23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2336)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Að svo miklu leyti sem ég botnaði í ræðu hæstv. menntmrh. f gær, skildist mér, að hann héldi því fram, að um það hafi verið samkomulag í menntmn. þessarar hv. d., þegar ákveðin var fjölgun prófessorsembætta við viðskiptadeild Háskóla Íslands 1960, að ekki yrði skipað í þá stöðu, sem við bættist, heldur yrði hún geymd hæstv. menntmrh. Ég átti sæti í menntmn., þegar þetta mál lá fyrir n., og ég get fullyrt, að hér fer hæstv. ráðh. með staðlausa stafi. Slíkt kom aldrei til tals í n. Það má vera, að hæstv. ráðh. hafi ætlazt til þess, að frá þessari fyrirætlan yrði skýrt í n., og hann hafi ætlazt til þess, að samkomulag yrði um þetta atriði. En um það var alls ekki að ræða, og hæstv. menntmrh. veður hér einhverra hluta vegna í villu og svíma. Ég tek það fram, að ég lit alls ekki svo á, að hann fari hér vísvitandi með rangt mál, en ég get fullvissað hann um það, að hér fer hann með rangt mál engu að síður. Menntmn. þessarar hv. d. var aldrei skýrt frá þessari fyrirætlun um prófessorsembættið. Um það varð þar af leiðandi

aldrei neitt samkomulag. Og ég vænti þess, að aðrir þeir hv. þm., sem áttu sæti í n. á þessum tíma, geti staðfest mín orð.

Í þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar út af því frv., sem hér liggur fyrir, hafa verið svo rækilega skýrð öll málsatvik í sambandi við hina mjög svo umdeildu veitingu embættis sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógetans í Hafnarfirði, að ég sé ekki ástæðu til þess að bæta þar miklu við. Oft hafa embættisveitingar verið umdeildar vegna þess, að óeðlileg sjónarmið, pólitísk eða persónuleg, hafa verið látin ráða, og oft hafa embættisveitingar af þeim sökum kallað fram andmæli almennings. Þó hygg ég, að þeir atburðir, sem gerzt hafa að undanförnu hér í nágrenninu, séu algerlega einstakir í sögunni. Og orsakirnar til þeirra eru einfaldlega þær, að aðfarir hæstv. dómsmrh. í þessu máli eru algerlega einstæðar og kalla á einstæð viðbrögð almennings, því að svo uppsker hver sem hann sáir.

