15.11.1965
Neðri deild: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (2480)

46. mál, bygging leiguhúsnæðis

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Í þeim umr., sem urðu hér um þetta mál í hv. d. á síðasta fundi, á fimmtudaginn var, voru ræðumenn mjög á einu máli um það, hversu húsnæðisskorturinn hér í Reykjavík væri tilfinnanlegur og húsnæðiskostnaðurinn gífurlega hár. Enn fremur bentu menn réttilega á það beina samband, sem er á milli húsaleigunnar, hvort sem hún er greidd öðrum eða af eigin húsnæði, og þeirrar kaupkröfugerðar, sem óhjákvæmilega leiðir af því og öllum hv. þm. er auðvitað ljóst. Þetta allt hefur margsinnis verið rætt hér í hv. d. og á hv. Alþ., bæði af mér og öðrum, og ég ætla ekki að endurtaka þetta. Að mínum dómi er aðalbölvaldurinn í þessum málum hinn gífurlega hái byggingarkostnaður. Við fáum of lítið fyrir það mikla fjármagn, sem varið er til íbúðabygginga vegna þess, hve verðlagið er hátt og skipulagið lítið á byggingarframkvæmdunum, auk þess sem kröfurnar eru auðvitað mjög háar, eins og tekið hefur verið fram. Ég minnist í þessu sambandi þess, að á árinu 1960 var birt skýrsla eftir erlendan sérfræðing, sem starfaði hér á vegum byggingarefnarannsókna iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans að rannsóknum til lækkunar á byggingarkostnaði. Í þessari skýrslu komu fram upplýsingar, sem sýndu, að við Íslendingar erum í þessu tilliti miklu verr á vegi staddir en ýmsar af nágrannaþjóðum okkar, sem meiri rækt hafa lagt við þessi mál en við. T.d. er þetta, að hér var, þegar skýrslan var gerð, varið um það bil 12% af þjóðarframleiðslu til íbúðabygginga, en það er rúmlega helmingi meira en flestar aðrar þjóðir gera. Þrátt fyrir þetta fáum við færri íbúðir fyrir hverja þúsund íbúa heldur en t.d. Vestur-Þjóðverjar, sem verja þó nálega helmingi minni hluta af þjóðarframleiðslu sinni í þessu skyni. Af umræddri skýrslu kom enn fremur fram, að íbúðir hér eru miklu dýrari en gerist hjá grannþjóðum okkar. Meðalíbúð kostar nú hér ekki minna en fimmföld meðalárslaun, en annars staðar á Norðurlöndum munu yfirleitt þreföld meðalárslaun duga til þess að eignast íbúð. Þó að þessar tölur séu nú orðnar 5 ára gamlar, hygg ég, að þær séu enn í fullu gildi og hlutfallið hér hafi a.m.k. ekki orðið hagstæðara á þeim tíma, sem liðinn er síðan skýrslan var gerð.

