11.11.1965
Neðri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

46. mál, bygging leiguhúsnæðis

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir góðar undirtektir undir þetta mál. Sumt af því, sem hann sagði, eru smáatriði. Ég vil hugga forsrh. með því, að ég tala ekki síður fyrir hönd Sósfl. en Alþb., ef hann skyldi halda, að það væri einhver efi um það, hvernig við litum á það, hvernig vinnudeilurnar voru útkljáðar, og Sósfl. var ekki síður ánægður með það en Alþb. í heild. Hitt er náttúrlega allt annað mál, að meðan vinnudeilurnar standa yfir, berst eðlilega okkar málgagn alveg eins og hægt er fyrir því að pressa allt fram, sem mögulegt er. Það þekkir annar eins samningamaður og hæstv. forsrh. sjálfur, að meðan samningar standa yfir, er gagnrýnt fyrst og fremst og haldið uppi baráttuandanum, þangað til þess þarf ekki með. Hins vegar er ákaflega tvieggjað að taka almenn löggjafarmál til að útkljá í vinnudeilum, og það þykist ég alveg vita, að hæstv. forsrh. sé mér sammála um. Það er svo tvíeggjað, að þótt við höfum nú meira en 20 ár gert þetta, vitum við báðir ósköp vel, að þetta eru raunverulega næstum því lögbrot, því að í vinnulöggjöfinni er mjög ákveðið tekið fram, að það megi ekki nota verkföll til þess að knýja ríkisstj. til þess að hætta við að gera það, sem hún hafi ætlað að gera, eða til þess að gera það, sem hún hafi ekki ætlað sér að gera. Og þegar við þess vegna setjum þetta í gegn, huggum við okkur báðir alltaf við það, að hæstv. ríkisstj. hafi frá upphafi ætlað sér að setja brbl. um þetta, þó að það hafi viljað svona til, að þetta hafi orðið á sama tíma sem verkföll voru auglýst. M.ö.o.: það er alveg eðlilegt af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að líta svo á, að náttúrlega er Alþ. til þess að setja lög, og fulltrúar verkalýðsins á Alþ., í hvaða flokki sem þeir telja sig, eiga að reyna að vinna að því, að í löggjöf Alþ. sé komið fram þeim málum, sem verkalýðurinn hefur alveg sérstakan áhuga fyrir. Það er ekki ætlazt til þess í raun og veru og ekki heldur af vinnulöggjöfinni, að það sé verið að setja þau almennu umbótamál fyrir þjóðfélagið almennt í gegn. Hins vegar skal ég allra manna sízt hafa á móti, að verkalýðshreyfingin sé notuð til slíks. Það er okkur báðum áreiðanlega ljóst, hvaða gallar eru á því. Við vitum, að verkalýðshreyfingin hefur verið líka notuð til þess úti um heim að tryggja t.d. almennan kosningarrétt, og það hafa verið háð allsherjarverkföll, eins og í Belgíu, til þess að knýja fram almennan kosningarrétt og annað slíkt. Og hvers konar mannréttindum hefur þannig verið barizt fyrir. Við þekkjum, hvernig þetta hefur verið heima hjá okkur. 1942 flytjum við þm. Sósfl. frv. um orlof, og í samningunum, sem gerðir eru þá í skæruhernaðinum svokallaða, er m.a. samið um það milli atvinnurekenda og verkamanna, að það frv. skuli skoðast sem lög, og síðan er það samþykkt sem lög í þinginu þá, í ágúst. Sama er með atvinnuleysistryggingarnar. Við vorum búnir að flytja þetta í 12 ár hér 1955, þegar 6 vikna verkfallið stóð, og þá er samið um það að lokum, að meginið úr því frv. skuli verða lög. Sama var um lífeyrissjóð sjómanna, sem við höfum líka flutt hér frv. um nokkrum sinnum. Þetta er náttúrlega út af fyrir sig, en þegar maður fær það ekki í gegn öðruvísi, gerði maður sig ánægðan með að fá það í gegn svona.

