25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það hefur verið deilt svo hart á dómsmrh. í þessum umr., að mér finnst rétt að byrja þessa ræðu með því að segja um hann nokkur viðurkenningarorð, þó að þau verði að sjálfsögðu ekki sögð í sambandi við þá embættisveitingu, sem hér hefur verið mest rætt um. En ég hygg, að hæstv. dómsmrh. megi eiga það, að hann sé einn af vöskustu málsvörum Sjálfstfl., og hafi aldrei hlíft sér á þeim vettvangi, þegar hann hefur talið þörf á því að láta til sín taka. En þrátt fyrir það hefur það atvikazt þannig í þessum umr., að hann hefur mjög lítið látið til sín heyra, aðeins einu sinni, en aftur á móti hefur annar ráðh. farið þar fram fyrir skjöldu og látið þetta mál alveg sérstaklega til sín taka. Ég held, að það sé augljós skýring á þessu, að sá ráðh., sem þetta hefur gert, hæstv. forsrh., telur þetta mál vera sér sérstaklega skylt, sérstaklega persónulega náskylt, og þess vegna heyrir það fyrst og fremst undir hann að halda hér uppi vörnum. Og þetta er líka rétt, eins og hefur komið fram í grein, sem Jón Finnsson fulltrúi í Hafnarfirði hefur skrifað, og víða hefur komið fram, að þetta mál er hæstv. forsrh. alveg sérstaklega, persónulega náskylt, og menn vita, að hann á þess vegna mikinn þátt, ef ekki meginþátt í þessari embættisveitingu, og því er eðlilegt, að hann komi hér fram fyrir skjöldu dómsmrh. og taki fyrst og fremst á sínar herðar að verja þetta mál. Og ég held, að þetta nægi til þess, að hæstv. forsrh. ætti ekki að gera mikið að því að óska eftir, að bent sé á, að hann hafi haft persónuleg áhrif á embættisveitingar. Ég held, að þetta mál og framkoma hans hér í þingi í sambandi við það sanni það alveg fullnægjandi. Þetta mál er honum mjög persónulega náskylt. Hann hefur þess vegna haft megináhrif á þessa ákvörðun og telur þess vegna nauðsynlegt eða eðlilegt, að hann taki að sér aðalvörnina í málinu.

Hæstv. forsrh. hefur gert mikið að því í þessum umr. að ásaka aðra fyrir það, að þeir séu með róg, dylgjur, ósannindi og þar fram eftir götunum. Ég held, að það verði samt niðurstaða þeirra, sem hafa fylgzt með þessum umr., að enginn hafi gengið lengra í þeim efnum en ráðh. sjálfur, og ég ætla aðeins að nefna eitt dæmi því til sönnunar, sem varpar glöggu ljósi yfir það, hvernig hans málflutningur er í þessum efnum. Hæstv. ráðh. fór þeim orðum hér áðan um einn af hæstaréttardómurum landsins, að það hefði verið betra fyrir sæmd Íslands, að hann hefði ekki verið skipaður í hæstarétt á þeim tíma, sem það var gert. Ég held, að það sé erfitt að komast lengra með strákslegar dylgjur heldur en segja það um einn af hæstaréttardómurum landsins, að það hafi verið betra fyrir sæmd Íslands, að hann hefði ekki verið skipaður í embættið á þeim tíma, sem það var gert. Og ég held, að það sé leitun á þeim forsrh., sem mundi leyfa sér slíkt orðalag um mann, sem skipaði eitt virðulegasta og mikilvægasta dómaraembætti landsins. Forsrh. verða að gera sér ljóst, að þeir verða að temja sér annað tungutak en götudrengir, og það er meira tekið eftir því, sem þeir segja, heldur en því, sem götudrengir kunna að láta sér um munn fara. Þetta orðalag og þessar dylgjur hæstv. forsrh. eru fyrir neðan allar hellur, og ég trúi ekki öðru en við nánari athugun taki hann aftur þann þunga áfellisdóm, sem hann hefur fellt um Gizur Bergsteinsson með þessu orðalagi sínu. Það er alveg ósæmilegt, án nokkurs rökstuðnings, sem hæstv. forsrh. hafði ekki fram að færa áðan í sambandi við þetta mál, að fella slíkan sleggjudóm um einn af hæstaréttardómurunum. Það er að sjálfsögðu ekki til þess að auka virðingu og álit þessa mikilvæga réttar, að yfirmaður ríkisstj. skuli fara slíkum orðum um einn af þeim mönnum, sem skipa sæti í hæstarétti.

