25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Flm. (Jón Skaftason) [frh.] :

Herra forseti. Ég vil til viðbótar þeim ummælum mínum, sem ég viðhafði hér í fyrrakvöld í lok umr. um þetta mál þann dag, þar sem ég vék nokkrum orðum að þeirri staðhæfingu hæstv. forsrh., Bjarna Benediktssonar, að Hermann Jónasson væri sá íslenzkur ráðh., sem hefði látið annan mann sitja lengst í stöðu fyrir sig, bæta því við, sem mér var ekki kunnugt um þá, af því að ég þekkti ekki sögu málsins svo vel, að ég treysti mér með hana að fara. En á þeim tíma, sem gefizt hefur, frá því að þeim umr. lauk, hef ég aflað mér upplýsinga um þessi atriði, sem sýna það, að staðhæfing sú, sem forsrh. viðhafði í umr. í fyrradag, er röng. Hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, sagði, að Hermann Jónasson hefði geymt sér embætti í 12 ár. Sannleikur málsins er þessi: Þegar Hermann Jónasson varð forsrh. 1934, var hann lögreglustjóri í Reykjavík. Var þá Gústaf A. Jónasson settur lögreglustjóri frá 30. júlí 1934 til 1. sept. 1936, að hann var skipaður skrifstofustjóri í dómsmrn. Þá var Jónatan Hallvarðsson settur frá 1. sept. 1936 til áramóta 1939. En þá var lögreglustjóraembættinu skipt í tvö embætti: lögreglustjóraembættið og sakadómaraembættið. Var þá Jónatan Hallvarðsson, sem lengst hafði verið settur lögreglustjóri, skipaður sakadómari, og Agnar Kofoed-Hansen skipaður lögreglustjóri. Þegar Hermann Jónasson fór frá 1942, hafði hann ekki að neinu embætti að hverfa. Gerðist hann þá málfærslumaður og jafnframt lögfræðingur Búnaðarbankans. Þegar hann varð ráðh. að nýju, í annað skiptið um 3 ár og hitt skiptið um tæp 2 1/2 ár, var lögfræðingur ráðinn til að gegna starfl Hermanns, meðan hann gegndi ráðherrastörfum, og er sá maður nú annar af tveim lögfræðingum bankans. Árin 12 fær hæstv. forsrh. út með því að leggja saman, að vísu skakkt, árafjölda þriggja tímabila, sem ýmsir menn hafa verið ráðnir í stöðu eða störf Hermanns Jónassonar, meðan hann var ráðh. í þrjú skipti.

Þó að ég telji, að umr. um mál þetta gefi ekkj mikið tilefni til umr. um fortíðina, tel ég þó rétt vegna þessa gefna tilefnis hæstv. forsrh. að upplýsa þessar staðreyndir málsins. Þær sýna í fyrsta lagi, að hæstv. ráðh. fer með rangt mál, þegar hann staðhæfir, að Hermann Jónasson hafi látið aðra menn sitja fyrir sig í embættum í 12 ár. Þetta eru milli 10 og 11 ár. Í öðru lagi er það ljóst, að a.m.k. tveir af þremur, sem sátu í störfum þessum, meðan Hermann Jónasson gegndi ráðherrastörfum, voru, eftir að hann sleppti þeim, skipaðir i þessar stöður, sem er í algerri mótsögn við það, sem gerðist í Hafnarfirði. Þar var settur embættismaður, sem gegnt hafði embættinu í heilan áratug, rekinn í burtu, um leið og hinum nýja manni var veitt embættið, og á því er líka mikill munur.

