23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2334)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Lagafrv. það, sem hér er til umr., fjallar aðeins um einn þáttinn í réttindum og skyldum starfsmanna ríkisins, þ.e. þann þátt, sem snýr að því, að menn eru settir til að gegna tilteknum stöðum. Um þetta atriði eru mjög ófullkomin ákvæði í gildandi lögum. Í 1. gr. l. nr. 38/1954 er gert ráð fyrir því, að það fyrirkomulag sé til, að menn séu settir í embætti, og þá ná ákvæði laganna jafnt til þeirra, sem settir eru og skipaðir. Og í 5. gr. eru ákvæði um setningu skv. umsóknum, og þá eru lagaákvæðin, að ég held, upp talin. Vegna þessarar vöntunar lagaákvæða hefur alllengi tíðkazt hér á landi, að ýmsir embættismenn geyma sér störf sín, jafnvel svo að árum skiptir, er þeir hverfa að öðrum verkefnum, sérstaklega stjórnmálalegs eðlis, halda stöðunum opnum, ef þá skyldi síðar fýsa að taka við þeim á ný og hafa í þeim setta staðgengla. Dæmi eru til, að þannig hafa stöður verið geymdar allt að tíu árum. Það virðist augljóst, að þessi tilhögun sé varhugaverð og ekki heppileg. Oftast nær er hér um ein allra þýðingarmestu embætti landsins að ræða, þau sem virkilegur slægur er í og virkilegur vandi þá að rækja. þ. á m. gjarnan betri dómaraembætti, prófessorsembætti, bankastjórastöður og fleira af því tagi.

Sá maður, sem gegnir slíku embætti án þess að fá í það skipun, nýtur ekki, eins og hér hefur verið bent á, þess öryggis í starfi, sem nauðsynlegt verður að telja. Hann veit aldrei, hversu lengi hann gegnir embættinu. Hann á það jafnan á hættu að vera látinn víkja fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið, ef hinn skipaði embættismaður óskar að hverfa að starfi sínu á ný, og hann befur enga tryggingu fyrir því að vera skipaður í stöðuna, þegar hún losnar seint og um síðir. Alveg sérstaklega er þetta slæmt fyrirkomulag um þá, sem gegna dómaraembættum, og hygg ég, að ekki þurfi að rökstyðja það frekar en hér hefur verið gert. En þar er atvikum svo háttað eins og hér hefur verið lýst.

Á hinn bóginn getur staðið svo á, að þessi tilhögun, þ.e. setning í embætti, sé fullkomlega eðlileg og raunar óhjákvæmileg, þ.e. að atvikum sé svo háttað, að embættismaður þurfi að hverfa úr starfi um stundarsakir, t.d. vegna veikinda eða einhverra annarra slíkra ástæðna, og þá er annar settur til að gegna því. En þá væri eðlilegt að mínum dómi, að slíkt fyrirkomulag væri aðeins viðhaft um tiltölulega skamman tíma, og mér virðist það hámark, sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. 4 ár, a.m.k. nægilega hátt og jafnvel of hátt, og kemur það þá til athugunar í nefnd, a.m.k. að því er til dómara tekur.

Í nágrannalöndum okkar, þeim sem líkasta löggjöf hafa og við, munu vera lagaákvæði um þessi tilvik. En ég verð að játa, að mér er ekki kunnugt um það, hvernig þeim er hagað, að öðru leyti en því, sem upplýst er í grg. þessa frv., þ.e. að því er viðkemur Danmörku, og í Noregi munu ákvæðin þó vera líklega enn þrengri.

Ég tel, að sjálfsagt sé, að Alþingi ákveði þetta atriði með löggjöf á svipaðan hátt og í þeim anda, sem frv. á þskj. 70 gerir ráð fyrir, og það því fremur, sem vitað er, að þessu atriði er mjög áfátt hér á landi, og eru nærtæk dæmi því til staðfestingar, sum hafa þegar verið nefnd í þessum umr.

Þetta frv. er því áreiðanlega til bóta frá gildandi löggjöf, og sýnist því sjálfsagt að samþykkja það eða önnur ákvæði svipaðs eðlis til þess að koma í veg fyrir, að viðlíka atburðir geti gerzt og nú valda mestu hugarróti manna hér á Suðurnesjum a.m.k. og ég hygg þótt viðar sé leitað.

Dómarafulltrúafélagið hefur gert ályktun, þar sem það sérstaklega skorar á Alþingi að samþ. þetta frv., og þær undirtektir, sem hæstv. dómsmrh. veitti frv. hér í gær, þegar það var fyrst til umr., benda vissulega til þess, að full þörf hafi verið á flutningi þess.

