25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (2344)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir á þskj. 70, er frv. til laga um breyt. á réttindum og skyldum starfsmanna ríkisins og fjallar um það atriði, sem miklar deilur hafa spunnizt út af, þ.e.a.s. setningu í embætti um nokkurn tíma. Ég skal ekki fjölyrða um þennan þátt, það hefur verið gert hér á Alþ. af mönnum, sem þekkja þetta af eigin reynslu og þar af leiðandi færari um að dæma um þá lagagrein, sem gert er ráð fyrir að við bætist. En hitt liggur í augum uppi hverjum sem fylgist með þessum málum, að hér er ekki um eins einfaldan hlut að ræða og fram kemur hjá hv. flm., 4. þm. Reykn., í grg. með þessu frv.

Það hlýtur að liggja í augum uppi, að til þess að hinir hæfustu menn geti valizt til ráðherrastarfa, þurfi þeir á einhvern hátt að hafa tryggingu fyrir því, að störf við þeirra hæfi séu fyrir hendi, þegar þeir njóta ekki lengur þess trausts, sem þeir þá hafa, þegar þeir taka við ráðherraembættum, þannig að þeir geti tryggt það, að að loknum störfum geti þeir farið til fyrri starfa eða á einhvern annan hátt fengið störf við sitt hæfi. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um það. Þetta hefur veríð gert, eins og ég sagði áðan, af mönnum, sem hafa um það meiri reynslu, og ég hef ekki heldur orðið var við, að hér í þessum umr. hafi menn verið svo mjög á gagnstæðri skoðun um þetta. Það hafa að vissu leyti verið mismunandi sjónarmið, en þau eru þess eðlis, að ég læt þetta nægja um sjálfa frumvarpsgreinina.

Að baki flutnings þessa frv. liggur mál, sem hér hefur verið til umr. í tvo daga, þetta er þriðji dagurinn, þ.e.a.s. veiting embættis bæjarfógetans í Hafnarfirði og sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem fylgzt hafa með þessum umr., hvílík geysileg réttlætiskennd og siðgæðis virðist hafa gripið um sig í röðum framsóknarmanna. Hæstv. forsrh. vakti mjög athygli á þessu í ræðu sinni og benti á þá hugarfarsbreytingu, sem virtist orðin í röðum framsóknarmanna, ef nokkuð mætti marka orð þeirra hér á Alþingi. Minntist forsrh. réttilega þeirra tíma, þegar stjórnarathafnir framsóknarmanna voru ævinlega ræddar á þeim grundvelli, hvort þær væru löglegar eða ekki. Hér hafa þessir hv. þm. komið hver á eftir öðrum og talað um veitingu embættisins í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu sem mikið óréttlæti og valdníðslu. Virðast þeir ekki taka á heilum sér og hafa framúrskarandi næmar tilfinningar fyrir siðgæði og réttlæti og oft svo mjög, að þeir hafa nánast verið klökkir hér í ræðustólnum. Þeir áttu ekki nógu sterk orð yfir siðleysi og óréttlæti í sambandi við þessa embættisveitingu og formæltu öllum þeim, sem gert höfðu sig seka um hluti á því sviði.

Við erum ekki óvanir því að hlusta á menn, sem hafa orðið fyrir þeirri ógæfu að neyta of mikils áfengis, tala um áfengisbölið. Þeir tala vissulega af eigin reynslu. Og því er eins farið með framsóknarmenn í dag. Þeir tala um óréttlæti og þeir tala virkilega um óréttlæti af eigin reynslu. Þegar svo er komið og talað um veitingarvaldið og það eru fulltrúar Framsfl., sem gerast málsvarar réttlætisins, er að bera í bakkafullan lækinn. Um óréttlæti í embættisveitingum af hálfu Framsfl. eru tugir, ef ekki hundruð dæma, en ég mun síðar minnast á örfá þeirra.

