26.10.1965
Neðri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

18. mál, umferðarlög

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hæstv. dómsmrh., ef hann heldur, að ég hafi viljað skella sök á hann sérstaklega í þessu máli, sem frv. mitt fjallar um, enda kom ekkert fram, sem gaf bendingu í þá átt, í ræðu minni um málið. Það eru ný lagaákvæði, sem ég tel að þurfi að setja; og um það er frv. mitt.

Mér þótti gott að heyra það, sem hæstv. ráðh. sagði, að hann teldi víst, að allir hv. þm. vildu gera það, sem mögulegt væri, til þess að koma í veg fyrir umferðarslysin, og ég vænti þess, að það reynist þannig, að menn komist við nánari umhugsun að þeirri niðurstöðu, að það sé rétt að samþ. frv. mitt hið allra fyrsta. Svo getum við á eftir talað um aðrar breytingar, sem þörf er að gera á umferðarlögunum. En þetta tel ég langþýðingarmest, að þessi breyting verði gerð hið allra fyrsta.