Það, sem vekur sérstaka athygli á þessari vöntun á lagaákvæðum í sambandi við setningu i stöður, er veiting sú á bæjarfógetaembættinu í Hafnarfirði og sýslumannsembættinu í Gullbringu- og Kjósarsýslu, er gerð var fyrir nokkrum vikum. Menn höfðu að vísu áður fundið til þess, að misbrestur var þarna á, en óhætt er að fullyrða, að aldrei hefur nokkur embættisveiting á síðari árum valdið jafnmikilli undrun og reiði eins og þessi. Þarna var einmitt um eitt af þessum góðu embættum að ræða, sem viðkomandi embættismaður vildi ekki fyrir nokkurn mun sjá af, fyrr en hann hefði tryggt sér annað starf, sem honum væri enn þá betur að skapi. Þess vegna geymdi hann það ár eftir ár eins og sína eigin eign, og loksins eftir nærri tíu ára geymslu var málum svo fyrir komið, að hann sá sér fært að segja því lausu. Allan þennan tíma hafði sami maðurinn verið settur til að gegna þessu veigamikla embætti, og um embættisfærslu hans hafa dómar verið mjög á einn veg og þannig, að hún hefur ávallt verið talin til fyrirmyndar. Þegar staðgengillinn nú lætur af embættinu, hafa í blöðum og miklu víðar birzt yfirlýsingar frá þeim, sem hafa búið við hans forustu undanfarin nærri 10 ár, og allar hafa þær verið undantekningarlaust á einn veg. Allir, sem látið hafa til sín heyra, hafa lokið upp einum munni um það, að Björn Sveinbjörnsson hafi gegnt starfl sínu af trúmennsku, reglusemi, óhlutdrægni og dugnaði, og þeir, sem þessar yfirlýsingar hafa gefið, eru menn af öllum stjórnmálaflokkum og úr öllum sveitarfélögum, sem embættinu tilheyra, og meðmælin eru því ákveðnari sem menn höfðu haft meira saman við settan sýslumann að sælda á undanförnu tíu ára tímabili.

Þegar þetta embætti er svo auglýst til umsóknar lögum samkvæmt, berast þrjár umsóknir, ein frá settum bæjarfógeta, Birni Sveinbjörnssyni, ein frá bæjarfógetanum á Ísafirði, Jóhanni Gunnari Ólafssyni, og sú þriðja frá bæjarfógetanum á Siglufirði, Einari Ingimundarsyni. Allir eru þessir menn hinir færustu, hafa langan starfsaldur að baki og vammlausan, og vil ég taka það skýrt fram, að ég tel embættið í Hafnarfirði vel skipað af hverjum þeirra sem er. Eins og kunnugt er, veitti hæstv. dómsmrh. Einari Ingimundarsyni, bæjarfógeta á Siglufirði, hv. 4. þm. Norðurl. v., þetta embætti. Veiting þessi hefur mælzt svo illa fyrir, að einsdæmi er, ekki vegna þess, að viðkomandi embættismaður sé ekki talinn fullkomlega hæfur, heldur vegna þeirrar forsögu málsins, sem ég hef lauslega gert grein fyrir.

Strax eftir veitinguna tóku mótmæli að streyma að úr öllum áttum. Úr hverjum einasta kaupstað, báðum sýslunum og hverjum einasta hreppi í umdæminu hafa komið fram kröftug mótmæli, og menn hafa svo sannarlega ekki látið sitja við orðin tóm. Svo að segja hver einasti starfsmaður við embættið hefur sagt upp starfi sínu í mótmælaskyni, og hafa þó flestir þessara manna langan starfsaldur að baki, allt upp í 30 ár. Það segir sig sjálft, að það þarf meira en meðalóánægju til þess að fá menn til að leggja svo mikið í sölurnar að segja upp ævistarfi sínu til þess að mótmæla einni embættisveitingu. Það sýnir, að viðkomandi menn telja, að ranglæti hafi verið framið, — ranglæti, sem þeir vilja ekki una. Fimm af átta hreppstjórum í Gullbringusýslu hafa enn fremur sagt af sér til mótmæla, og allir hreppstjórarnir, allir átta, hafa samþykkt mótmæli gegn embættisveitingunni. Hér er því um einsdæmi að ræða að því er snertir viðbrögð fólks, þegar um hliðstæð tilvik hefur verið að tefla, og má þó vissulega játa, að menn eru ýmsu vanir í þessum efnum.