Það er annað dæmi um það, hvernig hæstv. ráðh. heldur á sannleikanum í sínum málflutningi, að hann hefur hvað eftir annað verið að hamra á því, að Hermann Jónasson sé sá ráðh., sem lengst hafi geymt embætti samanlagt. Ég hygg, að hæstv. forsrh. viti þó ákaflega vel, að það er annar ráðh., sem hefur geymt embætti lengur samanlagt heldur en Hermann Jónasson. Ég hygg, að hann þurfi ekki annað en líta til sessunautar síns, hæstv. utanrrh., og komist þá að raun um, að það er hann, sem á metið í þessum efnum, en ekki Hermann Jónasson, því að ég hygg, að utanrrh. hafi bæði geymt sér embættið, þegar hann var ráðh. á árunum frá 1944 —1949, og svo aftur síðan hann varð ráðh. á nýjan leik síðan 1958. En þetta er aðeins ljóst dæmi um málflutning hæstv. forsrh. Hann kemur með alls konar fullyrðingar, sem hann heldur að passi í kramið hjá sér, þó að hann viti, að hann fari ekki með rétt mál, því að þetta atriði hefur hann hlotið að kynna sér, áður en hann kom með slíkar fullyrðingar eins og þessar.

Annars er þetta í sambandi við Hermann Jónasson og geymslu hans á embættum gott dæmi um það, hvernig lagnir gróusagnarsmiðir haga sínum málfluningi, því að þessi 11 ár, sem eru fengin hjá Hermanni Jónassyni, eru fengin með þeim hætti, að það er slengt saman allmörgum ráðherratímabilum, sem hann hefur gegnt ráðherrastörfum, en þess ekki gætt, að í hvert einstakt skipti er tíminn að sjálfsögðu miklu styttri, sem geymslan á embættinu hefur átt sér stað, eða m.ö.o., að Hermann Jónasson, ef svo mætti segja, hefur aldrei geymt embætti lengur samfellt en í 5 ár, og sá tími hefði þó orðið styttri, ef ekki hefði þannig staðið á á þeim tíma, að því embætti, sem hann gegndi, var verið að skipta í tvennt, og það tafðist nokkuð á Alþ., að sú skipting færi fram, en strax þegar henni var lokið, þá var sá maður, sem hafði verið settur í embættið, látinn halda því áfram og ekki aðeins sem settur, heldur sem skipaður.

Það, sem hefur gerzt þess vegna í sambandi við geymslu Hermanns Jónassonar á embætti, og það er það, sem sker úr í þessu máli, er, að það hefur verið litið þannig á, að þegar viss embættismaður væri búinn að vera settur í slíkt embætti, sem ráðh. gegndi, ákveðinn tíma og ráðh. tæki það ekki sjálfur að nýju, ætti sá maður, sem hefði verið settur í embættið, að ganga fyrir og fá það. Það var þetta, sem átti sér stað, þegar Jónatan Hallvarðsson var settur í embætti sakadómara.

En það, sem er vitanlega höfuðatriðið í sambandi við það mál, sem hér er til umr., er, að sá maður, sem var búinn að gegna viðkomandi embætti jafnlengi og raun bar vitni um og þegar viðkomandi ráðh. tók ekki við þessu starfi að nýju, átti sá embættismaður, sem hafði gegnt starfinu svo langan tíma, að halda því og fá fulla skipun. Það er það fordæmi, sem Hermann Jónasson hefur gefið í þessum efnum og hæstv. ríkisstj. hefði átt að taka sér til fyrirmyndar.

