættisveitingar til afsökunar eða réttlætingar á minni eigin embættisveitingu. En þegar maður hlustar á alla þessa heilögu vandlætingu frá flokksblöðum og frá þm. ákveðinna flokka um það, hvað ég hafi gerzt sekur um einstakt misrétti og misferli í embættisveitingu, svo að með eindæmum sé, og einhver alda sé risin í landinu gegn þessum óhæfuverkum núverandi dómsmrh., þá fer manni að blöskra. Og vil þess vegna gjarnan hér í þingsölum, þó að ég hafi ekki hirt um það í dagblöðum, víkja nokkuð að því, hvernig með embættisveitingar hefur verið farið hér á landi, svo að hv. þm. geti gert sér rökstuddari grein fyrir því, á hvern hátt ég hef skorið mig úr með ranglæti í þessu sambandi. Og þó að ég ætli á engan hátt að reyna að gera neina tæmandi grein fyrir þessum málum að mínum dómi, mundi ég telja mjög æskilegt, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, kryfji þau mál til mergjar og geri þá þingheimi enn þá betri grein fyrir því, þegar málið kemur frá n., í sambandi við þær álitsgerðir, sem væntanlega koma fram í þessu máli.

Það hefur verið talin föst regla og venja, að auglýsa bæri til umsóknar embætti þau, sem konungur veitti, álíka eins og þau, sem við erum nú hér að ræða um og forseti veitir nú. Frá því eru ákaflega fá frávik. En frávikin eru hins vegar til. Nú hefur það, eins og kunnugt er, verið sett í lög frá 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að það skuli auglýsa embætti. En það breytir ekki því, að veitingarvaldið var í raun og veru alveg jafnbundið af langri hefð um embættisveitingar að gefa embættismönnum í þjóðfélaginu jafnan kost á því að sækja um embættið.

Það hefur atvikazt þannig um þennan þátt málanna, að eftir stjórnarskipti 1934 og frá þeim tíma og þar til þáv. dómsmrh. lætur af störfum, auglýsir hann 5 bæjarfógeta- og sýslumannsembætti í 5 fyrstu skiptin, sem hann veitir embættin. Síðan auglýsir hann ekki embætti eftir það, þar til hann fer frá, eða 8 sinnum, og gefur þá engum kost á því að sækja um þessi embætti. Hann hættir líka auglýsingu embættanna með þeim hætti, að hann skipar embættismann 1. janúar 1937 í sýslumannsembættið í Árnessýslu, sama dag og lög ganga í gildi um meðferð einkamála í héraði, þar sem embættismennirnir verða að uppfylla viss dómaraskilyrði, að hafa haft þriggja ára reynslu í tilteknum störfum. Þessi maður hafði það ekki. Hann var nýkominn frá prófborðinu. Og eftir þetta eru í þremur tilfellum sýslumannsembætti veitt með þeim hætti, að þau eru ekki auglýst, settur í bili þar embættismaður, af því að hann uppfyllir ekki dómaraskilyrðin, en látinn öðlast þau bjá sjálfum sér í 3 ár og skipaður svo.

Bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði og sýslumannsembættið í Gullbringu- og Kjósarsýslu var ekki auglýst 1945. Þáv. dómsmrh. skipaði 10 embætti á tveggja ára embættisferli, og hann auglýsti þau öll nema þetta eina.

