18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2415)

189. mál, skipstjórnarmenn á íslenskum skipum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er samið af n., sem fyrrv. hæstv. sjútvmrh. skipaði 5. ágúst 1965. Eins og í grg. segir, áttu sæti í þessari n. Kristinn Gunnarsson fulltrúi, sem var form. n., Gunnar I. Hafsteinsson fulltrúi, Guðmundur H. Oddsson skipstjóri, Hjörtur Magnússon fulltrúi og Jónas Sigurðsson skólastjóri stýrimannaskólans.

Skv. þessu lagafrv., sem er í nánum tengslum við það frv., sem er nú til meðferðar hjá hv. sjútvn. um atvinnuréttindi vélstjóra, eru höfuðatriði þessi:

1) Kröfur, sbr. h-lið 2. gr. núgildandi l., um að vera talinn fullgildur háseti á verzlunar- og varðskipi, sem áður voru gerðar í l. um þetta efni, eru felldar niður.

2) Núgildandi ákvæði laga um skipstjórnarréttindi á allt að 120 rúmlesta skipum eru felld inn í frv. til samræmis við frv. til l. um breyt. á l. um stýrimannaskólann í Reykjavík og væntanlega reglugerð þar um.

3) Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna á fiskiskipum af ótakmarkaðri stærð og á verzlunarskipum allt að 400 rúmlestum verði eitt og bið sama.

4) Nýmæli er það í frv. þessu, að þeir, sem lokið hafa prófi úr 2. bekk farmannadeildar stýrimannaskólans, hljóti undirstýrimannsréttindi takmarkaðan tíma.

5) Siglingatími til að hljóta stýrimannsskírteini er skv. frv. þessu styttur nokkuð og ekki bundinn við utanlandssiglingar, eins og áður var á verzlunarskipum. Þá er aldursmark til að taka gildan siglingatíma nú miðað við 15 ár í 16 ár áður. Aldursmark til að vera stýrimaður á fiskiskipi er miðað við 18 og 19 ár.

6) Í frv. þessu eru sett sérstök skilyrði um skipstjórapróf á varðskipum ríkisins.

7) Skilyrði til að hafa stýrimenn á fiskiskipi, sem ætlað er að leggja afla sinn á land daglega, er miðað við 60 rúmlesta skip í stað 30 rúmlesta áður.

Að öðru leyti skýra einstakar frvgr. sig það vel sjálfar auk þeirra aths., sem með frv. fylgja, að ég tel óþarft að fara nánar út í efni þess. Þetta er, eins og ég í upphafi sagði, frv., sem er gert til samræmis því frv., sem d. hefur áður fjallað um varðandi réttindi vélstjóra, til þess að samhæfa þessa menntun í báðum tilfellum.

Því frv., sem varðaði vélstjórana, liggur þó meira á um endanlega afgreiðslu heldur en þessu frv., en eðlilegt þótti eigi að síður að leggja þetta frv. fram nú.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.