25.10.1965
Neðri deild: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

24. mál, jafnvægi í byggð landsins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Enn flytjum við 6 þm. Framsfl. í þessari hv. deild frv. til l. um sérstakar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og enn í meginatriðum með sama sniði og áður, þó að sumum ákvæðum hafi verið breytt nokkuð til samræmis við nýtt tímatal og vaxandi þörf. Ég hef oft áður hér á hinu háa Alþingi vikið að þessu vandamáli, sem er tilefni þessa frv., og mun ekki flytja langa framsöguræðu að þessu sinni. En þetta vil ég segja í upphafi máls míns: Því aðeins getur Ísland haldið áfram að vera sjálfstætt ríki, að Íslendingar haldi áfram að byggja land sitt. Við Íslendingar erum um þessar mundir ekki nema 190 þús. manns. Meira en helmingur þessarar litlu þjóðar hefur nú safnazt saman á því takmarkaða svæði, sem skipulagsfræðingar höfuðborgarinnar kalla Stór-Reykjavík. Hér er að skapast tiltölulega fjölmennasta borgarsvæði i heiminum miðað við þjóðarstærð. Þróunin virðist stefna í þá átt, að á þessu svæði vaxi upp stórborg með næstum óvæntum hraða og aðdráttarafl þessarar stórborgar eyði allri annarri landsbyggð að meira eða minna leyti, en sjálf bíði hún tjón af. Þessi örfámenna þjóð getur ekki gert tvennt í senn, að byggja stórborg með hraða og halda áfram að byggja landið og efla landsbyggð sína.

Við, sem stöndum að flutningi þessa máls, viljum ekki hindra eða ákveða bústaðaskipti fólks með lagaboði eða binda menn við átthaga sina. Það er æskilegt, að fólk ráði sjálft búsetu sinni. Við viljum fara aðra leið. Við viljum fá þjóðfélagið til að leggja sig nú fram af alefli og með nýjum hætti, eins og gert hafa sumar aðrar þjóðir í seinni tíð, til þess að bæta úr því, sem á skortir, til þess að hin dreifða landsbyggð til sjávar og sveita verði fýsilegri til búsetu en mörgum þykir hún nú vera. Þetta viljum við að þjóðfélagið geri í samráði og samstarfi og svo sem unnt er að fengnu frumkvæði hinna einstöku landshluta og byggðarlaga og jafnframt sé skipulega að því unnið að opna augu manna fyrir nýjum möguleikum og skapa aukinn skilning á hinum dreifðu landsgæðum og auðlindum, öllu því, sem þetta fagra, heilnæma og kostaríka framtíðarland getur boðið börnum sínum. Sér í lagi teljum við, að bregða þurfi skjótt við, þar sem eyðingarhættan er á næsta leiti, en í hlut eiga lífvænleg byggðarlög, og að þjóðfélagið verði, svo sem unnt er og hagkvæmt, að beita áhrifum sínum í jafnvægisátt í sambandi við stofnun meiri háttar atvinnutækja og aðrar stofnanir, sem það á hlut að. Við teljum, að hér þurfi mikið fjármagn til að koma og á sem skemmstum tíma og hér verði að koma upp, svo sem fordæmi er fyrir meðal grannþjóða, sjálfstæðri og öflugri þjóðfélagsstofnun, jafnvægis- eða landsbyggðarstofnun, til að sjá um, að þetta fjármagn fái þann skapandi mátt, sem því er ætlað að hafa, og í því sambandi nauðsynlegar framtíðaráætlanir.

Við leyfum okkur að leggja til, að ríkið láti 2% af árlegum tekjum sínum skv. ríkisreikningi renna í jafnvægissjóð þann, sem gert er ráð fyrir að stofna, en það svarar til 70—75 millj. kr. á ári, miðað við núgildandi fjárl. og fjárlagafrv. það, sem fyrir þinginu liggur. Við leggjum enn fremur til, að jafnvægisnefnd verði næstu 5 ár heimilað að taka ríkisábyrgðarlán til starfsemi sinnar og að slík lántaka megi nema allt að 200 millj. kr. á ári. Er þá haft í huga, að lánsfé þetta geti numið tvöföldum tekjum sjóðsins og að verðbólga er í landinu. Að sjálfsögðu verður að gera ráð fyrir, að stjórn landsins, hver sem hún verður á hverjum tíma, veiti þann stuðning, sem með þarf við öflun lánsfjármagnsins.

