16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2390)

67. mál, bátaábyrgðarfélög

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil fagna því, að bæði þessi frv. eru lögð hér fram, bæði frv. um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum sem og frv. um bátaábyrgðarfélög, en þau eru auðvitað, eins og fram hefur komið hjá sjútvmrh., náskyld.

Ég vil út af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði hér áðan, minna á það, að þó að hér sé vitnað til ákveðinnar samþykktar á aðalfundi Landssambands íslenzkra útvegsmanna haustið 1964, er aðdragandinn að undirbúningi að þessum frv. miklu lengri, og það hafa verið á undanförnum árum starfandi a.m.k. tvær nefndir, ef ekki fleiri, sem hafa verið skipaðar að tilhlutan sjútvmrh., og þær hafa hver fyrir sig samið frv. til l., bæði fyrir Samábyrgðina og fyrir bátaútgerðarfélögin, en um þessi frv. hefur aldrei náðst samkomulag í samtökum útvegsins. Hins vegar gerðist það, eins og til var vitnað, á s.l. ári, að fram kom á aðalfundi L.Í.Ú. ákveðin till., þar sem mælt er með, að skyldutryggingin verði hækkuð úr 100 rúml. í 400 rúml., og um þá till. urðu allharðar umr. á aðalfundi Landssambandsins, og eftir því sem ég man bezt, hlaut till. samþykki með 214 atkv. gegn 85.

Í frv. um Samábyrgðina er mikil breyting í sambandi við stjórn Samábyrgðarinnar frá því, sem er í gildandi l. Núna skipa stjórn Samábyrgðarinnar 3 menn og af þeim er aðeins einn kjörinn af bátaábyrgðarfélögum í landinu, en með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ráðh. skipi 3 menn í stjórn Samábyrgðarinnar og þar af tvo menn eftir tilnefningu Landssambands ísl. útvegsmanna, en tveir menn skulu kjörnir af bátaábyrgðarfélögunum. Það þýðir því, að bátaábyrgðarfélögin eiga útvegsmenn sjálfir og ráða þeim að öllu leyti, að í stjórn Samábyrgðarinnar verða samkv. þessu frv. örugglega 4 menn frá útveginum sjálfum, og á þann hátt er útveginum tryggt að hafa stjórn Samábyrgðarinnar á hendi, eins og sjálfsagt og eðlilegt er að gera.

Meginbreytingin í frv. um bátaábyrgðarfélögin er sú, að það er hækkuð skyldutryggingin úr 100 rúml. í 400 rúml., og í því sambandi vil ég leyfa mér að minna á, að þegar þessi lög voru sett, var svo að segja allur fiskiskipafloti landsmanna, að togurum undanskildum, innan við 100 rúml., og þá var svo að segja hvert einasta fiskiskip þess vegna í skyldutryggingu. Síðan hefur breyting orðíð mikil, þó sérstaklega á síðustu árum, á þann veg, að yfirleitt öll ný skip, sem byggð eru eða keypt eru til landsins, eru yfir þetta stærðarmark, þannig að þau eru í frjálsri tryggingu. En það þýðir það, að sá floti, sem er tryggður innan ramma Samábyrgðarinnar og bátaábyrgðarfélaganna, verður með hverju árinu sem líður eldri og úreltari og oft og tíðum með miklu lakari tjónareynslu en nýju skipin, sem eru að bætast við.

Mín persónulega skoðun á þessu máli er sú, að það sé um tvær leiðir að velja. Önnur leiðin er sú að leggja Samábyrgðina niður og þá bátaábyrgðarfélögin öllsömun og gefa alla tryggingu fiskiskipa frjálsa eða hækka skyldutrygginguna þannig, að í skyldutryggingu eigi ekki að vera aðeins minni hluti flotans og minnstu skipin og elztu og með lökustu tjónareynslu. Ég tel, að það sé mjög eðlilegt, að það sé reynt að hafa tryggingarnar sem mest úti um byggðir landsins, og þess vegna er það, að bátaábyrgðarfélögin hafa sinn hluta af tryggingunum, og ég er þeirrar skoðunar, að það sé rétt að fara inn á þessa braut, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, og á þann hátt að efla bátaábyrgðarfélögin úti um landið innan ramma Samábyrgðarinnar, eins og hér er lagt til að gert sé.

