26.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2360)

161. mál, vegalög

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Með vegalögunum, sem sett voru 1963, var komið á nýrri skipan um vegamál og ákveðið, að sett skyldi áætlun um framkvæmdir á þessu sviði til fjögurra ára í senn, en þá áætlun á að endurskoða að liðnum 2 árum, frá því að hún tekur gildi. Nú er það svo, að verðbólgan á aðalþáttinn í því, að áætlanir, sem settar eru og eiga að gilda um nokkurt tímabil í senn, standast mjög illa, vegna þess að kostnaður við framkvæmdir vex stöðugt að krónutölu, eftir því sem verðbólgan eykst. Og þessi verður raunin um vegáætlunina.

Þetta frv. var sent vegamálastjóra til umsagnar, og í umsögn hans kemur það fram m.a., að tekjur vegasjóðs. eins og þær eru nú ákveðnar í vegáætlun, hrökkva skammt til þess að standa straum af kostnaði við þau verkefni, sem fram undan eru í samgöngumálum og vegalög eða vegáætlun beinlínis mæla fyrir um að unnin séu.

Hraðbrautir eru nú taldar 148 km, og þar af er aðeins búið að fullgera um 42 km, og það verk hefur verið unnið fyrir lánsfé. Áætlað er, að við þá vegi, sem koma í flokk hraðbrauta skv. vegalögum, bætist a.m.k. 200 km, þegar næsta vegáætlun verður sett. Og á næstu árum þarf að gera stórátak við brúargerðir á ýmsum stöðum og við að leggja þjóðbrautir og landsbrautir. Lán, sem þegar hafa verið tekin til vegagerða, námu um s.l. áramót 268 millj. kr., og stærsti hluti þess hefur farið til Reykjanesbrautarinnar. Vextir og afborganir þessara lána nema á þessu ári 44.3 millj. eða sem svarar 54% af því fé, sem á árinu verður varið til nýrra þjóðvega og brúargerða. Þetta sýnir glöggt, hvernig komið er og hvernig stefnir á þessu mikilvæga sviði. Í framhaldi af þessum upplýsingum tekur vegamálastjóri fram, að frv. það, sem hér er til umræðu, sé mjög tímabært og muni leysa mikið af þeim vanda, sem fjáröflun til vegaframkvæmda er ná, þar sem ætla má, að tekjur af því þegar á fyrsta ári yrðu nokkuð á annað hundrað millj. kr. Og umsögn sinni lýkur vegamálastjóri með þessum orðum :

„Með vísun til þess, sem að framan greinir, leyfi ég mér að mæla með samþykkt frv., en teldi það einnig vel viðunandi lausn málsins, ef n. sú, er að framan greinir, fyndi aðra og ekki lakari fjáröflunarleið fyrir vegasjóð í sambandi við endurskoðun á vegáætlun á hausti komanda.“

Nú er það óumdeilanlegt, að tekjur af umferðinni, sem innheimtar eru í ríkissjóð og vegasjóð, eru miklu meiri í heild heldur en það, sem vegasjóður fær og fer til samgöngumála skv. vegáætlun. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri erfitt að skilgreina nákvæmlega, hvað væru tekjur af umferðinni. Vera má, að svo sé. En það, sem við er átt, eru yfirleitt gjöld af benzíni, leyfisgjöld af bifreiðum og tolltekjur af bifreiðum og varahlutum til þeirra. Í þessu frv. er ekki seilzt inn á það svið að ætla að skipta tolltekjum af þessum vörum á milli ríkissjóðs, sem renna þá til almennra þarfa ríkisins, og vegasjóðs. Hins vegar er efni frv. um það, að til vegasjóðs renni frá og með næstu áramótum hið sérstaka leyfisgjald, sem innheimt er af innfluttum bifreiðum. Það er ótvírætt, að það er mikil þörf fyrir tekjuauka vegasjóði til handa, og það virðist vera augljóst, að eðlilegast er að mæta þeirri þörf með því, að meira af þeim tekjum, sem innheimtar eru af farartækjunum, sem fengin eru til landsins, renni til samgöngumálanna heldur en nú er. Það virðist ekki eðlilegt að vera að leita sérstaklega að einhverjum öðrum og nýjum tekjustofni til framkvæmda í samgöngumálum, hitt sé miklu eðlilegra, að reyna að mæta hinum almennu þörfum ríkissjóðs eftir öðrum leiðum.

Okkur, sem skipum minni hl. n. og höfum skilað séráliti, er það ljóst, að af samþykkt þessa frv. mundi leiða skerðingu á tekjum ríkissjóðs sem þessum ákveðna tekjustofni nemur. Hins vegar er frv. þannig úr garði gert, að þetta kemur ekki til framkvæmda á þessu ári, og fyrir næstu áramót á að vera búið að setja ný fjárlög og jafnframt að endurskoða vegáætlunina. Ef þetta frv. verður samþykkt, verður vitanlega að taka tillit til ákvæða þess, þegar þessi mál verða gerð upp í sambandi við fjárlagaafgreiðslu næsta haust. Niðurstaða okkar, sem skipum minni hl. n., er því sú, að við leggjum til, að d. samþykki frv. þetta óbreytt.