Við ætlumst hins vegar til þess, að þeir fulltrúar, sem verkalýðurinn á á Alþ., reyni fyrst og fremst með samningum á Alþ. og sinni baráttu þar að koma þessum málum í gegn, því að það er ein hætta, sem alltaf skapast í sambandi við þetta, og það er hætta, sem ég alveg sérstaklega vil vekja athygli hæstv. forsrh. á. Það skapast sú bætta, að einni ríkisstj. detti í hug, — ég er ekki að meina núv. ríkisstj. frekar en neina aðra, — detti í hug, að það sé í raun og veru ákaflega ópraktískt að vera að láta fara í gegn einhver góð mál, sem snerta hagsmuni verkalýðsins, á yfirstandandi Alþ., á hvaða tíma sem það svo situr, vegna þess að það kynni kannske að vera alveg ágætt að nota þessi mál í næstu vinnudeilum til þess að reyna að pína verkamenn til að semja um þau þá og fá þá kannske einhverja tilslökun í kaupinu. Það er ekkert óeðlilegt, að verkalýðshreyfingunni og forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar detti þetta í hug, að slíkt sé notað, sérstaklega ef við förum að reka okkur á það, að mál, sem við flytjum þing eftir þing og má segja að séu að ýmsu leyti mjög góð, eru söltuð rólega hér í n., en svo þegar kemur að næstu vinnudeilum, er þetta tekið upp og sagt: Við verðum kannske til í að gera eitthvað fyrir almenning, t.d. í húsnæðismálum, ef þið verðið viðtalshæfari um ýmislegt í sambandi við kaupgjaldið. — Við megum ekki skapa verkalýðshreyfingunni þá aðstöðu, að það sé svo að segja hægt að fara að prútta við hana um kaupgjaldið á grundvelli þess, að hún fái í gegn eitthvað, sem er almenningi yfirleitt hagstætt. Alþingi er til þess að framkvæma þessi mál. Til þess erum við hér og til þess erum við kosnir hingað að berjast fyrir þessum málum. Það er farið rangt að hlutunum, ef við verðum að berjast fyrir þessu með verkföllum. Og það er í rauninni ákaflega óeðlilegt, að nokkur ríkisstj., ekki sízt hæstv. núv. ríkisstj., sé að gera það að almennri reglu, að slíkt sé gert. Við vitum það allir saman, að þetta er alveg á takmörkunum að vera lögbrot á vinnulöggjöfinni.

Við vorum báðir sammála um, að með þessum samningum, bæði þessarar ríkisstj. og ýmissa fyrri ríkisstj. líka, sem hæstv. forsrh. átti þátt í, eins og 1955, voru mjög góð mál sett í gegn, sem orðið hafa til mikils góðs. En eðlilegasta aðferðin er það ekki. Hér á Alþingi eigum við að gera þetta, og ég fagna því mjög, að mér fannst hæstv. forsrh. taka vel undir það, að þetta mál væri alvarlega athugað nú, þannig að það þyrfti ekki að verða eitthvert deilumál í næstu vinnudeilu.

