11.11.1965
Neðri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef tvívegis áður flutt frv. samhljóða því, sem hér liggur fyrir, en þau hafa ekki náð afgreiðslu hér á Alþ. Ég hef því áður rakið efni þessa frv. allýtarlega og mun aðeins nú drepa á aðalatriði málsins og vænti, að það þurfi ekki að fara hér neitt nákvæmlega út í skýringar á því, um hvað þetta frv. raunverulega fjallar.

Með frv. þessu er gert ráð fyrir því að gera þrjár meginbreytingar á gildandi l. um bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að breyta sektarfjárhæðum allverulega til hækkunar frá því, sem er í gildandi l. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að lagt verði bann við að afhenda veiðarfæri, sem gerð hafa verið upptæk með dómi, fyrr en í fyrsta lagi að mánuður sé liðinn frá því, að dómur sé upp kveðinn. En nú gilda þær reglur, að hægt er að afhenda slík upptæk veiðarfæri, eftir að þau hafa verið metin, og getur þá landhelgisbrjóturinn fengið þessi veiðarfæri til nýrrar notkunar svo að segja strax eftir að dómur hefur verið kveðinn upp. Og í þriðja lagi er um þá breytingu að ræða að ákveða á ótvíræðan hátt, að heimilt sé að beina ákæru og sektardómum á útgerðarfyrirtæki eða útgerðaraðila, þegar svo stendur á, að ekki eru tök á því að ná til hins seka skipstjóra.

Frv. fjallar sem sagt um þessi þrjú meginatriði og þá fyrst og fremst um það fyrsta, sem miðar að því að hækka landhelgissektir verulega frá því, sem verið hefur. Landhelgissektir hafa verið miðaðar við tvær stærðir skipa. Annars vegar eru sektarákvæði fyrir skip, sem eru að stærð undir 200 rúml., og sektarfjárhæðir gagnvart slíkum aðilum eru tiltölulega mjög lágar. En svo eru sektarákvæði gagnvart hinum skipunum, sem eru í stærri flokknum, þ.e.a.s. frá 200 rúmlestum og yfir. Nú hefur um langan tíma verið miðað við það, að þær sektir næmu kringum 240—260 þús. kr. En samkv. þessu frv. mínu er gert ráð fyrir því að flokka skipin í þrjá stærðarflokka: Í fyrsta lagi, eins og áður hefur verið, skip undir 200 rúml. og þar er ekki gert ráð fyrir að breyta sektarfjárhæðunum neitt. Í öðru lagi skip, sem eru að stærðinni til 200 rúml. til 600 rúml. Og svo í þriðja lagi skip, sem eru 600 rúml. og þar yfir. Í báðum þessum stærðarflokkum er gert ráð fyrir allverulegum hækkunum á sektum. Hækkanirnar, sem hér er lagt til að taka upp, eru þessar: Á skipum, sem eru 200—600 rúml., gætu sektirnar verið frá 390 þús. til 780 þús. kr., en eru nú, eins og ég sagði, yfirleitt 240—260 þús. kr. Og í stærsta flokki skipa, þ.e.a.s. 600 rúml. og yfir, yrðu sektirnar þá 780 þús. til 1365 þús. kr., en þær eru eins hjá þessum stærðarflokki nú og þeim næsta fyrir neðan, eða 240—260 þús. kr.

Hvaða ástæður liggja nú til þess, að lagt er til með þessu frv. að hækka sektirnar svona verulega? Meginástæðurnar eru þær, að þær sektarfjárhæðir, sem nú gilda, voru ákveðnar með l. frá 1951. Þá var mikill meiri hl. þeirra skipa, sem þessar sektir hlutu að gilda fyrir eða veiðar stunduðu þá hér við land, — þá voru botnvörpuskipin yfirleitt af stærðinni 300—500 rúml. En nú er þetta orðið breytt. Mikill meiri hl. skipanna er orðinn miklu stærri, eða á stærðarbilinu frá 600 rúml. og upp í 1000 og jafnvel þar yfir. Það er vitanlega eðlilegt, að sektarupphæð sé miðuð við verðgildi þess tækis, sem um er að ræða, og einnig aðstöðu eða getu í sambandi við þá fjáröflun, sem annars á sér stað með þessu tæki. Það leikur enginn vafi á því, að verðgildi skipanna nú er miklum mun meira en það var, þegar sektarfjárhæðirnar voru ákveðnar 1951. Bæði er það vegna þess, að skipin eru orðin miklu stærri, og eins er það vegna þess, að skipin eru miklum mun betur útbúin að tækjum eða margvíslegum útbúnaði, sem hefur hleypt fram verði skipanna mjög verulega. Þó að miðað væri við alveg sambærilegt verðgildi peninga, hygg ég, að það leiki enginn vafi á því, að flest skipin, sem hér um ræðir, séu nú orðin tvöfalt eða þrefalt verðmeiri en þau voru, þegar sektarfjárhæðirnar voru ákveðnar 1951. Af þeim ástæðum er auðvitað alveg augljóst, að það ber að endurskoða þá sektarfjárhæð, sem hér er um að ræða. Eins er hitt, að afli skipanna, sem nú er um að ræða, er orðinn margfalt verðmeiri en hann var, þegar sektirnar voru ákveðnar 1951. Það má að vísu segja um landhelgissektir, að þær hafi hækkað í hlutfalli við gengi krónunnar. En fiskverðshækkunin er miklum mun meiri en sem nemur hinni beinu gengisbreytingu, og því er hér um miklu verðmeiri afla að ræða en áður var. Af þessum ástæðum á vitanlega að breyta þessum sektarfjárhæðum frá því, sem þær eru nú.