Það fer ekkert á milli mála, að almannarómur er allur á þá lund, að gengið hafi verið fram hjá þeim umsækjandanum, sem mestan réttinn átti til umrædds embættis, og langflestir, sem um þetta mál ræða, en það gera jú allir, eru þeirrar skoðunar, að Björn Sveinbjörnsson hafi verið beittur miklum rangindum, þegar gengið var fram hjá honum. Ég hygg, að allir, sem um þetta mál hugsuðu, hafi gengið út frá því sem gefnu, að honum yrði veitt embættið. Ég hygg, að allir eða flestir, sem um það hugsuðu, hafi fundið til á svipaðan hátt og hæstv. utanrrh. var að lýsa hér áðan, hvernig hans tilfinningar voru til þessa máls, þangað til í ljós kom, að öðrum var veitt embættið. Og ég er viss um, að hæstv. ríkisstj. hefur eins og öðrum verið kunnugt um þennan vilja alls þorra almennings í umdæminu, vil ég segja, enda hafði áður borizt áskorun t.d. um það frá öllum sýslunefndarmönnum, að settur sýslumaður yrði skipaður, þegar embættið losnaði, þannig að óhugsandi er annað en að um þennan vilja hafi verið vitað. Það þurfa því, að mínum dómi að liggja veigamikil rök fyrir þeirri ákvörðun hæstv. dómsmrh. að ganga svo mjög gegn því, sem yfirleitt var álitið rétt og sjálfsagt, eins og hann gerði. Þau rök hefur hann nú birt í viðtali við Morgunblaðið og hér á hæstv. Alþingi, og geta menn því af eigin raun kynnt sér þau og metið, eftir því sem hverjum sýnist. Það mun ég nú einnig leyfa mér að gera að nokkru.

Meginforsendan virðist vera þessi: Setning í embætti skapar hvorki lagalegan, venjubundinn né siðferðilegan rétt til skipunar í embætti — umfram eitthvað annað, var svo bætt við í gær.

Þetta má athuga. Það er rétt, að setning skapar ekki lagalegan rétt til skipunar, sbr. það, sem ég hef áður sagt um gildandi lagaákvæði um réttindi og skyldur starfsmanna, þó með þeirri undantekningu, sem greinir í 5. gr. umræddra laga, en þar er heimild til þess að veita embætti án auglýsingar og færir það fram sterkar stoðir undir það, að setning veiti rétt til embættis eða skipunar. Hins vegar vil ég segja, að setning hafi hér á landi yfirleitt skapað venjubundinn rétt til embættis. Ég hygg, að það sé miklu algengara, nánast aðalreglan, að þeir, sem settir eru til að gegna stöðum um lengri tíma, séu skipaðir í þær, þegar þær losna, ef þeir hafa staðið vel í stöðu sinni og reynzt þeim vanda vaxnir, sem staðan hefur lagt þeim á herðar. Ég vil meira að segja fullyrða það, að sums staðar a.m.k. sé sá háttur hafður á, þegar staða losnar, að í hana sé ekki ráðið eða skipað strax, heldur sé sett í hana og svo skipað síðar og þá vísað til þess réttar, sem hinn setti hafi öðlazt til embættisins eða stöðunnar. Og ég hygg, að það hafi a.m.k. sums staðar örlað á þeim skilningi, að það væri jafnvel óþarfi og kannske ekki rétt að auglýsa þessar stöður, sem þannig stendur á um. Þetta á a.m.k. við sums staðar, þó að það sé kannske ekki um embætti ríkisins, og það sé talin eins konar móðgun við þann setta að vera að leita eftir öðrum umsækjendum um starfið.

Ég hygg, að flestir, sem hér eru inni, þekki svona dæmi, og ég bygg, að sumir flokksbræður hæstv. dómsmrh. a.m.k. skrifi ekki undir það með honum, að setning í embætti skapi engan rétt, engan venjubundinn rétt. Hitt er svo annað mál, að enga venju er hægt að hafa til hliðsjónar um svo langa setningu í embætti eins og átti sér stað í Hafnarfirði, því að þar er um einsdæmi að ræða. Raunar er ekki vitað, hvað lengi það einsdæmi eða Íslandsmet fær staðizt, því að hæstv. menntmrh. upplýsti það hér í gær, að prófessorsembætti hans við háskólann hefði verið geymt í 9 ár nú þegar, og sér ekki enn fyrir endann á því, svo að vitað sé. En það er tæplega hægt að halda því fram með nokkurri sanngirni, að þessi réttur, þessi venjubundni réttur, minnki, því lengur sem maðurinn er settur. Hann hlýtur vitanlega að aukast.

