16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2385)

65. mál, samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum verður að skoða í samhengi við frv. til I. um bátaábyrgðarfélög, sem er 2. mál á dagskrá hv. þd. í dag og fram er lagt samhliða þessu frv. Það er tilkomið af sömu ástæðum, þ. e. vegna ályktunar á aðalfundi L.Í.Ú., sem haldinn var hér í Reykjavík 26.—28. nóv. 1964.

Þetta frv. sem og hið fyrrnefnda er samið á vegum sjútvmrn. af Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingafræðingi. Ríkisstjórninni er hins vegar kunnugt um, að einhugur var ekki um nefnda ályktun innan L.Í.Ú., og hefur það komið fram síðar, nú þegar frv. var lagt hér fram. Það þótti eigi að síður rétt, að frv. yrði flutt, og mun sú n., sem væntanlega fær frv. til meðferðar, að sjálfsögðu kanna málið frekar hjá hlutaðeigandi aðilum með því að leita umsagnar þeirra og fá fram þeirra álit.

Efnislegar breyt., sem í þessu frv. felast frá gildandi l., eru fyrst og fremst eftirfarandi:

Í gildandi l. er gert ráð fyrir 3 manna stjórn Samábyrgðarinnar, þar sem 2 eru skipaðir af ráðh., þ. á m. formaðurinn, sem jafnframt er framkvæmdastjóri, en 1 tilnefndur sameiginlega af bátaábyrgðarfélögum. Frv. gerir hins vegar ráð fyrir 5 manna stjórn, þar af 2 mönnum tilnefndum af L.Í.Ú., 2 kosnum sameiginlega af bátaábyrgðarfélögunum, oddamann skipi ráðh., og verður hann jafnframt formaður stjórnarinnar. Þá er gert ráð fyrir í frv., að starfssvið Samábyrgðarinnar verði víkkað, þannig að Samábyrgðin fái nú heimild til að taka að sér slysa og ábyrgðartryggingar, ýmist sem endurtryggjandi fyrir bátaábyrgðarfélög, sem taka slíka tryggingu að sér, eða sem frumtryggjandi, ef bátaábyrgðarfélag viðkomandi staðar eða tryggingarsvæðis tekur ekki að sér slíkar tryggingar. Ný ákvæði eru sett inn í frv., þar sem svo er kveðið á, að Samábyrgðin boði til fundar með fulltrúum bátaábyrgðarfélaganna eigi sjaldnar en á 3 ára fresti. Á fundum þessum verði kosnir 2 menn í stjórn, auk þess sem þar verði gerðar ályktanir um málefni samtakanna. Þá er gert ráð fyrir því, að núgildandi ákvæði um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Samábyrgðarinnar verði felld niður sbr. tölulið 4 í upphafi athugasemda við frv. Í brbákv. frv. er gert ráð fyrir, að þar til stjórnarmenn hafi verið kosnir á fulltrúafundi skv. 6. gr. frv., eftir að frv. þetta hefði verið samþ., þá skipi ráðh. 3 menn í stjórnina án tilnefningar, er sitji í stjórninni, meðan það millibilsástand ríkir.

Ég tel ekki þörf á að fara nánar út í útskýringar á einstökum gr. frv., svo rækilega sem þær breyt., sem í þeim felast, eru útskýrðar í ats.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.