26.10.1965
Neðri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2433)

18. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki leggja dóm á það, hvort breyting sú á umferðarl., sem felst í frv. því, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur flutt og hér er til umr., mundi leiða til þess, að umferðarslysunum fækkaði verulega, ef að lögum yrði, eins og í grg. er að vikið. Mér þykir ekki ólíklegt, að það mundi hafa einhver áhrif og kannske meiri en minni, eins og önnur viðurlög fyrir gáleysi og ógætilegan akstur bifreiða. Hitt dylst mér ekki heldur, að fjölmargt fleira kemur til álita í sambandi við hið alvarlega og mikla vandamál að forða frá umferðarslysunum. Þar sem hér er um að ræða eitt þeirra vandasömustu mála þeirra tíma tækni og hraða, sem við lifum á, þykir mér rétt að fara um þetta mál nokkrum almennum orðum.

Hin tíðu og alvarlegu umferðarslys, sem valda mikilli sorg og tjóni, eru okkur öllum mikið áhyggjuefni. Það væri að bregðast skyldum sín um við samborgarana af hálfu þeirra, sem hafa forstöðu opinberra mála, sem hér um ræðir, að gera ekki hvað sem verða má til þess að koma í veg fyrir og draga úr hættum af hinum geigvænlegu umferðarslysum. Um leið og mér er ljóst, að margir hafa lagt mikið af mörkum, sem til góðs hefur leitt í sambandi við umferðarvandamálin, er hitt jafnvíst, að mikið er ógert og margt stendur enn til bóta. Ég hef gerzt svo djarfur að rita ávarp til aðvörunar almenningi um það að sýna varkárni og tillitssemi í umferðinni og jafnframt látið þess getið, að ég mundi sem dómsmrh. vilja beita mér fyrir umbótum á þessu sviði. Mér þykir ástæða til þess að gera nú í sambandi við þetta frv. nokkra grein fyrir ýmsum öðrum þáttum, sem máli skipta.

Það er rétt hjá hv. flm. þessa frv., að það fjallar aðeins um einn þátt umferðarmálanna, og út af fyrir sig kynni að mega rökstyðja það fyllilega að taka hann einan út úr til meðferðar, en að öllu athuguðu þykir mér þó réttara að fara nokkrum orðum almennt um málið.

Það mun hafa verið 3. marz 1955, að þáv. dómsmrh. skipaði svokallaða umferðarlaganefnd, og hlutverk n. var að gera till. um endurskoðun löggjafar um umferðarmál og bifreiðamál, svo og reglugerða um sömu málefni. Formaður n. var skipaður Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri í Reykjavík, en aðrir nm. voru skipaðir Benedikt Sigurjónsson, þá borgardómarafulltrúi, nú hrl., Geir Zoëga, vegamálastjóri þáv., Sigurgeir Jónsson, þá fulltrúi í dómsmrn. og nú bæjarfógeti, og Theódór Líndal, þá hrl., nú prófessor. Geir Zoëga lézt 1959 og Sigurgeir Jónsson lét af störfum í n. í ársbyrjun 1963. Í þeirra stað voru skipaðir þeir Ólafur Walter Stefánsson fulltrúi í dómsmrn. 5. jan. 1963 og Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri 11. nóv. 1963. N. skilaði frv. til umferðarlaga ásamt grg. 31. ágúst 1956, og frv. var lagt óbreytt fyrir Alþ., og varð það litið breytt að l. nr. 26 2. maí 1958. Þessi umferðarlaganefnd hefur samið einnig eftirtaldar reglugerðir: Reglugerð um stefnuljós á bifreiðum, staðfest 24. marz 1959, en síðan aftur afnumin 1964 vegna breyttra staðhátta, reglugerð um umferðarfræðslu í skólum, staðfest af menntmrn. 8. apríl 1960, reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., staðfest 12. apríl 1960, reglur um leigu á skráningarskyldum ökutækjum til mannflutninga án ökumanns, staðfestar 25. júlí 1960, reglugerð um gerð og búnað ökutækja o.fl., staðfest 15. maí 1964.