En það, sem kom mér fyrst og fremst til að kveðja mér hljóðs að nýju, var það, að hæstv. ráðh. fór nú inn á þá braut að reyna að verja embættisveitingar sínar. Þegar þetta mál var síðast til umr. hér í d., hafði verið deilt allhart á embættisveitingar ráðh., án þess að hann gerði nokkra tilraun til að svara þessu þá, heldur þvert á móti gerði það, sem hann gat, til þess að umr. um málið yrði lokið. Ráðh. fór mörgum orðum um það, að við framsóknarmenn þyrftum langan tíma til þess að undirbúa okkar málflutning, en mér virðist, að þetta eigi þó ekki síður við ráðh. sjálfan, því að hann hefur nú þurft tvo daga til þess að hafa sig upp í það að verja þessar embættisveitingar sínar, sem hann sagði þó í fyrstu ræðu sinni að hann væri reiðubúinn til að verja hvar og hvenær sem væri. Hann treysti sér ekki til þess að verja þessar embættisveitingar, þegar málið var hér síðast til umr., ætlaði þvert á móti að koma því til vegar, að það gengi þá áfram og hann kæmist hjá því að segja nokkuð. Vegna þess að einn af ráðh. hafði farið af fundi, tókst honum ekki að gera þetta, og eftir að hafa undirbúið sig í tvo daga kemur hann loksins fram með varnarræðu í sambandi við þessar embættisveitingar sínar. Og ég skal nú gera því, sem ráðh. sagði um þessi efni, nokkru nánari skil.

Ég ætla þá að víkja fyrst að því, sem hæstv. ráðh. sagði um sýslumanns- og bæjarfógetaembættisveitingar þær, sem hann hefði framkvæmt. Hann vildi einkum hafa sér það til afsökunar í því sambandi, að ef væri farið í gegnum þær umsóknir, sem hefðu komið viðkomandi þau embætti, kæmi kannske í ljós, að hann hefði ekki framið svo mikla hlutdrægni. Ég hef alls ekki lagt neina vinnu í það að kynna mér þessar umsóknir, vegna þess að ég álít, að þær hafi ákaflega litlu máli skipt af þeirri einföldu ástæðu, að svo að segja í hvert einasta skipti hefur það verið vitað fyrir fram, að það var búið að ráðstafa embættinu, og þess vegna þýðingarlaust fyrir menn að vera að sækja um það, og þess vegna hafa umsóknirnar yfirleitt verið sárafáar eða engar í flest skiptin, því að menn eru ekki að ómaka sig til þess að vera að sækja um embætti, sem þeir vita, að búið er að ráðstafa fyrir fram, og þess vegna er þýðingarlaust að vera að senda nokkrar umsóknir. En það er þetta, sem menn hafa vitað svo að segja undantekningarlaust í sambandi við allar þær embættisveitingar, sem þessi ráðh. hefur haft með höndum. Það, sem hefur skorið úr og verið sérstaklega einkennandi í sambandi við allar umræddar embættisveitingar ráðh., er það, að fyrsta og aðalkrafan, sem hann hefur gert til þeirra, sem ættu að hljóta þessi embætti, er sú, að þeir væru færir til þess eða líklegir til þess að geta orðið forustumenn Sjálfstfl. í viðkomandi umdæmi. Það hefur verið regla nr. 1, sem þessi hæstv. ráðh. hefur lagt á hæfni þeirra manna, sem um þessar stöður hafa sótt. Hæstv. ráðh. var að reyna að halda því fram, að þessir menn, sem hér ræðir um, hefðu verið valdir til þess, eftir að þeir komu í héruðin, að vera þar í forustu fyrir Sjálfstfl., þeir hefðu unnið sér slíkt traust, að þeir hefðu verið valdir til þess að hafa þessa forustu með höndum, eftir að þeir komu í héruðin. Hæstv. ráðh. veit, að þetta er algerlega rangt. Hann veit, að í langflestum tilfellum hefur verið búið að ákveða fyrir fram, að þessir menn ættu að verða frambjóðendur og forsvarsmenn Sjálfstfl. í þessum umdæmum og þeir hafa fyrst og fremst verið valdir með það fyrir augum. Hér var ekki um neitt að ræða, sem var ákveðið eftir á, heldur það, sem var ákveðið fyrir fram. Þetta veit ég, að hæstv. ráðh. kannast vel við með sjálfum sér, þó að hann vilji ekki játa það opinberlega. Og það er frá þessu sjónarmiði, sem ég og aðrir hafa deilt á embættisveitingar hæstv, ráðh. eða veitingar hans á sýslumannsembættum og bæjarfógetaembættum, að hann hefur gert það að aðalreglu, að þessir menn uppfylli ekki aðeins skilyrði fyrir prófum, ekki aðeins að það væru flokksmenn hans, heldur að þeir væru líklegir til þess að geta orðið forustumenn Sjálfstfl. í viðkomandi umdæmi. Það hefur verið regla nr. 1, og það er sú regla, sem er fordæmanleg og ekki á að viðgangast. Það er þess vegna, sem þarf að koma nýrri skipan á veitingarvaldið í sambandi við dómaraembættin, að það verði hætt að veita þessi embætti með það sem meginreglu, að þessir menn verði pólitískir forustumenn. Það á miklu frekar að taka upp þá stefnu, að þessir menn, sem gegna þýðingarmiklum dómarastörfum, hafi ekki afskipti af stjórnmálum. Það er alveg sama, hve mikið hæstv. ráðh. talar um þetta, hve mikla vafninga og útúrsnúninga hann hefur með höndum, þá getur hann aldrei varið það að hafa tekið upp þessa reglu í sambandi við umræddar embættisveitingar, að leggja á það megináherzlu, að viðkomandi menn yrðu fyrst og fremst pólitískir forustumenn, og það hefði verið lögð enn meiri áherzla á það heldur en að þessir menn sinntu fullkomlega sínum dómarastörfum, því að það gefur auga leið, að það er mjög erfitt fyrir menn, sem mikil pólitísk störf hvíla á, að sinna slíkum embættum sem skyldi.

