16.12.1965
Neðri deild: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hér er stjfrv. á ferð. Ríkisstjórnin hæstv. er enn við sama heygarðshornið að auka álögur á landsfólkið. Frv. felur í sér mikla hækkun á aukatekjum ríkissjóðs. Í aukatekjulögunum er mikill fjöldi gjalda. Mörg af þeim vill ríkisstj. tvöfalda, og nokkur á að hækka enn meira skv. frv. T. d. á að hækka greiðslur fyrir veðbókarvottorð um 127% og gjald fyrir hjónavígslubréf, þ. e. undanþágu frá lýsingu, um 166.6%. Margt af ungu fólki gengur í heilagt hjónaband um þessar mundir, og ríkisstj. sér þar leik á borði að krækja í fleiri krónur frá kærustupörunum.

Við 2 af nm. í fjhn., hv. 11. þm. Reykv. og ég, skilum séráliti um frv. og lýsum þar andstöðu við málið. En með nál. okkar á þskj. 191 er birt sundurliðuð skýrsla um gjöldin, eins og þau eru nú og eins og þau verða, ef frv. verður samþykkt.

Á 8. degi febrúarmánaðar 1960 fóru fram umr. hér í Alþingi um fjárlfrv. fyrir það ár. Ríkisstj. var þá rúmlega tveggja mánaða gömul, og þetta var í fyrsta skipti, sem fjmrh. hennar, Gunnar Thoroddsen, lagði frv. til fjárl. fyrir þingið. Í framsöguræðu sinni sagði hann m. a., að ríkisstjórninni væri ljóst, að taka þyrfti upp efnahagskerfi, sem miðaði að því að draga efnahag og atvinnulíf landsmanna úr sandbleytunni og upp á fastan grunn. Þetta var fallega mælt og skáldlega, eins og vænta mátti frá þeim manni.

Nú liðu tímar fram, en ráðh. reyndust ekki eins góðir vatnamenn og Skaftfellingar fyrrum. Í stað þess að komast upp á fastan grunn sökk ríkisstj. sífellt dýpra og dýpra í sandbleytu dýrtíðar og verðbólgu. Eftir að hún hafði buslað þannig í 5 ár, sá hæstv. fjmrh. Gunnar Thoroddsen, að með slíku áframhaldi mundi stjórnin aldrei komast á þurrt land, og þá taldi hann réttast að yfirgefa lestina og reyna að bjarga sér til baka úr fljótinu. Honum tókst þetta. Nú er hann á föstum grunni suður í Kaupmannahöfn. Þar gegnir hann mikilvægu starfi, en þess vil ég óska, að honum gefist þó nokkrar frístundir til skáldskapariðkana.

Annar ráðh. í ríkisstj., sem fær orð fyrir að vera klókindamaður, sá sér einnig þann kostinn vænstan skömmu síðar að fikra sig aftur á bak upp úr fljótinu mikla. Sá er nú sendimaður við hirð Bretadrottningar.

Þeir, sem eftir voru í ríkisstj., fengu tvo nýja menn í sinn hóp í stað þeirra, sem snúið höfðu aftur, og ríkisstj. er enn að svamla í bleytunni. Hún slær mjög um sig, en sekkur stöðugt dýpra og dýpra í sandbleytuna. Og ríkisstj. heimtar í sífellu meiri og meiri fjármuni til ferðarinnar.

Við framsóknarmenn teljum hins vegar ekki rétt að sóa meiri peningum í þetta ógæfusamlega ferðalag. Okkur finnst tími til kominn að stöðva það, reyna að bjarga lestinni upp úr sandbleytunni og velja nýtt vað. Þess vegna viljum við ekki veita sandbleytustjórninni leyfi til meiri skattahækkana og leggjum til, að frv. þetta verði fellt.