Svo hafa menn talað um með töluverðri vandlætingu, af hverju ég hafi ekki skipað elzta umsækjandann. Þetta gleymist að vísu alveg í ofsanum fyrst, en menn hafa eftir á verið að átta síg á því, að það hafi nú verið óskynsamlegt að saka mig ekki meira fyrir að hafa ekki skipað Jóhann Gunnar í embættið út frá því sjónarmiði, að hann væri elzti embættismaðurinn, og nú er svolítið að þessu vikið hjá flm. þessa frv. Menn segja: Hvernig fær það staðizt, að 62 ára gamall maður sé of gamall til þess að vera skipaður í embætti í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu, og er hann þá nokkuð betur hæfur til þess að halda áfram að sinna sínu embætti? Ég hef nú aldrei tekið svo til orða, að ég teldi manninn óhæfan af því, að hann væri of gamall. Þvert á móti tók ég fram í því blaðaviðtali, sem ég átti, að ég teldi hann alveg fullkomlega hæfan. Það, að ég skipaði hann ekki, orðaði ég þannig, að ég teldi hann helzt til fullorðinn. En ég sagði líka um leið, og það gleymist mönnum jafnan: „um þetta má þó vissulega deila“. Mér dettur ekki í hug að halda því sjálfur fram, að þetta skeri út af fyrir sig úr. Um þetta má vissulega deila. Mér er alveg ljóst, að aðrir kynnu að hafa aðra skoðun á þessu heldur en ég. Því er þó haldið fram, að það sé mörgum sinnum, þrisvar til fjórum sinnum fjölmennara embætti í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu en á Ísafirði, og ég taldi nokkurs virði, að í þetta umfangsmikla embætti fengist maður á bezta aldri. Þó að ég hafi beinlínis tekið fram, að ég teldi Jóhann Gunnar Ólafsson hæfan, lét ég við mitt mat þessar ástæður ráða, sem mætti þó vissulega deila um.

En þá komum við nú að blessuðum aldrinum yfirleitt við embættisveitingarnar. Ef við rifjum upp aftur embættisveitingu bæjarfógeta Hafnarfjarðar og sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1935, þá var það veitt manni, sem var miklu yngri að árum og hafði miklu minni starfsreynslu en mjög margir aðrir sýslumenn og embættismenn, sem sóttu um þetta embætti. Það var gengið fram hjá Magnúsi Gíslasyni sýslumanni, en ég vil nefna þessi nöfn hérna, því að sum af þeim þekkja þm. ákaflega vel og gera sér þá betur grein fyrir því. Hann varð kandidat 1912. Sá, sem fékk embættið, varð kandidat 1923. Það var gengið fram hjá Gísla Sveinssyni, fyrrv. forseta Alþ. og sýslumanni frá 1918 og kandidat frá 1910. Það var gengið fram hjá Halldóri Júlíussyni, sem hafði verið fulltrúi frá 1905 og sýslumaður frá 1909. Þeir, sem reisa nú þessa vandlætingaröldu yfir því, að ég hafi ekki vandað nógu mikið valið í sambandi við mína embættisveitingu, mættu huga nokkuð að þessu.

Þegar bæjarfógetaembættið á Akureyri og sýslumannsembættið í Eyjafjarðarsýslu var veitt 1945, var það veitt ágætum manni, Friðjóni Skarphéðinssyni. Hann var þá bæjarstjóri í Hafnarfirði. Hann var sem sagt ekki embættismaður ríkisins, sem menn hafa oft talað um að skipti nokkru máli að láta ganga fyrir í embættisveitingum, þó að ekkert veitingarvald sé skuldbundið til þess. En það voru miklu eldri og reyndari sýslumenn og embættismenn á þessu sviði, sem sóttu um embættið. Þá sótti um embættið Hjálmar Vilhjálmsson, hann hafði orðið kandidat 1929 og hinn 1935, Hjálmar hafði verið fulltrúi og bæjarstjóri frá 1930 og sýslumaður frá 1936. Jón Steingrímsson sýslumaður sótti um embættið. Hann hafði orðið kandidat 1923 og var búinn að vera sýslumaður frá 1930. Einnig sótti um embættið Hákon Guðmundsson hæstaréttarritari. Og svona mætti lengi telja.

