16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

67. mál, bátaábyrgðarfélög

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Margir bátar, eins og stærri Svíþjóðarbátarnir, voru komnir til landsins löngu áður en Lúðvík Jósefsson varð sjútvmrh., og það breytir í engu þeirri staðreynd, sem ég sagði hér áðan. Hvort sem þessir bátar voru fleiri eða færri á þessum árum, var misræmið þá eins og nú á milli bátanna, sem voru yfir 100 rúml., og þeirra, sem voru undir 100 rúml. Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þm., að það eru auðvitað margfalt fleiri bátar nú, sem eru yfir 100 rúml., og því auðvitað alveg rétt, að það er enn meira nú á síðustu árum knýjandi nauðsyn að gera þessa breytingu, sem hér er verið að gera. Og það er sömuleiðis rétt hjá hv. þm., að tryggingaskilmálarnir hafa ekki verið þeir sömu hjá öllum stærðum skipa.

Það, sem ég kom hér inn á áðan í sambandi við tryggingaskilmála, hafði ég alveg innan ramma fiskibátanna, sem þetta frv. á að ná til, en átti þar ekki á nokkurn hátt við togarana og ræddi þá ekki á einn eða annan veg, því að þeir koma til með að standa utan við þessi tryggingamál samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir. En með þessu frv. er stefnt að þeirri breytingu að samræma vátryggingaskilmála við allar stærðir fiskiskipa, allt að 400 rúml., og ég tel, að það sé miklu léttara í vöfum að taka það út úr l. og hafa það heldur í reglugerð, því að slíkum skilmálum þarf eðlilega oft að breyta, og það væri mjög æskilegt, að sjútvn. kynnti sér mjög vel og ýtarlega vátryggingaskilmála, bæði innan Samábyrgðar og sömuleiðis hjá frjálsu vátryggingafélögunum, og það liggi á einhvern hátt fyrir einhver heildarmynd af viljayfirlýsingu Alþ. um vátryggingaskilmála, því, að samkv. l. og bráðabirgðaákvæðum þeirra er það algerlega sett í hendur sjútvmrh., og þá má gjarnan taka þar eitthvað inn í þau bráðabirgðaákvæði, að vátryggingaskilmálar séu auðvitað settir af stjórn Samábyrgðar Íslands, þeirri væntanlegu stjórn, sem verður í höndum útvegsmanna sjálfra, eins og ég gat um hér áðan, þegar ég ræddi þetta mál.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál hér við 1. umr., en endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég vænti þess, að þetta mál fái mjög góða athugun í sjútvn. og þar verði til kallaðir menn til þess að leysa þetta mikla vandamál, sem hefði verið nauðsynlegt að vera búið að leysa fyrir löngu.