16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (2386)

65. mál, samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Stjórnarfrv. það, sem hér liggur nú fyrir til umr., um breytingar á gildandi l. um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, mundi tákna allverulega breyt. á rekstri Samábyrgðarinnar frá því, sem verið hefur, ef frv. þetta yrði gert að lögum.

Það er enginn vafi á því, að það hefur verið um alllangan tíma þörf á því að endurskoða l. um bátaábyrgðarfélög og l. um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Þessi l. eru löngu orðin úrelt í ýmsum efnum og hæfa ekki við þær aðstæður, sem nú eru. En svipað má segja einnig um fyrirkomulag vátryggingarmála bátaútvegsins almennt. Þar hefur í rauninni í alllangan tíma ríkt hið mesta ófremdarástand, sem nokkrum sinnum hefur verið rætt um hér á hv. Alþingi. En það hefur gengið heldur seint að fá fram eðlilega endurskoðun á þessum l. og breyt. á framkvæmd vátryggingarmála bátaútvegsins.

En nú eru sem sagt lögð hér fram 2 stjfrv., sem fjalla um þessi mál, og má segja, að það sé gott út af fyrir sig. En mér sýnist, að þessi endurskoðun hafi farið fram með heldur einkennilegum hætti. Hér er um viðamikla löggjöf að ræða, sem margir aðilar í landinu eiga aðild að, en endurskoðun fer fram með þeim hætti, eftir því sem helzt er hægt að skilja á þeim frv., sem hér liggja fyrir um bátaábyrgðarfélög og um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, að einn fulltrúi í sjútvmrn. semur frv. að nýrri löggjöf í þessum efnum og aðrir virðast ekki koma þar að, eftir þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir. Mér er ekki kunnugt um, að þær mjög svo viðtæku breytingar, sem hér er stefnt að, hafi t.d. verið bornar undir bátaábyrgðarfélögin í landshlutunum. Það hefur a.m.k. ekki verið gert í þeim landshluta, þar sem ég fylgist bezt með. Þeir aðilar, sem standa að þessu tryggingarkerfi, hafa ekki verið um spurðir í sambandi við þær breytingar, sem hér er ætlað að gera. Þetta tel ég, að illa sé staðið að máli, að vinna þannig að því.

Í þessu frv. er mjög látið í það skína, að breytingarnar séu byggðar á till., sem samþykkt hafi verið á síðasta aðalfundi L.Í.Ú., og sú till., sem þar var samþ., er tilfærð. Maður gæti því haldið, að L.Í.Ú. stæði raunverulega að þessari tillagnagerð, sem hér kemur fram. En þessi frásögn er vægast sagt mjög villandi, eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. sjútvmrh. Sannleikur málsins er sá, að innan samtaka útvegsmanna er mikill ágreiningur um þetta mál. Og sú till., sem samþ. var á síðasta aðalfundi L.Í.Ú. um þessi mál, var þar samþ. eftir miklar og harðar deilur, með meiri hluta atkv. að vísu. Ég hefði talið rétt, þegar slíkt mál sem þetta er lagt fyrir Alþingi, að þá hefði verið skýrt frá þessu undanbragðalaust, þannig að Alþingi fengi að vita, að hér er um mikið ágreiningsmál að ræða hjá þeim aðilum, sem eiga hlut að máli.

