23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (2329)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykn. (JSk) sagði í framsöguræðu sinni áðan, að ég hafi í 9 ár látið mér sæma að halda opnu fyrir mig prófessorsembætti við háskólann sem baktryggingu fyrir fallvaltleika ráðherraembættisins. Hér er svo villandi frá sagt, að ég tel það stórvitavert, þar eð þm. á að vera innan handar að vita hið rétta í málinu með því að ræða við stjórn háskólans eða fletta upp í þingtíðindum, ef hann kærir sig ekki um að ræða við mig persónulega, og fá að vita hið rétta.

Ég hef orðið var við það undanfarna daga, að því hefur verið lætt út manna á meðal, að ég hafi látið ýmsa menn kenna fyrir mig við háskólann í 9 ár, ýmist sem aukakennara eða setta, þ.e. án þess að fá skipun í embættið. Þótt ég sé hissa á alþm. eins og Jóni Skaftasyni að láta sér um munn fara orð eins og þau, sem hann mælti um mig áðan, þar eð hann ætti að geta vitað betur, þykir mér beinlínis vænt um að fá þetta tilefni til þess að upplýsa hið rétta í málinu. Ekki hvað sízt er ég hissa á ummælum hv. þm. vegna þess, að embætti mínu við háskólann hefur einmitt verið ráðstafað þannig, að það er í fullu samræmi við ákvæði frv. hans. Þótt það hefði verið orðið að lögum, hefði það engu breytt um meðferð prófessorsembættis míns við háskólann, þar eð í því hefur aðeins verið settur prófessor til fullrar kennslu í 1 ár, Guðlaugur Þorvaldsson deildarstjóri á hagstofunni, veturinn 1960—1961, og óskaði hann þá sjálfur eftir því að láta af störfum og hverfa aftur í hagstofuna, þótt hann af minni hálfu hefði átt kost á skipun og hefði eflaust fengið meðmæli háskólans. Ég skal nú gera nánari grein fyrir þessu máli:

Kennslugreinar mínar í viðskiptadeild háskólans voru allan tímann, meðan ég kenndi þar, rekstrarhagfræði og skyldar greinar. Allar aðalgreinarnar, sem ég kenndi, eru nú kenndar af Árna Vilhjálmssyni prófessor, sem var skipaður prófessor frá 15. okt. 1961, en hann hafði þá lokið framhaldsnámi við Harvard-háskóla.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að neinn hafi ætlazt til þess, að ég segði af mér prófessorsembætti mínu, er ríkisstjórn Hermanns Jónassonar var mynduð sumarið 1956. Kennslu minni var ráðstafað þannig, að næstu árin kenndu kennslugreinar mínar þeir dr. Jóhannes Nordal, Guðlaugur Þorvaldsson, Þorvarður Jón Júlíusson og Árni Vilhjálmsson, en ekki reyndist unnt að fá neinn einn mann til þess að taka alla kennsluna að sér fyrr en haustið 1960, og var Guðlaugur Þorvaldsson þá settur prófessor.

Þegar stjórn Ólafs Thors hafði verið mynduð í árslok 1959 og fjarvera mín frá störfum við háskólann lengdist, vildi ég ekki, að kennsla í kennslugreinum mínum yrði áfram í höndum aukakennara eða setts prófessors, eins og hún var veturinn 1960—1961. Ræddi ég málið í ríkisstj. og við háskólann. Varð það niðurstaðan, að háskólinn fór fram á það við Alþ., að stofnað yrði nýtt prófessorsembætti við viðskiptadeildina. Frá upphafi hafa þar verið 2 prófessorsembætti, og eru rekstrarhagfræði og skyldar greinar aðalkennslugreinar annars, en þjóðhagfræði og skyldar greinar hins. Tilgangurinn með stofnun hins nýja embættis var sá, að ef það yrði stofnað, gæti sú skipun haldizt, að aðalgreinar deildarinnar, rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði, yrðu kenndar af skipuðum prófessorum, en starfskraftar mínir bættust þá við kennaralið deildarinnar, þegar ég hyrfi úr ríkisstj. Till. um stofnun þessa nýja embættis var flutt í Ed. og samþ. með shlj. atkv., um leið og stofnuð voru 2 önnur prófessorsembætti, en menntmn. beggja d. var gerð grein fyrir öllum málavöxtum. Menntmn. beggja d. og þar með fulltrúar allra flokka fengu vitneskju um efni þessa máls og samþ. þar með þá skipan, sem síðan hefur verið á þessum málum. Mér er engin launung á því, að hefði stjórnarandstaðan þá beitt sér gegn stofnun hins nýja embættis, með þeim rökum, að hér væri einungis verið að gera eitthvað fyrir mig persónulega, hefði ég beðið háskólann að afturkalla ósk sína um stofnun embættisins, en auðvitað engu að siður skipað Árna Vilhjálmsson prófessor, eins og ég gerði. Vona ég því, að enginn undrist, þó að mér þyki árásir á mig nú út af þessu máli vægast sagt ódrengilegar.

