11.11.1965
Neðri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (2474)

46. mál, bygging leiguhúsnæðis

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 8. og hv. 5. landsk. leyft mér að flytja þetta frv.

Það efast líklega enginn um það af hv. þm., að réttur manna til húsnæðis er einn frumstæðasti réttur, sem á að vera hægt að fullnægja handa hverjum manni. Nú stendur það svo hjá okkur í þjóðfélaginu, að það er raunverulega ekkert öryggi fyrir húsnæði nema fyrir þann, sem á húsnæðið sjálfur. Það eru dæmi þess t.d. hér í Reykjavík, að menn verða að flytja burt úr borginni, sleppa þeirri atvinnu, sem þeir hafa haft, og annað slíkt, vegna þess að þeir geta hvergi fengið inni. Það hefur verið mjög ánægjulegt kjörorð á ýmsan máta, að hver maður skuli eiga sitt húsnæði. En það er alveg óhugsandi að ætla að leysa húsnæðisvandamál almennings með þessu móti. Það að eignast sitt eigið húsnæði kostar nú sem stendur ekki neitt smáræði, og það, sem ríkið leggur fram sem lán til að gera mönnum slíkt kleift, er venjulega ekki nema í hæsta lagi þriðjungur af því, sem slíkt húsnæði kostar. Það er þess vegna alveg óhugsandi að ætla að bæta úr þessum frumstæðu þörfum manna með því eina móti að segja mönnum, að menn verði sjálfir að eiga sína íbúð og ríkið hjálpi þeim eitthvað ofur lítið til þess. Fæstir eru einu sinni færir um að leggja á sig allan þann þrældóm, sem það kostar að eiga einhvern veginn að borga niður nýtízku íbúð á kannske 15—20 árum og mestan hlutann af því svo að segja áður en menn flytja inn, með þeim peningum, sem þeir þurfa að leggja fram fyrir utan ríkisframlagið. Það er þess vegna alveg óhugsandi, að það sé hægt að leysa þessi spursmál með þessari aðferð, þó að hún sé út af fyrir sig ákaflega skemmtileg. Hins vegar er svo í mótsetningu við það, sem var hér oft og tíðum í fyrri daga, t.d. á krepputímum, að það er ekki hægt að komast af með leiguhúsnæði. Leiguhúsnæði er núna t.d. í Reykjavík orðið hverfandi minni hl. af öllum þeim íbúðum, sem þar eru, og þetta leiguhúsnæði er orðið afskaplega dýrt, jafnt í gömlum sem nýjum íbúðum. Í nýjum íbúðum er kannske ekki hægt að segja svo afskaplega mikið við því, að þeir menn, sem hafa byggt alveg á síðustu og verstu tímum, leigja kannske út frá 5 upp í 7 þús. kr., en fyrir þann, sem leigir, er það ægilegt. En þegar um er að ræða t.d. gamlar íbúðir, sem nú eru víða leigðar út í Reykjavík fyrir álíka upphæð, er orðið um algerlega óaðgengileg kjör að ræða fyrir menn. Ég býst ekki við, að það séu neinir framtakssamir menn, sem leggja sérstaklega í það nú að byggja húsnæði til þess að leigja það. Það eru máske ýmsir braskarar, liggur mér við að segja, sem leggja í að byggja hús og selja þau og reyna að græða á þeim nokkuð, en hinir munu vera færri og kannske mjög fáir, sem leggja í það nú á tímum að ætla að byggja fjölbýlíshús til þess eins að leigja síðan út. Það þýðir m.ö.o., að það, sem einu sinni var tiltölulega gróðavænleg atvinnugrein hér í Reykjavík eða gróðavænleg fjárfesting, skulum við segja, fyrir ýmsa menn, það er langt frá því að vera það nú.

