14.03.1966
Neðri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

141. mál, lax- og silungsveiði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Eitt atriði í þessu frv. vil ég minnast á þegar við 1. umr. 4. gr. frv. gerir ráð fyrir breyt. á 15. gr. l. um lax- og silungsveiði, þ.e.a.s. á 1. málsgr. 2. töluliðar 15. gr. Ég hygg, að þarna sé raunar um prentvillu að ræða, ég held, að þetta eigi að vera 1. málsl. 2. töluliðar 15. gr., en ekki málsgr. En í þessum 1. málslið lagagreinarinnar, þ.e.a.s. 2. töluliðs lagagr., segir nú í lögunum, með leyfi hæstv. forseta:

„Eigi má leggja silunganet né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns en 500 metra, enda gangi lax í það vatn.“

Þetta á að orða svo skv. því, sem segir í frv.: „Eigi má leggja net né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns en 1000 metra, ef meðalvatnsmagn ár er innan við 100 m3 á sek., en 2000 m., sé vatnsmagnið meira.“

Mér sýnist, að verði þessi breyting gerð, sé þarna verið að taka eignarnámi rétt manna, sem eiga lönd að sjó, til þess að nota möguleika til veiði fyrir sínu landi á þessu svæði, sem er frá 600 m og allt upp í 2000 m fjarlægð frá ósi straumvatns. En hins vegar sé ég ekki í þessu frv. neitt um það, hvernig eigi að bæta þessum mönnum upptöku þessara réttinda, sem þeir nú hafa til að veiða í sjó fyrir sínu landi. Og ég vildi gjarnan óska nánari skýringa á þessu. Ég hef ekki séð í frv. neitt um þetta. Vera má, að til þess sé ætlazt, að þarna komi til ákvæði núgildandi l. í 107. gr. þeirra um matsgerðir og skaðabætur, en mér sýnist þó ýmislegt óljóst þar og vafasamt, hvort það getur átt við í þessu tilfelli. Í 107. gr. er rætt um bæði undirmat og yfirmat í sömu gr. og aftarlega í henni segir, að matsmenn ákveði kostnað af mati og skiptingu hans á aðila. Mér er ekki ljóst við lestur þessarar greinar, hvort meiningin er skv. henni að skipta kostnaði við matið, þ.e.a.s. bæði undirmat og yfirmat, en í lögum um framkvæmd eignarnáms held ég, að þetta sé þannig, að sá, sem eignarnám er framkvæmt hjá, þurfi ekki að bera neinn kostnað af undirmati, en í vissum tilfellum getur hann þurft að greiða kostnað við yfirmat. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Sá, sem krefst yfirmats, greiðir matskostnað, nema matinu sé breytt honum í vil um 10% eða meira, þá skal hinn aðilinn greiða kostnaðinn.“ En skv. þessu mun sá, sem eignarnám er framkvæmt hjá, ekki þurfa að greiða kostnað við undirmat. Mér er hins vegar ekki ljóst, hvernig þetta er í laxveiðilöggjöfinni, hvernig ber að skilja ákvæði 107. gr. hennar um þetta. En þó að þetta sé ekki nefnt eignarnám í laxveiðilögunum eða frv., sem hér liggur fyrir, er þarna vitanlega um eignarnám að ræða, og það er skylt að bæta mönnum fyrir þau réttindi, sem þeir þarna missa.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, gjarnan óska eftir frekari skýringum á því, hvernig með þetta eigi að fara, og a.m.k. skora á hæstv. landbn. að taka þetta atriði sérstaklega til athugunar og ganga þannig frá því, að þeir menn, sem þarna eru sviptir rétti til að veiða fyrir sínu landi, fái fullar bætur fyrir og það án þess að þurfa að greiða kostnað við að ná rétti sínum í því efni.