18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (2404)

27. mál, bygging skólamannvirkja

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mannvirkjagerð á Íslandi tekur yfirleitt of langan tíma. Á þetta bæði við um opinberar framkvæmdir og framkvæmdir einkaaðila. Fyrir þessar sakir verða framkvæmdirnar allar yfirleitt dýrari en nauðsynlegt og eðlilegt er, ekki aðeins vegna þess, að hér hefur um áratuga skeið ríkt verðbólga,. sem gert hefur allan framkvæmdakostnað þeim mun meiri, sem lengri tími líður frá upphafi verks til loka þess, heldur einnig vegna hins, að vaxtakostnaðurinn leggst þyngra á framkvæmdaféð, eftir því sem framkvæmdatíminn er lengri, jafnvel þótt verðlag haldist stöðugt.

Ýmislegt hefur valdið því, að mannvirkjagerð hefur tekið lengri tíma hér á Íslandi en oft á sér stað í öðrum löndum. Meginástæðan er eflaust sú, að um áratuga skeið hefur framkvæmdahugur verið meiri og framkvæmdaáætlanir stærri en svarað hefur til þess fjármagns og til þess vinnuafls, sem fyrir hendi var til framkvæmdanna. Hinn mikli framkvæmdahugur og hinar stóru framkvæmdaáætlanir hafa á hinn bóginn eflaust staðið í sambandi við það, að stöðug verðbólga hefur haft í för með sér hækkandi framkvæmdakostnað frá ári til árs og menn þess vegna gjarnan keppzt við að hrinda fyrirætlunum sínum sem fyrst í framkvæmd. Hver aðili um sig hefur reynt að ýta sínu áhugamáli og sinni framkvæmd áfram, þótt heildarniðurstaðan hafi orðið sú, að yfirleitt hafi allar framkvæmdirnar dregizt meira á langinn en raun hefði orðið á, ef tilteknar framkvæmdir hefðu verið látnar ganga fyrir og þeim hraðað, en látíð bíða að hefja hinar, þangað til hægt væri að ljúka þeim með fullum hraða.

En ástæða þess, hversu framkvæmdatími hefur yfirleitt verið langur við íslenzka mannvirkjagerð, hefur ekki einungis verið skortur á fjármagni og vinnuafli miðað við framkvæmdaáætlanir, heldur einnig oft og einatt ónógur undirbúningur og ófullkomin áætlanagerð við undirbúning framkvæmdanna. Allir, sem kunnugir eru íslenzkum skólabyggingum, hafa um langt skeið gert sér ljóst, að byggingartími skólanna hefur yfirleitt verið of langur. Fé það, sem veitt er til skólabygginga, bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga, hefði á undanförnum áratugum áreiðanlega nýtzt mun betur, ef unnið hefði verið að færri skólabyggingum í einu en átt hefur sér stað, en þeim hins vegar hraðað þeim mun meir.

Svo sem kunnugt er, gera gildandi lög um greiðslu skólakostnaðar ráð fyrir því, að ríkisframlag til þeirra skóla, sem byggðir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, sé greitt á 5 árum. Á sínum tíma var þessi lagasetning mikil framför frá því, sem áður hafði verið, en þá giltu engin ákvæði um það, á hversu löngum tíma ríkið skyldi greiða lögboðna hlutdeild sína í sameiginlegum skólabyggingum. Hins vegar er augljóst mál, að 5 ár eru of langur byggingartími á skóla og fæst sveitarfélög hafa efni á því að leggja fram svo mikið fé, að byggingartíminn geti stytzt verulega. Af ýmsum ástæðum hafa sveitarfélögin þó viljað hefja skólabyggingarnar þegar í stað og fyrsta fjárveiting er fengin, jafnvel þótt augljóst megi telja, að bygging muni taka a.m.k. 5 ár. Veldur þar venjulega mestu ótti um verðrýrnun peninganna. Er jafnvel mjög fast á það sótt að fá byrjunarfjárveitingar til skólabygginga, þótt þær séu mjög litlar og langt undir 1/5 hluta heildarkostnaðar, beinlínis til þess að lagaskilyrðum sé fullnægt til þess að hægt sé að biðja um leyfi til þess að hefja framkvæmdina. En skólakostnaðarl. gera ráð fyrir því, að bygging skóla sé ekki hafin fyrr en fé til hans hefur verið veitt á fjárl. Hér er að mörgu leyti um mjög óhagkvæma skipun að ræða. Ég teldi æskilegra, að Alþ. veitti hverju sinni fé til byggingar færri skóla en nú á sér stað, en hins vegar meira fé til hvers og eins, þannig að meðaltími skólabygginganna gæti stytzt mjög verulega frá því, sem nú á sér stað. Við ýmsa örðugleika er þó að etja í þessu sambandi, og þarf ég ekki að ræða þá nánar hér.