Þegar deilt er um þá embættisveitingu, sem hér um ræðir, koma þessir hv. þm. fram með ýmis þau sjónarmið, sem virkilega er ástæða til þess að kryfja til mergjar. Margt af því hefur verið rætt, og það hefur vissulega komið í ljós, að það er ekkert hægt að finna að þessari embættisveitingu. Hún er í alla staði lögleg og stenzt allt siðgæðispróf. Hún stenzt ekki eina kröfu framsóknarmanna, þ.e. að framsóknarmaður væri settur í embættið.

Þetta er mergurinn málsins. Og út af þessu er allur sá hamagangur, sem framsóknarmenn hafa sett af stað í blöðum sínum og notið aðstoðar hins stjórnarandstöðuflokksins og kenna svo hv. þm. um, að slíkur hamagangur sé hjá almenningi. Þegar svo þessir hv. þm. rökstyðja mál sitt, þ.e.a.s. telja embættisveitinguna ranglæti og valdníðslu, rekur sig hvað á annars horn. Þeir gripa til rangsagna, þeir beinlínis lýsa því yfir, að þeir viti ekki, hvað þeir séu að tala um.

Ein þeirra sterkasta röksemd fyrir því, að núv. settur bæjarfógeti hafi átt að fá þessa stöðu, er, að hann hafi unnið sér siðferðilegan rétt til embættisins vegna setu í því í 9 ár. Þeir reyna mjög að hrekja þá skoðun hæstv. dómsmrh., svo og margra annarra, að seta í embætti veiti ekki rétt fram yfir margt annað, sem hafa skal til athugunar við embættisveitingu. Það er ekkert, sem getur hrakið þessar fullyrðingar þeirra framsóknarmanna betur en einmitt umsóknir tveggja manna auk setts bæjarfógeta um þetta embætti. Við skulum halda þeim, sem deilt er um, aðeins til hliðar, en við skulum spyrja: Sækir bæjarfógetinn á Ísafirði, Jóhann Gunnar Ólafsson, um þessa stöðu vegna þess, að hann álítur eins og þeir, að settur bæjarfógeti hafi áunnið sér siðferðilegan rétt? Nei, hann gerir það vegna þess, að hann álítur, að hann hafi ekki með setu sinni í embættinu áunnið sér neinn rétt til embættisins. (Gripið fram í.) Með umsókninni álítur hann það, ella hefði hann ekki sótt, það skilur hver heilvita maður. Það er gott, að þm. fræðist þá.

Við veitinguna í þetta embætti metur dómsmrh. einnig, að maðurinn hefur starfað úti á landi, og hann er færður til. Er hér um nýtt mat varðandi embættisveitingu að ræða? Nei, við Hafnfirðingar þekkjum mjög vel til þess, að mat á því, að maður hefur starfað úti á landi, hefur gengið fyrir manni, sem þó hefur unnið fyrir sitt byggðarlag í áratugi, hann hefur fengið embættið. Árið 1941 losnaði héraðslæknisembættið í Hafnarfirði, en þá hafði Þórður Edilonsson gegnt því um nokkurra áratuga skeið. Þá var settur í embættið Bjarni Snæbjörnsson læknir, og hann gegndi því eitthvað á annað ár. Hann sótti um héraðslæknisembættið, þegar því var slegið upp. Hann hafði þá unnið fyrir sitt byggðarlag í 25 ár og verið styrk stoð þess héraðslæknis, sem hafði gegnt embættinu áður. En hver hlaut embættið? Það hlaut það héraðslæknir utan af landi. Vegna þess að hann hafði áður starfað úti á landi, taldi veitingarvaldið rétt að færa hann til og láta honum í té betra embætti. Hér var hæstv. þáv. forsrh. að verki, Hermann Jónasson, og skipaði hann þennan héraðslækni. Aftur losnaði þetta embætti 1947. Aftur gegndi Bjarni Snæbjörnsson læknir héraðslæknisembættinu um nokkurt skeið. Embættið var auglýst, og mikill þorri Hafnfirðinga skoraði á þáv. stjórnarvöld að veita lækninum embættið. En hver fékk það? Héraðslæknir utan af landi. Þá hafði Bjarni Snæbjörnsson gegnt læknisembættinu um 30 ára skeið við mikinn og góðan orðstír, eins og hann ævinlega hefur gert, og allir þeir, sem til þekkja, meta þennan lækni svo mjög sem raun ber vitni.