Ég hygg, að það, sem ég hef nú sagt, sýni fullkomlega, að það stendur alveg óhrakið eftir ræðu hæstv. forsrh. áðan, sem hefur verið sagt um hans embættisveitingar og vegna hvers þær hafa verið fordæmanlegar.

Ég ætla þá að víkja að því, sem hæstv. ráðh. sagði um hæstarétt og þann samanburð, sem hefur verið gerður á embættisveitingum hans og Hermanns Jónassonar. Ráðh. hóf ræðu sína með því að ætla að gera mikið veður út af því, hvernig Hermann Jónasson hefði valið þá Þórð Eyjólfsson og Gizur Bergsteinsson í hæstarétt. Hann gaf það í skyn, að því er manni virtist, að til þess að koma þeim í réttinn hefði Hermann Jónasson beitt hinum fyllstu yfirtroðslum, að því er manni jafnvel skildist, þótt það kannske hefði ekki verið sagt beint hjá hæstv. forsrh., að Hermann Jónasson hefði framið lagabrot með því að koma þeim þarna í hæstarétt, og það var mikið, að hæstv. ráðh. skyldi ekki segja, að hann hefði framið stjórnarskrárbrot, þegar hann átti þátt í því, að tveir gamlir dómarar hættu þar störfum og stöður þeirra væru auglýstar. Það hefði verið í fullu samræmi við málflutning hæstv. forsrh. að segja, að Hermann Jónasson hefði framið hér stjórnarskrárbrot, af þeirri einföldu ástæðu, að þegar Hermann Jónasson tók þessa ákvörðun um að æskja þess, að þessir tveir menn hættu störfum,