Í menntmrn. og Efnahagsstofnuninni hefur hins vegar um alllangt skeið verið að því unnið að kanna skólabyggingaþörfina og undirbúa samningu framkvæmdaáætlunar um skólabyggingar í landinu fyrir nokkur ár fram í tímann. Yrði þá tilgangur slíkrar áætlunargerðar að láta þær skólabyggingar ganga fyrir, sem mest þörf er talin á, og stuðla að því, að það fé, sem varið er til skólabygginga, skili sem mestu fullgerðu skólahúsnæði á ári hverju á þann hátt, að meðalbyggingartími skólanna sé styttur verulega frá því, sem nú á sér stað. Hef ég hug á því, að í framtíðinni geti fylgt fjárlagafrv. till. um framkvæmdaáætlun fyrir skólabyggingar á næsta ári og jafnframt frumdrög að framkvæmdaáætlunum fyrir nokkur næstu ár, þannig að ljóst verði, hvenær til greina gæti komið að byggja þá skóla, sem ekki er gerð till. um á næsta fjárhagsári.

Margvíslega undirbúningsvinnu er búið að vinna í þessu sambandi. Sjálf skólakostnaðarlögin eru og í endurskoðun og mun henni ljúka nú á þessu ári. Jafnframt eru í undirbúningi ráðstafanir til þess að koma fastari skipan á greiðslu ríkisframlags til sameiginlegra skólabygginga ríkis og sveitarfélaga og á allar byggingarframkvæmdir við ríkisskólana, m.a. með því að undirbúa verkið miklu rækilegar en gert hefur verið og styðjast við útboð í stórauknum mæli. Munu þessi mál koma til kasta þessa þings.

Á fjárl. fyrir yfirstandandi ár voru veittar 139 millj. kr. til skólabygginga á vegum menntmrn. Svo sem kunnugt er, var sett í fjárl. ákvæði um heimild fyrir ríkisstj. til þess að lækka fjárveitingar til opinberra framkvæmda um 20%. Ríkisstj. ákvað síðar að nota þessa heimild að því er snertir allar opinberar framkvæmdir, þ.á.m. skólabyggingar. Upphæð sú, sem menntmrn. hafði þess vegna til ráðstöfunar til skólabygginga, lækkaði þannig úr 139 millj. kr. í 111 1/2 millj. kr. Ríkisstj. taldi það einsætt mál, að ekki bæri að framkvæma lækkun skólabyggingafjárins með þeim hætti, að fjárveiting til hvers einstaks skóla lækkaði um 20% Þannig gat staðið á, að fjárveiting til ákveðins skóla nægði einmitt til þess að ljúka byggingu hans eða tiltekins áfanga byggingarinnar, þannig að lækkun fjárveitingarinnar um 20% ylli því, að byggingu eða áfanga yrði ekki lokið og skólahúsnæði, sem brýn þörf væri fyrir, yrði því ekki til ráðstöfunar. Á hinn bóginn gæti einnig staðið þannig á, að fjárveiting til tiltekins skóla væri svo lítil, að hún dygði hvort eð er ekki til þess að miða skólabyggingunni verulega áfram, og jafnvel alls ekki tilætlun af hálfu sveitarfélags að óska eftir notkun fjárveitingarinnar. Virtist því augljóst, að mjög æskilegt væri, að hægt væri að greiða fulla fjárveitingu til sumra skólabygginga og jafnvel meira en fjárveitingunni nam, en fresta alveg greiðslu fjárveitingarinnar til annarra skólabygginga, sem annaðhvort mundu hvort eð er ekki nota hana til framkvæmda eða framkvæmdin gæti að skaðlausu beðið, þar eð hún lyki hvort eð er ekki við nothæft skólahúsnæði.