Þá kom hæstv. forsrh. inn á braskið í Reykjavík, rannsókn á því, og allt annað slíkt. Hann talaði um, hvort menn þori að taka á þessu af kjarki. Jú það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh., það þarf kjark til að taka á þessu og alveg sérstaklega af hálfu hæstv. ríkisstj. og ekki sízt af hálfu Sjálfstfl. En ég held ég megi fullvissa hæstv. forsrh. um, að það mun ekki standa á verkalýðssamtökunum né heldur þeim fulltrúum, sem verkalýðshreyfingin telur sig eiga hér á þingi, að sýna kjark í að taka á þessu máli. En við þurfum áreiðanlega ekki að sýna eins mikinn kjark til þess og hæstv. forsrh. og Sjálfstfl. mundu þurfa að sýna. Það er vitanlegt, að meginið af því, sem er okur eða óþarflega mikill gróði í sambandi t.d. við húsbyggingarnar hér í Reykjavík, það stafar sérstaklega af vissri einokunaraðstöðu, sem svo og svo margir menn hér hafa fengið, sem eru hvað helzt úr — hvað eigum við að segja? — yfirstéttunum, við skulum ekki vera að kalla þá braskara, en athafnamannastétt. Ég skal alls ekki neita því, að sá gróðahugur og sú brasktilhneiging, sem er mjög almenn, og kannske ekki alveg óeðlileg í slíkri athafnamannastétt, hafi gripið allt inn í ýmis verkalýðsfélög. Það er einu sinni svo, að það er nokkuð algengt, ekki sízt hjá alþýðu á Íslandi, að „hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það,“ og mönnum finnst, þegar einstakir framtakssamir menn skófla til sín miklu fé á sérstaklega góðri aðstöðu, sem þeir fá, þá eigi hinir og þessir, þó að launþegar séu, líka rétt á því að reyna að hafa meira upp úr sér heldur en kauptaxtinn einn eða kaupsamningarnir einir mundu gefa til kynna. M.ö.o.: ef við ætlum að taka á þessu, þá þurfum við vafalaust að taka á honum stóra okkar. Það má mikið vera, ef við þyrftum ekki að byrja með því að taka útboðið á öllum húsum, sem ætti að byggja í Reykjavík, á eina hönd, hæstv. ríkisstj., bæjarstjórn Reykjavíkur, kannske verkalýðsfélögin taki að sér að líta eftir því, og láta bjóða þetta út allt saman og hagnýta okkur virkilega þá frjálsu samkeppni í því að fá tilboð í þetta allt saman og hindra, að það komist að nokkurt brask, nokkur skattsvik, nokkuð ljótt í sambandi við þetta. Og það væri mjög ánægjulegt og mjög gaman að því að reyna að taka á þessu, og ég held, að verkalýðssamtökin mundu áreiðanlega vera til í að aðstoða ríkisstjórn og bæjaryfirvöld við slíkt. Og þá yrði strax að byrja á því í sambandi við úthlutun byggingarlóðanna, til hverra byggingarlóðunum væri úthlutað, þannig að það væri algerlega öruggt, að enginn maður græddi einn einasta eyri á því að hafa nein sérstök sambönd um að fá byggingarlóðum úthlutað. Og þetta er rétt, þetta er hlutur, sem við þurfum að taka á. Við skulum allir reyna að taka kjark í okkur og gera þetta. Og ef hæstv. forsrh. og við hér í stjórnarandstöðunni leggjumst á eitt, þá efast ég ekki um, að bæjarstjórn Reykjavikur mundi fást til að vera þarna með; ekki sízt af því nú eru bæjarstjórnarkosningarnar brátt yfirvofandi og menn eru oft til í að gera meira fyrir fólkið, eins og kallað er, þegar menn hafa eitthvað slíkt yfir höfði sér.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, að hann vildi efast um, að þetta væri rétt hjá mér, að það væri heppilegt, að ríkið gerði það. Það er alls ekki mín meining með þessu t.d., að ríkið ætti að láta byggja þetta. Við skulum segja t.d., ef það væru svo og svo mörg hundruð íbúðir í Reykjavík til leigu, þá er það ekki mín hugsun endilega, að það væri ríkið, sem réði menn í að byggja þetta, og svoleiðis nokkuð. Ég er honum sammála um, að það vill mjög oft verða svo, kannske bæði með ríkið og Reykjavíkurbæ, að það verður ýmislegt dýrara þannig, sem þau fara að byggja sjálf, heldur en ef þau hafa þann hátt á, sem ég held ég hafi minnzt á áðan, að þau byðu þetta út. Við skulum segja, að það ætti að byggja t.d. 300 af þessum íbúðum hér í Reykjavík, við byðum þetta út í þrennu lagi, sínar 100 íbúðirnar hverju sinni, og þeir menn, sem vildu fást við byggingar, eftir að þriðjungurinn hefði fengið úthlutað til sín byggingarlóðunum, án þess nokkur hefði á því grætt, hefðu möguleika til þess að bjóða hver um sig í sínar 100 íbúðir eða kannske bjóða í allar 300 í einu. Svo tækjum við það, sem ódýrast væri. Þannig mundi verktakan nýtast og hin frjálsa samkeppni, en tryggja um leið hitt, sem ég legg mikið upp úr í þessu, að það yrði byggt í stórum stíl. Það væri hægt að nota sömu mótin, hægt að nota sömu teikningar, hægt að nota sömu vinnuflokkana, hægt að hafa almennilega vinnuskiptingu á þessu, almennilega hagræðingu. Það gerir þetta miklu ódýrara en ef menn eru við hverjar 8 íbúðirnar í einni stigablokk eða 6 að brasa við þetta svo að segja hver út af fyrir sig. Það er ríkið eitt hins vegar, sem getur tryggt, að það sé gert í stórum stíl, að það sé gert tæknilega á fullkominn hátt, að það sé hægt að hagnýta nýtízku tæknilega aðstöðu.

