26.10.1965
Neðri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

18. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hafði naumast búizt við slíkum undirtektum undir mitt mál eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG). Mér finnst það vera nokkuð mikið ábyrgðarleysi, þegar varpað er fram þeirri spurningu hér, hvaða ástæða sé til þess að láta ölvaða ökumenn leika lausum hala, eins og það sé einna helzt mitt verk sem dómsmrh. að láta það líðast, að slíkir menn leiki lausum hala. Við höfum á þessu tvennar skoðanir. Ég tel málið mjög alvarlegt mál ekkert siður en hann og þess eðlis, að það þurfi mjög gaumgæfilegrar athugunar.

Ölvun við akstur er ekki eins einfalt mál og hv. þm. vildi vera láta, og það á sér miklu dýpri rætur í ýmsum greinum þjóðlífsins en við gerum okkur að jafnaði grein fyrir, — heimilisástæðum, uppeldi, fjölskylduástæðum og öðru slíku, og það er nóg ógæfa margra, sem hafa lent út á þjóðlífshjarni á þessu sviði, þó að ekki sé haft neitt í flimtingum um þetta mál. Ég vil ekki undir nokkrum kringumstæðum, að mál mitt misskiljist þannig, að ég vilji draga úr því, að hart sé tekið á því, ef menn valda tjóni og slysum ölvaðir í umferðinni, og ég held, að það sé ekki nokkur minnsta ástæða til þess að ætla, að það séu neinir hér, sem séu með neina linkind á því sviði. Hitt veit ég, að þeir, sem um þessi mál hafa fjallað, vita, að þau eru nokkuð viðurhlutamikil, og aðalatriðið fyrir okkur er að forðast slysin, að koma í veg fyrir þau. Það er ekki einhlítt, að það sé hægt að gera það eða verði búið að gera það, þó að ökuleyfi sé tekið af mönnum, eins og kunnugt er. Þar fyrir getur vel verið, að það væri réttara að herða viðurlögin, þ.e.a.s. að taka skilyrðislaust og ævilangt ökuleyfi af mönnum, sem hafa verið ölvaðir við akstur, en þó held ég, að það komi upp ýmsar og margar myndir í sambandi við þetta mál, sem séu nokkuð erfiðar úrlausnar.

Það er margt annað, sem hér kemur þá til álita, t.d. þau ákvæði í umferðarlögunum, sem við höfum nú og eru kannske alls ekki einhlít í þessu. Menn mega aka með eitthvert áfengi í blóðinu, en ekki yfir 0.5 %, og verða þá að sæta einhverjum viðurlögum, ef það sannast á þá. Ef þetta áfengismagn fer upp í 1.2 % eða meira, þá eru viðurlögin þyngri. En ekki nokkur einasti maður, held ég, veit um það, hvort hann er með 0.5 eða 1.2 % af áfengi í blóðinu.

Ég teldi langæskilegast, eins og ég sagði, og ég efast ekki um, að það er vilji okkar allra hér, að ný ákvæði, sem sett yrðu af þinginu núna á þessu sviði, væru virkilega til þess fallin að koma til raunhæfra úrbóta til þess að tryggja eða draga úr þessum geigvænlegu umferðarslysum, og ég get ekki skilið, að nokkur þm. vilji á nokkurn hátt hafa við það að athuga eða draga úr því, að við slíkar ákvarðanir sé reynt að hafa beztu manna yfirsýn og byggja á grundvelli þeirra rannsókna, sem fram hafa farið, og þeirrar reynslu, sem nánast liggur fyrir um jafnalvarlegt mál.