Um siðferðilega réttinn er það að segja, að hann metur hver fyrir sig. Um hann gilda engar reglur. Samkvæmt siðferðisréttarlegum hugmyndum hæstv. dómsmrh. skapast þarna enginn réttur. Það er hans skoðun. Samkvæmt hugmyndum alls þorra manna, þeirra a.m.k., sem látið hafa í sér heyra, skapast þarna hins vegar mikill siðferðilegur réttur, jafnvel svo að nálgast lagarétt, í hugum fólksins.

Viðkomandi embættismaður, Björn Sveinbjörnsson, hefur gegnt einu umfangsmesta dómaraembætti landsins í allt að því 10 ár. Setning hans hefur verið framlengd í tíð fjögurra dómsmrh. Embættisfærsla hans hefur allan tímann verið óaðfinnanleg, vinsældir hans í umdæminu með eindæmum. Héraðsdómarafélagið býður honum þátttöku í félagsskap sínum, einum allra þeirra, sem eru ekki skipaðir. Gefur þetta ekki vísbendingu um, að þarna eigi hlutgengur maður aðild að? Skapar þetta engan siðferðilegan rétt? Hæstv. dómsmrh. segir nei, setning skapar engan siðferðilegan rétt, hvernig svo sem hún er vaxin, umfram annað. Flestir aðrir segja hins vegar: Jú, siðferðilegur réttur hefur skapazt. — Og þeir segja meira: Höfnun á settum bæjarfógeta jafngildir brottrekstri úr starfi.

Við teljum ósæmilegt að vísa svo góðum dreng og ágætum embættismanni burt úr starfi eftir svo langan og mistakalausan embættisferil, segja hreppstjórarnir í Gullbringusýslu. Fjölmargir hafa tekið í þennan sama streng. Alþýðublaðið segir um þetta í forustugrein 12. þ. m.:

„Margir hafa orðið til þess að mótmæla þeirri ráðstöfun að reka Björn Sveinbjörnsson úr starfi, sem hann hefur gegnt með sóma í tæpan áratug.“

Þarna er talað um, að hann hafi verið rekinn. Annað, sem hæstv. dómsmrh. leggur mikla áherzlu á í umræddu Morgunblaðsviðtali, er það, að Björn Sveinbjörnsson megi vel við sinn hlut una að hafa fengið að gegna svo virðulegu embætti jafnlengi og raun ber vitni, jafnframt sé það skynsamleg stefna, að ungir menn hefji störf sín í rýrari og minni embættum, en séu svo fluttir í betri embætti, er þeir hafa starfað nokkra hríð og eftir því sem möguleikar skapast. Ég viðurkenni, að ýmislegt mælir með þessari tilhögun, og það má telja líklegt, að ungir menn fáist fremur í minni embættin, ef þeir hafa von um slíkan tilflutning, en ella mundi, en það er höfuðröksemdin fyrir þessu.

En hvernig lítur þetta þá út í því tilviki, sem hér um ræðir? Ungur fulltrúi við stórt embætti er beðinn að veita því forstöðu nokkra hríð, meðan yfirmaður hans gegnir ráðherraembætti. Hann játar því. Árin líða, og alltaf tognar úr ráðherradómi yfirvaldsins. Fulltrúinn er því beðinn að vera settur sýslumaður áfram. Fjórum sinnum skiptir um dómsmrh., en engin breyting verður á þessu. Loks eftir 10 ár kemur sýslumaður heim í hérað og segir við fulltrúann: Þakka þér kærlega fyrir hjálpina, nú þarf ég ekki lengur á þér að halda, þú mátt fara. — Á þá umræddur fulltrúi að byrja að vinna sig upp, þegar hér er komið sögu? Á hann að byrja í litlu embætti í þeirri von, að hann geti síðar komizt í annað betra? Hér virðist mér málinu og því, sem því er helzt til gildis talið, alveg snúið við. Ég tel, að viðkomandi fulltrúi hafi algerlega verið dæmdur úr leik og fyrirmunað að ganga þá embættisleið, sem samkv. nefndri kenningu er æskileg. Maður með starfsgetu og hæfileika Björns Sveinbjörnssonar t.d. hefði án efa fyrir löngu getað fengið eitthvert af hinum minni dómaraembættum landsins og þannig öðlazt rétt samkv. skilningi hæstv. dómsmrh. til hinna æðstu embætta, t.d. til bæjarfógetaembættisins í Hafnarfirði, ef hann hefði ekki gert það fyrir dómsmálastjórnina í 10 ár að gegna bæjarfógetaembættinu í Hafnarfirði í fjarveru skipaðs bæjarfógeta. Ef hann á nú að byrja frá grunni, er hætt við, að hann yrði, eins og sagt var um annan umsækjanda í umræddu máli, helzt til fullorðinn til þess að koma til greina, a.m.k. við óbreyttar aðstæður, þegar eitt af betri embættunum losnar næst.