Þess vegna legg ég til, að það sé ríkið. Ríkið er raunverulega aðeins þarna að skipuleggja, en það býr þetta svona út, að þau einstöku firmu, sem tækju þetta að sér, fái aðstöðu til að hagnýta það að gera þetta í stórum stíl. Við vitum, hvernig þetta er hér hjá okkur núna. Stjórnleysið, skipulagsleysið, anarkisminn í húsbyggingunum er svo ægilegur, vegna þess að það er að heita má hver einstaklingur að bauka við að byggja sína íbúð. Og við skulum bara taka, svo að við tökum eitthvert dæmi af öðru sviði, til þess að við sjáum, hverju þessi tæknilega fullkomnun í sambandi við framleiðslu kemur til leiðar, — við skulum bara hugsa okkur, að svo og svo margir menn hérna tækju hver út af fyrir sig til við að reyna t.d. að búa til bíl, í staðinn fyrir að bílar eru framleiddir svo að segja á færibandi í einhverjum bezt skipulögðu verksmiðjum veraldarinnar. Og þó að það sé ekki alveg eins, þá er það sama, sem kemur til greina: að geta byggt húsin svo að segja eins og á færibandi, eftir sömu teikningunni, með sömu aðstöðunni og annað slíkt, það líkist því dálítið, eins og maður framleiðir bílana t.d. Þar með er ég ekki að segja, að þetta eigi að verða sá háttur, sem almennt er hafður á. Ég er síður en svo að hafa á móti því, að einstaklingarnir reyni að byggja sín hús, hver eftir sínum einstaklingssmekk, og annað slíkt, ef þeir geta leyft sér það. En til þess að bæta úr neyðarástandinu, til þess að veita því fólki húsaskjól, sem stendur á götunni við næstu flutningadaga, þá held ég, að þetta sé ráðið. Ég er hins vegar opinn fyrir hvers konar breytingum og hugmyndum um að koma þessu betur fyrir, ef við getum látið annan aðila, ef mönnum vegna ótrúar á ríkinu finnst slíkt óþægilegra, þá höfum við sett inn, að ríkið gæti falið húsnæðismálastjórn allar framkvæmdir í þessu máli. Ég væri alveg eins til í það að gefa húsnæðismálastjórn þennan sama rétt, ef menn mundu kannske líta betur á það en ef það héti ríkið, og er það þó auðvitað ekki nema einn liður úr ríkinu.

Þá kom hæstv. ráðh. inn á það, og var að hrósa mér fyrir bugrekki, að ég þyrði að segja, að verðbólga, sem væri 2—5%, væri ákaflega eðlileg. Það þarf nú ekkert hugrekki til þess. Það er bara staðreynd, sem á sér stað. Ég held, að ekkert kapítalistískt þjóðfélag, — það er þá aðeins á voðalegum krepputímum, — yfirleitt taki framförum og eflist við minni verðbólgu en þetta. Það er alveg rétt, að á krepputíma getur verðbólga orðið minni, á krepputíma geta hlutirnir fallið, en þá er, eins og hæstv. forsrh. opinberlega var að lýsa, ægilegasta neyðarástand í þjóðfélaginu, sem svo að segja er hægt að hugsa sér, hrun og annað slíkt. Nú, þegar menn eru að sigla, hagfræðilega talað, milli þessara tveggja skerja: kreppunnar annars vegar og verðbólgunnar hins vegar, held ég, að fæstum detti í hug, ekki heldur borgaralegum hagfræðingum, að ætla að gera þetta með því að halda verðgildi peninga alveg hnífjöfnu öldina út. Ég held það detti engum í hug. Það, að menn geti gengið út frá, að verðbólga gangi aðeins hægt og öruggt, t.d. 2, 3, 4, kannske í hæsta lagi 5%, það mundi ekki vera talin nein hættuleg meinsemd. Ég held, að einhver hagfræðiprófessor hafi komizt svo að orði, að slík verðbólga væri í raun og veru aðeins sigur lífsins gagnvart stöðnuninni, sigur framkvæmdanna gagnvart drottnum skuldaskránna, sem sé, sá Shylock, sem á skuldaskránni héldi og heimtaði sitt pund, hann verður í raun og veru alltaf í þjóðfélagsins eðlilegu framförum að vera að tapa, en sá, sem leggur í það nýja og reynir að skapa nýtt, hvort það eru atvinnufyrirtæki eða annað, hann verður að hafa einhvern dálítinn möguleika til þess, að heldur sé