Eins og ég sagði áðan, hef ég ekki vikið að þessum atriðum hér til þess að afsaka á nokkurn hátt þá embættisveitingu, sem ég ber ábyrgð á og hér hefur verið gerð að umtalsefni. En ég bið aðeins þá menn, sem gera sig að dómara yfir öðrum og vandlætara yfir þeirra siðleysi og þeirra misgerðum í garð annarra, að huga svolítið að sér og minnast þess, hvernig þeim nákomnir menn og þeirra eigin flokkar og flokksblöð hafa staðið að og varið hluti, sem á engan hátt standast samanburð við það, sem hér hefur gerzt. Þar voru stundum beinlínis brotin lög og miklu „misrétti“ beitt gegn einstökum mönnum, svo að ég noti orð þeirra, sem á mig ráðast. Ég ætla mér ekki þá dul, að það sé ekki eðlilegt, að menn hafi á þessari embættisveitingu mismunandi skoðanir. Og mér dettur ekki heldur í hug að halda, að það hafi engin áhrif haft á embættisveitinguna hjá mér kynni mín af Einari Ingmundarsyni og það, hvernig ég hef vitað hann rækja sitt embætti, og það, hvernig ég hef vitað hann rækja sína þingmennsku. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það hafi ekki haft sín áhrif, enda tel ég réttast, að slíkt hafi áhrif. Ef maður er sjálfur sannfærður um mannkosti manns, á maður ekki að láta hann gjalda þess, þó að hann sé í sama flokki og maður sjálfur.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins hafa þessi orð miklu fleiri. Það er enginn vafi á því, eins og ég sagði í upphafi, að frv. felur í sér tilraun til þess að leysa mikið vandamál, sem við búum við, þegar menn, eins og hér hefur verið um að ræða, eru skyndilega beðnir um að taka að sér ráðherraembætti, sem eins og kunnugt er enginn veit, hve langan tíma tekur, og menn eiga þess tæplega kost að losa sig umsvifalaust við embættið, sem þeir gegna. Menn þurfa að hafa nokkurt tóm til ráðstöfunar, þegar svo stendur á. Að þessu leyti stefnir till., sem hér er flutt, alveg í rétta átt, að gefa mönnum vissan aðlögunartíma til þess að átta sig á því, hvort þeir séu reiðubúnir til þess að láta laus eidri störf eða stöður. Ýmis önnur atvik geta einnig komið til greina til þess að greiða úr þessum vanda. Í okkar litla þjóðfélagi, þjóðfélagi kunningskaparins, hefur alltaf reynzt auðvelt fyrir menn, sem kvaddir hafa verið til ráðherrastarfa, að fá þá, sem þeir þurfa að sækja mál undir, að leyfa þeim að vera frá starfinu í bili. Ég er einn af þeim mönnum, sem hafa þurft að sækja undir sína yfirboðara um þetta. Þegar ég var staddur úti í London í nóvembermánuði 1963 og forsrh. hringdi í mig til þess að spyrja mig, hvort ég væri reiðubúinn að taka að mér ráðherraembætti, varð ég einfaldlega að segja honum, að þessu gæti ég ekki svarað, nema fyrir lægi áður frá bankaráði Útvegsbankans, hvort mér væri heimilað, þangað til annað yrði ákveðið, að fá fri frá störfum og halda þeim réttindum til starfans áfram, ef svo vildi atvikast. Þannig stóð líka á hjá Guðmundi Í. Guðmundssyni, og þannig hefur staðið á hjá fleiri mönnum. Ég er hins vegar alveg sammála því, sem hér hefur komið fram, að það þarf að setja um þetta einhverjar reglur og finna þessu einhver mörk, og ég vil fyrir mitt leyti vera með í því að reyna að finna beztu leiðir til úrlausnar í þessu efni, svo að menn ekki síðar meir rísi upp til ásökunar á hendur mönnum t.d. fyrir að hafa farið þannig að, sem allir töldu þó sjálfsagt á sínum tíma. Það tekst vonandi að leysa úr þessum vanda. Hitt geta menn svo endalaust deilt um, hversu vel eða illa mér hafi tekizt um embættisveitingu þá, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni. Ég hef sjálfur góða samvizku í sambandi við þessa embættisveitingu, og ef menn gera sér far um það að líta svolítið á eðli þessara mála og gang þeirra í okkar þjóðfélagi fyrr og síðar, held ég, að það sé alveg öruggt, að mönnum er óhætt að draga dálítið úr þeim ásökunum, sem fram hafa verið bornar í minn garð.