26.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (2362)

161. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hygg, að allar ríkisstj., sem hér hafa setið undanfarna áratugi, hafi að meira eða minna leyti notað til almennra ríkisþarfa verulegan hluta af því fé, sem flm. þessa frv. vilja kalla tekjur af umferðinni, og ég held, að þar hafi engin undantekning átt sér stað, þegar Framsfl. fór með fjármálastjórn ríkisins. Það má í rauninni segja, að e.t.v. skipti það ekki mestu máli, hvernig teknanna er aflað, ef það er fyrir hendi nægilegt fjármagn til þess að standa undir þeim eðlilegu vegaframkvæmdum á hverjum tíma. Og ég hygg, að því verði ekki á móti mælt, að það fé, sem varið hefur verið til vegaframkvæmda á síðustu árum, er margfalt meira að fjárhæð miðað við verðgildi heldur en það, sem áður hefur verið varið til þessara mála.

Nú er þess að gæta, þegar menn eru að leggja það niður fyrir sér, hverja tekjustofna vegasjóður þurfi á næstu árum og í hvaða vegaframkvæmdir skuli ráðizt, að þá verður auðvitað að komast að niðurstöðu um það, að hve miklu leyti þetta skuli kostað af lánsfé og að hve miklu leyti þetta skuli kostað af samtímatekjum vegasjóðs. Ég get ekki fallizt á þá skoðun, sem síðasti hv. ræðumaður hélt fram, að í sambandi við framkvæmdir ætti fyrst að afla teknanna. (HB: Þessar framkvæmdir.) Já, í sambandi við skulum segja við vegaframkvæmdir ætti fyrst að afla teknanna og síðan ætti að ákveða framkvæmdirnar með hliðsjón af þeim tekjum, sem fyrir hendi eru. Ég held, að þetta verði að haldast í hendur, og ef annað ætti að ganga fyrir, ætti að ganga fyrir að koma sér niður á það, hvaða framkvæmdir eru nauðsynlegar. Það er höfuðatriðið, að koma sér niður á það, hvaða framkvæmdir eru nauðsynlegar, og síðan verður að sjá fyrir fjármagni til þess að inna þessar framkvæmdir af höndum. En eðlilegast er, að þetta hvort tveggja haldist nokkuð í hendur. Og það eru einmitt þau vinnubrögð, sem ég tel að hæstv. samgmrh. og ríkisstj. hafi tekið upp með skipun þessarar n., sem ég gat um í minni framsöguræðu. Það er einmitt að haga því á þann hátt, að jafnhliða því, sem vegáætlunin verður endurskoðuð, þá verði fundnar leiðir til þess að afla nægilegra tekna. En það, sem m.a. er óljóst í því dæmi, er, að hve miklu leyti þær vegaframkvæmdir yrðu framkvæmdar fyrir lánsfé. Það er hlutur, sem ekki er hægt að segja um í dag. Þess vegna held ég, að það sé nú kjarni málsins, hve mikið fé á endanum fæst til ráðstöfunar til vegamála, hvort sem það er lánsfé eða bein framlög.

Ég get fallizt á það, sem hefur komið fram frá vegamálastjóra, að því eru auðvitað takmörk sett, hve skynsamlegt er að framkvæma mikið fyrir lánsfé, þótt einstakar vegaframkvæmdir séu þess eðlis, þær séu mjög dýrar og verði að gerast á stuttum tíma, að það sé eðlilegt, að þær séu framkvæmdar fyrir lánsfé og séu borgaðar niður á lengri tíma, alveg eins og t.d. jarðgöngin gegnum Stráka eða Reykjanesbrautin. En að þrátta um það, hvort þetta séu tekjur af umferðinni eða ekki, tel ég að skipti minnstu máli. Eins og ég hef áður getið um, er aðalatriðið, að það verði ráðizt í þær framkvæmdir og þau stórvirki í vegagerð, sem fram undan eru og bíða úrlausnar, og ríkisstj. og Alþ. sjái fyrir því, að fé verði fyrir hendi til þess að inna af hendi, það er aðalatriðið, en ekki deilur um það, hvaða prósentur af þeim tekjum, sem eru af umferðinni, fari beint til ríkissjóðs og hvað til vegasjóðs.