þjóðfélagið óbeint að afskrifa hjá honum, af því að hann mun prýða það með framförum. Ég man einmitt, að einn nú kunnur prófessor norskur við norska háskólann skrifaði eitt sinn grein, sem hann kallaði „Eyðileggingu skuldaskránna“. Hann var að lýsa því, hvernig það hefði gengið svo í gegnum aldirnar, að slík breyting hefði alltaf orðið á. Þess vegna er það ekki nema eðlilegur hlutur. Það þarf engan kjark, það þarf aðeins að horfast í augu við það, sem er eðlilegt, til þess að viðurkenna það. Hitt aftur á móti, þegar verðbólga vex þannig, eins og t.d. hefur orðið núna síðustu 5—6 árin, að 10 þús. kr. verðbréf með vísitölu, sem gefið er út 1961, ef ég man rétt, verður borgað nú á næsta ári með 20 300 kr., ef ég man rétt, þetta verðbréf hefur tvöfaldazt í gildi á þessum sex árum, þá á sér stað verðbólga, sem er svo mikil, að hún er stórhættuleg. Þá er hún orðin milli 15 og 20% á ári að meðaltali, og þá er hættan komin, hættan, sem liggur í því, að menn hætta að leggja fé á sparisjóð. Þeir, sem kunna fótum sínum forráð í fjármálum, leggja í staðinn í fasteignir, og þeir leggja í fasteignir af svo miklu kappi, að raunverulega eru þeir alltaf að kollsigla sig, á meðan þetta stendur. En þeir treysta á, að verðbólgan haldi áfram með þessum krafti og þess vegna verði þetta stórgróðafyrirtæki. Ég nefndi dæmi hérna nýlega um eitt hús hér inn við Suðurlandsbraut upp á 40 þús. rúmmetra, hús, sem mundi kosta með 2500 kr. á rúmmetra um 100 millj. kr., sem viðkomandi maður á vafalaust ekki í vasanum, en það er lagt í að byggja svona einvörðungu í óbilandi trú á verðbólguna, að hún haldi svo hratt áfram með sín 15—20% á ári, að þetta hús, sem er tapfyrirtæki í dag og vitleysa frá öllu fjárhagslegu sjónarmiði, ef ekki væri verðbólga, verði orðinn stórfínn „bisness“, eins og sagt mundi vera í Reykjavík, að 6 árum liðnum. Meðan þetta ástand á sér stað, er verið að segja við hvern mann: Gerðu hvað sem þú vilt við peningana, t.d. að setja þá í einhverja fasteign, byggja eitthvað fyrir þá, sem þjóðfélagið hefur enga þörf fyrir. Þú stórgræðir á því á 6 árum. Þá tvöfaldarðu þína peninga. — Meðan þetta ástand ríkir, verður tóm óstjórn í þjóðfélaginu.

Þetta er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, þetta er vandamál, sem ríkisstj. hefur ekki getað leyst og engin ríkisstj. á undanförnum 20 árum hefur getað leyst og þarf slíka samstöðu um, að það er á engrar ríkisstj. einnar færi, það þarf slíkt samstarf á milli ríkisstj. og almannasamtaka, stjórnarandstöðu, að öllum sé ljóst, í hvert öngþveiti þjóðfélagið er að komast, ef svona er haldið áfram. Ég veit, að ýmsir hagfræðingar hefðu ráð á takteinum við þessu, og það er að skapa kreppu. Kreppa væri náttúrlega alveg hreint ráð við þessu, sem sé, þegar maður væri að sigla skipinu og finnst maður vera kominn nær skerinu þarna megin, þá væri það náttúrlega ráð til að forðast það sker að stýra upp í skerið hinum megin. En að stýra á milli skerjanna til þess að forðast hvort tveggja er stóra pólitíska vandamálið, sem allar ríkisstj. Evrópu og N-Ameríku hafa staðið frammi fyrir nú eftir stríðið, það er að kunna að stýra þarna á milli. Þetta er svo að segja alveg ófært án heildaryfirlits yfir þróunina í þjóðfélaginu og stjórnar á henni, sem felst í meiri eða minni áætlunarbúskap. Og það hef ég svo oft komið inn á áður, að það ætla ég ekki að fara inn á nú.