Skv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, — ég ræði í rauninni um bæði þessi frv. í einu, það er varla hægt að ræða um annað frv. út af fyrir sig, eins og fram kemur í grg. fyrra frv., um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, þá stendur það í beinu sambandi við hitt frv., um bátaábyrgðarfélög, –skv. frv. er nú gert ráð fyrir því að mæla svo fyrir, að allir fiskibátar íslenzkir innan 400 rúml. stærðar skuli vera skyldutryggðirí bátaábyrgðarfélögum og hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Fram til þessa hafa þær reglur gilt, að bátar aðeins upp að 100 rúml. stærð hafa verið skyldutryggðir hjá þessum aðilum. En reynslan hefur hins vegar orðið sú, að svo að segja allir bátar, sem ekki hafa á þennan hátt verið skyldutryggðir hjá þessum aðilum, þ.e.a.s. bátar þeir, sem eru stærri en 100 rúml., þeir hafa valið sér tryggingu hjá öðrum. Þeir eru nú vátryggðir hjá öðrum félögum. Til þess hafa að sjálfsögðu legið ýmsar ástæður, að eigendur þessara báta, sem áður höfðu einmitt skipt að verulegu leyti við bátaábyrgðarfélögin og Samábyrgðina, hafa fært tryggingar sinar yfir til annarra aðila. M.a. hafa þær ástæður verið hér fyrir hendi, að það hefur verið allerfitt fyrir útvegsmenn að kaupa sér ný skip af stærri gerð. Það hefur þurft að leggja fram mikið fjármagn til að komast yfir slík skip, og þær reglur, sem hafa verið að koma frá ári til árs nú síðustu árin varðandi þessi mál, hafa allar stefnt að því að gera erfiðara og erfiðara fyrir útvegsmenn að geta keypt sér ný og vönduð skip. Nú er þessum málum þannig fyrir komið, að algengasta stærðin af síldveiðiskipum, sem nú er keypt, er í kringum 250—320 rúml. að stærð. Þessi skip kosta nú frá 12—15 millj. kr. algengast. Eins og reglurnar eru nú í dag, þarf kaupandi að leggja fram til þess að komast yfir slíkt skip á milli 4 og 5 millj. kr., aðeins í kaupverð, og alla þá fjárhæð verður kaupandinn að hafa til reiðu, áður en hann undirskrifar byggingarsamning. Hann verður að geta greitt alla þessa upphæð fyrir fram. Helminginn af þessari fjárhæð á að leggja inn á bundinn reikning í Seðlabanka Íslands og geyma þar það ár, sem stendur að byggja bátinn, en hinn helminginn á kaupandinn að geyma í sínum viðskiptabanka, og þeir, sem ekki geta ráðið við þessa fjárhæð, að leggja fram 4—5 millj. kr. í beinum peningum, hafa ekki leyfi til að skrifa undir byggingarsamning á slíku skipi sem þessu. Það er því orðið allerfitt um vik að komast yfir slík skip. Þessar hömlur, sem alltaf hafa verið að verða meiri og meiri á undanförnum árum, hafa leitt til þess, að skipaeigendur hafa leitað til allra mögulegra aðila um lánsútvegun. Og þá hafa m.a. vátryggingarfélögin hlaupið undir bagga, og þau hafa lánað flestum þeim, sem kaupa sér ný skip, allverulegar fjárhæðir til kaupa á skipunum. En auðvitað hafa svo vátryggingarfélögin bundið skipaeigendur um leið með sérstökum samningi um það, að þeir skyldu vátryggja skipin hjá sinu vátryggingarfélagi. Þannig standa því málin nú i dag, að flestir þeir stærri fiskibátar, sem keyptir hafa verið á síðustu árum og eru yfir 100 rúml. að stærð og voru sem sagt frjálsir í tryggingu, hafa verið tryggðir hjá einkatryggingarfélögunum, og skipaeigendurnir eru bundnir með tryggingar þessara skipa hjá þessum félögum um alllangan tíma. Það er því ekki auðvelt verk að setja lög í skyndi um það að færa þessar tryggingar allar yfir til bátaábyrgðarfélaganna og Samábyrgðarinnar, nema þá um leið verði gerðar allvíðtækar ráðstafanir til þess að leysa þessa aðila frá þeim lánum, sem þeir eru nú bundnir við hjá þeim vátryggingafélögum, sem þeir hafa tryggt skip sín hjá. Eins og þessi frv. liggja nú fyrir, um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og um bátaábyrgðarfélög, virðist ekki vera gert ráð fyrir því að leysa þennan vanda á neinn hátt. Aðeins er svo fyrir mælt í þessum frv., að allir þeir aðilar, sem eiga fiskiskip undir 400 rúmlestum, skuli skyldir til þess að færa tryggingar sínar yfir til Samábyrgðarinnar og bátaábyrgðarfélaganna, um leið og tryggingasamningur þeirra gengur næst úr gildi.

Ég álít, að það sé ekki hægt að standa að þessu máli á þann hátt, sem virðist vera gert samkv. frv. þessum. Það er ekki hægt að leysa þetta mál með ræðum einum. Hér þarf miklu meira til að koma. Ég álít, að það sé, eins og ég hef sagt áður, sjálfsagt að taka l. um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum til endurskoðunar og l. um bátaábyrgðarfélög, og ég held, þó að sá fulltrúi í sjútvmrn., sem samið hefur þessi frv., sem hér liggja nú fyrir, hafi gert það eflaust vel sem allkunnugur maður þessum málefnum, að það sé enn þá full þörf á því að setja nefnd manna og það kunnugra manna til þess að yfirfara þessar till. og athuga um óhjákvæmilegar breytingar á báðum þessum frv. frá því, sem þau eru nú.

