19.10.1965
Neðri deild: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2420)

14. mál, héraðsskólar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér skilst, að ástæðan til þess, að þetta frv. er komið fram og kannske sé von á fleiru á öðrum sviðum í slíka átt, sé sú, að vandræðaástand er orðið í okkar skólabyggingamálum og er að verða í okkar menntamálum. Hvernig sem við viljum í sambandi við þetta frv. stilla spurningunni um, hvað sé aðalatriðið í því og hvort beri að breyta þeim reglum, sem verið hafa, og þá hvernig, um það, hvernig ríki og sveitarfélög skipta á milli sin kostnaði bæði af byggingu og rekstri skóla, hlýtur hitt að verða aðalatriðið, að skólar verði byggðir, að það sé ekki skortur á skólum á Íslandi, þannig að það þurfi að neita unglingum um menntun, eins og er í dag. Það er þetta, sem mér skilst að hljóti að vera aðalatriðið í sambandi við þetta frv. og önnur slík og það sé það fyrst og fremst, sem þurfi að athuga.

Við vitum ósköp vel, að ástandið er þannig í dag, að jafnvel þegar sveitarfélög hafa framtak, sem hæstv. menntmrh. var að kvarta yfir að væri kannske ekki til stundum, — þegar sveitarfélög hafa framtak, er þeim bannað af ríkisvaldinu að hefja framkvæmd skólabyggingar, þá eru settar takmarkanir á rétt sveitarfélaganna um að byrja skólabyggingarnar, þannig að þetta er vandamál, sem snertir okkar þjóðfélag almennt, sem hér er komið inn á.

Það er alveg rétt, sem 1. flm. þessa frv. tók fram, að það er mjög slæmt ástand viða í dreifbýlinu hvað þetta snertir, og ég verð að segja það, að þegar maður kemst í snertingu við, hvaða menntun það er, sem unglingar úr dreifbýlinu fá, þar sem svo að segja eingöngu er farkennsla, rennur manni bókstaflega til rifja, að það skuli vera til enn þá á síðari hluta 20. aldar. Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að þetta mál og þessi mál öll, sem það snerta, séu tekin til alvarlegrar umhugsunar.

Ég verð að segja, að það er mjög lofsvert af hæstv. menntmrh. að láta fara fram athuganir á því, hvaða sveitarfélög það eru, sem veita ekki unglingunum þann rétt, sem ríkið með lögum ákveður þeim. En ég verð að segja, að ef það eru einhver sveitarfélög eftir, sem hafa ekki tekið hans góðu áskorunum um að reyna að sjá til þess, að unglingarnir geti fengið að njóta þeirrar menntunar, sem l. ákveða, álít ég, að það þurfi alvarlega að rannsaka það, hvort ríkið verði ekki að gripa inn í á slíkum stöðum. Ef annaðhvort einhverjar hreppsnefndir eru svo afturhaldssamar, að þær kæra sig ekki um að veita unglingunum á viðkomandi svæði menntun, eins og skylda er nú í l., eða þá þær þykjast vera eða eru svo fátækar, að þær geta það ekki, verður ríkið að gripa þarna inn í. Það er því mjög ánægjulegt, að hæstv. menntmrh. skuli hafa látið fara fram rannsókn á þessu, og það væri ákaflega gott, að það lægi fyrir okkur, þegar við förum að ræða þessi mál hér, hvort og hvaða hreppsnefndir það eru enn þá á Íslandi, sem ekki veita eða geta veitt þessa menntun, þannig að við gerum ráðstafanir til þess, að unglingarnir á slíkum stöðum séu ekki látnir sitja á hakanum. Það er til skammar fyrir okkur, að nokkur íslenzk ungmenni séu látin sitja þannig á hakanum. Við erum nógu rík þjóð til þess að veita öllum menntun.

Um leið og ég vil taka undir þær ádeilur og benda á, hvílíkt vandamál þetta er víða í dreifbýlinu, vil ég taka fram, að þetta er ekki síður vandamál viða í þéttbýlinu. Ástandið er þannig jafnvel i okkar ríku Reykjavík, að hér viðgengst það, að skólaskylduskólar séu þrísetnir, skólar, sem gengið er út frá að séu einsetnir. Skólarnir í gamla hlutanum af Reykjavík eru margir einsetnir og fullnægja alveg þeim skilyrðum, en í úthverfunum eru skólar til, sem eru þrísetnir. Sú uppeldislega hugsun í því, að skólarnir séu ekki nema einsetnir, er sú, að börnin geti jafnvel verið síðari hluta dagsins í skólanum undir umsjón sinna kennara, sem leiðbeina þeim við lestur, vegna þess að börnin hafa oft og tíðum ekki aðstöðu heima til þess að lesa, svo að ég tali nú ekki um, þegar þau eru látin vinna, bera út blöðin á morgnana, áður en þau fara í skólann, og vera sendlar, þegar þau eru búin í skólanum, og hafa aldrei tíma til að lesa, eins og ástandið er í Reykjavík í dag á sumum heimilum. Það er því ekki síður, að það skorti skóla í Reykjavík og annars staðar í þéttbýli.