Það er óhugsandi að ætla að treysta á hið svokallaða einstaklingsframtak til þess að byggja íbúðir til að leigja til almennings. Það er þess vegna gefið, að þarna verður það opinbera að grípa inn í, og það gladdi mig mjög, að einmitt í þeim samningum, sem gerðir voru síðasta sumar, var af hálfu ríkisstj. nokkuð orðið við því gagnvart verkalýðsfélögunum að reyna að gera vissar ráðstafanir til þess að bæta úr erfiðleikum í slíku, eins og kunnugt er. En þess verða aðnjótandi í hæsta lagi nokkrir menn úr verkalýðssamtökunum og vafalaust ekkí eins margir og þyrftu, en það, sem hér er um að ræða í þessu frv., er að gera þarna almennt átak, sem komi almenningi yfirleitt til góða.

Í frv. felst till. um, að ríkisstj. heimilist að láta byggja á árinu 1966 500 íbúðir til þess að bæta úr skorti á leiguhúsnæði, sem ríkir í ýmsum kaupstöðum eða kauptúnum landsins, það skuli orðið við þessari þörf kaupstaða eða kauptúna, þegar viðkomandi stjórn sveitarfélags lýsir því yfir, að þörf sé fyrir slíkar leiguíbúðir, og húsnæðismálastjórn staðfestir, að það sé rétt með farið. Jafnframt því sem þetta er þannig tilraun til samvinnu ríkis og sveitarfélaga, að mestu leyti undir forustu húsnæðismálastjórnar eða a.m.k. getur það verið svo, ef ríkisstj. vill, er um leið reynt með þessu að gera nokkra tilraun til þess að koma íbúðabyggingum okkar í sæmilegra horf hvað snertir tæknilegar aðstæður við byggingar. Það er kvartað yfir, hvað íbúðir séu dýrar nú á tímum. En það er máske ekki nema eðlilegt, ef aðgætt er, hvernig farið er að því að byggja. Mjög mikið af íbúðunum er byggt þannig, að einstaklingarnir, sem þarna ætla að búa í og kaupa þessar íbúðir, oft áður en þær eru byggðar meira að segja, ráða meira eða minna um allar teikningar og breytingar, sem gerðar eru frá upprunalegri teikningu, eftir að byrjað er að byggja þetta. Er því oft hagað svo til t.d., að það er kannske einn meistari, sem tekur að sér eitt stigahús, eða nokkrir meistarar með honum. Þetta er allt saman í svo smáum stíl, svo ópraktískt, hvert hús svo að segja eftir sinni teikningu, að það er eins og það sé skipulagt, að það geti orðið sem dýrast, fyrir utan svo það, sem beinlínis er grætt á þessu oft og tíðum, okrað bæði í sambandi við byggingarlóðirnar og svo sjálfa söluna á því.

Hérna er lagt til, að það sé byggt í allstórum stíl, þannig að það séu mjög margar íbúðir, sem byggðar séu í einu, og að mestu leyti aðeins eftir þrennum teikningum, miðað við annars vegar 60—70 fermetra innanmál útveggja og hins vegar 70—80 m2 2—3 herbergja íbúðir með eldhúsi og borðkrók, sem sé þessar 500 íbúðir séu hugsaðar sem tvennar tegundir af frekar smáum íbúðum, en þó með nýtízku þægindum, þetta sé byggt helzt þannig, að það sé byggt við götu, þar sem hægt er að vinna að þessu í svo að segja einum áfanga, hverja samstæðu þarna og hana helzt ekki minni en svo, að t.d. í Reykjavík væru það ekki minna en 100 íbúðir, sem þannig væru teknar fyrir í einu. Með þessu móti mundi sparast ákaflega mikið, í fyrsta lagi frá hálfu bæjar og ríkis. Allar aðstæður við bygginguna, allar leiðslur og allt slíkt, allur gröftur lóðanna, allt þess háttar yrði gert í einu og síðan yrðu byggð þarna samstæð hús, að mestu eftir sömu teikningu, þannig að það þyrfti ekki að vera svo að segja einn meistari af hverri tegund við hvert stigahús. Með þessu móti ætti að vera hægt að gera svona byggingar eins ódýrar og hægt er að gera þær nú. Ég hef tekið eftir því, að sumir framtakssamir menn hér hafa verið