N. hefur jafnan fengið til umsagnar eða gert till. um breyt. á gildandi umferðarl., sem hafa átt sér stað frá því að umferðarl. voru hér til meðferðar 1956, þ.e. 1958, 1960 um breyt. á ákvæðum um ríðandi menn og 1965 um rétt heyrnleysingja til ökuskírteinis og um vátryggingafjárhæðir, eins og kunnugt er. Umferðarlaganefnd hefur auk þess fengið til umsagnar og athugunar ýmis önnur erindi varðandi umferðarlögin.

Í bréfi til dómsmrh., dags. 27. febr. 1965, taldi, n., að reynslan hefði sýnt, að umferðarl. þarfnist nú endurskoðunar. Dómsmrh. fól n. með bréfi 31. maí s.l. að annast þessa endurskoðun. Hefur n. hafizt handa um þá endurskoðun, og var ýmsum aðilum, sem umferðarmál varða, ritað og þeir beðnir um að gera grein fyrir, hverra breytinga þeir teldu þörf. Nauðsynleg forsenda fyrir lokum þessarar endurskoðunar var í upphafi talin m.a. sú, að niðurstöður rannsóknarnefndar umferðarslysa, sem skipuð var í árslok 1963, lægju fyrir, svo og að lokið væri samstarfi Norðurlandanna, sem Ísland hefur þó ekki tekið beinan þátt í, um endurskoðun umferðarreglna. Hafði verið látið í ljós, að álit samstarfsnefndar þessarar, Nordisk vägtrafikkomité, gæti legið fyrir í haust, en það hefur ekki borizt okkur enn. Auk framangreinds hefur n. skilað álitsgerð, sem var dags. 4. febr. 1965, um þær aðgerðir, sem nauðsynlegar væru, til þess að komið yrði á hægri handar umferð hér á landi, sbr. þál. frá 13. maí 1964, svo og yfirlitsáætlun um kostnað, sem því væri samfara. Eins og er vinnur umferðarlagan. ásamt Arinbirni Kolbeinssyni lækni, sem er formaður Félags ísl. bifreiðaeigenda, og Eiríki Ásgeirssyni, að samningu lagafrv. um hægri handar umferð og grg. með því frv., sbr. bréf dómsmrh. þar um frá 14. apríl s.l., og verður því starfi væntanlega lokið um næstu mánaðamót eða mjög bráðlega.

Um leið og það, sem nú er getið um umferðarlaganefnd, er haft í huga, er á það að líta, að gerðar hafa verið ýtarlegar samþykktir um umferðarnefndir í kaupstöðunum, þar sem fjölbýli er, og síðasta samþykkt af þessu tagi, um umferðarnefnd Reykjavíkur, mun vera frá 19. des. 1963. Í slíkum samþykktum, — og vitna ég þar sérstaklega til samþykktar Reykjavíkurkaupstaðar, — eru ýtarleg ákvæði um umferðarmálin og þau vandamál, sem þeim eru samfara. Slík n, er þannig skipuð: Í henni eiga sæti 5 menn, þ.e. lögreglustjórinn í Reykjavík, borgarverkfræðingurinn í Reykjavik og þrír menn kosnir af borgarstjórn til 4 ára í senn. Síðan annast sérstök deild í skrifstofu borgarverkfræðings dagleg störf í umferðarmálum á vegum höfuðborgarinnar. Í þessari samþykkt eru verkefni umferðardeildar nánar tilgreind, og leyfi ég mér að vitna til þess.

Það er í fyrsta lagi að annast tæknilegan undirbúning þeirra framkvæmda í umferðarmálum, sem borgarráð, umferðarnefnd og borgarverkfræðingur fela henni. Í öðru lagi að eiga frumkvæði að athugun þeirra umferðarmála, sem deildin sjálf telur aðkallandi að leyst verði, svo og að fjalla um ábendingar og tiltekin umferðarvandamál, er fram kunna að koma á fundi umferðarnefndar eða frá öðrum aðilum, og gera till. til umferðarnefndar um lausn þeirra. Ef mál er svo vaxið, að bæjarverkfræðingur geti á eindæmi sitt afgreitt málið, skulu till. gerðar til hans. Í þriðja lagi að láta í té hvers konar aðstoð og upplýsingar við skipulagningu nýrra borgarhverfa og endurskipulagningu eldri hverfa. Í fjórða lagi að halda uppi stöðugri rannsókn á umferðarmálum borgarinnar, umferðarkönnun. Í fimmta lagi að fylgjast með hvers konar nýjungum í umferðarmálum, bæði hérlendis og erlendis. Í sjötta lagi að hafa með höndum rekstur bifreiðastæða og stöðumæla, svo og að hafa eftirlit með uppsetningu og viðhaldi umferðarmerkja. Í áttunda lagi að halda uppi stöðugri fræðslu um umferðarmál fyrir almenning, einkum þó að sjá um hagnýta umferðarfræðslu í skólum. Og loks að leysa önnur þau verkefni varðandi umferðarmál, sem deildinni verða falin af borgaryfirvöldum.