Menntmrn. hefur hins vegar ekki almenna heimild til þess að halda fjárveitingum fyrir þeim aðilum, sem féð er veitt, hvað þá að greiða meira fé til aðilanna en fjárveitingar segja til um. Ef hægt átti að vera að hafa framkvæmdina þá, sem ég lýsti áðan og augljós rök lágu til að skynsamlegast og haganlegast væri, varð menntmrn. að fá til þess sérstaka lagaheimild. Þess vegna voru 28. maí s.l. gefin út þau brbl., sem hér hafa verið lögð fyrir Alþ. til staðfestingar. Efni þeirra er, að ríkisstj. sé heimilað að fresta greiðslu fjárveitinga að einhverju eða öllu leyti til byggingar þeirra skólamannvirkja, sem fyrirsjáanlegt væri um, að hvorki væri hægt að ljúka að fullu né að nothæfum áfanga með þeim fjárveitingum Alþ., sem fyrir væru, og framlögum sveitarfélaga. Skyldu þá slíkar fjárveitingar geymdar í ríkissjóði, en jafnframt heimilað að veita lán af þeim til að hraða byggingu þeirra skólamannvirkja, sem unnið er að, til þess að þeim yrði lokið sem fyrst.

Ég skal nú gera grein fyrir því í aðalatriðum, hvernig framkvæmdin hefur orðið á grundveili þessara brbl. Það kom nú að góðu haldi, að unnið hafði verið að undirbúningi framkvæmdaáætlunar skólabygginga í landinu. Þegar að lokinni samþykkt fjárl. var samin framkvæmdaáætlun um skólabyggingar á árinu 1965. Að því er snertir barna- og gagnfræðaskóla utan Reykjavíkur voru í framkvæmdaáætlunina teknar allar byggingar, sem voru að einhverju leyti í notkun um s.l. áramót, og enn fremur þær, sem verulega hafði verið unnið að á árinu 1964. Einnig voru taldar með allmargar byggingar, sem í reynd voru fullgerðar 1964, en greiðslu ríkisframlags til þeirra ekki lokið. Að því er snertir barna- og gagnfræðaskóla í Reykjavík varð framkvæmdin sú, að heildarfjárveitingin var lækkuð um 20% og Reykjavíkurborg fengin hin lækkaða fjárveiting til ráðstöfunar í heild til framkvæmda við þær skólabyggingar, sem borgaryfirvöld töldu nauðsynlegt að hraða. Að því er snertir framlög til iðnskóla voru þau lækkuð í heild um 20%, en sömu meginreglu fylgt og varðandi barna- og gagnfræðaskóla utan Reykjavíkur. Framlög til ríkisskólanna lækkuðu um 20%. Með því að taka á framkvæmdaáætlun ársins aðeins þær barna og gagnfræðaskólabyggingar utan Reykjavíkur, sem ég gat um áðan, var hægt að greiða til þeirra framkvæmda alla fjárveitingu fjárl. og í sumum tilfellum, þar sem sérstök þörf var fyrir hendi, meira að segja hærri fjárhæð. Ber sérstaklega að nefna í því sambandi, að til byggingar hins nýja heimavistarskóla við Kolviðarneslaug, Laugagerðisskóla, hafa verið greiddar 2 millj. kr. umfram fulla fjárveitingu ársins, enda bar sérstaka nauðsyn til þess að ljúka þeirri skólabyggingu.

Þær fjárveitingar, sem ekki hafa verið greiddar og skoðast því sem geymt fé þeirra skólabygginga, sem hlut eiga að máli, nema um 12 millj. kr. Hefur þetta fé verið greitt til annarra skólabygginga til þess að koma þeim fyrr í gagnið og mun verða endurgreitt af fjárveitingu til þessara skóla á næsta ári.