Hæstv. dómsmrh. sagði í gær um umræddan embættismann, að honum hefði verið boðið fógetaembætti í Reykjavík. Mér skilst. að það hafi nú verið áður en búið var að veita stöðuna í Hafnarfirði, og tæpast að vænta, að hann gæfi svo auðveldlega upp rétt sinn til hennar, að hann tæki öðru embætti, áður en úrslit væru komin um það. En þá var enn fremur talað um, að nú væru laus embætti, sem bráðlega stæði til að veita, og þessum manni stæði auðvitað til boða að sækja um þau, en ég veit ekki, kannske verður setning hans í Hafnarfirði honum meiri gildisauki við önnur embætti en það var honum um umsóknina í Hafnarfirði, ekki veit ég það. En ég hygg, að þetta sýni, svo að ekki verði um villzt, að nauðsyn þeirrar lagabreytingar, sem frv. á þskj. 70 gerir ráð fyrir, er ótvíræð. Það er óhæfa, að menn séu settir jafnlengi og hér hefur tíðkazt, ekki sízt meðan það er álit hæstv. ríkisstj., að slík setning í embætti skapi hvorki lagalegan, venjubundinn né siðferðilegan rétt til skipunar umfram eitthvað annað.

Ég hef heyrt því haldið fram í þessu sambandi, að það sé æskilegt, að embættismenn séu fluttir milli embætta, slíkt eigi að koma í veg fyrir of náin tengsl milli þeirra og þess almennings, sem þeir eru settir yfir, og sumir hafa vitnað til þess, að ýmsar stórþjóðir flytji jafnan sendiherra sina og annað starfslið sendiráða nokkuð ört milli landa. Ef þessi kenning væri rétt, verður vitanlega reglan að vera algild, og þá verður að setja almenn ákvæði um það, hversu lengi t.d. dómarar megi gegna starfi á hverjum stað fyrir sig, en ekki beita þessum ákvæðum aðeins, þegar henta þykir. En ég held þó, að fleiri séu á annarri skoðun. Ég hygg, að þeir séu miklu fleiri, sem telja persónuleg kynni, t.d. sýslumanna af fólki og kringumstæðum í sínu umdæmi, miklu meira virði og það sé réttsýnum yfirvöldum engin freisting að mismuna fólki eftir geðþótta eða ánetjast einum öðrum fremur, þótt þeir séu lengi á sama stað. Aftur á móti getur ókunnugleiki skapað ýmiss konar vandkvæði, það vita allir. Þess vegna held ég, að þessi rök séu léttvæg.

Í þeim umr., sem fram hafa farið um mál þetta, hefur hæstv. dómsmrh. og málgögn Sjálfstfl. lagt .á það talsverða áherzlu, að Einar Ingimundarson hafi lengur verið bæjarfógeti en Björn Sveinbjörnsson, þ.e. í 13 ár á móti rúmlega 9 árum hjá Birni. En í sambandi við þetta hefur orðið á vegi þeirra enn þá einn af þessum leiðinlegu þröskuldum, sem menn eru alltaf að reka tærnar í af og til. Þriðji umsækjandinn, Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarfógeti á Ísafirði, hefur langlengstan starfsaldur að baki allra umsækjenda. Hann hefur verið skipaður bæjarfógeti í 22 ár. Hann er maður, sem að allra dómi hefur mjög merkan starfsferil að baki, virðulegur og traustur maður, um það eru, held ég, allir sammála. Hann hefur gegnt embætti úti á landi svo að segja allan sinn embættistíma og uppfyllir því svo sem bezt verður á kosið þau skilyrði, sem talin hafa verið fyrir því að verða fluttur í stærra og umsvifameira embætti. Þetta finnur auðvitað hæstv. dómsmrh. eins og aðrir, og hann þarf að komast yfir þennan þröskuld með einhverju móti. Þá er ráðið. Ég tel, að Jóhann Gunnar Ólafsson sé helzt til gamall til þess að taka við hinu umsvifamikla embætti í Hafnarfirði. Þá vita menn það. Hæstv. dómsmrh. telur, að þegar menn eru orðnir 62 ára gamlir, sé ekki lengur hægt að skipa þá í opinber embætti eða a.m.k. sé það mikill bagi. Næsta skref, ef haldið er áfram eftir þessari hugsun, er þá væntanlega að breyta lagaákvæðunum um hámarksaldur opinberra starfsmanna, en eins og kunnugt er, hafa embættismenn nú heimild til að gegna starfi til 70 ára aldurs. Það er sú rökrétta afleiðing, sem af þessu verður dregin. En ef svo er, geta nú margir af helztu embættismönnum þjóðarinnar farið að hugsa til eftirlaunanna. Vafalaust er þetta þó ekki raunveruleg skoðun hæstv. dómsmrh., heldur nokkurs konar hálmstrá, sem gripið er til, þegar verja þarf erfiðan málstað.