fór hann eftir orðalagi og fyrirmælum sjálfrar stjórnarskrárinnar, því að í stjórnarskránni hefur um langa hríð verið svo ákveðið sérstaklega um þá menn eða þá dómara, sem ekki gegna umboðsstörfum, en þar er vitanlega fyrst og fremst átt við hæstaréttardómara, að þeir megi biðjast lausnar, þegar þeir eru orðnir 65 ára, og það megi láta þá biðjast lausnar, þegar þeir eru komnir á þann aldur. Þetta sérstaka ákvæði hefur gilt um dómara í stjórnarskránni frá fyrstu tíð, og sýnir það, að menn hafa jafnan litið svo á, að það ættu að gilda alveg sérstakar reglur um dómara og það ætti að gera aðrar og meiri kröfur til þeirra í þessum efnum en annarra embættismanna. Það hafa líka ýmsir menn, sem hafa átt sæti í hæstarétti, notfært sér þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Forsrh. skýrði sjálfur frá því, að Þórður Eyjólfsson hefði notað sér þennan rétt og óskað eftir að láta af störfum, áður en hann væri 70 ára. Og ég heyrði ekki annað en ráðh. teldi, að það væri mjög rétt ráðið. Ég get bent honum á annan dómara, sem óskaði eftir því að láta af störfum í hæstarétti 65 ára gamall. Það var einn snjallasti lögfræðingurinn, sem þar hefur setið, Einar Arnórsson. Það hefur þess vegna verið þar ríkjandi álit í sambandi við þessi mál, að það væri ekki óeðlilegt, að menn létu af störfum í hæstarétti, áður en þeir hefðu náð hámarksaldri sem opinberir starfsmenn. Og það var í samræmi við þetta sjónarmið, sem Hermann Jónasson óskaði eftir áðurnefndri breytingu. Hvernig tókst svo þessi breyting hjá Hermanni Jónassyni? Hvernig tókst sú breyting að láta þá taka þarna við dómarastörfum, Gizur Bergsteinsson og Þórð Eyjólfsson? Það tókst með þeim hætti, að ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða, að hæstiréttur hefur aldrei notið meira álits og trausts en á þeim tíma, síðan þessir menn komu í réttinn og hafa átt mikinn þátt og jafnvel meginþátt í að móta starf réttarins.

Ég held, að það sé erfitt að benda á embættisveitingar, sem hafa gefizt öllu betur en þessar tvær, og þess vegna kem ég enn að þeirri fjarstæðu og fordæmi þá fjarstæðu, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. hér áðan, þegar hann var að láta sér um munn fara að það hefði verið betra fyrir sæmd Íslands, að Gizur Bergsteinsson hefði ekki verið skipaður hæstaréttardómari á þeim tíma, sem hann var skipaður í þá stöðu. Störf Gizurar Bergsteinssonar í réttinum hafa verið með þeim hætti, að þessi ummæli forsrh. eru hin fordæmanlegustu, ég vil segja: ein hin allra fordæmanlegustu, jafnvel fordæmanlegustu, sem hafa verið sögð hér á Alþ. um ágætan embættismann, sem gegnir mjög mikilvægri stöðu í þágu þjóðarinnar og verðskuldar allt annan dóm en þann, sem hæstv. ráðh. hefur hér kveðið upp. Og ég vil þess vegna líka vænta þess, að forsrh. reynist sá drengur að taka þessi ummæli sín aftur og segja, að hér hafi hann ofsagt. Hann mundi vaxa af því, ef hann gerði það.

Ég kem þá að veitingu hæstv. forsrh. á embætti hæstaréttardómara, þeirri einu slíkri veitingu, sem hann hefur gert, að því er ég bezt man. En það var þegar hann skipaði Lárus Jóhannesson til þess að taka sæti í hæstarétti og tók hann fram yfir annan mann, sem um embættið sótti á sama tíma, Theódór Líndal. Fyrst hæstv. ráðh. hefur óskað eftir umr. um þessa embættisveitingu, tel ég sjálfsagt að verða við tilmælum hans um það og læt þá strax uppi það álit mitt, að ég álit, að undir þessum kringumstæðum hefði verið sjálfsagt og eðlilegt, að það hefði verið Theódór Líndal, sem hefði verið valinn í stöðuna. Og ég skal gera hæstv. ráðh. í stuttu máli grein fyrir þeirri niðurstöðu minni. Það er ekki vegna þess, að ég hafi ekki eins miklar mætur á Lárusi Jóhannessyni. Ég þekki hann nokkuð persónulega, og ég tel hann mætan mann. Ég tel einnig, að Lárus Jóhannesson hafi verið fær lögfræðingur, og ég hef einnig þá skoðun á Lárusi Jóhannessyni, að hann hefði viljað vera sannsýnn i dómarastörfum. En um þá menn, sem fást við ýmisleg fjármálastörf, vilja jafnan myndast ýmsar sögur, hvort sem þær eru réttar eða rangar, sögur, sem eru slíks eðlis, að það er ekki heppilegt, að þær fylgi mönnum, sem skipa slíka stöðu eins og hæstaréttardómarastaða er. Og ég álit, að það hafi verið vegna þessara starfa Lárusar Jóhannessonar, sem ekki var heppilegt að skipa hann dómara í hæstarétti. Og ég hygg líka, að það hafi komið í ljós svo glöggt sem verða má, að þetta reyndist ekkí heppilegt. Af þessum ástæðum var ekki rétt undir þessum kringumstæðum að taka Lárus Jóhannesson fram yfir Theódór Líndal, eins og hæstv. forsrh. gerði, eins og líka kom á daginn. Og það held ég, að öllum sé ljóst, ekki síður flokksbræðrum ráðh. en öðrum, að það, sem réð úrslitum um þetta embættisveitingu hans, það, sem réð úrslitum um það, að hann tók Lárus Jóhannesson fram yfir Theódór Lindal, var það, að hann var náinn pólitískur samherji hans, hafði verið náinn pólitískur samherji hans um langan aldur, hafði lengi verið þm. Sjálfstfl., hafði af mikilli trúmennsku unnið fyrir Sjálfstfl., og það var talið rétt af flokknum að verðlauna hann fyrir þetta starf með því að gera hann að hæstaréttardómara, sem reyndist svo síðar hreinn bjarnargreiði við hann. Og ég álít, að það sé með öllu fordæmanlegt, þegar pólitísk sjónarmið eru þannig látin ráða því, hvernig menn eru valdir í hæstarétt.