að reyna t.d. að koma upp þeim hætti við byggingar, sem víða tíðkast erlendis, að það eru steyptir hlutar úr húsinu og teknir síðan á lyftikrana og settir upp. Svona hluti er eiginlega óhugsandi að ætla að gera öðruvísi en það sé um margar íbúðir að ræða, sem verið sé að byggja með þessu móti. Það borgar sig lítt að fara að steypa þannig, ef það er kannske fyrir 10—20 íbúðir eða eitthvað slíkt. Allur svona rekstur nýtur sín ekki, nema hann sé í stórum stíl, og þess vegna, ef menn ætluðu að koma nýtízkulegum tæknilegum útbúnaði og rekstri að, er það helzt hægt einmitt ef t.d. ríkið væri að láta byggja í þetta stórum stíl. Þess vegna er í 5. gr. hjá okkur flm. sett það ákvæði, að ríkisstj. skuli bjóða út smiði bygginga þessara og þegar um Reykjavík er að ræða bjóða út a.m.k. smíði 100 íbúða í einu lagi til þess að knýja fram þannig sem ódýrasta smíði, og 24 íbúðir a.m.k., ef um önnur bæjarfélög er að ræða. Ég þykist vita, að þegar boðið er út þetta stórt í einu, séu það yfirleitt þau stærri byggingarfélög, sem um þetta geta keppt. En ég álít ekki heldur, að þetta eigi að verða neitt til þess, að einstakir, 3—4 meistarar í hverri grein, geti slegið sér saman um eitt stigahús eða einar 8 íbúðir, sem alltaf verður til þess að gera þetta eins dýrt og það getur orðið. Þvert á móti álit ég, að þau stóru byggingarfélög og þeir meistarar, sem vilja slá sér saman, geti þá keppt virkilega um að gera þetta sem allra ódýrast og ríkið og sveitarfélög og húsnæðismálastjórn hafi sem bezta aðstöðu til þess að hagnýta þá frjálsu samkeppni á milli þessara byggingarfélaga á sem allra beztan máta fyrir almenning. Ég tók eftir því mér til ánægju, að í því, sem ríkisstj. samdi um í sumar við verkalýðsfélögin, er líka reynt að gera nokkuð ráð fyrir, að reynt sé að hafa sem tæknilega fullkomnastan hátt á smíði þessara íbúða, sem þar er um að ræða, og er það mjög vel farið, og í því stærri stíl sem slíkt er gert, því betra er það.

Þá er tekið fram í 4. gr., að leiga af þessum íbúðum megi ekki vera hærri en samsvarar 8% af verði íbúðanna. Ég veit, að þarna er um tiltölulega erfitt ákvæði að ræða, en ákvæði, sem fyrr eða seinna verður að reyna að leggja út í. Það verður að reyna að koma niður leigunni almennt, bæði hér í Reykjavik og annars staðar í landinu. E.t.v. hafa ýmsir hv. þm. fylgzt með því, að um tíma hefur á Norðurlöndum verið í gildi, — að vísu hefur það stundum rýrnað nokkuð og ýmsir gallar á því, — mjög róttæk löggjöf í húsnæðismálum, þar sem svo er fyrir mælt, að menn geti fengið lán til íbúða til allt að 80—90 ára, geti fengið lánaðar um 90% af kostnaðinum við að byggja húsið og skuli borga í vexti af þessum lánum 2% af helmingi lánanna og 4% af hinum helmingnum. Þetta eru lán, sem sósíaldemókratísku stjórnirnar á Norðurlöndum hafa sett í gegn, og þrátt fyrir það, að það hefur oft gengið nokkuð seint að framkvæma þetta, menn hafa orðið stundum að bíða nokkuð lengi, hefur þetta haft þann stóra kost í sambandi við húsaleigulög, sem verið hafa í gildi, mjög ströng húsaleigulög, sem eru í gildi í öllum höfuðborgum Norðurlanda, að það hefur verið hægt að hindra hækkun húsaleigu í þeim mæli, sem hefur orðið hér hjá okkur. Húsaleigan hefur að vísu stigið, eins og eðlilegt er, en ekki farið í aðra eins hæð og er orðið hér hjá okkur. Fyrir það land, sem byggir mikið á útflutningi, er þetta spursmál um húsaleiguna úrslitaatriði fyrir atvinnureksturinn, og land eins og okkar, sem byggir fyrst og fremst á útflutningi sinna