Hér var í gær t.d. minnt á það, að fyrir fáum árum var 62 ára gömlum manni veitt hæstaréttardómaraembætti. Mig minnir, að það sé ekki nema um það bil eins og eitt ár, síðan yfirborgardómaraembættið í Reykjavík var veitt manni, sem var um sextugt. Ég hef engan mann heyrt gagnrýna þá veitingu. Ekki einn einasti maður hefur mér vitanlega svo mikið sem ýjað að því einu orði, að Hákon Guðmundsson væri helzt til gamall til að taka þetta umsvifamikla embætti að sér. Það var þó hæstv. dómsmrh. sjálfur, sem veitti þetta embætti, og það sýnir, að þessi útilokunarkenning er síðar til komin.

Ég held, að það sé hin mesta firra, að menn geti ekki gegnt vel embættum, þótt þeir séu komnir nokkuð yfir sextugt. Ef menn njóta góðrar heilsu, eru starfskraftar þeirra alveg óskertir a.m.k. fram að sjötugu, og meira að segja tala margir um það í fullri alvöru, að ranglátt sé og óhagkvæmt að dæma menn úr leik eftir sjötugt, þótt viðurkenna beri, að einhver algild regla verði að vera til um þetta efni. Með batnandi lífskjörum og framförum í læknavísindum lengist ævin og starfskraftarnir endast lengur fram eftir ævinni. Það kemur því ekki til mála að fara nú að stytta starfsaldurinn, og ég vona, að það sé ekki nein veruleg alvara á bak við ummæli hæstv. dómsmrh., þau sem ég vitnaði til úr Morgunblaðinu.

Ég hygg, að það sé nokkuð rétt, sem kom fram í grein, sem birtist í Morgunblaðinu þann 19. þ. m., eftir Magnús Jochumsson fyrrv. póstmeistara, þar segir hann, með leyfi forseta:

„Um embættisveitinguna sjálfa legg ég ekki dóm á, utan að mér finnst umsögn hæstv. dómsmrh. um einn umsækjandann, Jóhann Gunnar bæjarfógeta á Ísafirði, harla ósmekkleg. Ráðh. taldi hann of gamlan. Ég get ekki séð, að aldur ætti frekar að vera fjötur um fót í Hafnarfirði en á Ísafirði. Það mætti eins segja, að ráðh. væri of ungur í embætti það, sem hann skipar nú. Hvort tveggja er jafnfráleitt.“

Óánægja manna með embættisveitinguna hefur verið mikil og ákaflega almenn. Menn virðast ekki hafa skipzt eftir stjórnmálaflokkum algerlega um hana. Flest blöð í Reykjavík eru á móti henni, aðeins Morgunblaðið og Vísir halda uppi vörnum. Meðal þeirra, sem hvað mest eru hneykslaðir, er Alþýðublaðið. Það hefur að undanförnu birt hverja forustugreinina eftir aðra, þar sem veitingin er fordæmd, og Alþýðuflokksfélögin í Hafnarfirði samþykktu harðorðar vitur á dómsmrh. af þessu tilefni. Þó vekur að vísu athygli, að fulltrúar Alþfl. í bæjarstjórn Hafnarfjarðar treystu sér ekki til að taka undir till., sem gekk í svipaða átt og borin var fram á bæjarstjórnarfundi í Hafnarfirði, heldur kusu að sitja hjá. En síðan hafa menn nú tekið sig á á þeim bæjum og skeleggar yfirlýsingar hafa komið, og Alþýðublaðið hefur sjálft gengið vel fram í því að halda uppi gagnrýni á embættisveitinguna. Vegna þess held ég, að sé tæplega nokkur vafi á því, að t.d. hér á hv. Alþ. eru þeir miklu færri, sem verja veitinguna, heldur en þeir hinir, sem gagnrýna hana og vildu rifta henni, ef þeir mættu. En Alþ. hefur ekki þetta vald. Það getur að vísu samþ. vantraust á eina ríkisstj. eða einstaka ráðh., en það getur ekki rift lögmætum stjórnvaldaákvörðunum þeirra, eins og til dæmis þessari.