Að síðustu kom hæstv. ráðh. inn á, að það hefði verið líka dýrt að lifa, þegar við vorum báðir mun yngri en við erum núna, svo að ég orði það vægt. Það er alveg hárrétt. Fyrir 30 árum var líka dýrt að lífa og erfitt og ólíku erfiðara en núna, og það er rétt. Húsaleiga var líka dýr þá. Ég held, að verkamaður, sem hafði fulla atvinnu, hafi þá haft eitthvað 300 kr. á mánuði. (Gripið fram í.) Ég veit bara af sjálfum mér, ef ég man rétt, að fyrir 2 herbergja íbúð með eldhúsi þá borgaði maður sínar 100 kr. á þeim tíma, þannig að það fer þarna þriðjungurinn af slíkum launum. En það var dýrt. Það var góð fjárfesting að byggja hús og leigja þau á þeim tíma. Sá, sem gerði það, gat haft upp úr því. Nú hins vegar í allri hagfræði um lífskjör er það skoðað svo, að eðlilegur húsnæðiskostnaður sé 1/6 hluti, ca. 18%, þannig að bæði fyrir stríð hjá okkur og nú eftir stríð er húsaleiga allt of há, óeðlilega há, og það er svo stór meinsemd í þjóðfélaginu, að við verðum að ráða við hana.

En fyrst hæstv. forsrh. tók dæmið af því, sem var fyrir stríð, og var að jafna einmitt þessum húsnæðiskjörum saman við það, sem þá var, og komst réttilega að þeirri niðurstöðu, að það hafi líka verið slæmt þá, þá vil ég minna hann á það, sem hann fyrir nokkru sagði í ræðu, þegar hann var að lýsa því ástandi, sem við bjuggum við fyrir stríð. Hann sagði, ef ég man rétt, nokkurn veginn þeim orðum: Ástandið þá í kreppunni var næstum eins og helvíti miðað við himnaríki, móts við það, sem við búum við nú. — En ástandið er bara það, að þar sem það hefur batnað stórkostlega hjá okkur á fjölmörgum sviðum, og tek ég undir með honum að lýsa ánægju minni yfir því, enda vonumst við allir til þess, sem höfum starfað að stjórnmálum á þessum 20 árum, að einhverju höfum við getað allir áorkað í því að bæta kjörin, þá er það svo, að einmitt í húsnæðismálunum er ástandið hvað snertir dýrleika og erfiðleikana, hvað það snertir, sama helvítið og það var. En það, sem hefur breytzt, það er, að til allrar hamingju gerir fólkið núna kröfur til öðruvísi húsnæðis en þá var. Og ég vona, að enginn búi lengur hér í Reykjavik við það, sem allmargir menn þá urðu að lifa við. Ég man vel eftir húsunum þá, þar sem maður kom upp stiga og sá 3 herbergi sitt til hvorrar handar með prímus fyrir framan dyrnar. Ein fjölskylda bjó í hverju herbergi og eldaði matinn í prímus frammi á gangi. Það, sem hefur gerbreytzt í þessum efnum, er, að húsnæðið, sem við búum við í dag, er næstum því eins og himnaríki og helvíti miðað við margt af því, sem þá var. En efnahagsvandamálið fyrir okkur er að gera það kleift fyrir fólk, eins ríkt og Ísland er orðið, að fá að borga sín hús eða fá að leigja með kjörum, sem eru betri en það að þurfa að borga kannske þriðjunginn eða stundum upp undir helminginn af sínum venjulegu tekjum í það ýmist að borga þetta húsnæði niður eða borga upp í leigu.