Ég var þar kominn ræðu minni s.l. þriðjudag, að mig langaði til að víkja örfáum orðum að nokkrum atriðum, sem komu fram í ræðu hæstv dómsmrh. á Alþ. 22. nóv. s.l., þó að ég telji, að yfirleitt hafi ekki mikið nýtt komið fram í þeirri ræðu umfram það, sem hæstv. ráðh. hafði tjáð sig um í Morgunblaðsviðtali 12. nóv. s.l. Þó eru í þeirri ræðu nokkur ný atriði, sem ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um. Ég vil þó, áður en ég kem að þessum atriðum, benda hv. þingheimi sérstaklega á, að þeir hæstv. ráðh. Sjálfstfl., sem hér hafa talað, hafa reynt að leggja málið fyrir til umr. í þinginu á þeim grundvelli, að umr. snerust ekki um það, sem þær raunverulega þurfa að snúast um. Við, sem höfum gagnrýnt Hafnarfjarðarveitinguna sérstaklega, höfum fyrst og fremst beint gagnrýni okkar að því vali, sem ráðh. gerði á þeim 3 umsækjendum, sem sóttu um embættið. Við höfum spurt hæstv. ráðh. um rökstuðninginn fyrir því, að hann taldi hv. 4. þm. Norðurl. v. þann hæfasta. Það hefur mjög fátt komið fram um rökstuðning á því vali. Og ég vil enn þá nota tækifærið til að auglýsa eftir því, að hæstv. ráðh., — því að ég geri ráð fyrir, að hann muni tala hér á eftir, — haldi sig við efnið og rökstyðji sérstaklega, hvað það var, sem gerði hv. 4. þm. Norðurl. v: sjálfsagðari umfram aðra umsækjendur til þess að fá embættið. Það er aðalatriði málsins.

Í ræðu sinni í fyrradag sagði hæstv. dómsmrh. m.a. þetta:

„Ég hef m.ö.o. ekki sagt, að setning veiti að sínu leyti ekki rétt, þegar meta á, hvort veita skuli einum eða öðrum embættið. En ég álít, að hún veiti ekki neinn fortakslausan rétt og það sé ekki einsætt, að þeim, sem hefur verið settur einhvern tíma, tilheyri þar með embættið, og það má segja, að hér séum við í raun og veru að fjalla um þungamiðju málsins.“

Þetta er álit hæstv. ráðh. Þetta er það, sem hann telur þungamiðju málsins. Vil ég því fara örfáum orðum um þessa veitingu á grundvelli þessara skoðana hæstv. ráðh.

Ég vil þá í fyrsta lagi taka fram, sem ég hélt að ég hefði a.m.k. fyrir mína parta sagt í þessum umr. skýrt og ótvírætt, að ég hef aldrei haldið því fram, að setning í embætti skapi ótvíræðan rétt til þess. Ég hef ekki heldur heyrt aðra þá, sem í umr. þessum hafa tekið þátt, eða séð þá, sem hafa skrifað um þetta, halda slíku fram. Hins vegar hef ég haldið því fram og margir aðrir fleiri, að setningartími, sem er það langur og ósundurslitinn, að hann varir í allt að áratug, hafi áhrif til þess að skapa rétt. Og ég held, að sá réttur, sem þessi langi tími skapar, hljóti eftir öllum venjulegum, almennum lagareglum að vera ein af ákvörðunarástæðum fyrir veitingu, hefði átt að verka til þess að gefa þeim, sem hafði þessa löngu setningu í embættið, verulegt forskot umfram a.m.k. þann manninn, sem veitinguna fékk. En að öðru leyti vildi ég víkja örfáum orðum að þeim öðrum ástæðum, sem talið er að ráða eigi ákvörðun veitingarvaldsins við skipun í embætti, og gera örlítinn samanburð á því, hvernig þær horfa við í hinum einstöku tilfellum, að því er tekur til umsóknanna þriggja.

Ef við litum fyrst á starfsaldurinn, er ljóst, að Jóhann Gunnar Ólafsson sker sig þar algerlega úr. Hann hefur langtum lengri embættisaldur en nokkur hinna umsækjendanna. Um þá Björn Sveinbjörnsson og Einar Ingimundarson er það hins vegar að segja, að ef litið er á starfsaldur þeirra, held ég, að flestir, sem kryfja það mál til mergjar, hljóti að komast að þeirri niðurstöðu, að starfsaldur þeirra við bæjarfógeta- eða sýslumannsembætti sé mjög svipaður. Ég segi svipaður, því að það er vitað, að hv. 4. þm. Norðurl. v., Einar Ingimundarson, hefur orðið, siðan hann var kosinn á Alþingi, að dvelja langdvölum frá embætti sínu á hverju einasta ári vegna þingsetu hér syðra og látið þá annan mann gegna embættinu, þannig að ég tel, að um embættisaldur séu Björn og Einar með svipaðan tíma.

