25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2347)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Ingi R. Helgason:

Herra forseti. Ég hef nú talað tvisvar við þessa umr. og má ekki tala í þriðja sinn. Það er þakkarvert af forseta að leyfa mér að gera örfáar athugasemdir eða stutta aths., eins og hann orðaði það, og ég skal ekki syndga upp á náðina.

Það fer ekki fram hjá hv. þdm., hvernig þessar umr. í seinni tíð hafa sveigzt frá efni þess frv., sem liggur fyrir. Hér hafa klögumálin gengið á víxl, og fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. hafa varla átt nógu sterk orð til að lýsa misferli hvor annars í embættisveitingum á Íslandi undanfarna áratugi. Það eru um einstaklinga gefin út sakavottorð, ef eitthvað er misjafnt um menn. Ég held, að þessir flokkar ættu að gefa út sakavottorð hvor annars í sambandi við embættisveitingar og forða mönnum hér á Alþ. frá að hlusta á þessar umr.

Hv. 1. þm. Reykn. (MÁM) sagði hér áðan, að það væri nauðsynlegt að hafa slíka baktryggingu í embættiskerfi landsins sem ráðherrarnir hefðu haft.

Það er gott, að hér kemur fram opinber talsmaður þess, að menn geymi sér embætti lon og don. Það vantar þá a.m.k. ekki kokhreystina. En þessi hv. þm. var með fordæmingu út af því, hvernig staðið hefði verið að veitingu héraðslæknisembættisins í Hafnarfirði, það hefði verið mætur maður á staðnum, sem hefði gegnt þessu embætti og sótt um skipun þess, þegar það hefur fallið laust til á nokkru árabili, en hann varð alltaf að víkja fyrir manni utan af landi, sem veitingarvaldið skipaði. Eftir að skýra frá þessu gerist hann talsmaður hins, að einmitt staðarmaður í Hafnarfirði, sem hefur setið í embætti þar í 10 ár, víki fyrir manni utan af landi af hálfu veitingarvaldsins.

Tilefni mitt til þessarar athugasemdar var raunar hitt, að hv. 1. þm. Reykn. vitnaði í mína fyrstu ræðu hér við umr. Hann sagði, að þar stönguðust á þau atriði í minni ræðu, að ég hefði talið vera annmarka á þessari stjórnarathöfn, þ.e.a.s. veitingu bæjarfógetaembættisins, að starfsaldursreglan hefði verið brotin, en ég hefði líka talið það annmarka á þessari embættisveitingu, að ekki hefði verið tekið nægjanlegt tillit til tilkalls Björns Sveinbjörnssonar sem setts bæjarfógeta svona langan tíma til þessa embættis.

Hér stangast ekkert á, og ég vil, án þess að endurtaka hlutina um of, rétt aðeins segja hv. þm., fyrst það hefur farið fram hjá honum, að ámæli mín vegna þessarar embættisveitingar voru þrenns konar. Fyrsta og alvarlegasta ásökunin var, að hér hefði verið farið eftir pólitískum sjónarmiðum við embættisveitinguna. Hér hefði verið valinn úr hópi þriggja ágætra dómara sá, sem var starfandi pólitíkus. Það þótti mér miður farið. Það var fyrsti og alvarlegasti annmarkinn á þessari embættisveitingu. En ég gat um hina báða, sem sagt þann, og ég taldi hann fyrr, að hér hefði verið vikið frá starfsaldursreglunni gagnvart Jóhanni Gunnari, og í þriðja lagi, þriðji annmarkinn, sem ég fann að þessari embættisveitingu, var sá, að ekki hefði verið tekið tillit til þess tilkalls, sem Björn Sveinbjörnsson átti sakir þessarar löngu setu í embættinu, nærfellt heilan áratug. (Gripið fram í.) Ég sagði hæstv. dómsmrh. það í minni ræðu. Hann hefði getað forðað sjálfum sér frá þessu pólitíska hneyksli, ef hann hefði valið Jóhann Gunnar. Þá hefði hann metið starfsaldur hans á við setualdur Björns Sveinbjörnssonar, og ég er ekki að fella neinn dóm um það, ef hann hefði valið Jóhann Gunnar, um það atriði, síður en svo, ég tek það fram, síður en svo. Mínar aðfinnslur að þessu eru af pólitískum toga. (Gripið fram í.) Ég vil ekki, að veitingarvaldið, — og nú hlær það, — ég vil ekki, að það fari eftir svokölluðum annarlegum sjónarmiðum, þ.e.a.s. pólitískum sjónarmiðum, í sambandi við veitingu embætta í landinu.

Hv. 1. þm. Reykn. hældi hér hæstv. dómsmrh., og ég get tekið undir það, að hvað mig áhrærir met ég dómsmrh. mikils. Hann er duglegur og mjög hæfur maður að mínu viti. En þótt svo væri, gæti honum sem öðrum ágætum mönnum yfirsézt, og það er það, sem hefur gerzt í þetta skipti, og mér er nær að halda eftir kapp hæstv. forsrh. að verja þessa stjórnarathöfn, að þá eigi hæstv. dómsmrh. minna í henni en margir álíta.

Ég er alveg að verða búinn með mína aths. og skal ekki flytja öllu lengra mál.

Ég ætlaði aðeins að víkja að einu atriði í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan. Hann rakti, eins og ég sagði, mjög ljóta sögu, hvernig hæstaréttardómarar hefðu verið reknir úr embættum og hvernig sýslumenn hefðu verið skipaðir, ekki óverðugir, en á ólögmætan hátt o.s.frv. Það var ljót saga. En ég ætla bara að benda hæstv. forsrh. á, að það verður ekki sótt afsökun í þessa embættisveitingu með tilvitnun í ljóta sögu embættisveitinganna í landinu.

Hæstv. dómsmrh. flutti hér sína aðra ræðu við þessa umræðu hér áðan, og þar minntist hann ekki á áskorun mína í minni fyrstu ræðu um það að beygja sig fyrir almenningsálitinu í þessu máli og svo fyrir hinu, að hér er eftir yfirlýsingum fulltrúa þriggja þingflokka meiri hl. Alþ., sem hefur andúð á þessari stjórnarathöfn og fordæmir hana. Ég vil biðja hæstv. dómsmrh. að beygja sig fyrir þessum meiri hluta og almenningsálitinu.