Eins og menn sjá af þessu, er víða við komið og hér eins og annars staðar við að eiga einhver umfangsmestu og erfiðustu vandamál hvers vaxandi borgarfélags og bæjarfélags eða þar sem fjölmenni er, ekki sízt þegar höfð er í huga sú mikla tækniþróun, sem jafnframt á sér stað varðandi þau farartæki eða vélknúnu tæki, sem um er að ræða, bifreiðarnar fyrst og fremst.

Það er ekki nýtt, að umferðarmálin hafi verið okkur áhyggjuefni og vandamál, og 13. nóv. 1963, skömmu áður en ég tók við embætti dómsmrh., skipaði þáv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, þá rannsóknarnefnd umferðarslysa, sem ég vék stuttlega að áðan. Henni var falið það verkefni að rannsaka orsakir hins sívaxandi fjölda umferðarslysa og gera till. um ráðstafanir til úrbóta. N. var veitt heimild til þess að leita aðstoðar þeirra embættismanna og stofnana, sem að liði mættu verða við úrlausn einstakra atriða í sambandi við verkefni þetta. Í n. voru skipaðir Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri, sem var formaður n., Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri, Gestur Ólafsson forstöðumaður bifreiðaeftirlits ríkisins, Jóhannes Briem, stud. oecon fyrir Slysavarnafélag Íslands, Arinbjörn Kolbeinsson læknir fyrir Félag ísl. bifreiðaeigenda, Einar Ögmundsson bifreiðastjóri fyrir Landssamband vörubifreiðastjóra og Bergsteinn Guðjónsson bifreiðastjóri fyrir Bifreiðastjórafélagið Frama.

Skömmu eftir að n. hafði verið fullskipuð, tók hún að vinna að rannsókn þeirri, sem henni var falin, og var á fyrstu nefndarfundunum rætt um verkefnið almennt og starfshætti n. Ákveðið var að afla eins viðtækra upplýsinga og frekast væri unnt um umferðarslys og óhöpp, sem átt hafa sér stað hér á landi s.l. 3 ár, ef draga mætti ályktanir út frá þeim upplýsingum um helztu orsakir slysanna. Jafnframt var ákveðið að afla ýtarlegra upplýsinga, er verða mættu til leiðbeiningar um ráðstafanir til úrbóta. Var m.a. ákveðið að afla upplýsinga um fjölda og gerð ökutækja og fjölgun þeirra á siðari árum hér á landi, vegamál, löggæzlumál, dómsmeðferð i umferðarmálum, fræðslustarfsemi o.s.frv.

Þegar í upphafi þótti sýnt, að rannsókn þessi yrði að vera allumfangsmikil, ef hún ætti að geta orðið að nokkru gagni, og nm. lögðu á það mikla áherzlu, að nauðsyn bæri til að fá öflugt starfslið til þess að vinna að rannsóknunum, og tóku það skýrt fram, að þeir væru hver um sig störfum hlaðnir fyrir, gætu þeir því ekki eytt daglega tíma til rannsóknarstarfanna. Reynt var að fá starfsmenn fyrir n. til þess að standa fyrir rannsókuarstörfum, en enginn hæfur maður var á lausum kili fyrst í stað. Stóð svo þar til s.l. vor, að Jóhannes Briem stud. oecon. var ráðinn sem fastur starfsmaður n. í sumarleyfi hans frá háskólanámi.