afurða, þar með líka á því að verða að taka tillit til þess, hve há húsaleiga sé og hve há vinnulaun séu, fyrir landið almennt er það alveg óhjákvæmilegt að reka slíka pólitík í húsnæðismálum, að húsaleigan geti haldizt sem lægst. Svo framarlega sem húsaleiga hækkar mikið, eins og hér hefur orðið, eða menn verða að borga gífurlega mikið til þess að komast yfir eigið húsnæði, þýðir það óhjákvæmilega, að launþegar í viðkomandi landi hljóta að pressa þannig á til þess að standa undir þessum húsnæðiskostnaði, að laun þeirra hækka því meira sem húsnæðiskostnaðurinn hækkar. Ef þeir, sem þjóðfélaginu stjórna, vilja þess vegna hafa forsjá viðvíkjandi því, hvert verð sé á útflutningsafurðunum, þurfa þeir að stemma á að ósi, þá þurfa þeir m.a. að sjá til þess að reyna að halda húsaleigu það hóflegri, að verkamenn séu ekki vegna hækkunar á henni knúðir til þess að heimta því hærri laun, líka við útflutningsframleiðsluna.

Ég vil þess vegna vekja eftirtekt á því, að baráttan fyrir því að halda sæmilegri húsaleigu og þar með náttúrlega líka sæmilegum kjörum, sérstaklega löngum lánum og lágum vöxtum á eigin íbúðarhúsnæði, er um leið nauðsyn fyrir útflutningsframleiðsluna, sem útflutningsframleiðendunum er oft og tíðum ekki nægilega ljós. Ákvæðið um, að leiga megi ekki vera meiri en 8% af verðinu, er þess vegna að vísu mjög róttækt ákvæði, sem kemur til með að hafa ýmsar afleiðingar á ýmsum öðrum sviðum, ef það yrði að lögum. Það þýðir m.a., að ríkisstj., hver sem hún er, hlyti þá að beita sér fyrir því, að lánin til þessara bygginga, sem hún sjálf leggur í, væru mjög ódýr, og ég vil minna á, að lán til íbúðabygginga, meðan Ísland var fátækt land, voru yfirleitt, eins og t.d. var byrjað með verkamannabústaðina, með 2 1/2 % vöxtum. Og það þykir í flestum menningarlöndum, ekki sízt með tilliti til útflutningsframleiðslunnar, alveg nauðsynlegt að reyna að halda lánum til íbúðabygginga á því stigi. Og hér er náttúrlega við það átt, að hvaða ríkisstj. sem er gæti alltaf skyldað t.d. Seðlabankann til þess að lána, ef hún þyrfti á að halda, þær lánsfjárhæðir, sem þyrfti, með slíkum vöxtum, og slíkir vextir hafa lengi vel viðgengizt í okkar lögum, og ef það er stefna einnar ríkisstj. að reyna t.d. að hindra verðbólgu og koma í veg fyrir gengislækkun, er það að ákveða þessa lágu vexti ein frumstæðasta forsendan fyrir því að geta stöðvað verðbólgu og þar af leiðandi síðar meir gengislækkun. Ef vextir af því fé, sem ríkisstj. notar til slíkra bygginga, væru ekki nema 2—3%, mundi, miðað við alllöng lán, hitt geta dugað nokkuð til þess að standa undir viðhaldskostnaði og öðru slíku, a.m.k. til að byrja með. Ef hugsanlegt væri með skynsamlegum aðferðum við byggingar og tiltölulega lágum vöxtum að gera þessar byggingar ódýrari en nú gerist yfirleitt, jafnvel 20—30% ódýrari, ætti eftir þessari 5. gr. jafnvel að vera hægt að hafa leigu á svona íbúðum allt að því helmingi lægri en nú tíðkast. En eins og menn vita, er þetta núna jafnvel 6—7 þús. kr. á mánuði oft og tíðum fyrir slíkar íbúðir. Þó skal ég taka það fram einmitt hvað snertir Reykjavík, að það eru margir mjög heiðarlegir húseigendur, sem leigja á mjög lágu verði og halda þá máske sömu leigjendunum áratugi í sínum húsum. En raunverulega eru slíkir húseigendur bókstaflega, miðað við þá frjálsu verðmyndun, að gefa af því fé, sem þeir ósköp vel gætu fengið. En það eru menn, sem bókstaflega kunna ekki við það að notfæra sér þennan okurmarkað, sem skorturinn á leiguhúsnæði hefur skapað.