Við verðum að horfast í augu við það, að skólabyggingamál á Íslandi eru að komast í óefni, og á sama tíma er afstaða ríkisvaldsins sú í þessum skólabyggingamálum að takmarka skólabyggingarnar, að draga úr skólabyggingunum, að setja jafnvel einhvers konar bönn við, að sveitarfélögin hefjist sjálf handa, og þetta er ástand, sem er hneyksli, og þetta er ástand, sem verður að afnema, og undir svona ástandi kemur allt þjóðfélagið til með að líða, þegar fram i sækir, og þetta er ástand, sem verður að kryfja til mergjar. Þess vegna er þetta ekki neitt einangrað menningarmál og skólamál. Þetta er þjóðfélagsmál, sem á rætur sínar að rekja til þess, hvaða efnahagsstefna er uppi í þjóðfélaginu sem stendur.

Á sama tíma sem það er takmarkað, hvernig þjóðfélagið sjálft fái að koma upp menntastofnunum, og skorið við neglur sér, er gefið algert frelsi og sérstök sérréttindi til handa nokkrum heildsölum í Reykjavik að byggja. Þar er algert frelsi. Þar eru engar takmarkanir. Þar þarf ekkert leyfi frá neinni ríkisstj. Þar er hægt að hrúga milljónum í einskis verðar byggingar. Ég skal bara nefna dæmi. Ef hv. þm. ganga eða keyra inn Suðurlandsbrautina, geta þeir keyrt eða gengið þar fram hjá t.d. 16 húsum á einu svæði, sem eru flestöll bílaumboðshús, hús byggð fyrir bílaumboð. Þessi 16 hús, þegar leyfi var veitt til að byggja þau af byggingarnefnd Reykjavíkur, áætlun verzlunarauðvaldsins í Reykjavík gerð um að byggja slík hús, voru þetta um 200 þús. rúmmetrar, ef ég man rétt, og ég efast um, að rúmmetrinn kosti öllu minna nú, a.m.k. ef væri verið að byggja það núna, en kringum 2500 kr. M.ö.o.: þessi 16 hús eru fjárfesting upp á 500 millj. kr., miðað við núverandi verðgildi og kostnað. T.d. eitt af þessum húsum, það er eins og sum hinna ekki fullbyggt, ég held, að áætlunin hafi verið upp á 40 þús. rúmmetra, það þýðir 100 millj. kr. með 2500 kr. á rúmmetra. M.ö.o.: þarna er frelsið, þetta frelsi, sem hæstv. ríkisstj. er að tala um og leggur þetta dýra og fagra orð við annan eins ófögnuð og þetta. Yfirráðastéttin hér í þjóðfélaginu fær á sama tíma rétt og vald og forréttindi til þess að byggja — ég veit ekki fyrir hvaða peninga — bílaumboðshallir, meðan sagt er við allan almenning og sérstaklega æskuna í landinu: Skólar verða ekki byggðir yfir ykkur, ekki a.m.k. nærri því eins og þarf. — Og þar eru takmarkanir, þar þarf leyfi og þar skal skera niður.

Meira að segja þegar kemur upp í háskóla, er tannlæknadeild eða tannlæknakennslu hætt og hún stöðvuð, og er borið við m.a. húsnæðisleysi. Ætli þeir hafi ekki getað fengið inni við Suðurlandsbraut hjá heildsölunum? Meira að segja Háskóli Íslands er settur hjá, til þess að vissir heildsalar geti fengið að ráðskast með verðmæti þjóðfélagsins í tómri vitleysu, meira að segja sjálfum sér til tjóns. Þeir byggja eins og asnar, kunna ekki fótum sínum forráð og vita ekki, hvað þeir eiga að fá eiginlega inn í þessi hús og eru í vandræðum með að leigja þau út. En þjóðfélagsverðmætunum eru þeir búnir að eyða í þetta engu að síður. Það er tekið frá skólunum og menntastofnunum og hent í heildsalana, skólabyggingarnar stöðvaðar með fyrirskipunum ofan frá, en heildsölunum gefið fullt frelsi.