En þá vaknar spurningin : Hver hefur þetta vald, sem ekki einu sinni Alþ, getur haft áhrif á? Svarið vita auðvitað allir. Það er hæstv. ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. ein getur skipað mann í embættið. Hverjir eru þá í þessari ríkisstj.? Ætli þeir hjá Alþýðublaðinu kannist ekkert við þá? Ætli félagar í Alþýðuflokksfélagi Hafnarfjarðar hafi aldrei heyrt þá nefnda? Jú, jú, sannleikurinn er sá, að afstaða Alþfl.-manna til þessarar embættisveitingar vekur undrun flestra, sem henni kynnast. Í Alþýðublaðinu, í fulltrúaráði Alþfl.-félaganna í Hafnarfirði, í Félagi ungra jafnaðarmanna og víðar er embættisveitingin fordæmd með harðari orðum en nokkurs staðar annars staðar. Þeir eru svo hneykslaðir, að þeir fá vart vatni haldið. En í ríkisstj. er látið afskiptalaust, að framkvæmd sé skipun í embætti, sem þeir sjálfir kalla hneyksli. Er ekki þar með lögð blessun yfir þessa skipun?

Þrátt fyrir það, sem hæstv. utanrrh. sagði áðan, finnst mér og mörgum fleiri, að embættisveitingar eins og aðrar stjórnvaldaráðstafanir séu á ábyrgð ríkisstj. allrar. Annaðhvort er því í þessu máli, sem hér um ræðir, að ráðh. Alþfl. hafa samþykkt stöðuveitinguna, — það hafa þeir ekki gert, það var upplýst hér áðan. þeir mótmæltu henni, þeir töldu, að embættið bæri að veita Birni Sveinbjörnssyni, — eða þá hitt, að þeir hafa ekkert að segja í ríkisstj. Einn ráðh. Sjálfstfl. hefur aðra skoðun, og við það verður að sitja. Hitt er svo annað mál, að út af þessu hefur skapazt leiðindaástand á stjórnarheimilinu. Það fljúga hnútur á milli Alþýðublaðsins og stjórnarblaðanna, og er auðvitað leitt til þess að vita. Þannig segir t.d. í Alþýðublaðinu 12. þ. m., með leyfi forseta:

„Ráðstöfun dómsmrh. á embætti sýslumannsins í Hafnarfirði hefur vakið mikla mótmælaöldu. Alþýðublaðið hefur þegar upplýst, að sjálfstæðismenn réðu þessu máli, eins og raun ber vitni, þrátt fyrir andstöðu Alþfl. Þeir hljóta því að vera viðbúnir þeim afleiðingum, að mál þetta verði ekki til að styrkja stjórnarsamstarfið. En e.t.v. skiptir það þá ekki miklu máli í samanburði við ímyndaðan flokkslegan ávinning í Hafnarfirði.“

Það væri nú ekkert ófróðlegt í tilefni af þessu máll öllu saman að frétta eitthvað af því, hvaða áhrif þetta mál hefur haft á sambúðina. En e.t.v. kemur það síðar fram, og góð er biðin. Sjálfstæðismönnum finnst greinilega Alþýðuhlaðið hafa talað nokkuð digurbarkalega þennan umrædda dag og það þurfi að fá ráðningu, og það fær hana í Vísi þann 19. þ. m., viku síðar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Forustugrein Alþýðublaðsins s.l. föstudag um veitingu sýslumannsembættisins í Hafnarfirði hefði betur verið óskrifuð. Allra hluta vegna hefði blaðið átt að leiða hjá sér þetta mál, a.m.k. ekki taka þátt í árásum á samstarfsflokkinn út af því.“

Síðan segir svo Vísir í framhaldi af þessu, með leyfi forseta:

„En Alþýðublaðið vildi máske upplýsa, hvers vegna Guðmundur Í. Guðmundsson sagði ekki embættinu lausu löngu fyrr en hann gerði, og þá einnig um leið, hvers vegna leiðtogar flokksins hafa þann sið, að því er virðist, að halda árum saman opnum embættum og hafa þar menn setta fyrir sig. Þetta er mjög á orði meðal almennings, og honum þætti fróðlegt að fá skýringu á því.“