Heildarniðurstöðutala framkvæmdaáætlunar skólabygginganna fyrir árið 1965 var 170.9 millj. kr. Þar af voru framkvæmdir við barna- og gagnfræðaskóla utan Reykjavíkur 97.7 millj. kr., við barna- og gagnfræðaskóla í Reykjavík 43.5 millj. kr., við iðnskóla 8.4 millj., við ýmsa ríkisskóla 17.3 millj. og ýmsar minni háttar fjárveitingar til skólastjórabústaða og skólabíla o. fl. 4 millj. kr. Fé til þessara framkvæmda var áætlað að fengist þannig, að 111.5 millj. kæmu úr ríkissjóði, en það var fjárveiting fjárl. lækkuð um 20%, 13.8 millj. voru geymt skólabyggingafé nettó og 44.7 millj. framlög sveitarfélaga. Lækkaðar fjárveitingar til barna- og gagnfræðaskóla utan Reykjavíkur, sem teknar voru á framkvæmdaáætlunina, námu 58.9 millj. kr., geymt fé 6.5 millj. kr. og framlög sveitarfélaga 20 millj. kr., eða samtals 85.4 millj, kr. Samkv. framkvæmdaáætluninni fengu þessar framkvæmdir 12.3 millj. kr. í viðbót eða samtals 97.7 millj. kr. í því skyni, að þeim yrði ýmist fulllokið eða nothæfum áfanga lokið eða miðað verulega áfram. Í framkvæmdaáætlunina voru einnig teknar framkvæmdir og skuldagreiðslur við eftirtalda ríkisskóla, sem ríkið byggir eitt: Menntaskólann í Reykjavik, Menntaskólann að Laugarvatni, Tækniskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Hjúkrunarskóla Íslands. Fjárveiting til þessara skóla á fjárl. þessa árs nam 17.3 millj. kr. að frádregnum 20%. Til framkvæmda við Menntaskólann í Reykjavík verður hins vegar varið mun meira fé f ár en fjárveitingunni svarar til hans, 3.2 millj., og er hér um að ræða lánsfé innan ramma framkvæmdaáætlunar ríkisstj.

Ég skal nú lesa skrá yfir þá skóla, sem teknir voru á framkvæmdaáætlunina fyrir þetta ár og unnið hefur verið að í samræmi við það. Ég les fyrst skrá um barnaskóla utan Reykjavíkur, sem voru sem næst fullgerðir í árslok 1964 eða unnið var við 1964: Höfn, Hornafirði, Mosfellsskóli, Reykhólaskóli, Húsavík, Patreksfjörður, Laugaland í Holtum, Laugaland, Þelamörk, Keldunesskóli, Varmá í Mosfellssveit, Þorlákshöfn, Bárðardalur, Grafarnes, Hvammstangi, Siglufjörður, Eiðar, Suður-Múlasýslu, Mývatnssveit, 1. áfangi, Ólafsvík, 2. áfangi, Laugar, Dalasýslu, Flateyri, Akureyri, Oddeyri, 2, áfangi, Stöðvarfjörður, Laugardalur, Árnessýslu, Öxarfjörður, Öngulsstaðaskólahverfi, sundlaug, Bolungarvík, Öldutún, Hafnarfirði, 2. áfangi, Garðaskólahverfi, 2. áfangi, Akranes, 2. áfangi, Borgarnes, 2. áfangi, Kópavogur, Digranes, Egilsstaðir, Nes, AusturSkaftafellssýslu, Leirá, Borgarfirði, Tálknafjörður, Bíldudalur, Grímsey, Kolviðarnes, Hallormsstaður, Hafnarfjörður, íþróttahús, Ísafjörður, Raufarhöfn, Vopnafjörður, Reykir, Austur-Húnavatnssýslu, Flúðir, Árnessýslu, Ólafsvík, íþróttahús, Hvamms- og Reykhólahverfi, Seltjarnarnes, 2. áfangi, Dalvík, íþróttahús, Kársnes, Mývatnssveit, Varmaland og Rauðisandur.

Þá les ég skrá yfir þá gagnfræða- og héraðsskóla utan Reykjavíkur, sem voru sem næst fullgerðir eða unnið var við árið 1964: Siglufjörður, Héraðsskólinn að Reykjum, Hrútafirði, Neskaupstaður, Keflavík, Laugarvatn, héraðsskóli, miðskóli, Stykkishólmur, heimavist, Kópavogur, Reykjanes, héraðsskóli, 1. áfangi, Laugar, héraðsskóli, 2. áfangi, gagnfræðaskóli, Akureyri, gagnfræðaskóli, Selfossi, 1. áfangi, Héraðsskólinn Núpi, Héraðsskólinn Reykjum, 2. áfangi, Héraðsskólinn Reykjanesi, 2. áfangi, Héraðsskólinn Reykholti, 2. áfangi, Héraðsskólinn Skógum, 2. áfangi, og Héraðsskólinn Eiðum.