Í byrjun ársins 1964 tóku nm. að afla upplýsinga frá Slysavarðstofu Reykjavíkur um umferðarslys, sem þangað komu til meðferðar. Jafnframt var rætt við tryggingarfélög og aðra aðila, sem upplýsingar geta gefið um umferðarslys. Formaður n. lét tvo lögreglumenn taka saman yfirlit um árekstra og umferðarslys í Reykjavík á árunum frá 1960—1963. Kom í ljós þegar í upphafi þessa starfs, að úrvinnsla úr gögnum umferðardeildar rannsóknarlögreglunnar er nær óvinnandi verk vegna þess m.a., hve skýrslur eru umfangsmiklar og lestur þeirra tímafrekur. Var þá horfið að því ráði að vinna úr frumgögnum umferðardeildar lögreglustjóraembættisins. Yfirlitsgerð þessi kostaði margra mánaða vinnu. En þegar yfirlitið var lagt fyrir slysarannsóknarnefndina, voru nm. á eitt sáttir um það, að nauðsyn bæri til að afla til muna viðtækari upplýsinga en fram koma í yfirlitinu. Þótti m.a. nauðsynlegt að afla upplýsinga frá stöðum utan Reykjavíkur, svo og upplýsinga um ýmis atriði, sem naumast er unnt að fá nema gegnum skýrsluvélar.

Í byrjun ársins 1965 ákvað slysarannsóknarnefndin að láta fara fram tölfræðilega rannsókn á öllum umferðarslysum í landinu á árunum 1962 —1964. Lét n. útbúa sérstök skýrslueyðublöð til notkunar við söfnun upplýsinga í þessu skyni, svo og leiðbeiningar við færslu skýrslnanna. Sendi dómsmrn. síðan öllum lögreglustjórum landsins umburðarbréf, þar sem þess er óskað, að eyðublöðin verði útfyllt og upplýsingar sendar rannsóknarnefndinni, svo fljótt sem unnt er, og hafa skýrslur þegar borizt frá allmörgum lögsagnarumdæmum, en frá öðrum munu þær koma alveg á næstunni. Í Reykjavík hefur verið unnið að þessari skýrslugerð frá því á s.l. vori af ýmist 3 eða 4 mönnum undir stjórn Jóhannesar Briems. Mun því verki lokið nú mjög bráðlega, og byrjar þá úrvinnsla í skýrsluvélum.

Slysarannsóknarnefndin lætur í ljós í þessu stutta yfirliti, sem ég hef vitnað til frá henni, að hún geti skilað ýtarlegu nál. á fyrri hluta næsta árs. En þetta yfirlit var mér gefið í byrjun októbermánaðar, 4. okt. Hún telur, að þar muni verða að finna mikilvægar tölfræðilegar upplýsingar um umferðarslys og árekstra hér á landi á árunum 1962—1964, sömuleiðis upplýsingar frá tryggingafélögunum um fjölda tjóna, greiddar tjónabætur o.s.frv., upplýsingar samkv. örorkuskýrslum Tryggingastofnunar ríkisins, svo og upplýsingar samkv. skýrslum slysavarðstofu, enn fremur verða meginkaflar um vegamál, umferðarlöggjöf, fræðslu og áróður og tillögur nefndarinnar um ráðstafanir til úrbóta.

Eftir að mér hafði borizt yfirlit það, sem ég nú hef vitnað til, hvað liði störfum þessarar umferðarslysanefndar, átti ég tal við formanninn og lagði áherzlu á, að n. gæti hraðað sem mest störfum og skilað áliti sem allra fyrst. Síðan átti ég fund með n. 9. okt. s.l. ásamt starfsmönnum mínum, sem að þessum málum vinna einkum í dómsmrn. Þar voru málin rædd ýtarlega og greinilegt, að um mjög margþætt og mikið verkefni var að ræða. Hef ég ekki séð ástæðu til að rekja það á þessu stigi málsins opinberlega, en talið eðlilegt, að það biði þess tíma, að nál. lægi fyrir. Hins vegar hef ég lagt á þessum fundi áherzlu á það við umferðarslysanefndina, að hún sundurliði verkefni sitt og reyni að skila sem allra fyrst tilteknum till., sem hægt væri að taka þegar til úrbóta á þessu sviði, þó að önnur verkefni, sem lengur tekur þó að framkvæma, mættu bíða. Koma þá að sjálfsögðu til athugunar og álita einstakir þættir þessa máls, eins og þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um.