Önnur ákvörðunarástæðan, sem hæstv. ráðh. segist hafa tekið tillit til, er aldur umsækjendanna. Hæstv. ráðh. hefur upplýst það, að hann hafi ekki viljað veita Jóhanni Gunnari Ólafssyni embættið i Hafnarfirði vegna þess, að hann hafi talið hann helzt til fullorðinn, eins og hann orðar það. Um Björn og Einar gegnir hins vegar mjög svipuðu máli, að því er tekur til aldursins. Þeir munu vera á líkum aldri. Og gæti þetta, ef réttum reglum hefði verið fylgt um veitinguna, ekki skorið úr um það út af fyrir sig, hvor embættið hefði átt að fá.

Í þriðja lagi er það viðurkennt við allar meiri háttar embættisveitingar til bæjarfógeta- og sýslumannsembætta, að staðarþekking sé verulegt atriði um ákvörðun veitingarvaldsins fyrir veitingu embættisins, og það því fremur ef er um mjög stórt og fjölmennt embætti að ræða. Um þetta á ekki að þurfa að ræða í löngu máli, því að öllum er það kunnugt, að Björn Sveinbjörnsson hefur langmesta staðarþekkingu til embættisins og þekkingu á fólkinu, kunnugleika við fólkið, sem í lögsagnarumdæmi hans býr. Og Jóhann Gunnar Ólafsson hefur vegna um 4 ára starfs í þessu embætti einnig meiri staðarþekkingu en Einar Ingimundarson. Um þetta atriði er því alveg ljóst, að sá, sem fær veitinguna, er síztur um staðarþekkingu af öllum umsækjendunum.

Ef litið er til siðferðilega réttarins, sem hefur mikið verið deilt um, en mér skilst þó að allir viðurkenni og þ. á m. hæstv. dómsmrh., að rétt hafi verið að líta til hans í þessu tilfelli að vissu marki, held ég, að flestum alþm. hljóti að bera saman um, að sá langi setningartími, sem Björn er búinn að inna af hendi í þjónustu við þetta embætti, hafi óumdeilanlega gefið honum siðferðilegan rétt, sterkan siðferðilegan rétt umfram aðra umsækjendur, og að sízta rétt í þessu tilliti hafi a.m.k. sá maðurinn átt, sem veitinguna fékk.

Ein ákvörðunarástæða veitingarvaldsins ætti að sjálfsögðu að vera hagsmunir hins opinbera. Ég held, að hið opinbera hafi hagsmuni bundna við að viðhalda ástandi, sem búið er að vara í heilan áratug og hefur gefizt vel. Það hefur hvergi komið fram, að fundið hafi verið að embættisfærslu Björns Sveinbjörnssonar þau 10 ár, sem hann var settur bæjarfógeti, eða þau rúm 20 ár, sem hann starfaði við embættið. Ég held því, að þegar loksins var ákveðið að skipa í þetta embætti, hafi verið eðlilegt af þeim, sem með veitingarvaldið fór, að taka tillit til þessa atriðis og rjúfa ekki það ástand, sem hafði gefizt vel í langan tíma og hentaði tvímælalaust að héldist áfram skoðað út frá hagsmunum ríkisvaldsins.

Ég hef nú í örfáum orðum vikið að þeim helztu ákvörðunarástæðum, sem eiga að liggja til grundvallar, þegar embætti er ráðstafað af veitingarvaldinu. Ég þykist í öllum þessum fimm atriðum hafa sýnt fram á, að einmitt sá maðurinn, Einar Ingimundarson, sem ég þekki að góðu einu og mér þykir leitt að þurfa að draga svo mjög inn í þessar umr., sem er þó alveg óhjákvæmilegt og ekki okkur að kenna, sem stöndum í því að deila á þessa skipun, — ég þykist hafa sýnt fram á, að i öllum þessum 5 atriðum hafi honum borið sízt réttur af þremur umsækjendum til þess að fá embættið. Og það getur hver sem er láð mér og öðrum það, að við áteljum slíka veitingu.

