19.10.1965
Neðri deild: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2423)

14. mál, héraðsskólar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. sagði, að ég hefði sagt, að ríkisstj. vildi hefta menntun í landinu. Það var ekki það, sem ég sagði, heldur hitt, að efnahagspólitík hennar leiddi til þess, að hún færi að takmarka skólabyggingar og þar með verða til þess að hefta þróun menntunar í landinu. Ég er ekki að ætla hæstv. ráðh. neinn illvilja í þessum efnum, ég er bara að benda á, að með þeirri efnahagspólitík gerast þeir leiksoppar í hendi afla, sem þeir ráða ekki við, þannig að þegar hlutfallslega of mikill hluti af fjárfestingarmætti þjóðfélagsins fer í braskið í Reykjavík, verður of lítill hluti eftir handa menntuninni, og þeir vakna þess vegna upp við það einn góðan veðurdag, að þeir fara að leggja til, vafalaust mikið á móti sínum góða vilja, að skera niður skólabyggingar, menntastofnanir og annað slíkt í landinu. Ég álít, að ríkisstj. hafi alls ekki neina sérstaka löngun til slíks. Hún gerir það af því, sem hún kallar nauðsyn, sem hún er búin að uppgötva. En þessi nauðsyn skapast af öflum í þjóðfélaginu, sem maður annaðhvort verður að gera svo vel að ráða við eða vera leiksoppur í höndunum á. Og það er mjög slæmt og leiðinlegt hlutskipti að taka það að sér að vera leiksoppur í höndunum á þessum öflum.

Hæstv. dómsmrh. blandaði mjög saman tveim hugtökum, þegar hann var að ræða hér áðan, og ef við eigum að ræða þessi mál af einhverju viti, sem ég mjög gjarnan vil og er reiðubúinn til, jafnt í nefnd sem hér, skulum við gera mjög skarpan greinarmun á þeim tveim hugtökum. Hann talaði um hömlur, miklar hömlur, ákveðnar hömlur, sem hér hefðu viðgengizt og voru innleiddar hér í kreppunni miklu 1933—34 og hafa meira eða minna staðið síðan. Það hefur verið mikið dregið úr þeim á undanförnum árum, en auðsjáanlega er verið að byrja að innleiða á vissan máta aftur vissar hömlur. Ég vil alveg taka undir hans gagnrýni á hömlunum. Hömlurnar eru hreinlega neikvæðar í þessum efnum. Ég man ósköp vel eftir því, að menn áttu erfitt með að skilja, að það væri hægt að umsnúa þessu, þegar lagt var til í fyrsta skipti hér, að við reyndum að útbúa heildaráætlun um þessa hluti, og Sjálfstfl. gekk inn á að vera með í því. Það, sem þá var gert, var, að þá voru búnar til áætlanir um þróunina og haft skipulag á ákveðinni fjárfestingu. Það var það, sem gerðist. Og þetta tvennt, heildaráætlun um fjárfestingu þjóðfélagsins eða almennar hömlur hins vegar, er tvennt algerlega ólíkt, vegna þess að hömlurnar, þegar þær eru framkvæmdar, hafa enga sérstaka áætlun, ekkert sérstakt skipulag,. ekkert sérstakt takmark í huga, heldur eru aðeins meira eða minna neikvæð skrifstofustjórn, þar sem meiri eða minni spilling og annað slíkt kemst að. Ég skal gjarnan, ef vill, bæta við þá mynd, sem hann gaf af því, hvernig hömlur eru framkvæmdar.