Hv. 5. þm. Austf. minntist á, að það væri mikið misræmi í tryggingum og það væru ákveðnar tegundir skipa, sem væru að greiða iðgjöldin fyrir aðrar tegundir skipa. Að vissu leyti má segja, að þetta sé rétt. Vátryggingarstarfsemi er samhjálp, og það auðvitað fer aldrei svo, að hver geti fengið sitt út úr henni, heldur eru vátryggingafélögin stofnuð til þess að bæta þeim, sem verða fyrir tjónum. Og ég vil minna þennan hv. þm. á það, að þetta fyrirkomulag um vátryggingagjöldin er í stærstu og veigamestu atriðum það sama og hefur verið fjöldamörg undanfarin ár. Þegar hann var sjútvmrh., var greitt úr útflutningssjóði til greiðslu iðgjalda. Þá var miðað við fullar bætur til báts fyrir tryggingariðgjald, ef úthaldstími hans hafði verið 270 dagar á ári. Þetta fyrirkomulag er enn þá óbreytt. Hins vegar má segja, að matsreglur stóru skipanna hafi engar verið þangað til í raun og veru nú síðustu tvö árin, en aftur bátar innan ramma bátaábyrgðarfélaganna, innan ramma Samábyrgðarinnar, hafi verið háðir matsreglu. Og það má einnig segja, að þau skip hafi ekki fengið nema 90% tjónbætur. En þar var komið til móts við frá hendi þess opinbera, því að það var tekið tillit til þess, að mig minnir árið 1961, þannig að það er greitt úr fiskiskipatryggingakerfinu ca. 10% tjón, að undanskildum 2500 kr.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að þessa hluti þarf að athuga nánar. En það má segja, að það sé búið að láta þessi vátryggingamál liggja í láginni í langan tíma, og meira að segja hefði verið fullkomin þörf á því, þegar hann var sjútvmrh., að gerbreyta þessum l. (Gripið fram í.) Það er ágætt að heyra vel, þegar menn eru ekki í ráðherrastólum, en illa, þegar þeir eru ráðh. En við skulum ekki vera að deila um það. Þetta er liðin tíð, og nú er komið að því að endurskoða þessi mál.

Þessu frv. bæði og þó sérstaklega frv. um bátaábyrgðarfélög þarfnast mjög vandlegrar íhugunar hér á hv. Alþ., og það er ekki rétt að hlaupa til í miklum flýti að afgreiða þetta mál, því að það þarf sannarlega að fara yfir það mjög vandlega og leita álits sérfróðra manna um mörg atriði í þessu frv.

Ég ætla ekki á þessu stigi að gera einstakar greinar frv. að umræðuefni, en mér er það alveg ljóst, að ef þetta frv. um bátaábyrgðarfélögin nær fram að ganga, stöndum við frammi fyrir miklum erfiðleikum í sambandi við vátryggingu hinna stærri skipa, því að við vitum, að hin frjálsu vátryggingafélög í landinu hafa lánað velflestum eigendum þessara skipa til kaupa á þeim á sínum tíma, og það eru miklar fjárfúlgur, sem vátryggingafélögin eiga þar inni. Það er auðvitað ekkert réttlæti í því að rifa þessi skip þannig úr tryggingu, að það sé ekki gengið sómasamlega frá þeim málum, og það atriði út af fyrir sig þarfnast mjög nákvæms undirbúnings. Tryggingaskilmálarnir eru nú teknir út úr l. og eiga að ákveðast með reglugerð, og það er einnig mikið vandamál að ákveða þá. Tel ég, að ef frv. þetta verður að l., beri fyrst og fremst bátaábyrgðarfélögunum og Samábyrgðinni að láta þau vátryggingafélög njóta viðskipta í sambandi við endurtryggingu skipa eftir því, hvaða viðskipti þau hafa haft við skipin á undanförnum árum. Þessi mál verður að taka mjög til athugunar, og ég lýsi yfir stuðningi mínum við, að það er rétt að taka út úr l. vátryggingarskilmálana, og það er líka brýn nauðsyn á því, að vátryggingarskilmálarnir verði mjög breytilegir eftir aldri og stærð skipa og miðað þá að verulegu leyti við tjónareynslu, en ekki eins og nú er í ákvæðunum hjá bátaábyrgðarfélögunum og Samábyrgðinni, að hafa föst og ákveðin iðgjöld. Þar er ég miklu frekar inni á því sjónarmiði, sem hefur verið gildandi hjá hinum frjálsu vátryggingafélögum.

Ég vænti þess, að hv. sjútvn. taki þessi frv. til mjög vandlegrar afgreiðslu, og ég vona, að þm. almennt taki þessum frv. vel og sýni þessum málum skilning, því að hér þarf að brjóta blað, því að bátaábyrgðarfélögin og Samábyrgð Íslands hafa orðið í fjöldamörg undanfarin ár að starfa eftir gersamlega úreltum l., sem hafa ekki gert þeim kleift að geta háð sína samkeppni við frjálsu tryggingafélögin nú í mörg ár.