Annað atriðið, sem lagt er til að gerð verði breyting á, sem snertir afhendingu veiðarfæra, er þess eðlis, að með því að setja þær reglur, sem lagt er til að hafa um þetta í frv., er miðað að því að koma í veg fyrir, að landhelgisbrjóturinn geti haldið áfram iðju sinni með þeim veiðarfærum, sem höfðu verið gerð upptæk með dómi, lokið sínum veiðitúr, eins og nú er mjög algengt, og skýr ákvæði væru í lögum um, að það væri óheimilt að afhenda þessi upptæku veiðarfæri, fyrr en í fyrsta lagi að mánuður væri liðinn frá uppkvaðningu dóms. Þá mundi það í mjög mörgum tilfellum verða til þess, að landhelgisbrjóturinn yrði að hætta að fullu og öllu við veiðitúr í þetta skiptið og halda til síns heimalands aftur til þess að fá ný veiðarfæri. Ég held því, að þetta ákvæði sé sjálfsagt og það yrði til þess að draga nokkuð úr landhelgisbrotum.

Þriðja atriðið er um það að gera alveg ótvírætt heimilt samkv. okkar lögum, að beina megi ákæru og dómum að eiganda útgerðar eða útgerðarfyrirtæki í þeim tilfellum, þegar hinn seki skipstjóri hefur með einum eða öðrum hætti komizt undan. Ég tel, að reynslan hafi sýnt okkur, að það er alveg nauðsynlegt að hafa skýr ákvæði í þessum efnum, enda er það hið eðlilega, að útgerðareigandi standi ábyrgur í slíkum tilfellum, þegar ekki verður um það deilt, að skip hans hefur verið tekið að ólöglegum veiðum. Þó að skipstjórinn, sem átti samkv. venju að ákæra, hafi komizt undan, verður vitanlega útgerðaraðili að standa ábyrgur fyrir því, sem gert var með hans skipi.

Á síðasta þingi tókst að fá frv. þetta afgreitt, að vísu á síðustu stundu, úr sjútvn., sem hefur haft þetta mál til meðferðar á tveimur undanförnum þingum. N. varð sammála um að mæla með því, að lögin um bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi yrðu tekin til endurskoðunar og þau atriði, sem þetta frv. fjallar um, yrðu m.a. tekin þar upp, en eins og áður segir, tókst ekki að fá málið að fullu afgr. hér í d. Ég tel, að þetta mál hafi legið það lengi fyrir hv. Alþ. og fyrir þeim stjórnarvöldum landsins, sem með þessi mál eiga að hafa að gera, að það sé full þörf á því, að Alþ. afgreiði nú málið á þessu þingi efnislega, ekki aðeins á þann hátt, að skorað verði á stjórnarvöldin að láta endurskoða þessi lög, heldur að Alþ. taki nú afstöðu til meginefnisatriða málsins. Það er ekki vansalaust að hafa þessi mál áfram eins og þau eru nú, því að á því leikur enginn vafi, að þeir, sem mest sækja okkar landhelgi, erlendir veiðiþjófar, geta, eins og nú er högum háttað, í mjög mörgum tilfellum talið það áhættu vert að leita inn í landhelgina, vegna þess að sektarákvæðin eru ekki strangari en svo. Raunverulega er það svo, að þessar sektir hafa verið að lækka á undanförnum árum og það til mikilla muna frá því, sem áður var. Þetta tel ég ekki vansalaust. Ég vil því vænta, að sú n., sem fær nú þetta mál til meðferðar, sem væntanlega verður hv. sjútvn., sjái sér nú fært að taka efnislega afstöðu til málsins og mæla með því, að þetta frv. verði samþ. nú á þessu þingi.

Herra forseti. Ég legg svo til, að frv. verði vísað til sjútvn. og 2. umr.umr. lokinni.