26.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2364)

161. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Þó að hvorki ég né hv. 6. þm. Sunnl. höfum hér við höndina neinar tölur fyrir liðin ár um framlög til vegamála og um það, sem við höfum kallað hér tekjur af umferðinni, er í raun og veru óþarft að þrátta um þetta. Það er sjálfsagt hægt með nokkurri athugun að ganga úr skugga um það. En ég skal auðvitað ekki segja um þetta langt aftur í tímann. En hvað sem líður grein fyrrv. vegamálastjóra, er það, sem skiptir ákaflega miklu máli, að vita í sambandi við það, eins og ég gat um í minni fyrstu ræðu, hvað eru tekjur af umferðinni. Hefur fyrrv. vegamálastjóri skilgreint tekjur af umferðinni á sama hátt og Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur skilgreint þær fyrir tveimur árum, sem núv. vegamálastjóri hefur algerlega mótmælt og það opinberlega? Það er þetta, sem skiptir miklu máli að vita til þess að komast að niðurstöðu í þessari deilu. En hitt er svo annað mál, að það má segja, að við höfum hér engin gögn fyrir framan okkur og við getum þá í góðu tómi rannsakað þetta síðar og kannske komizt að einhverri sameiginlegri niðurstöðu.