25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2342)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. að neinu ráði og ekki að endurtaka það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, enda stendur það allt óhaggað þrátt fyrir það, sem síðar hefur komið fram í umr.

Hæstv. forsrh. ræddi mjög óverulega þá embættisveitingu, sem hér hefur orðið að aðaldeilumáli og er samkv. grg. þess frv., sem hér er til umr., tilefni þess, að það er komið fram. Þess í stað varði hann nálega öllum ræðutíma sínum til þess að rifja upp eldri embættisveitingar annarra dómsmrh. Þar með hefur hann tekið upp þá vörn, sem Morgunblaðið hóf með skrifum sínum um bæjarfógetafulltrúa Jón Finnsson og föður hans og mæltist þannig fyrir, að Morgunblaðið sá að sér og hætti. Við þessu er náttúrlega ekkert að segja.

Þrátt fyrir þann langa lista, sem hæstv. ráðh. hafa birt hér í þessum umr. um embættisveitingar annarra dómsmrh. fyrr á tímum, hafa þeir þó ekki getað bent á hliðstæð tilvik við það, sem gerðist í sambandi við stöðuveitinguna í Hafnarfirði. Það stendur því enn í fullu gildi, sem ég sagði um daginn, að embættisveitingin er einsdæmi. Ég vitnaði um daginn til ummæla Alþýðublaðsins um þetta og skal gera það aftur nú, ef vera mætti, að hæstv. ráðh. skildu betur það, sem þar stendur, heldur en hitt, sem við framsóknarmenn höfum að segja, en í Alþýðublaðinu þann 12. þ. m. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Jón Finnsson sagði, að embættisveitingin væri einsdæmi. Þau ummæli standa óhögguð, þar til Morgunblaðið nefnir annað dæmi þess, að manni hafi verið vikið úr starfi, sem hann hefur gegnt í hálft tíunda ár, eins og Birni Sveinbjörnssyni hefur nú verið vikið frá í Hafnarfirði. Þetta er kjarni málsins, sem alþýða manna sér og skilur.“

Þarna hefur Alþýðublaðið hitt naglann á höfuðið. Fram hjá þessari staðreynd komast hæstv. ráðh. ekki, hvernig sem þeir brjótast um.

Ég mun ekki tala oftar í þessu máli og ætla að segja þetta að lokum: Íslenzk alþýða hefur löngum haft skemmtun af hressilegum og sjálfumglöðum persónum, þeim sem þekktar ern úr bókmenntum þjóðarinnar. Þannig hafa hin frægu orð Jóns sterka í Skuggasveini: „Sáuð þið, hvernig ég tók hann, piltar“ — laðað margt brosið fram og frásögnin af Bjarna sterka í Manni og konu lifir enn í vitund fólksins. Það er því vel, að Morgunblaðið vill gera sitt til þess að viðhalda þessari þjóðlegu íþrótt. Ég hygg, að framlag þess til slíkra bókmennta eigi tvímælalaust heima meðal þess, sem bezt hefur tekizt í þessari bókmenntagrein, og til þess að sýna það ætla ég að láta nægja að minna á nýjustu leiðaraskrif blaðsins. Þau byrjuðu í gær. Í gær segir í einum leiðaranum, með leyfi forseta:

„Þetta haust hefur verið með eindæmum milt. Það er fyrst eftir miðjan nóvember, sem fyrstu snjóar falla um land allt. Hinn hvíti hjúpur hylur nú Ísland frá fjalli til fjöru. En fyrir austan og sunnan heldur síldin áfram að veiðast. Verður ekki annað sagt en mikil árgæzka ríki í atvinnumálum landsins, þótt einstaka atvinnugreinar eigi við erfiðleika að etja. Útflutningsframleiðsla Íslendinga mun á þessu ári verða meiri en nokkru sinni fyrr. Gjaldeyrisstaða þjóðarinnar er góð, og Íslendingar eiga nú stærri gjaldeyrisvarasjóði en nokkru sinni fyrr. Allt er þetta ávöxtur byggilegrar stjórnarstefnu.“

Þetta var fyrri tilvitnunin í þessa sögu. Þá siðari ætla ég að leyfa mér að taka úr leiðara Morgunblaðsins í dag. Hún er stutt. Hún er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar forsrh. hafði lokið ræðu sinni á Alþ. í fyrradag, var umr. um málið raunverulega lokið með algerum sigri stjórnarinnar. Það, sem stjórnarandstæðingar höfðu fram að færa eftir það, voru máttlaus stóryrði og sífelldar endurtekningar þess, sem þeir áður höfðu sagt.“

Ég vil eindregið leyfa mér að hvetja þann, sem þetta hefur skrifað, til þess að leggja rækt við þessa hæfileika sína. Með sama áframhaldi ætti honum á skömmum tíma að takast að skapa enn þá eina af þessum ógleymanlegu persónum á borð við þá Jón sterka og Bjarna.