Ég held, að ég geti látið það nokkurn veginn nægja um embættisveitingar hæstv. ráðh., sem ég nú hef sagt. Ég held, að það liggi líka alveg nægilega ljóst fyrir, að með veitingum sínum á sýslumanns- og bæjarfógetaembættum hefur hann brotið eðlilegar reglur með því að láta flokkssjónarmiðin jafnan vera efst og láta það ráða úrslitum um það, hvaða menn væru valdir til þessara starfa, að hann gæti komið upp pólitískum forustumönnum úti um landið. En hitt er svo annað mál, sem óþarft er að ræða hér, að í mörgum efnum hefur þetta ekki tekizt eins vel hjá hæstv. ráðh. og hann hefur stefnt að. Þessir menn hafa ekki orðið eins miklir forustumenn og hann hefur gert sér vonir um. En það er önnur saga. Tilgangur ráðh. hefur eigi að síður verið hinn sami fyrir það.

Áður en ég lýk því að ræða um embættisveitingar hæstv. ráðh., vil ég einnig endurtaka það, að ég held, að það liggi nægilega ljóst fyrir af því, sem ég nú hef sagt, hversu stórum betur Hermanni Jónassyni hafa tekizt embættisveitingar heldur en honum og þó alveg sérstaklega í sambandi við veitingu á embættum hæstaréttardómara. Sá samanburður er eins glöggur og verða má og eins hagstæður Hermanni Jónassyni og verða má.

En svo að ég víki nokkuð að efni þess frv., sem hér liggur fyrir, og því, sem hefur verið um það rætt, held ég að mönnum hljóti að verða það ljósara eftir þessar umr. en áður, að það er ekki heppilegt fyrirkomulag, að geymsla á embættum eigi sér stað um langan aldur. Það er sennilega ekki óeðlilegt, þegar maður tekur að sér ráðherrastöðu, að hann geti fengið geymt embætti, sem hann vikur úr, í einhvern tiltekinn tíma. En það á ekki og má ekki vera langur tími, því að það getur í mörgum tilfellum gengið út yfir það embætti, sem um er að ræða, vegna þess að settan mann brestur ýmis skilyrði til þess að fullnægja stöðunni eins vel og sá maður, sem hefur skipun, og ekki sízt á það við um dómara, og auk þess eru takmarkaðar líkur til þess, að maður, sem búinn er að gegna lengi ráðherrastöðu og á svo að fara í sitt gamla embætti aftur, verði jafnhæfur til þess að gera það og hann áður var. Það hefur skapazt þarna visst tímabil í lífi hans, sem hefur slitið hann úr sambandi við sitt gamla starf, og það er mjög vafasamt, ef langur tími líður, að honum takist að ná þessu sambandi aftur. Ég held, að það eigi þess vegna að vera föst regla í sambandi við geymslu á embættum, þegar um ráðh. er að ræða, að hún standi aldrei lengur en gert er ráð fyrir í þessu frv., eða í 4 ár, og þá mundi þetta verða þannig, að þegar ráðh. væri búinn að gegna ráðherraembætti í 4 ár, eða eitt kjörtímabil, og ef svo færi, að hann héldi ráðherradómnum áfram að afloknum kosningum, þyrfti hann að gera það upp við sig, hvort hann hyrfi aftur í sitt gamla embætti ellegar hvort hann héldi áfram ráðherrastörfum, ef hann ætti kost á því. En í lengri tíma á ekki að mega geyma embætti vegna ráðh. heldur en í mesta lagi í 4 ár, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég held, að það ætti að liggja nokkurn veginn ljóst fyrir eftir þessar umr. og þess vegna ætti að geta tekizt samkomulag um þetta frv., hvað sem líður svo ágreiningi um það mál, sem hér hefur fyrst og fremst verið rætt, og um það mál ætla ég að segja nokkur orð, áður en ég lýk máli mínu, en það er veiting bæjarfógetaembættisins í Hafnarfirði.