Þessi veiting sýnir, að það, sem hér er verið að gera, er ekkert nýtt. Hér er ekkert óréttlæti. Það hefur verið viðtekin regla hjá veitingarvaldinu, að þeir aðilar, sem út á land fara, séu færðir til í embættum. Og það er ekkert nýtt, að dómsmrh. meti aldur manna varðandi embætti. Hér áðan lýsti hæstv. forsrh. dæmi, sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, 5. þm. Reykv., gaf honum mjög kærkomið tilefni til hér á þriðjudaginn, þegar tveimur hæstaréttardómurum er vikið frá, öðrum 68 ára, hinum 67. Hvað skyldi hafa valdið því, að þáv. hæstv. dómsmrh. skyldi láta þessa menn hverfa úr störfum? Það er þrennt mögulegt: að hann hafi álitið þá orðna of gamla, hann hafi álitið þá ekki færa eða þá hér hafi verið um pólitíska ráðstöfun að ræða.

Eitt dæmi enn skulum við taka og það úr Hafnarfirði. Þegar sýslumannsembættið var veitt 1935, er það veitt Bergi Jónssyni sýslumanni á Barðaströnd. Hann var ekki elztur umsækjenda. Samt sem áður metur dómsmrh. þá það svo, að hann eigi að fá embættið, og til skýringar fyrir þá hv. framsóknarmenn, sem hér hafa talað og ekki virzt allt of klárir í fortíðinni, skal það upplýst, að Bergur Jónsson var þá þm. Framsfl.

Þegar á sínum tíma hæstv. dómsmrh. víkur þessum tveim mönnum úr hæstarétti, gerast hlutir, sem mjög hafa verið fordæmdir, þ.e.a.s. sjálfur hæstiréttur fékk ekki að vera í friði fyrir pólitískum aðförum Framsfl. Ég efast ekkert um, að það svar, sem ég fæ, sé, að þetta hafi allt verið löglegt.

Hér hefur því verið fleygt og haldið fram og það mun vera rétt, að af 13 bæjarfógeta- og sýslumannsembættum hafi Hermann Jónasson á sínum valdatíma frá 1934—1942 aðeins auglýst 5. Og svarið við því var auðvitað: Það var löglegt. Þá er ekki verið að tala um óréttlætið og siðgæðið náttúrlega ekki til, því að mér virðist, þegar rætt er um hluti frá löngu líðnum tíma af hálfu framsóknarmanna, þá séu þeir harla glaðir, þegar þeir geti sagt, að hluturinn sé löglegur.

Hv. 11. þm. Reykv. (EÁ) ræddi í sinni fyrri ræðu um mótmæli þau, sem fram hefðu komið, áskoranir sýslunefndarmanna, svo og uppsagnir starfsmanna á sýsluskrifstofunni. Hv. þm. gat ekki farið rétt með. En það er oft og tíðum, þegar menn verja illan málstað, þá verða menn að gripa til þeirra hluta, sem ekki eru réttir. Hv. þm. sagði, að báðar sýslunefndir, allir sýslunefndarmenn hefðu mælt með skipun setts bæjarfógeta. Þetta er ekki rétt. (Gripið fram í: Hvað er ekki rétt?) Það skorti einn mann upp á. Þá hefur verið mikið rætt um uppsagnir og undirskriftir manna, sem safnað hefur verið á sýsluskrifstofunni, svo og um mótmæli hreppstjóra. Það hefur verið talað um það, að hvaðanæva úr sveitarfélögunum hafi borizt mótmæli í sambandi við þessa veitingu. Meira og minna er þetta rangt. Aðeins ein sveitarstjórn hefur látið slíkt frá sér fara. Hins vegar er mér ljóst, að það hafa verið gerðar tilraunir í fleiri sveitarstjórnum, m.a. frambjóðandi Framsfl., oddviti Kjalarneshrepps, Teitur Guðmundsson, en honum varð ekki meira ágengt en það, að hann fékk sitt eigið atkv. og ekkert annað af 5. Í Hafnarfirði var málið tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi, aðeins tveir, náttúrlega framsóknar- og Alþb: maðurinn, greiddu atkv. með till. af 9 bæjarfulltrúum.