Í lögum nr. 51 frá 11. júní 1960 var svo kveðið á, að þau kæmu til framkvæmda, þegar fé væri veitt á fjárlögum. Það var gert þegar á næsta ári. Var þá prófessorsembættið í viðskiptadeild auglýst og Árni Vilhjálmsson síðar skipaður prófessor.

Síðan ég fór frá háskólanum, hefur reglugerð viðskiptadeildar verið breytt nokkuð og tekin upp aukakennsla í nokkrum greinum. Meðal hinna nýju aukagreina er kennsla fyrir stúdenta á fyrsta námsári í rekstrarhagfræði, hugtök í hagskýrslugerð og hagræn landafræði, 3 tímar í viku. Þessa kennslu annast nú Guðlaugur Þorvaldsson deildarstjóri á hagstofunni. Eru laun hans greidd með hluta af þeim launum, sem heimilt er að verja til þriðja prófessorsembættisins við deildina, og er Guðlaugur Þorvaldsson settur prófessor, þótt hvorki kennslugreinarnar né stundafjöldinn sé prófessorsstarf. Guðlaugur Þorvaldsson héldi eflaust áfram að kenna þessar aukagreinar, þótt prófessor kæmi til starfa í þriðja embættið. En einmitt af því, að hér er ekki um prófessorsstarf að ræða, hvorki að því er snertir kennslutíma né kennslugreinar, er nafn mitt enn nefnt í kennsluskrá háskólans, og er þar fylgt gamalli hefð.

Aðalatriði þessa máls er, að aðalkennslugreinar viðskiptadeildar eru kenndar af tveim skipuðum prófessorum, Ólafi Björnssyni og Árna Vilhjálmssyni, eins og reglugerð viðskiptadeildar ætlast til og var, þegar ég fór frá háskólanum. Þannig hefur þetta verið síðan haustið 1961. Þessir prófessorar og aðrir kennarar, sem fjölgað hefur verið á undanförnum árum, halda uppi kennslu í öllum þeim greinum, sem hin nýja reglugerð viðskiptadeildar gerir ráð fyrir. Það hefur því að engu leyti skaðað háskólann né stúdentana, að til skuli vera þriðja prófessorsembættið við deildina, sem ég get með samþykki Alþ. hafið starf í, þegar ég læt af ráðherraembætti. Viðskiptadeild hefur fengið til starfa alla þá kennslukrafta, sem nauðsynlegir hafa verið skv. gildandi reglugerð og hún hefur óskað eftir.

Ég vil að lokum taka það fram og leggja á það sérstaka áherzlu, að ef háskólinn hefði á undanförnum árum talið eða teldi nú þörf á að skipa annan mann en mig í þriðja prófessorsembættið við viðskiptadeildina, mundi ég gera það þegar í stað. Ef viðskiptadeild eða eftirmaður minn sem menntmrh. teldu ekki þörf fyrir starfskrafta mína, þegar ég léti af ráðherrastörfum, mundi ég auðvitað ekki taka upp störf við háskólann að nýju.