Í sambandi við þær umr., sem ég átti við n. um þetta mál, bar nokkuð á góma skipun n. um endurkröfurétt á hendur þeim, sem talinn er eiga sök á tjóni, sem vátryggingarfélög hafa bætt, sbr. ákvæði þar um í 76. gr. umferðarlaga. En það er gert ráð fyrir því í umferðarl., að ef vátryggingarfélögin bæta tjón, geti þau undir vissum kringumstæðum átt endurkröfurétt á hendur þeim, sem valdið hefur tjóninu. Segir um það í 73. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hefur viðurkennt vátryggingarfélag, sbr. 70. gr., greitt bætur samkv. framangreindu, og á það þá endurkröfurétt á hendur hverjum þeim, sem valdið hefur slysi eða tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.“

Er enginn vafi á því, að fjölmikið af þeim slysum, sem stafa af ölvun við akstur, mundi vafalaust falla undir það að vera af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

Þessi endurkröfunefnd hefur ekki komið til framkvæmda og eru ýmsar ástæður til þess. Það er svo ákveðið, að dómsmrh. á að skipa formann n., en fulltrúar eiga svo að vera í n. frá vátryggingarfélögum, landssambandi bifreiðaeigenda, ef til er, og þannig gert ráð fyrir, að hún sé skipuð fulltrúum frá þeim aðilum, sem málið snertir mjög. Ég hef í samræmi við ábendingar frá umferðarslysanefnd haft mjög til athugunar að koma þessari n. á laggirnar, leitaði um það samráðs og álits þess prófessors, sem fjallar um þennan þátt lögfræðinnar í háskólanum, og vonast til þess á næstunni að geta komið því til leiðar, að þessi n. taki til starfa. En það getur þó vel komið til athugunar, að eitthvað þyki nauðsynlegt að breyta lagafyrirmælum til þess að tryggja örugga framkvæmd þessara mála. En ég get búizt við því, að það geti haft verulega mikil áhrif í sambandi við umferðarslysin, að menn geri sér fulla grein fyrir því og á það reyni, að þeir, sem valda slysum af gáleysi, stórkostlegu gáleysi eða ásetningi, geti ekki búizt við því að sleppa skaðlaust af því, enda þótt bílar þeirra séu vátryggðir.

Þá vil ég geta þess, að eitt af því, sem hefur blandazt allverulega inn í umr. um þetta mál, er skjótari meðferð umferðarmála, sem menn eru nokkuð almennt sammála um að gæti leitt til góðs og haft góðar verkanir, ef því væri hægt að koma fyrir með betri hætti en nú er, að menn missi ökuskírteini sín þegar í stað og séu sviptir þeim alltaf að jafnaði til bráðabirgða, og að öðru leyti stuðlað að því með annarri og skjótari meðferð dómsmála en nú er að fá málunum lokið sem allra fyrst. Um þetta hef ég átt sérstakan viðræðufund þann 9. okt. s.l. við þá aðila, sem hér eiga sérstaklega hlut að máli, sem eru yfirsakadómarinn í Reykjavík, lögreglustjórinn í Reykjavík og svo saksóknari ríkisins, og hafa þessir embættismenn nú til meðferðar ásamt öðrum embættismönnum úr dómsmrn. eða í samráði við ráðuneytisstjórann að gera till. til ráðh. um umbætur á sviði þessara mála að því er snertir meðferðina og hraða dómsmálanna. Það mundi að öðru jöfnu að mínu áliti einnig geta haft veruleg áhrif um almennar úrbætur á þessu sviði, því að umferðarmálin eru ákaflega mörg og hafa hlaðizt upp í embættunum og ekki afgreidd svo fljótt sem skyldi, en ef hægt væri að tryggja skjótari afgreiðslu þeirra, mundi það líka hafa áhrif til góðs á afgreiðslu annarra dómsmála og skjótari meðferð þeirra.