Sannarlega hefur almenningur hér á landi horft upp á margs konar rangsleitni í embættisveitingum og er því ýmsu vanur, og mun því hafa verið skákað í því skjóli nú. Þess vegna þarf að misbjóða réttlætiskennd almennings meira en lítið, til þess að upp vekist önnur eins mótmælaalda og nú hefur átt sér stað og jafnalmennar mótmælaaðgerðir fólks, sem veit, að nú er svo langt gengið í rangsleitninni, að mótmæli þurfa að vera meira en orðin tóm. Sú misbeiting veitingarvaldsins, sem hér hefur verið viðhöfð, skrifast að sjálfsögðu ekki aðeins á reikning dómsmrh., heldur allra þeirra hæstv. ráðh., sem gerðu ekkert til þess að hindra, að misbeiting valdsins yrði viðhöfð, og sitja enn sem fastast, eins og ekkert hafi í skorizt. Málgagn Sjálfstfl. hefur frá upphafi varið gerðir hæstv. ráðh. og talið, að ekkert væri við þær að athuga. En nokkru eftir að ákvörðun hæstv. dómsmrh. var gerð opinber og hin einstæðu viðbrögð almennings komu í ljós, hefur málgagn Alþfl. deilt á aðgerðir hans. Hitt er þó óumdeilanlegt, að ráðh. Alþfl. var kunnugt um fyrirætlun hæstv. dómsmrh., áður en hann veitti embættið, og ef þeir hefðu verið sama sinnis þá og þeir vilja láta lita út nú, bar þeim að neyta aðstöðu sinnar til þess að koma í veg fyrir misbeitingu valdsins og tryggja þeim manni eða gera a.m.k. eitthvað til þess að tryggja þeim manni embættið, sem hafði gegnt því fyrir einn ráðh. Alþfl. í rúm 9 ár, hafði gegnt því fyrir einn ráðh. Alþfl., sem nú hafði hlaupizt frá öllu saman og skilið staðgengil sinn eftir án þess að sjá hag hans í nokkru borgið. Eins og allir vita, sá þessi hæstv. fyrrv. ráðh. Alþfl., Guðmundur Í. Guðmundsson, hag sinum allvel borgið, þegar hann loks sagði sýslumannsembætti sínu lausu, eftir að hann hafði látið Björn Sveinbjörnsson gegna því í nærri áratug. En staðgengil sinn skildi hann eftir ofurseldan pólitískri valdbeitingu Sjálfstfl.-ráðh., og ráðh. Alþfl. gerðu ekkert til þess að hindra hæstv. dómsmrh. í fyrirætlan sinni. Ef ráðh. Alþfl. hefðu verið sama sinnis, þegar þeim var fyrst kunnugt um fyrirætlun hæstv. dómsmrh., sem þeir vilja vera láta nú, bar þeim að neyta aðstöðu sinnar í ríkisstj. til þess að koma í veg fyrir misbeitingu veitingarvaldsins. Þetta gerðu ráðh. Alþfl. ekki, og jafnvel fyrst eftir að ákvörðun hæstv. dómsmrh. var gerð opinber, en áður en komið var í ljós, hversu almennt sú ákvörðun var fordæmd og hve afdráttarlaus viðbrögð fólks voru, var afstaða Alþfl: forustunnar í fullu samræmi við athafnaleysi og afskiptaleysi í ríkisstj., áður en ákvörðun hæstv. dómsmrh. var birt, sem bezt sést á því, að fyrstu viðbrögð Alþýðublaðsins gagnvart grein Árna Gunnlaugssonar hrl., sem hann sendi dagblöðunum til birtingar og hét „Umdeild embættaveiting“, voru að neita að birta hana. Frá þeirri neitun var þó fallið, og síðan hefur Alþfl: forustan verið að reyna að klóra yfir þá afstöðu, sem hún hafði, þegar þetta mál var á því stigi, að hún gat haft áhrif á niðurstöðu þess. Þegar ráðh. Alþfl. finna svo í dag, að þeir liggja undir stöðugum ádeilum þeirra flokksbræðra sinna, sem harðast hafa beitt sér í mótmælaaðgerðunum, vegna þess að Birni Sveinbjörnssyni var ekki veitt embættið eftir að hafa gegnt því í rúm 9 ár, finna þeir, að almenningi er ljóst, að þeirra er sökin engu síður en hæstv. dómsmrh., sem þeir gerðu ekkert til að hindra í ákvörðunum sínum. Þegar Alþfl.-foringjarnir heyra nú látlaust spurt: Hvers vegna gerði Guðmundur Í. Guðmundsson ekkert til þess að tryggja aðstöðu þess manns, sem gegndi störfum fyrir hann í tæpan áratug, og hvers vegna mundi Alþfl. ekki eftir því, þegar embættið var veitt, að hann á ráðh. í ríkisstj.? — þá streitist Alþýðublaðið við að margítreka, að það sé algerlega óhugsandi, að Alþfl. geti nokkru sinni haft áhrif á það, hvaða manni ráðherra úr Sjálfstfl. veiti starf hverju sinni, það verði Alþfl. að láta Sjálfstfl. einan um, það sé ekki hægt að fara inn á verksvið annars flokks í slíkum málum, Alþfl. verði að láta slíkt afskiptalaust. Þetta hefur klingt í eyrum undanfarið og nú síðast hjá hæstv. utanrrh.

En þessa kenningu hefur Alþfl. þó sjálfur algerlega afsannað í verki. Alþfl. befur beitt sér og beitt sér hart til þess að hafa áhrif á stöðuveitingu ráðh. Sjálfstfl., þegar Alþfl. vildi það viðhafa. Og árangurinn var ekki svo slakur, að hann hafi ekki fyllilega gefið Alþfl. tilefni til að beita sér í sambandi við veitingu embættis sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeta í Hafnarfirði. En til þess þurfti að vera um umsækjanda að ræða, sem Alþfl. í raun og sannleika vildi beita sér fyrir, þegar á reið, þ.e.a.s. áður en embættið var veitt. Þess eru dæmi, að Alþfl. hefur beitt aðstöðu sinni í ríkisstj. til þess að koma í veg fyrir, að ráðh. Sjálfstfl. beitti veitingarvaldi sínu á þann veg, sem hann sjálfur ætlaði, og knúið hann með brambolti í ríkisstj. til þess að beita veitingavaldinu samkv. vilja Alþfl. Uppistaðan í vörn Alþýðublaðsins fyrir aðgerðaleysi ráðh. sinna er því alröng, enda er það aðgerðaleysi óverjandi. Þessir sömu hæstv. ráðh. Alþfl. hafa áður beitt sér af svo miklu harðfylgi gegn fyrirætlun ráðh. Sjálfstfl. um skipun í starf, að Alþfl. fékk sitt fram. Alþfl. hefur beygt ráðh. Sjálfstfl. í sambandi við skipun í starf. Alþfl. hefur áður ráðið því, hvern ráðh.