Ég vek athygli á þessu vegna þess, að við komum í sambandi við hvaða mál sem við ræðum, sem eitthvað snertir hvort það heita skólabyggingar eða annað slíkt, að spurningunni um fjárfestinguna í þjóðfélaginu. Það hefur verið stundum talað hérna um, að það sé gott að gera áætlanir, og hæstv. ríkisstj. hefur stundum verið með þetta, og hún hefur verið að tala um t.d. 10 ára áætlun í sambandi við landbúnað, og ég man ekki betur en það hafi einhvern tíma verið minnzt á 10 ára áætlun um t.d. rafveitur og 10 ára áætlun um allt mögulegt, og ég held, að jafnvel stundum hafi verið minnzt á áætlanir í sambandi við skólabyggingar og svo hafi komið fram, rétt eftir að búið sé að leggja slíkar áætlanir fyrir, að bezt sé að skera allt niður um 20%. M.ö.o.: það hefur verið unnið að þessu eins og Bakkabræður. Menn hafa talað um áætlun fyrir hvert svið í þjóðfélaginu út af fyrir sig án þess að gera sér ljóst, að þessi svið heyra saman. Og það er ekki til neins, það er tómt kjaftæði að vera að tala um áætlanir fyrir einstök svið án þess að búa til heildaráætlun um alla fjárfestingu þjóðfélagsins, því að það, sem menn eru að reka sig á annars, er, að þegar ríkið t.d. er búið að leggja fram sína fjárfestingaráætlun fyrir ríkisframkvæmdirnar, taka menn allt í einu eftir því, að það vantar vinnuafl og peninga og allt mögulegt, vegna þess að einkaframtakið svokallaða leikur lausum hala, og þá er farið í að skera niður áætlanir ríkisins. Þetta er engin stjórn, og það er ekki til neins að tala um áætlanir í sambandi við neitt svona. Það, sem þarna vantar, er, að það þarf að gera áætlun um fjárfestingu þjóðfélagsins í heild, miðað við vinnuafl, fjármagn og annað slíkt, og þá verður það ákveðið hér af hæstv. ríkisstj., af Alþ., hvort skuli sitja fyrir skólabyggingar eða ýmsir aðrir hlutir, íbúðabyggingar og slíkt, eða t.d. byggingarnar yfir banka, heildsala eða annað slíkt í Reykjavík. Þetta eru hlutir, sem verður að gera upp. Það er ekki til neins að vera langalengi að rífast út af einhverju einstöku og segja, að það séu ekki peningar til, og láta svo peningana valsa í krafti peningavaldsins á hinum sviðunum á meðan.

Einmitt vegna þess, að það hefur á undanförnum þingum verið fjallað um ýmsar fallegar áætlanir, og ég man ekki betur en hæstv. forsrh. hafi einmitt verið þó nokkuð með slíkar hugmyndir um áætlun í sinni stjórnaryfirlýsingu nú nýlega, vil ég undirstrika nauðsynina á þessu. Menn eiga ekki að vera að skreyta sig þessum fjöðrum, hvernig sem þær eru nú fengnar, um áætlanir án þess að gera sér ljóst, að það er heildaráætlun yfir alla fjárfestinguna, sem verður að gera. Hitt er tóm óskhyggja, tóm vitleysa, engin vinnubrögð í nútímaþjóðfélagi.