Og þetta er svo sannarlega alveg rétt hjá Vísi. Þegar Morgunblaðið fór fyrst að verja veitingu embættisins, var það gert á þann hátt, eins og menn muna, að einum af fulltrúum bæjarfógetans, sem sagt hafði upp stöðu sinni í mótmælaskyni, var sagt að hafa sig hægan með miður kurteislegum orðum, vegna þess að faðir hans hefði einu sinni veitt embætti án þess að auglýsa það, og eitthvað fleira í þeim dúr. Þessi málflutningur mæltist afar illa fyrir, og því var það, að mörgum þótti hæstv. dómsmrh. heldur vaxa, þegar hann sagði í umræddu Morgunblaðsviðtali, að hann vildi ekki verja þessa embættisveitingu með því, að öðrum hefði tekizt miður. Þessi ummæli þóttu benda til þess, að hæstv. ráðh. hefði ekki litizt meira en svo á vörn Morgunblaðsins, og þótti hann maður að meiri. Því miður stóð þetta ekki lengi, því að aðeins 10 dögum síðar, þ.e. í gær, stóð hæstv. dómsmrh. hér í þessum ræðustóli og varði meginhlutanum af ræðutíma sínum til þess að telja fram það, sem hann taldi, að fyrirrennurum sínum hefði verst tekizt um veitingu embætta. Það var ekki fagur listi, það skal játað. En ekki tók ég þó eftir því, að þar væri minnzt á, að embættismaður, sem gegnt hefði starfi á óaðfinnanlegan hátt, hafi verið hrakinn úr því til þess að rýma fyrir öðrum, svo að ég hygg, að það sé rétt, sem Alþýðublaðið sagði í forustugrein sinni 12. þ. m. og ég vitnaði áðan í, að hér sé þrátt fyrir allt um einsdæmi að ræða, þrátt fyrir ávirðingalistann, sem lesinn var upp, og vissulega var sá listi langur og ekki fagur, það skal játað. Þó er ég hræddur um, að sitthvað vanti á þennan lista hjá hæstv. dómsmrh. af ýmsum embættisveitingum, sem framkvæmdar hafa verið í seinni tíð og orka tvímælis, að ekki sé meira sagt. En hvernig sem því er varið, er það þó aðalatriði málsins, að fólkíð, almenningur í landinu, hefur fengið nóg af ranglátum embættisveitingum, og eftir nýjasta dæmið segir það: Hingað og ekki lengra. Viðbrögðin sýna, að mælirinn er fullur. Að tegunda mótmæli fólksins og uppsagnir starfsmanna undir andleg kölduflog, eins og Morgunblaðið hefur gert, sýnir ekki aðeins ósvífni á hæsta stigi, heldur tröllaukinn grundvallarmisskilning á eðli málsins, svo mikinn, að furðu vekur. Einstökum æsingakörlum, sem sjást ekki fyrir í þjónustulund sinni, er fyrirgefandi, þó að þeir gangi of langt, ekki sízt þegar þeir skrifa nú nokkrum dögum síðar aðra grein til að draga úr og vilja slá öllu upp í grín. Það er hægt að fyrirgefa, ef til vill. En tæplega er hægt að játa það, að aðalmálgagn hæstv. ríkisstj. geti gert slíkan málflutning að sínum. Rakalaus brigzl eru því ekki sæmandi málsvörn.

Þrátt fyrir allt, þrátt fyrir þau óþægindi og sárindi, sem mál þetta hefur valdið hjá þeim, sem hlut eiga að máli í báðum liðum, vil ég nú segja, er það þó eitt, sem unnizt hefur. Allra augu hafa lokizt upp fyrir þeirri staðreynd, að geymsla eða frátekt á þýðingarmestu ábyrgðarstöðum þjóðfélagsins er óhæfa, sem ekki á lengur að þola. Flutningur þessa frv. á þskj. 70 er staðfesting þessa, og undirtektir hæstv. dómsmrh. og annarra, sem hér hafa talað, ættu að tryggja framgang þess. Það er vel, að lagaákvæði verði sett til þess að koma í veg fyrir rangindi í framtíðinni. En þetta mál og afleiðingar þess verða ekki til lykta leiddar með því einu. Til þess hefur Alþ. ekki úrslitavaldið. Þann leik á hæstv. ríkisstj. og hún ein.