Í 6. gr. er fyrir utan heimildina til ríkisstj. um að taka allt að 200 millj. kr. lán vegna þessara byggingarframkvæmda ríkisstj. heimilað að semja við sérstaka sjóði um að leggja fram fé til slíkra bygginga með þeim kjörum, að þeir eigi slíkt húsnæði sem samsvarar þeirra framlagi og fái af því þær vaxtatekjur, sem ríkið hefur ætlað sjálfu sér. Ríkið annast hins vegar alla stjórn á þessu. Við settum þessa hugmynd inn í, flm., til þess að t.d. stórir sjóðir, og við vitum, að það eru margir stórir sjóðir, almannasjóðir, sem hafa legið nú um áratugi í bönkunum hérna og sífellt verið að rýrna að gildi, — við vildum gefa þessum sjóðum kost á að leggja fram fé til að byggja á þennan máta. Við vitum, hvernig það hefur verið undanfarna áratugi, sérstaklega hér í Reykjavík og víðar. Sá raunverulegi sparisjóður, sem menn hafa lagt í, eru íbúðabyggingar. Sá maður, sem hefur ætlað að varðveita sitt fé gegn því að láta það verða möl og ryði að bráð svo að segja, ef má nota slíka líkingu í slíku sambandi, hefur lagt sitt fé í íbúðabyggingar í staðinn fyrir að leggja það inn í sparisjóð. Íbúðabyggingarnar og það, hve mikill áhugi hefur verið fyrir þeim, hefur meðfram stafað af því, að þetta hefur verið eini raunverulegi sparisjóðurinn undanfarna áratugi, því að þeir, sem lagt hafa í sparisjóði, hafa auðvitað tapað á því, eins og vitanlegt er. Þessir sjóðir hins vegar hafa venjulega verið látnir liggja þarna. Fæstir slíkra sjóða hafa haft nokkuð með það að gera að stunda íbúðabyggingar eða annað slíkt. Við vildum þess vegna með þessari 6. gr. gefa slíkum sjóðum tækifæri til þess að lána ríkisstj. svo og svo mikið og að 10 árum liðnum mættu þessir sjóðir síðan selja þessar íbúðir, sem þeir hefðu átt allan þennan tíma. Þannig hefðu þá, ef verðbólgan skyldi halda áfram, þessir sjóðir haldizt í sínu upprunalega gildi. Og ég geng út frá, að ýmsir stjórnendur slíkra almannasjóða mundu nota sér slíkt tækifæri. Slíkt er miklu hagnýtara fyrir þá en fá t.d. 8—9% vexti af sínum lánum. Það hins vegar að leyfa jafnvel að selja þessar íbúðir eftir 10 ár gerðum við með það fyrir augum, að eftir 10 ár færu þessar íbúðir meira að þarfnast viðhalds. Þeir, sem í þessum íbúðum hefðu búið, mundu kannske oft og tíðum sjálfir þá vera í allt annarri aðstöðu til þess að geta keypt þær og geta þá máske fengið á þeim hagkvæmari kjör en þau, sem þeim stæðu til boða, þegar þeir væru að byggja íbúðir fyrir sjálfa sig. Við vitum, að það er margt annað fólk, sem á slíkum íbúðum þarf að halda. Það er vitað, að t.d. ung hjón verða, ef þau eiga ekki beinlínis einhverja auðkýfinga að hér í Reykjavík, sem gefa þeim 5—6 herbergja íbúð á brúðkaupsdaginn með bílinn standandi fyrir utan og uppmublerað allt saman, þá verða ung hjón venjulega að byrja með því að búa heima hjá foreldrum annars hvors þeirra. Og það er vitanlegt, að oft og tíðum er það svo, að það er eitthvað farið að flytja inn í íbúðir, löngu áður en slíkar íbúðir eru íbúðarhæfar, og það jafnvel með ung börn, þannig að beinlínis hætta stafar af. Það þurfa að vera til íbúðir, þar sem ung hjón geta flutt inn án þess að þurfa fyrst að vera að hugsa um það að vera að byggja búsnæði yfir sig. Ef þau geta flutt inn og búið þar sín 5—10 ár og á meðan athugað um að fara að búa sig undir það að koma