26.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2363)

161. mál, vegalög

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara að karpa neitt um þetta við hv. 4. landsk. þm. Sjónarmið beggja í þessu eru nokkuð skýr, og sannleikurinn er auðvitað sá, að það ber ekki svo mikið á milli um þetta atriði kannske, eins og í fljótu bragð! kynni að virðast. En það, sem gaf mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs á ný, var það, að mig langaði að koma á framfæri örstuttri leiðréttingu í tilefni af fyrstu setningunni, sem hv. 4. landsk. þm. sagði í ræðu sinni hér áðan. Hann sagði, að sjálfsagt mundi það hafa verið svo undanfarna áratugi og engin undantekning hjá öðrum ríkisstj., að verulegur hluti af þessum tekjum, sem kallaðar eru umferðartekjur, hefði runnið til annarra þarfa en vegaframkvæmda. Ég sé af þessu, að það hefur farið fram hjá hv. þm. að lesa mjög merka grein, sem birtist í Fjármálatíðindum eftir fyrrv. vegamálastjóra, Geir heitinn Zoëga, fyrir um það bil 10 árum, þar sem hann gerði grein fyrir því, að fram til þess tíma eða fram til líklega ársins 1954 hefðu þessar umferðartekjur, sem hann skilgreindi í þeirri grein með svipuðum hætti og við gerum enn, mjög staðizt á við útgjöld til vegamála. En á árinu 1954 varð í sambandi við að því er mig minnir togaragjald eitthvert, sem þá var lagt einmitt á bílainnflutning, röskun á þessu, og síðan hefur þetta raskazt meir ár frá ári. Þetta vil ég benda hv. þm. á, og ég vil benda honum á að lesa þessa grein, því að þótt hún sé orðin nokkuð gömul, er hún mjög merk heimild á ýmsa lund.