Samkv. frv. hefur sjóðurinn og jafnvægisstofnunin í heild 7 manna þingkjörna stjórn, sem heldur mánaðarlega fundi, en ræður sér að öðru leyti starfskrafta til að fylgjast með byggðaþróuninni og til að framkvæma nauðsynleg rannsóknarstörf og áætlanagerð eða hagnýta rannsóknir og áætlanir annarra ríkisstofnana, sem að gagni koma á þessu sviði. En í frv. er jafnframt gert ráð fyrir því, að þróunin geti orðið sú, að einstakir landshlutar taki áætlunargerðina og uppbygginguna að meira eða minna leyti í eigin hendur hver á sínu svæði og fái til þess eðlilegan hluta af heildarfjármagni jafnvægissjóðsins. Við gerum ráð fyrir, að jafnvægisstofnunin ráðstafi fjármagni sínu einkum í formi útlána og ákveði sjálf lánskjör, en þó geti hér einnig, með nánar tilteknum skilyrðum, verið um óafturkræf framlög að ræða og að meðeign jafnvægissjóðsins í atvinnufyrirtækjum komi til greina, ef sérstaklega stendur á. Jafnvægislán skv. frv. eru því skilyrði bundin, að aðrir lánsmöguleikar hafi verið fullnýttir, og sams konar reglur mundu að sjálfsögðu gilda um framlög. Það er ekki ætlunin, að hinar almennu lánastofnanir eða fjárveitingarvaldið geti dregið sig í hlé með því að vísa á jafnvægissjóðinn. Honum er ætlað að leggja til síðustu þúsundirnar, ef svo mætti segja, og fjármagn, sem ella mundi ekki fást, ef stjórn hans telur það rétt og í samræmi við gerðar áætlanir. Hið almenna skilyrði og frumskilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð af jafnvægisfjármagni er, að hún sé í samræmi við tilgang laganna skv. 1. gr. frv., þ.e.a.s. til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í þeim landshlutum, þar sem bein eða hlutfallsleg fólksfækkun hefur átt sér stað undanfarið eða er talin yfirvofandi. Er þá auðvitað ekki átt við eitt og eitt ár, heldur lengri tíma.

Ég leyfi mér að vekja sérstaka athygli á 16. gr. frv., sem hljóðar svo: „Þegar komið er upp atvinnufyrirtækjum með fjárhagslegum stuðningi ríkisvaldsins, skal ríkisstj. leita álits jafnvægisnefndar um staðsetningu þeirra.“ Það er fráleitt, að ríkisvaldið vinni á móti sjálfu sér í þessu máli með því annars vegar að leggja fram jafnvægisfjármagn, en hins vegar að stuðla að því að nauðsynjalausu, að jafnvægi sé raskað með staðsetningu atvinnufyrirtækja. En í sambandi við þetta eru nú ljótar blikur á lofti.

Í öðru lagi leyfi ég mér að vekja athygli á bráðabirgðaákvæði frv., sem fjallar um að gera bráðabirgðaáætlun um sérstaka aðstoð við þau byggðarlög, sem dregizt hafa aftur úr eða yfirvofandi hætta er á að dragist aftur úr frá því, sem almennt er, að því er varðar aðkallandi framkvæmdir og uppbyggingu atvinnuvega, eða fari í eyði að verulegu eða öllu leyti, enda séu þar vel við unandi atvinnurekstrarskilyrði frá náttúrunnar hendi.

Varðandi efni frv. að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til texta þess á þskj. 24 og grg., sem fylgir því á sama þskj., svo og til umr. um jafnvægismálið á fyrri þingum.

Jafnframt leyfi ég mér að vekja athygli hv. þm. á tölum þeim um röskun mannfjöldajafnvægisins á síðustu 24 árum, sem birtar eru í grg. Fólksfjöldinn í landinu var í árslok 1940 rúml. 121 þús., en í árslok 1964 rúml. 190 þús. Fólksfjölgunin á þessum 24 árum er því nálega 69 þús. eða 56.6%. Meðalfjölgunin var 56.6%. En í 4 landshlutum, þ.e.a.s. á Austurlandi, Norðurlandi, Suðurlandi austan fjalls og Vesturlandi sunnan Gilsfjarðar, var fjölgunin minnst, aðeins 6.8%, og mest ekki nema 28.8%, á sama tíma og i einum landshluta, þ.e.a.s. á Vestfjörðum, var bein fólksfækkun um 18.7%. En í Kjalarnesþingi vestan fjalls var fólksfjölgunin á sama tíma 127.6%. Í 6 samliggjandi sveitarfélögum á hinu svonefnda Stór-Reykjavíkursvæði áttu heima 1. des. s.l. 97700 manns eða rúmlega helmingur allrar þjóðarinnar. Áframhaldandi þróun í þessa átt er engum til góðs. Hún stofnar landsbyggð í hættu, og hún er líka varhugaverð fyrir hið litla landssvæði, sem aðallega tekur við fólksfjölguninni. Höfuðborgin óskar ekki eftir þessari þróun. Hún hefur ekki heldur ástæðu til þess. En hin mörgu dreifðu byggðarlög og heilir landshlutar, sem verjast í vök, óttast hana. Þar lamar hún framtíðarvonir og framkvæmdaþrótt. Jafnvel höfuðstaður Norðurlands, Akureyri, hélt ekki sinni eðlilegu fólksfjölgun á síðasta áratug og ekki á árinu sem leið.