En nú kynnu hv. alþm. að spyrja: En hvað var það þá, sem réð endanlega ákvörðun ráðh.? Um það hefur verið spurt ítrekað af mörgum mönnum, en ákaflega óljós svör fengizt. Þó kom fram í ræðu hæstv. ráðh. hér á þriðjudaginn var atriði, sem ég tel ákaflega mikilsvert og til upplýsingar um það, hvernig þessi veiting var ákveðin, en í umr. á þriðjudaginn sagði hæstv. ráðh. m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Og mér dettur ekki heldur í hug að halda, að það hafi engin áhrif haft á veitinguna hjá mér kynni mín af Einari Ingimundarsyni og það, hvernig ég hef vitað hann rækja sitt embætti, og það, hvernig ég hef vitað hann rækja sína þingmennsku. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það hafi ekki haft sín áhrif, enda tei ég réttmætt, að slíkt hafi áhrif. Ef maður er sjálfur sannfærður um mannkosti manns, á maður ekki að láta hann gjalda þess, þó að hann sé í sama flokki og maður sjálfur.“

Ja, enginn hefur nú farið fram á það, að nokkur flokksmaður hæstv. ráðh. gyldi þess í sambandi við mat hans á umsækjendum til þessarar stöðu. Hins vegar hefur verið talað um, að eðlilegt væri, að menn nytu jafnréttis, þó að þeir væru ekki í sama stjórnmálaflokki og sá, sem með veitingarvaldið fer.

En af þessum upplestri úr ræðu hæstv. ráðh. er ljóst, að hæstv. ráðh. segir berum orðum, að það hafi verið kunningsskapur hans við umsækjandann Einar Ingimundarson, hv. 4. þm. Norðurl. v., sem endanlega réð ákvörðun hans. Ef menn telja, að kunningsskaparástæða eigi að ráða um val manna í embætti, þá má segja, að það sé ekki alveg nýtt. En ég held, — og vitna ég þar til þeirra ummæla, sem hv. þm. Ingi R. Helgason viðhafði hér í umr. á þriðjudaginn, er hann las upp úr riti prófessors Ólafs Jóhannessonar um ógildingarástæður stjórnvaldsráðstafana, og taldi þar m.a., að kunningsskapur gæti valdið ógildingu stjórnvaldsráðstöfunar, — að ljóst sé, að með þessari játningu hæstv. ráðh. um, að það hafi verið kunningsskapur hans við Einar Ingimundarson sem réð skipun hans í embættið, þá tel ég að jaðri við, að skv. lögum geti skipun þessi talizt ógild. Ég vil ekki fullyrða neitt um það, en ég vil halda því fram, að hún geti a.m.k. orkað tvímælis um, hvort hún hafi gildi að lögum. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. mótmæli því, ef ég hef skilið þessi orð hans rangt. (Gripið fram í.)

Ég vil þá að endingu víkja örfáum orðum að nokkrum atriðum, sem komið hafa fram hjá hæstv. ráðh. sem varnarástæður fyrir þessari veitingu, auk þeirra, sem ég hef áður vikið að.

Hæstv. ráðh. hefur haldið því fram, að ekki megi ganga fram hjá rétti hinna mörgu, sem lögum samkv. eigi rétt til að sækja um embættið og láta meta hæfileika sína og aðstöðu til móts við þann, sem settur er. Og hann hefur enn fremur sagt, að réttur hinna mörgu sé ekki minni en réttur hins eina.

Út af fyrir sig má þetta vel vera. Og ég skil ekki, hvernig hæstv. ráðh. vill koma þessum hug. leiðingum að um það gefna tilefni, sem við erum hér að ræða, þ.e.a.s. veitinguna í Hafnarfirði. Ég sagði hér áðan og endurtek, að það er ekki nokkur maður, sem hefur mótmælt því, að eðlilegt hafi verið að auglýsa stöðuna til umsóknar, eins og gert var, og fá þannig fram umsóknir frá þeim mönnum, sem hefðu hug á að sækja um stöðuna. Þessu hefur enginn mótmælt. Það var eðlilegt að auglýsa stöðuna lausa og fá fram umsóknir, þannig að öllum gafst tækifæri, sem uppfylltu lögmæt skilyrði, til að fá veitingu fyrir embættinu. En það, sem við erum að mótmæla og vefengja, er sjálft valið milli hinna þriggja umsækjenda. Og ég vil enn á ný auglýsa eftir þeim rökum öðrum, umfram kunningsskapinn, sem réðu því, að embættið var veitt þessum hv. þm.