Um uppsagnir starfsfólksins og mótmæli þaðan mætti ýmislegt segja. Suður í Hafnarfirði hafa gerzt ýmsir hlutir í sambandi við sýslumannsembættið, og hæstv. forsrh. einmitt kom inn á eitt þessara atriða áðan. 1956, þegar Guðmundur Í. Guðmundsson verður utanrrh., eru þrír fulltrúar við embættið. Sá elzti þeirra var ekki tekinn, enda þótt hér væri um að ræða fyrrv. bæjarfógeta um 8 ára skeið. Skyldi hafa verið gengið fram hjá honum og þá hvers vegna? Það skyldi þó aldrei hafa verið, að þáv. hæstv. dómsmrh. hafi ekki fallið of vel, hvar þessi maður stóð í stjórnmálaflokki, og þess vegna farið inn á þá braut að taka þann, sem var nr. 2, honum geðþekkari maður. Og við skulum athuga stöðu, sem síðar er veitt við þetta sama embætti. Það er yfirlögregluþjónsstaðan. Það gerðust nefnilega dálítið kynlegir hlutir, þegar hún var veitt. Þá sóttu um þrír menn, allt prýðilegir menn. Sá elzti þeirra hlaut ekki stöðuna, sá í miðið hlaut hana. En þegar komið var til sýslumannsins með undirskriftir fyrir hinn þriðja, vísaði hann þeim á bug og sagði: Það er ekki í ykkar valdi að ákveða, hver á að vera yfirlögregluþjónn. Það er mitt, og þið verðið menn að minni að taka þátt í slíkum undirskriftum.

Það getur vel verið, að ykkur finnist, að það komi ýmsir hlutir hér fram betur nú, vegna þess að þið hafið ekki haft aðstöðu til þess að fylgjast með þessum málum. Uppsagnir þessara starfsmanna, komu þær á 1—2 dögum? Nei, það tók þá hálfa aðra viku að fá starfsmennina til þess að segja upp. Hvað segir þetta? Talar þetta um einhug í sambandi við þessa hluti, eða gæti kannske hafa verið þarna á bak við pólitískur undirróður þeirra manna, sem hann vildu viðhafa? Ég fullyrði, að svo sé, og mér er það vel kunnugt málið, að þegar verið er að safna undirskriftum á meðal lögregluþjónanna, sem eru 13 talsins, eru það aðeins 5, sem taka þátt í þeim, og sumir hverjir urðu að hafa stór orð til þess að sleppa við þá menn, sem komu til þeirra með undirskriftalista, og lýsa því yfir, að þeir óskuðu eftir því að fá að hafa skoðanir sínar í þessu máli sem og öðrum fyrir sig.

Allir þessir hlutir hafa gerzt með þeim hætti, að hér er einsýnt, hvað um er að vera. Á það var minnzt af hv. 11. þm. Reykv., að einn maður á skrifstofunni hefði sagt upp starfi eftir 30 ára starfsferil. Hvað er rétt í þessu? Þessi ágæti maður hefur starfað við embættið sem tollgæzlumaður í 30 ár, það er rétt. Hann hefur ekki sagt þessu embætti lausu. Hann er enn þá tollgæzlumaður og ætlar sér að vera. Hann hefur hins vegar haft nokkur aukastörf á skrifstofunni í sambandi við einhverjar skýrslur og útreikninga, sem nánast, eins og hann skýrði frá sjálfur í viðtali, að mig minnir í Þjóðviljanum, voru aukastörf. Þessum störfum hefur hann sagt upp, en ekki því aðalstarfi, sem hann hefur haft í 30 ár.

