03.05.1966
Efri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2382)

124. mál, listamannalaun og Listasjóður

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þetta frv., sem er flutt af hv. 5. þm. Reykn., hefur verið til athugunar hjá menntmn., og eins og fram kemur í nál. á þskj. 684, hefur frv. verið sent til umsagnar stjórn Bandalags íslenzkra listamanna og Myndlistarfélaginu. Frá stjórn Bandalags íslenzkra listamanna hefur umsögn ekki enn borizt, en frá Myndlistarfélaginu hefur hins vegar borizt umsögn, sem er svo hljóðandi:

„Enda þótt nokkrar athyglisverðar tillögur séu í þessu frv., getur stjórn Myndlistarfélagsins ekki mælt með því, af þeirri ástæðu, að Myndlistarfélagið er ekki meðlimur í Bandalagi íslenzkra listamanna og yrði þar af leiðandi útilokað frá því að geta haft áhrif á val úthlutunarnefndar myndlistarlauna, ef valið væri í úthlutunarnefnd eftir frv. Gils Guðmundssonar. Við viljum í þessu sambandi geta þess, að Myndlistarfélagið hefur sótt um upptöku í Bandalag íslenzkra listamanna, en því hefur verið synjað inngöngu. Að endingu viljum við taka það fram, að við teljum, að ekki komi til mála að láta Bandalag íslenzkra listamanna hafa nein afskipti af úthlutun listamannalauna, á meðan það meinar stórum listafélögum inngöngu í bandalagið.“

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hefur verið samþ. í Sþ. ályktun um að skora í ríkisstj. að láta undirbúa fyrir næsta reglulegt Alþingi löggjöf um úthlutun listamannalauna, og menntmn. leggur til, með skírskotun til þeirrar ályktunar, að Ed. vísi frv. til ríkisstj. í trausti þess, að ríkisstj. láti frv. koma til athugunar við undirbúning löggjafar um úthlutun listamannalauna.