Þá hefur hæstv. ráðh. viljað láta í það skína, að hann hafi ekki vikið Birni Sveinbjörnssyni úr embætti með veitingunni á því. Að vísu má segja, að formlega hefur hann ekki vikið Birni Sveinbjörnssyni úr embætti. Það er rétt. En ég geri ekki ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. vilji halda því fram, að það sé mögulegt fyrir Björn Sveinbjörnsson að sitja áfram í Hafnarfjarðarembættinu, sem hann hefur gegnt í 10 ár og unnið við í 20 ár, sem fulltrúi skipaðs bæjarfógeta og sýslumanns, manns, sem ekki hefur komið nálægt embættinu áður. Ég held, að hæstv, ráðh. skilji þau mannlegu rök, sem leiða til slíkrar niðurstöðu. Og ég held, að hæstv. ráðh. viti það vel, að þrátt fyrir að hann hafi boðið Birni Sveinbjörnssyni borgarfógetastarf í Reykjavík, var þar ekki um neitt sambærilegt starf að ræða og hann gegndi suður í Hafnarfirði, og gat þegar af þeirri ástæðu varla komið til álita, að hann tæki því. Ekki tel ég það heldur veigamiklar sárabætur fyrir Björn Sveinbjörnsson, þó að hæstv. ráðh. lýsi því nú yfir, að hann geti sótt um þau embætti, sem kunni að verða laus og auglýst laus til umsóknar. Að sjálfsögðu á bann þann rétt, og út af fyrir sig eru þetta engar fréttir né bætur fyrir þá brottvikningu í reynd, sem hæstv. dómsmrh. framkvæmdi með veitingu embættisins.

Ég vil svo að endingu aðeins draga fram þau meginatriði, sem mér sýnast vera í þessu máli. Í hugum allflestra og ég vil segja langflestra, sem um þetta mál hafa hugsað, er það aðallega tvennt, sem ber hæst. Í fyrsta lagi, að mönnum finnst almennt, hvar í flokki sem þeir standa, að með því að ganga fram hjá Birni Sveinbjörnssyni og Jóhanni Gunnari Ólafssyni við veitinguna á Hafnarfjarðarembættinu sé óumdeilanlega brotinn réttur á ágætum starfsmönnum, það sé tekinn umfram þá maður, sem eftir öllum eðlilegum reglum hefði átt að koma siður til greina til þess að fá veitingu fyrir embættinu. Menn eru svo almennt sammála um þetta, hvar sem þeir annars kunna að standa í flokki, að enn þá hefur mér vitanlega, fyrir utan ráðherrana tvo, hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., og tvo aðra nafnkennda sjálfstæðismenn, enginn orðið til þess að verja veitinguna út af fyrir sig.

Hitt atriðið, sem fólki finnst óréttlátt, er, að Birni Sveinbjörnssyni skuli vikið úr starfi. Ég nota þau orð: „vikið úr starfi“, af því að í reyndinni er það það, sem gerist.

Ég þekki hæstv. dómsmrh. ekki að öðru en því bezta, og eftir því sem ég bezt veit, er þessi margumtalaða Hafnarfjarðarveiting eina undantekningin frá því. Ég hlýt því að álíta, að veiting hans á þessu embætti flokkist undir gáleysisverknað ellegar að einhverjir honum verri menn hafi ráðið þar miklu um. Nú, þegar hæstv. dómsmrh. veit, að almenningur fordæmir almennt þessa veitingu og telur hana merki um misbeitingu ráðherravalds, og nú, þegar hæstv. ráðh. stendur frammi fyrir því, að upplýst er í umr. á Alþ., að það er meiri hl. á Alþ. fyrir veitingu embættisins til annars manns, vil ég skora á hæstv. dómsmrh. að taka þessa veitingu alla til endurskoðunar. Ég trúi vart öðru, ef af slíkri endurskoðun verður, en hæstv. dómsmrh. geti með fullu samþykki þess embættismanns, sem veitingu hefur fengið fyrir embættinu, afturkallað hana og tekið umsóknirnar til yfirvegunar og endurskoðunar á ný.

Þess vegna vil ég láta það verða mín síðustu orð hér og endurtek, að það er upplýst, að þrír þingflokkanna eru andvígir þessari veitingu og telja, að öðrum manni hefði átt að veita embættið, ef rétt sjónarmið hefðu ráðið. Af því tilefni vil ég spyrja hæstv. dómsmrh.: Ætlar hann að taka nokkurt tillit til þessa yfirlýsta vilja þingmeirihl. eða ætlar hann að virða vilja þingmeirihl. að vettugi? Ég óska þess alveg sérstaklega, að hæstv. ráðh. svari þessum spurningum skýrt og afdráttarlaust.