Ég held, að það sé miklu ljósara og er tvímælalaust miklu ljósara eftir þessar umr. en það var áður, að hér hefur verið framinn hinn mesti óréttur, að hér hafi verið gengið fram hjá þeim manni, sem tvímælalaust var hæfastur og sjálfsagðastur til þess að hljóta embættið, hæfastur og sjálfsagðastur af þeirri einföldu ástæðu, að hann hafði orðið meiri reynslu í sambandi við þennan embættisrekstur heldur en nokkur hinna umsækjendanna. Hann var um langt skeið búinn að gegna langstærsta embættinu af þeim og hafði af þeim ástæðum öðlazt langsamlega mesta reynslu. Og því til viðbótar hafði ríkisstj. alveg sérstakar skyldur við þennan mann, vegna þess að hann var búinn fyrir sérstök tilmæli hennar og vegna sérstakra ástæðna hennar að gegna þessu embætti settur um jafnlanga hríð og raun bar vitni um, og það átti, þótt ekki væri um annað að ræða, að tryggja honum fullan rétt til stöðunnar, þar sem hann hafði líka rækt þetta starf með sérstökum ágætum. Og því hefur ekki verið hrundið í þessum umr. af þeim, sem hafa reynt að verja veitinguna, að hann hafi verið sá maðurinn, sem hafði mesta reynslu til að gegna stöðunni svo að vel væri, og það hefur ekki heldur verið hrakið í þessum umr., að sá maður, sem fékk stöðuna, hafi haft minnstu skilyrðin til að fá hana af þeim, sem um hana sóttu. Það hefur ekki verið hægt að benda á rök í þessum umr., að maður, sem með miklum ágætum hafi verið búinn að gegna einhverri stöðu i nærri 10 ár, hafi verið látinn víkja úr henni. Það er ekki hægt að finna neitt dæmi hliðstætt því. Þess vegna er hér um alveg einstæðan verknað að ræða, einstæðan verknað og óverjandi, og þess vegna mundi það mælast bezt fyrir og vera það skynsamlegasta, sem þeir, sem að þessu máli standa, gætu gert, að þeir hefðu hinn sama manndóm og Johnson Bandaríkjaforseti og fylgismenn hans, sem fyrir nokkru hættu við veitingu dómaraembættis, þegar þeim var ljóst, að þessi veiting mundi vekja mjög mikla andúð hjá almenningi og aðrir væru taldir hæfari til þess að hljóta þessa stöðu en sá maður, sem þeir ætluðu hana. Þess vegna vil ég láta það vera mín síðustu orð að þessu sinni að skora á þá menn, sem um þetta geta ráðið, að bregðast nú þannig við, að þetta mál leysist með svipuðum hætti, og það mundi geta gerzt með þeim hætti, að sá maður, sem nú hefur hlotið þessa stöðu, gæfi hæstv. dómsmrh. kost á að skipa í hana að nýju, og ég hygg, að það væri það eina, sem mundi mælast vel fyrir hjá almenningi og verða þau málalok, sem allir ættu vel að geta við unað.

Ég vil þess vegna beina þeirri áskorun til þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli og ráða þessu máli, að þeir taki það til nýrrar íhugunar á þessum grundvelli. Það mundi auka sæmd þeirra. En að láta ósvífnina og ofurkappið ráða, eins og nú er stefnt að, það mun verða þeim til ævarandi álitshnekkis.