Okkur Íslendingum þykir vænt um hina fríðu höfuðborg. Það er mikils vert, að höfuðborginni og þeim, sem hana byggja, vegni vel og að hún geti rækt hlutverk sitt sem stjórnaraðsetur, menntamiðstöð og aflvaki á ýmsum sviðum þjóðfélagsins En Íslendingar búsettir að mestu eða öllu í einni stórborg yrðu ekki sama þjóð og Íslendingar búsettir um allt Ísland. Landsbyggðin og tilvera hennar heldur við áhuganum fyrir landinu, landssiðum og þjóðlegri menningu. Stórborg, sem hefur ekki samband við trausta landsbyggð í eigin landi, hlýtur í vaxandi mæli að tileinka sér viðhorf þeirra erlendu þjóða, sem þar hafa greiðastan aðgang. Kynni borgarbúa af óbyggðu ættlandi verða svipur hjá sjón samanborið við kynni hennar af byggðu landi. Reynslan sannar líka, þótt ég ræði það ekki nánar hér, að víða um hinar dreifðu byggðir Íslands nýtast náttúrugæði og vinnuafl mjög vel í þjóðarbúskapnum og líklega hvergi betur.

Það er ekki vert að loka augunum fyrir þeim möguleika, að framandi fólk, sem býr við landþrengsli og takmarkaða atvinnu, kunni á komandi árum að renna hýru auga til náttúrugæða og landrýmis hér, ef stórir landshlutar yrðu lítt eða ekki byggðir landsins börnum. En hvað sem því líður, verður varla um það deilt, að með byggð og athafnasemi um land allt styrkja Íslendingar löglegan og siðferðilegan rétt sinn til landsins, hvað sem fyrir kemur, en veikja hann með því að leggja landið að meira eða minna leyti í eyði.

Satt er það, að erfitt er að stríða gegn straumi, og þó láta menn sér ekki í augum vaxa nú á tímum að breyta framrás fallvatna og beina þeim jafnvel inn á nýjar leiðir. Máttur véltækninnar gerir þetta mögulegt. Hví skyldi þá ekki þjóðfélagstækni vorra tíma geta stillt þann straum, sem ógnar landsbyggð Íslendinga svo mjög, að sjálf undirstaða sjálfstæðisins skelfur?

Kaupstaða- og kauptúnaráðstefnan, sem haldin var á Akureyri s.l. vor, bar vott um vaxandi viðnám í þeim landsfjórðungi, sem þar átti hlut að máli, gegn jafnvægisröskuninni. Fundarsamþykktir viða um land allt benda til hins sama. Blöð og tímarit landsmanna hafa nú undanfarið rakið fordæmi annarra þjóða á þessu sviði, og hví skyldum við Íslendingar, sem eigum meira í hættu vegna röskunar byggðajafnvægis en nokkur önnur þjóð, ekki telja þörf skipulegra og skjótra aðgerða á sama hátt og þær? Fullvíst má telja, að sveitarstjórnir og sýslunefndir um land allt séu nú reiðubúnar til samstarfs við ríkisvaldið til verndar landsbyggð og til að afstýra hættu. Landsbyggðin er landvörn Íslendinga. Aðrar þjóðir verja hlutfallslega miklu meira fé af ríkistekjum sínum til hervarna en hér er gert ráð fyrir í sambandi við hina friðsamlegu landvörn okkar Íslendinga.

Þegar þetta mál var til meðferðar hér í þessari hv. d. fyrir nálega 3 árum, samþykkti meiri hl. hv. þm. rökstudda dagskrá þess efnis, að frekari aðgerðir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins væru óþarfar, því að í lögum um atvinnubótasjóð frá 1962 væri ákveðið að verja 10 millj. kr. á ári til lánveitinga í þessu skyni. Þá leit út fyrir, að nefndarmeirihl. sá, sem fyrir þeirri samþykkt stóð, hefði ekki kynnt sér efni frv. Ég fjölyrði ekki um þá samþykkt, enda fer e.t.v. bezt á því, að um hana sé lítið rætt. Ég veit, að viðhorf til þessa máls hefur breytzt nokkuð frá því, sem það var fyrir 2 árum, og myndarlegar aðgerðir í þessum málum eiga stoð í þjóðarvilja. Sumir hæstv. ráðh. eru nú byrjaðir að tala um að stofna framkvæmdasjóð strjálbýlisins, sem þeir nefna svo. Við flm. þessa frv. erum að sjálfsögðu fúsir til samstarfs um breytingar á því, sem til bóta mættu verða. En löggjöf á þessu sviði og fjármagn til að framkvæma hana verður að vera í viðunandi samræmi við þann mikla vanda sem hér er á ferð.

Ég legg svo til, herra forseti, fyrir hönd okkar flm., að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.