Ég vil leyfa mér að minna á það í þessu sambandi, að meðferð dómsmála, sérstaklega hraði þeirra, hefur verið nokkurt umræðuefni hér á Alþingi bæði fyrr og síðar, og 1964 var samþ. þál., þar sem því var beint til dómsmrh. og ríkisstj. að athuga umbætur á þessu sviði. Ég skrifaði svo öllum dómurum landsins á s.l. ári, þar sem lagður var grundvöllur að því, að allsherjarskýrslur yrðu teknar upp um meðferð dómsmálanna. Þá var miðað við árin 1961, 1962 og 1963. Ég taldi nauðsynlegt að reyna að fá greinargott yfirlit um gang málanna, sem gæti orðið nægjanlega traustur grundvöllur undir ráðagerðir til úrbóta, hvort sem það væri á sviði löggjafarinnar sjálfrar eða framkvæmdarinnar einnar. Ég fól þá Sigurði Líndal hæstaréttarritara að taka að sér úrvinnslu þessara skýrslna, eftir því sem þær bærust dómsmrn. Nú hafa þessar skýrslur borizt frá dómurunum og öllum hlutaðeigandi embættum landsins. Hitt skal ég að vísu játa, að mér þótti það ganga nokkuð seint, en á það er að líta, að hér voru engar skýrslur fyrir hendi og alger frumvinnsla á þessu sviði, sem um var að ræða.

Ég tel eðlilegt, að þegar athugun þessara skýrslna, sem eru mjög ýtarlegar, liggur fyrir um þetta þriggja ára tímabil, þá verði þeim haldið áfram fyrir árin 1964 og 1965 o.s.frv., annaðhvort í því formi, sem upphaflega var til stofnað, eða þá með endurbættu formi, sem reynslan af þessari fyrstu skýrslugerð gæfi til kynna að heppilegt mundi vera.

Mér er einnig kunnugt um það, að Dómarafélag Íslands, sem nýlega hefur verið á ráðstefnu hér í Reykjavík og heldur sínar ráðstefnur að jafnaði annað hvort ár og stundum oftar, hefur mikinn áhuga fyrir umbótum á þessu sviði, og átti ég þess kost að ræða það nokkuð á þessari ráðstefnu Dómarafélagsins, og vildi ég mega vænta þess, að með þessum grundvelli, sem hér er fenginn í þessari skýrslugerð, sé að finna nægilega traustan grundvöll til þess að byggja tillögur til úrbóta á.

Inn í þessa almennu skýrslugerð og rannsókn, sem ég hef vikið að, var sérstaklega tekinn málaflokkur, umferðarmál og áfengismál í sambandi við það.

Ég hef nú vikið að nokkrum þáttum hinna vandasömu umferðarmála aðeins til þess að gefa yfirlit yfir það, hvernig að undanförnu hefur verið að þessum og skyldum málum unnið. Það er ekki vegna þess að ég vilji með nokkru móti draga úr framgangi einstakra tillagna, sem fluttar kynnu að verða hér á þingi og hér liggja fyrir í þessu frv., en fyrir þá n., sem fengi málið til meðferðar hér í þinginu, taldi ég þó nauðsynlegt að hafa gefið yfirlit um, að það eru vissir aðilar þarna, sem gæti verið mikill vinningur að því að hafa tengsl við og samráð við, bæði umferðarlaganefnd, umferðarslysanefndin og dómsmrn., áður en frá afgreiðslu málsins af hálfu n. er gengið, og er ég auðvitað reiðubúinn til allrar þeirrar samvinnu og fyrirgreiðslu, sem ég af minni hálfu get í té látið við nefndina.

Ég vildi mega vona, að við endurskoðun laga og reglugerða, sem nú er unnið að, og endurskoðun á framkvæmd mála og þegar fyrir liggur rannsókn umferðarslysanefndarinnar eða tillögur til bráðabirgða, sem ég hef sérstaklega óskað eftir, þá komi fram ný viðhorf til umbóta, og vissulega er þeirra hin fyllsta þörf.

Ég vil til þess að fyrirbyggja allan misskilning sannarlega ekki draga úr neinum þeim till., sem gætu orðið til bóta og öryggis í umferðarmálunum og fram koma frá einstökum þm. Ég vona, að með samstilltum áhuga og dugnaði þeirra, sem um þessi mál fjalla bæði af hálfu ríkisins og sveitarfélaga, megi takast að ná árangri, sem leiði til góðs og vaxandi öryggis okkar.