Það sat hér t.d. einu sinni stjórn að völdum álíka lengi og hæstv. núv. ríkisstj. er búin að sitja að völdum. Það var stjórn Framsfl. og Sjálfstfl. frá 1950—1956. Þetta var ein eftirtektarverðasta hömlustjórn, sem setið hefur á Íslandi. Áætlun var hreint bannorð. Skipulag var algert bannorð. Það, sem var hins vegar það stóra, mikla „prinsip“, voru helmingaskiptin. Það voru ákveðnar nefndir, sem áttu að sjá um að framkvæma hömlurnar í þjóðfélaginu, þannig að fjárfesting væri sem allra minnst, og að því er mér skildist, var það sérstaklega með það fyrir augum að draga úr atvinnu manna, enda tókst það um tíma, þannig að hér í Reykjavík varð atvinnuleysi 1951 og 1952 og atvinnuleysi um allt land allan þennan tíma, þannig að það var svo sem alveg greinilegt, hvaða aðilar það voru, sem þarna voru að verki. Þessi stjórn og hennar hömlupólitík var sú greinilegasta pólitík verzlunarauðvaldsins í Reykjavík, sem nokkurn tíma hefur verið rekin. Það var samið bókstaflega um hvert einasta atriði milli þeirra tveggja aðila, heildsalanna annars vegar og Sambandsins hins vegar. Kannske muna menn enn þá eftir því t.d., þegar leyfið var veitt fyrir Morgunblaðshöllinni. Ég man ekki betur en Sambandið fengi þá að stækka hjá sér, en sjálfstæðismennirnir voru það sniðugri, held ég, í þeim samningum, að Morgunblaðshöllin varð miklu stærri, þannig að Sambandið fór hálfilla út úr helmingaskiptunum. En þetta eru hömlur, sem alveg er hægt að taka undir að þörf sé að vera án, og svona helmingaskipti held ég að þjóðina mundi alls ekki langa í aftur.

Hitt er svo aftur allt annað mál, hvað gerðist, þegar hið svokallaða verzlunarfrelsi og fjárfestingarfrelsi var innleitt og annað slíkt, eins og hæstv. ráðh. kom inn á. Þá var það, að heildsalarnir í Reykjavík gerðust fullglaðir. Þeir urðu eins og kálfar á vordegi, hlupu út og það kemur stundum fyrir kálfana, að þeir lenda beint í mykjuhaugnum, og liggur við, að þeir hafi stundum farið þannig. Ég er alveg sammála hæstv. dómsmrh. um það, að þeir hafa lent í hinu mesta foraði. Þeir kunna yfirleitt ekki fótum sínum forráð, þessir menn, og þess vegna þarf að hafa vit fyrir þeim, þannig að ég neyðist nú til að segja það, að aðrir mundu kannske ekki fagna meira, ef það væri tekinn upp áætlunarbúskapur með fjárfestinguna núna, heldur en vissir heildsalar í Reykjavík, sem hafa gert svo vitlausar ráðstafanir, að þeir eru komnir í hreinustu vandræði. En það sýnir bara, að þjóðfélagið getur ekki leyft sér svona leik að fjármunum. Þjóðfélagið hefur ekki efni á því. Svona lítið þjóðfélag eins og okkar hefur ekki efni á því. Jafnvel þótt einhverjum mönnum, t.d. heildsölum, þyki gaman að því að láta eins og kálfar á vordegi, þá höfum við ekki efni á því að láta þá hlaupa með hundruð millj. í mykjuhauginn. Þess vegna verðum við að hafa vit fyrir þeim. Og ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti nú að geta treyst sjálfri sér, ef hún skildi, að hennar efnahagspólitík hefði lent í öngþveiti, til þess að hafa nú vit fyrir þeim, þegar ætti að setja áætlanir líka um þessa hluti. Ég held, að meira að segja þessi viðkomandi verzlunarmannastétt í Reykjavík hefði átt að læra það, sem hefur gerzt á undanförnum árum, að hve mikið sem hún hefur haft á móti þeim hömlum, sem hún einu sinni framkvæmdi af mikilli dyggð í helmingaskiptum við Framsókn, hafi hún rekið sig á það núna, að hennar ótakmarkaða frelsi er líka henni sjálfri fyrir verstu. En fyrir þjóðfélagsheildina er náttúrlega ekki hægt að þola það, að svona gangi.