eigin þaki yfir höfuðið, eru aðstæðurnar fyrir það allt öðruvísi. Alveg sama gildir um margt af gamla fólkinu, fólki, sem gjarnan vill kannske, þegar það fer að eldast, selja íbúðir, sem hafa verið mátulegar, meðan börnin voru að komast upp, en vill gjarnan flytjast í minni íbúð, þegar það eldist. Það er alveg óhugsandi að ætla að leysa íbúðarþörf manna með því, að menn byggi aðeins eigin íbúðir, því að þær eru venjulega hugsaðar út frá því eins og fjölskylda er, þegar hún er hvað stærst. Þess vegna er enginn efi á því, að svona íbúðir mundu bæta úr ákaflega brýnni þörf og hjálpa mönnum mikið líka við að geta á sæmilegan hátt komizt yfir það að reyna að byggja siðar meir sjálfir. Og ég held, að hvað snertir þetta í 6. gr. með sjóðina, að það yrði mjög vel þegið af mörgum forráðamönnum slíkra sjóða að hafa slík tækifæri. Hins vegar t.d. fyrir ríkið eða þjóðina yrði það venjulega praktískt eftir 10 ár að geta máske losað sig við svona íbúðir og látið þá, sem í þeim búa og vilja eignast þær, taka við þeim, en halda svo aftur áfram því að byggja nýjar íbúðir annars staðar.

Ég vil taka það fram hins vegar, um leið og við leggjum þetta frv. fram, að það er síður en svo, að Alþ. hugsi þetta sem einhverja almenna lausn á húsnæðisvandamálunum. Þetta er aðeins um þetta tiltölulega litla svið, hvað snertir að koma upp leiguhúsnæði af því að þar er orðið hreint neyðarástand. Ég veit um fólk, sem bókstaflega á hvergi þak yfir höfuðið, þegar það er hrakið út úr því leiguhúsnæði, sem það er kannske búið að búa í um áratugi, og sér eiginlega ekkert annað en það verði að reyna að flýja eitthvað í burtu úr bænum svo og missa alla þá atvinnu, sem það hefur haft hér og stundað kannske um áratugi, vegna þess að það kemst hvergi nokkurs staðar inn. Þannig er ástandið í dag, og úr þessu þarf að reyna að bæta. Viðvíkjandi aftur á móti þeirri varanlegu framtíðarlausn á húsnæðisvandamálunum er slíkt ekki gert nema með félagslegu framtaki almennings og þeim stuðningi frá ríkisstj., sem frekast er hægt að veita. Álít ég, að það þurfi að stefna að því, að það verði eitthvað í þeim stíl, sem víða hefur verið stefnt að með löggjöf á Norðurlöndum, að það séu 80—90% af byggingarkostnaðinum, sem fást að láni, lánin séu til 60—80—90 ára og vextir séu 2—4%. En það er náttúrlega gefið mál, að þar koma víxláhrifin til greina, að slík kjör treystir ekkert þjóðfélag sér til þess að setja, nema það fastsetji sér það að ráða við verðbólguna um leið. En um leið er líka slík ákvörðun um lánveitingar til húsnæðis eitt allra öflugasta ráðið gegn verðbólgunni, því að þetta eru hlutir, sem hafa víxláhrif hvorir á annan og þar verða menn einhvern tíma að þora að stinga við fótum og segja: Nú skal verðbólgan verða stöðvuð. — Og þegar ég segi það, á ég náttúrlega ekki við, að öll verðbólga sé stöðvuð gersamlega. Verðbólga, sem er frá 2—5% á ári, er ekki hættuleg neinu þjóðfélagi. Það er það, sem almennt hefur viðgengizt f gegnum aldirnar. En verðbólga hins vegar, sem er orðin 10—20% á ári, eins og hún befur verið hjá okkur, er bölvaldur í þjóðfélaginu. En ætli menn að stöðva slíkt, þarf þarna samræmdar aðgerðir, samræmd átök frá hálfu bæði þeirra almennu samtaka með þjóðinni og af hálfu ríkisstj. og bæjarfélaga, og það er mál, sem ég ætla ekki út í hér.