Þá les ég skrá um þá skóla, sem fé er veitt til á fjárl. þessa árs, en ekki voru teknir á framkvæmdaáætlunina fyrir þetta ár. Fyrst koma barnaskólar, sem fyrsta fjárveiting til var tekin á árinu 1965: Kleppjárnsreykir, 2. áfangi, Eskifjörður, íþróttahús og sundlaug, Blönduós, Klúka í Bjarnarfirði, Silfurtún, íþróttahús, Kópavogur, sundlaug, 1. áfangi, Stykkishólmur, Laugar, Dalasýslu, sundlaug, Borgarfjörður eystri, Keflavík, Vík í Mýrdal, Reykhólar, Barðastrandarsýslu, sundlaug, Norðfjarðarhreppur, Háls- og Ljósavatnshreppur, Sandgerði, leikfimishús og skólastofur, Skeiðaskóli, Árnessýslu, Akureyri, íþróttahús, og barnaskóli Kópavogs, smíðastofa.

Þá koma hér gagnfræðaskólar, sem fengu fyrstu fjárveitingu þessa árs fjárl.: Verknámshús, Kópavogi, Héraðsskólinn Laugum, 2. áfangi, Reykir, Hrútafirði, leikfimishús, Gagnfræðaskólinn í Keflavík, Gagnfræðaskólinn í Húsavík, Gagnfræðaskólinn á Sauðárkróki og fimleikahús Reykholti.

Þá les ég hér skrá yfir skóla, sem teknir voru á fjárlög 1964 eða fyrr og ekki voru teknir á framkvæmdaáætlun þessa árs: Barnaskólar: Aðaldalur, Hveragerði, íþróttahús, Kirkjubæjarklaustur, heimavist, Akranes, íþróttahús, Svarfaðardalur, Hraungerðisskólahverfi, Neskaupstaður, íþróttahús, Þorlákshöfn, 2. áfangi, Árskógsströnd, Eyjafirði, Reykjadalur, Suður-Þingeyjarsýslu, Hellissandur, íþróttahús, Skagaströnd, Ytri-Njarðvík og Stykkishólmur, sundlaug og íþróttahús. Aðrir skólar, sem fjárveitingar voru til og ekki voru teknir á framkvæmdaáætlun, eru tveir iðnskólar, í Hafnarfirði og á Akureyri.

Um mjög margar þessara skólaframkvæmda er það að segja, að fyrirætlanir voru alls ekki um að efna til neinna framkvæmda, þar eð fé, sem fyrir hendi var, er augljóslega of lítið til þess, að skynsamlegt væri að ráðstafa því. Um allar þessar framkvæmdir gildir það, að fjárveitingar þær, sem fyrir hendi voru til þeirra frá ríki og heimaaðilum, nægðu engan veginn til þess að hrinda neinum nothæfum áfanga í framkvæmd, þannig að ekkert hefði aukizt við nothæft skólahúsnæði á árinu, þótt öllum þessum aðilum hefðu verið greiddar fjárveitingar samkv. fjárl. til framkvæmdanna. Ég tel því hafið yfir allan efa, að brbl. og sú framkvæmd þeirra, sem viðhöfð hefur verið og ég hef gert grein fyrir, hafi stuðlað að því, að ýmsum skólabyggingum ljúki nú á þessu ári, sem ella hefði ekki lokið, og þeim skólabyggingum hafi miðað áfram, sem mest þörf er fyrir. Og ég fullyrði, að engin skólabygging hafi misst af fé, sem hægt hefði verið að nota til þess að fullgera skólahúsnæði. Ég tel það hafið yfir allan efa, að með aðstoð brbl. og þeirra framkvæmda, sem byggðar hafa verið á grundvelli þeirra, hafi það skólabyggingarfé, sem menntmrn. hafði til ráðstöfunar á árinu 1965, notazt eins haganlega og skynsamlega og unnt var og í öllu falli mun betur en hefði framkvæmdin orðið sú að lækka allar einstakar fjárveitingar til skólabygginga hlutfallslega um 20%.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. Ég mun að sjálfsögðu með ánægju láta hv. n. í té nákvæma skýrslu um þau atriði, sem ég hef gert grein fyrir í ræðu minni, og aðrar þær upplýsingar, sem hún kann að óska eftir um framkvæmd brbl.