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að fjárfesting þeirra takmarkaði sig sjálf. Það er þokkalegt, ef við eigum alltaf að standa frammi fyrir því, að heildsalarnir í Reykjavík eigi að fá að leika lausum hala, fjárfesting þeirra eigi bara að vera háð þeim takmörkunum, sem þeirra eigin braskhugur kenni þeim, en við menntastofnanirnar í þjóðfélaginu skuli skorið niður, því að ríkið verður að hafa fyrirhyggju. Við getum ekki tekið ríkisbúskapinn út úr, þegar við erum með fjárfestingaráætlanir á Íslandi. Fjárfestingaráætlanir á Íslandi verða að ná yfir allan þjóðarbúskapinn. Það verður hver maður á Íslandi að hafa frelsi til þess að byggja skóla yfir sín börn, og ríkisstj. getur ekki ætlað að grípa inn í og segja: Nei, takk, þú færð ekki að byggja skóla. — Ég er ekki að mæla bót hömlum, sem hafa verið einhvern tíma í þessum efnum, hvort sem þær hafa verið framkvæmdar af Sjálfstfl., Framsfl. eða einhverjum öðrum. Ég er að berjast fyrir því, að það sé aflétt þeim hömlum, sem nú hafa verið settar á. Og mér er ljóst, að það er ekki hægt með öðru móti en að geta þjóðfélagsins í heild sé skipulögð, hún sé skipulögð með það fyrir augum, að það sé full atvinna og það sé notað til fulls allt það vald og allir þeir möguleikar, sem þjóðfélagið hefur í slíkum efnum. Það kemur fram og er skorað á, að það skuli athugað mjög vel einmitt í þeirri n., og mér finnst sjálfsagt, að hv. menntmn. verði við þeirri áskorun hæstv. dómsmrh. að ræða þessi mál mjög gaumgæfilega, taka yfirleitt hömlupólitíkina við skólabyggingar og aðra hömlupólitík, sem gerzt hefur fyrr í þjóðfélaginu, til athugunar. Ég þykist vita, að Alþfl. sé, eins og hefur verið hans „prinsip“, inni á því, að það væri skynsamlegast, að það væri heildaráætlun um þessa hluti í þjóðfélaginu öllu. Mér þykir hins vegar líklegt, eins og ég heyrði líka á því, sem hæstv. dómsmrh. sagði áðan, að Sjálfstfl. sé kannske dálitið þungur f taumi hvað slíkt snertir, enda greinilegt náttúrlega, hverjir á taumbandinu halda. Hins vegar þætti mér mjög fróðlegt að vita afstöðu Framsfl. í þessum efnum, og hann fær vafalaust f hv. menntmn. tækifæri til þess að láta hana i ljós. (Forsrh.: Er það ekki „hin leiðin“?) Ja, ég er nú ekki klár á henni, hæstv. forsrh. er það kannske, en mér er ekki ljóst, hvert hún leiðir. Framsfl. hefur að vísu verið mjög kenndur við hömlupólitík á undanförnum árum. En batnandi manni er bezt að lifa. Kannske er hann eitthvað farinn að læra í þessum efnum. Meira að segja skýzt það stundum upp úr hans fulltrúum hér á þingi, að það mundi vera skynsamlegt að taka upp heildaráætlun í þjóðarbúskapnum. Mér þykir ákaflega vænt um, ef Framsfl. er að átta sig á því, en hefði að vísu verið ákaflega æskilegt, að hann hefði áttað sig á því í vinstri stjórninni og ekki strax í byrjun þeirrar stjórnar þverneitað að láta stjórnina starfa áfram, þegar Alþfl. og Alþb. voru búin að koma sér saman um að gera ráðstafanir til þess að koma slíku í framkvæmd. Sem sé, ef hv. menntmn. yrði við þessari ágætu áskorun hæstv. dómsmrh., hefði ég mikinn áhuga á að heyra um afstöðu Framsfl. í slíkum efnum til heildaráætlunar fyrir þjóðarbúskapinn allan og mundi um leið vilja láta þá skoðun í ljós, að Sjálfstfl. færi líka mjög alvarlega að athuga sinn gang í slíkum efnum.