Nei, það ber allt að sama brunni í þessu máli. Hér er um að ræða pólitískar árásir á núv. hæstv. dómsmrh. Ég geri mér fullvel grein fyrir því, að þessar árásir missa allar marks. Það, sem þessir ágætu menn, sem hér hafa talað, hafa sagt, eru rökfærslur, sem hafa, eins og ég sagði áðan, stangazt hver við aðra. M.a. segir hv. 3. landsk. þm. í sinni ræðu, sem er siðan prentuð í Þjóðviljanum, með leyfi hæstv. forseta, um þessa embættisveitingu, og hann er að komast að niðurstöðu um, hver hefði átt að fá embættið samkv. siðferðilegum rétti með tilliti til aldurs og annað eftir því, — hann segir:

„Ég tel, að sérstök rök þurfi að liggja fyrir því að víkja frá starfsaldursreglunni og það hafi ekki verið hér,“ þ.e.a.s. hér hafi engin rök verið lögð á borð fyrir því að víkja frá starfsaldursreglunni, og þar af leiðandi hafi Jóbanni Gunnari bæjarfógeta á Ísafirði borið embættið. Hann segir svo síðar í sinni ræðu: „Ég tel, að hin langa seta Björns í embættinu hafi fært honum siðferðilegt tilkall til þess,“ þ.e.a.s. Björn hafi átt að fá embættið í þessu tilfelli. Svona eru þessir hlutir. Þeir eru meira og minna mótsagnakenndir. Og svo kastar tólfunum, þegar hér koma upp þm. Framsfl., m.a. flm., og lýsa yfir, hvílíkt einsdæmi sú veiting sé, sem hér sé um að ræða. En hvað skeður, ef maður les grg. hv. flm.? Í henni stendur bara allt annað. Hér stendur :

„Hér á landi hefur það hins vegar tíðkazt nokkuð, að menn séu settir í embætti um langan og ótiltekinn tíma og svo gengið fram hjá þeim, þegar kom að því að skipa í embættið.“

Það var vissulega orð að sönnu, þegar hv. flm. lýsti því hér yfir s.l. þriðjudag, þegar hann flutti sína aðra ræðu, að hann hefði ekkert athugað embættisveitingar aftur í tímann. Ég er alveg sannfærður um það, að ef þessir þm., sem hér hafa talað, hefðu eitthvað kynnt sér það, sem á undan er gengið, mundu þeir alls ekki hafa fellt þann áfellsdóm, sem þeir hafa nú gert. Mér er það ljóst, að þeir hafa skynsemi til að bera til þess að líta á hluti og geta svo metið þá, ef þeir á annað borð vilja kynna sér þá. Hitt er svo annað mál, að það getur vel verið, að þeir hafi á engan hátt haft löngun til þess að kynna sér þessa hluti, þeir hafi haft einhverja tilfinningu fyrir því, að saga þessara mála væri ekki sem allra skemmtilegust fyrir þeirra eigin flokk. Og það, sem vekur athygli, er, að í þessum umr. taka engir af hálfu Framsfl. til máls aðrir en þeir, sem eru tiltölulega nýkomnir á þing, ekki einn einasti af þeim mönnum, sem hér hafa setið kannske áratugum saman. Þeir eru miklu skynsamari en það, að þeir vilji standa hér upp til þess að deila á þessa embættisveitingu. Þeir vita, hvað hefur skeð.

Ég sé, að það er senn komið að lokum þessa fundartíma. Ég vil aðeins segja þetta: Þær árásir, sem gerðar hafa verið á hæstv. dómsmrh. í sambandi við þetta mál, eru með þeim hætti, að allt fólk, sem lítur á þetta frá réttu sjónarmiði, skilur, hvers vegna þessar árásir eru gerðar. Hæstv. dómsmrh. er þekktur í íslenzku þjóðlífi fyrir störf sin, hvort heldur er hér á Alþ. eða annars staðar, og hann er alls staðar þekktur að þeim fyrir réttsýni og fyrir dugnað. Þessi maður hefur í dag og í gær hlotið ámæli, sem hann á alls ekki skilið, og ég er sannfærður um það, að þegar þessir menn fara nú á annað borð að athuga, hvernig þessum málum er tekið hjá fólki, munu þeir komast að raun um, að hann nýtur ekki síður, heldur meira trausts hjá almenningi eftir þessar árásir heldur en fyrir.