Okkar þjóð hefur ekki efni á að gera allt, það hefur verið tekið fram og var tekið fram af þeirri ríkisstj., sem sat á undan þeirri núverandi og hún á vissan hátt er framhald af, að þjóðin lifði stundum um efni fram. En þar sem okkur hefur gengið mjög vel með allan okkar fiskafla, höfum við getað lifað vel á undanförnum tímum. En við fjárfestum hins vegar eins og það væri okkar „prinsip“ að lifa um efni fram. Við höfum ekki kunnað okkur hóf í að láta fjárfestinguna vera á þeim sviðum, þar sem hún fyrst og fremst er þjóðfélaginu sem heild nauðsynleg, en ekki eftir því, hvernig einstaklingar eða einstakar voldugar stofnanir óska eftir slíku. Og ég verð að segja það, að þetta fjárfestingarleyfi fyrir verzlunarbyggingarnar og annað slíkt er orðið eiginlega að eins konar heilagri kú, sem ekki má snerta við, og það getur ekki gengið. Þegar á að fara ýmist að skera niður fé á ýmsum sviðum fjárfestingar og búa til takmarkanir á öðrum eða þá áætlanir getur ekki gengið að skilja eitt sviðið eftir, það verður að breytast líka. Ég get vel sett mig inn í, að t.d. Sjálfstfl. eigi í vissum erfiðleikum í slíku sambandi. Mér er alveg fullkomlega ljóst, hvað verzlunarauðvaldið í Reykjavík er voldugur aðili að Morgunblaðinu og hefur lengi verið og hvernig Morgunblaðið er líftaug Sjálfstfl., svo að ég skil ósköp vel, að það séu ýmsir erfiðleikar fyrir Sjálfstfl. að svipta þá aðila þessu svokallaða frelsi, sem þeir hafa óskað eftir. En hins vegar ef allir flokkar þingsins standa saman um slíkt og enginn flokkur fer sérstaklega að gera í því að reyna að telja menn á að halda áfram með þessa vitleysu og þetta stjórnleysi, þá trúi ég ekki öðru en Sjálfstfl. skilji, að þetta er orðin þjóðarnauðsyn. Það er hvorki hægt að svipta almenning, svipta almannavaldið, svipta þjóðfélagið réttinum til skólabygginga og stofna menntun fólks í hættu, en gefa hins vegar nokkrum heildsölum ótakmarkað frelsi til þess að byggja bílaumboðshallir og annað slíkt. Það er ekki hægt. Það verður að verða skipulag á þessum hlutum.

Ég veit ekki betur en ýmsum góðum mönnum í Sjálfstfl. hafi nýlega hnykkt við, þegar það kom í ljós, að Íslendingar væru að dragast aftur úr öðrum þjóðum eða stæðu aftarlega á vissum sviðum menntunar, t.d. í sambandi við stúdentafjölgun, og æskulýðssamtök Sjálfstfl. hafi gert samþykktir um mjög róttækar kröfur í þessum efnum. En við verðum að gera okkur ljóst, að ef við ætlum að framfylgja þeim róttæku kröfum í menningar- og menntamálum, sem nú eru uppi, ekki aðeins þeim kröfum, sem hér eru fluttar af hálfu nokkurra þm. Framsfl., heldur kröfum, sem ég veit að líka menn úr Sjálfstfl. hafa í mjög ríkum mæli um byggingar fyrir menntastofnanir á landinu, til þess að við Íslendingar drögumst ekki aftur úr, verðum við alvarlega að taka okkur þarna á. Sannleikurinn er, að við erum að dragast aftur úr öðrum, t.d. Norðurlandaþjóðunum, hvað snertir stúdentafjölgun og hvað snertir byggingar og starfsemi menntastofnana á vissum sviðum. En í bilaumboðshöllum skörum við fram úr öllum. Þar stendur áreiðanlega enginn með tærnar, þar sem við höfum hælana. Það eru til nægir peningar í þjóðfélaginu til þess að gera mjög mikið hér á Íslandi, og við verjum allra þjóða mest í fjárfestingu. Við förum með um þriðjunginn af okkar þjóðartekjum í fjárfestingu, en við verjum þessum þriðjungi einna vitlausast allra þjóða, af því að við höfum ekkert skipulag á þessu, enga yfirsýn yfir það, enga yfirstjórn á því. Þess vegna er það, að ég vildi nota þetta tækifæri til þess að undirstrika, að það þarf að verða við þeim kröfum, sem fram koma, bæði í dreifbýli og þéttbýli um skólabyggingar og aðrar menntastofnanir. Þótt okkar þjóðfélag sé ríkt og við verjum miklu til fjárfestingar, höfum við ekki efni á því öðruvísi en að ákveða fjárfestinguna f heild alla saman, þjóðin taki yfirstjórn á allri fjárfestingunni. Án þess að slíkt sé gert, verður ekkert vit í okkar efnahagspólitík.

Ég þykist vita, að þetta mál muni fara til þeirrar n., sem ég á sæti í, og ég álit, að það verðskuldi mjög góða athugun og rannsókn og að vel sé tekið undir úrlausnina á því, sem þarna felst í. Það er sjálfsagt að athuga ýmsar till., sem fram kunna að koma um, að breytt sé frá því „prinsipi“, sem verið hefur með kostnaðarhlutföllin. Það er hlutur, sem er hægt að athuga. Aðalatriðið, jafnt fyrir æsku dreifbýlisins sem aðra, er, að það sé alveg öruggt, að skólarnir verði byggðir.