Ég vildi vonast til þess, að þetta frv., þegar það í þriðja sinn er flutt, mætti finna náð fyrir augum þeirrar n., sem ég legg til, að það fari til, heilbr: og félmn., sem mun nú líka fá þau mál, sem koma frá hv. Ed., frv. ríkisstj. Það væri ákaflega æskilegt, að það væri hægt að skapa samstarf um það í þinginu, að við tækjum þessi stóru mál svo rækilegum tökum, bindumst svo að segja fóstbræðralagi um það að reyna einmitt að byrja á þessu sviði viðureignina við dýrtíðina. Það er engum efa bundið, að mesta kjarabót, sem hægt er að skapa nú fyrir launþega, ekki aðeins í Reykjavík, heldur um allt land, er að koma þessum húsnæðismálum í lag, hvort heldur það er leiga eða greiðsla af eigin íbúð. Á meðan greiðsla af eigin íbúð eða leigur fara upp í að vera þriðjungur, ég tala nú ekki um stundum kannske helmingur af tekjum eins manns, heldur sú þensla áfram, að t.d. verkalýðssamtökin hljóta alltaf að krefjast hærri og hærri launa. Það er þarna, sem þarf að gripa inn í. Þetta er langstærsti útgjaldaliðurinn hjá þorranum af öllum fjölskyldum, sérstaklega þó hjá þeim ungu. Ég veit, að það er ákaflega misskipt hjá launþegunum í þessum efnum. Það eru ýmsir, sem búa kannske í gömlu, skuldlausu húsnæði, og fyrir þá er þetta náttúrlega allt annað. En fyrir þá, sem nú eru að flytjast inn í nýtt húsnæði, þá ungu, sem eru að skapa sér heimili, er þetta húsnæðismál langþýðingarmesta málið hvað snertir að reyna að ráða við dýrtíðina og um leið fyrir þjóðfélagið að reyna að komast út úr þeirri úlfakreppu, sem verðbólguvandamálið skapar.

Ég vil þess vegna leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. heilbr.-og félmn., og vil vona, að n. athugi þessi mál mjög alvarlega. Það er vissulega ánægjulegra, ef við gætum hérna á þinginu komið okkur saman um að afgreiða svona mál á þingræðislegan máta, heldur en það þurfi að verða svo hvað eftir annað nú, að ríkisstj. og verkamannasamtök, hver svo sem ríkisstj. er, á hverjum tíma verði að semja einmitt um þessi mál, sem er í okkar verkahring að afgreiða. Og af hverju virðist t.d. núv. hæstv. ríkisstj. semja við verkamannasamtökin þannig? Vegna þess að við hér á þinginu vanrækjum okkar starf. Vegna þess að við afgreiðum ekki þessi mál hér frá þinginu, sem eru svo lífsnauðsynleg, að það kemur á daginn, að það er meira að segja ekki hægt að leysa vinnudeilur án þess að sýna einhvern lit á því að afgreiða þessi mál. Ég vil þess vegna eindregið vona, að við getum náð einhverju samstarfi um það hér á Alþ. að stíga í vetur stórt skref í því að leysa þessi stóru vandamál.