En í sambandi við þessi vátryggingarmál þykir mér ástæða til þess að minnast með örfáum orðum á það, sem ég tel að skipti höfuðmáli í sambandi við þessi vandamál. Út af fyrir sig er úrelt skipulag Samábyrgðarinnar og bátaábyrgðarfélaganna stórmál og þarf að athugast, hin félagslega hlið málsins. En þó að hinni félagslegu hlið yrði breytt, þarf að gera miklu meira. Þannig hefur verið haldið á þessum málum nú í nokkuð mörg ár, að í rauninni er búið að slíta í sundur í framkvæmdinni allar eðlilegar vátryggingarreglur varðandi íslenzka fiskiskipaflotann. Allhá útflutningsgjöld hafa verið lögð á útfluttar sjávarafurðir, miklu hærri en í nokkru öðru nálægu landi, og allmikill hluti af þessum háu útflutningsgjöldum hefur verið látinn renna í einn allsherjarsjóð, sem síðan hefur verið notaður til þess að borga vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans. Á þennan hátt er hinum einstöku greinum sjávarútvegsins stórlega mismunað. Sumar greinar útvegsins eru látnar borga miklu hærra útflutningsgjald en aðrar, leggja meira til í þennan sjóð. En svo þegar kemur til greiðslnanna úr sjóðnum, er mönnum aftur mismunað. Sumir fá vátryggingar sinna skipa bættar á miklu ríflegri hátt en aðrir fá, vegna þess að vátryggingaskírteini skipanna eru mjög mismunandi. Tjón, sem einn aðili fær bætt að fullu úr þessu tryggingakerfi, fær annar aðili ekki bætt að neinu leyti eða að litlu leyti.

Það er ekki nokkur vafi á því, að hinum einstöku tegundum útgerðar er stórlega mismunað á þennan hátt. Það er verið á þennan hátt að leggja aukaskatt á suma tegund af útgerð til þess að standa undir rekstri annarra tegunda, og þetta kerfi hlýtur, sérstaklega eftir að það hefur staðið lengi, að leiða til þess, að vátryggingariðgjöldin eða kostnaðurinn af tryggingum verði óeðlilega mikill. Það er ekki hægt að koma við eðlilegu aðhaldi, þannig að hinir tryggðu verði að nokkru leyti að standa við sínar gerðir, á meðan slíkt kerfi sem þetta er í gildi. Og af því er það kannske, að við búum hér við miklum mun hærri vátryggingariðgjöld en t.d. keppinautar okkar í nálægum löndum, þó að eflaust komi þar einnig fleira til.

Það er þetta vandræðafyrirkomulag, sem þarf fyrst og fremst að leiðrétta, eins og ég hef margsinnis bent á hér á Alþ. á undanförnum árum. Hæstv. sjútvmrh. þarf að skyggnast inn í þetta vandamál, kynna sér það og gera á þessu óhjákvæmilegar breytingar. Það er eitt fyrsta atriðið, sem þarf að gera í þessum vátryggingarmálum fiskiskipaflotans. Næst þar á eftir er svo sjálfsagt vitanlega að taka fyrir hina félagslegu hlið málsins, hvernig á að koma tryggingunum fyrir á þann hátt, að þær verði sem hagkvæmastar fyrir sjávarútveginn sem heild. En ég tel, að hvort tveggja sé, að þeim till., sem hér liggja fyrir um hið félagslega form, sé mjög áfátt, það þurfi að gera á þeim allverulegar breytingar, til þess að bátaábyrgðarfélögin verði sá lifandi aðili, sem einhvers góðs er af að vænta, því að þau félög hafa langflest verið tiltölulega dauf í framkvæmdinni. Ég held líka, að það sé alveg óhjákvæmilegt að reyna að samræma betur en þarna hefur verið gert mismunandi skoðanir, sem uppi eru meðal þeirra aðila, sem eiga hér fyrst og fremst hlut að máli.

Ég tek sem sagt undir það, að það er nauðsynlegt að ganga í endurskoðun þeirra l., sem hér er hreyft við. En ég tel, að það þurfi að gera það betur en felst í þessu frv. Hitt legg ég þó á höfuðáherzlu, að tekið sé á því vandamáli, sem við hefur verið að glíma nú um langan tíma varðandi framkvæmd tryggingamálanna hjá bátaútveginum, en það fyrirkomulag tel ég löngu úrelt og í rauninni óhafandi.