Sjálfstfl. skipaði í starf, og þessu hefði hann einnig getað ráðið nú í sambandi við veitingu embættis sýslumanns í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeta í Hafnarfirði, ef sami vilji hefði verið fyrir hendi að þessu sinni til að hafa áhrif á gerðir ráðh. Sjálfstfl., en á það hefur sýnilega skort.

Það vill svo einkennilega til, að það atvik, sem ég á hér við, þegar ráðh. Alþfl. beittu sér svo mjög í sambandi við ákvörðun ráðh. Sjálfstfl., snertir Hafnarfjörð, eins og athafnaleysi Alþfl. nú gerir einnig. Öllum þeim Hafnfirðingum, sem horft hafa upp á athafnaleysi og afskiptaleysi Alþfl.-ráðh., þegar hæstv. dómsmrh. skipaði flokksbróður sinn í embætti nú á dögunum, er í fersku minni, að þar skorti ekkert á, að þeir sömu Alþfl.-ráðh. og þá einkum hæstv. núv. utanrrh. gengju hart fram og létu til sín taka fyrir 5 árum, þegar þáv. hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, hugðist verða við kröfu íhaldsmanna í Hafnarfirði um að skipa þm. þeirra í stjórn raftækjaverksmiðjunnar í Hafnarfirði, Rafha öðru nafni. Þá gilti ekki hin nýja afsökunarkenning Alþýðublaðsins, að ráðh. Alþfl. gætu ekkert blandað sér í störf ráðh. samstarfsflokks sins og yrðu að láta sitja við mótmælin ein, eins og þeir hafa gert nú í máli Björns Sveinbjörnssonar, eða segja frá því eftir á, að þeir hafi mótmælt, sem væri réttari lýsing á athafnaleysi þeirra. Nei, þá vissu Alþfl.-ráðh., að Sjálfstfl. stjórnar landinu fyrir þeirra tilstyrk og náð. Þá vissu Alþfl.-ráðh., að þeir gátu gert ríkisstj. óstarfhæfa. Það gerðu þeir, eða a.m.k. hæstv. núv. utanrrh. neitaði að mæta á ríkisstjórnarfundum, þangað til hæstv. þáv. fjmrh. sá sitt óvænna og skipaði umboðsmann Rafha á Akureyri í stjórn fyrirtækisins í stað þess manns, sem hann hafði ætlað sér að skipa. Alþfl: ráðh. hæstv. töldu fyrir 5 árum sýnilega miklu skipta, hver skipaði eitt sæti í stjórn Rafha, og settu ríkisstjórnarsamstarfið á annan endann til þess að knýja fram vilja sinn í því efni. En misbeitingu ráðherravalds og hreina valdníðslu í sambandi við veitingu sýslumannsembættisins í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógetaembættisins í Hafnarfirði töldu þeir svo litlu skipta, og þann rétt, sem þeir vilja nú eftir á unna Birni Sveinbjörnssyni til embættisins, töldu þeir ekki þess virði, þegar þeir gátu tryggt hann, að þeir létu hið minnsta að sér kveða innan ríkisstj., jafnvel eftir svo árangursríkar athafnir fyrir 5 árum, hvað þá að þeir létu reyna á samstarfið í ríkisstj. Sá árangur, sem þeir náðu fyrir 5 árum í því efni að hafa áhrif á ákvarðanir ráðh. Sjálfstfl. í sambandi við veitingarvaldið, hefði sannarlega ekki átt að draga úr þeim kjark. En til þess hefði þurft viljann til samsvarandi athafna nú, en hann skorti. Og meðan Alþfl.-foringjunum var ekki enn ljóst, hve víðtæk mótmælaalda almennings var að rísa gegn misgerð veitingavaldsins og hve langt hún náði inn í raðir kjósenda Alþfl., var jafnvel ætlunin að ljá ekki rúm eða stuðning ádeilum á samráðh. Alþfl. út af þessari embættisveitingu.

Margt hefur ófagurt gerzt í sambandi við veitingu embættis sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeta í Hafnarfirði, og hlutur Sjálfstfl. er ófrýnilegur í því máli, að hafa beitt valdníðslu og standa óforbetranlegur á henni enn þá þrátt fyrir þau einhuga mótmæli og andúð, sem athafnir hæstv. dómsmrh. hafa hlotið hjá öllum almenningi í öllum flokkum. Þó held ég, að flestum þyki bæði ljótari og vesælli hlutur Alþfl.-foringjanna, frammistaða fyrrv. utanrrh. og núv. ráðh. flokksins, þegar þeir vegna almenningsálitsins sjá nú sitt óvænna og deila á þá embættisveitingu, sem þeir og þeir einir gátu komið í veg fyrir, en ætla sér svo að sitja í ríkisstj. eftir sem áður jafnsælir og ánægðir með þeim, sem afbrotið frömdu, tilbúnir til þeirra verka, sem Sjálfstfl. kann að þurfa á að halda hverju sinni.