Þegar ég kom hérna snöggvast á Alþ. 1960 um haustið sem varamaður, voru þessi vandamál mér ofarlega í huga, enda var ég þá nýbúinn að fá þessa skýrslu í hendur, og ég hef kynnzt þessu talsvert í starfi, bæði sem forstöðumaður í lífeyrissjóði á þeim tíma og starfsmaður í sparisjóði. Ég trúði því þá, eins og ég geri reyndar enn þá, að hér væri mikið verkefni að vinna, sem miklum hagnaði gæti skilað í þjóðarbúið, ef vel tækist til. Frumskilyrðið fannst mér þá og finnst mér enn vera að efla allar rannsóknir, sem að byggingariðnaðinum lúta, og það yrði bezt gert með því að veita iðnaðardeild atvinnudeildar háskólans aukin fjárráð og þar með rýmra starfssvið, enda hefur sá aðili fengizt við lítinn vísi að rannsóknum á þessu máli og verið viðurkenndur rannsóknaraðili af húsnæðismálastofnun, sem hefur veitt henni nokkra fjárveitingu. Þess vegna bar ég fram frv. ásamt hv. 4. þm. Reykn. um fjáröflun til lækkunar á byggingarkostnaði. Þar var að vísu allt of skammt gengið, það skal ég manna fyrstur játa. En þó hefði það verið nokkur hjálp í þessu þýðingarmikla starfl, ef það hefði verið samþ. En þetta frv. var fellt hér á sínum tíma af stjórnarliðinu gegn atkv. stjórnarandstöðunnar, m.a. með þeim rökstuðningi, að málið, sem viðurkennt var að væri alvarlegs eðlis, þyrfti að rannsaka miklu nánar og það væri allt í athugun hjá húsnæðismálastjórn. Því væri þetta frv. engin lausn og engin ástæða til að fara að taka svo lítinn þátt út úr, þegar málin væru öll í heild í athugun hjá þar til skikkuðum aðila, húsnæðismálastjórn. Mér dettur vitanlega ekki í hug að halda því fram, að sú litla lagfæring, sem ég stakk þarna upp á með flutningi þessa frv., væri nokkur allsherjarlausn á þessu stóra máli. En ég hélt þá og held enn, að það hefði unnizt talsvert við hana, ef farið hefði verið að þeim ráðum. En þar sem hér var ekki um allsherjarlausn að ræða og ég gerði mér það ljóst, gat ég eftir atvikum unað þeim úrskurði, að þarna væri of lítið að gert, málið þyrfti að taka miklu fastari tökum, enda taldi ég þá víst, að meiri hl. hér á hv. Alþ., þeir sem töldu, að með þessu frv. væri svo skammt gengið, að ekkert gagn væri í að samþykkja það, mundi ekki lengi draga það að leggja fram raunhæfar heildartill. til lækkunar á byggingarkostnaðinum og framkvæma þær.

Þegar lögum um húsnæðismálastjórn var síðast breytt hér, var 2. gr. þeirra tekin upp alveg eins og hún var í upphaflegu l. Þar eru í 12 liðum taldar upp leiðir eða ráðstafanir, sem húsnæðismálastjórn eigi að fara eftir til lækkunar á byggingarkostnaði í landinu, og margt er vel sagt í þeim fræðum. Þar er t.d. gert ráð fyrir því, að húsnæðismálastofnun geri sér grein fyrir raunverulegri þörf landsmanna fyrir íbúðabyggingar á hverjum tíma og geri till. og áætlanir um, hvernig þeirri þörf verði fullnægt á sem hagkvæmastan hátt og með sem minnstum tilkostnaði. Þetta er vitanlega sjálfsagt og frumskilyrðið til þess, að eitthvert vit geti verið í þessum málum, að gera sér grein fyrir þessu. Þar segir líka, að stofnunin eigi að fylgjast jafnan nákvæmlega með byggingarkostnaði í landinu í því skyni að finna, hverjir byggi ódýrust hús, hvaða gerðir íbúðarhúsnæðis reynist beztar og hagkvæmastar og með hvaða hætti þeim verði komið upp með minnstum tilkostnaði. Þar segir enn fremur, að leggja skuli áherzlu á stöðlun sem flestra hluta til íbúðabygginga, fjöldaframleiðslu slíkra hluta og leiðbeiningar til húsbyggjanda um notkun þeirra. Þar segir enn fremur, að húsnæðismálastjórn skuli beita sér fyrir lækkun á verði byggingarefnis með því m.a. að stuðla að hagkvæmum innkaupum. Og enn segir, að hún skuli beita sér fyrir því, að úthlutun lóða tefji ekki, að byggingar geti hafizt. Og hún á að beita sér fyrir því, að vinna við íbúðarbyggingar sé sem samfelldust árið um kring og sem jöfnust frá ári til árs auk fleiri liða. Ég hef aðeins nefnt nokkra af þeim 12 liðum, sem þarna eru taldir upp. Þetta er það, sem húsnæðismálastjórn átti að gera og á að gera. Þetta er sú heildarathugun, sem vísað var til, þegar frv. um lækkun byggingarkostnaðar, sem ég flutti árið 1960, var fellt á þeirri forsendu, að það dygði svo skammt, að það væri ekki ómaksins vert að samþykkja það í öllum þessum miklu ráðstöfunum, sem gera þyrfti. En þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þessi 12 ákvæði, sem vissulega eru mjög skynsamleg og mundu áreiðanlega koma miklu til leiðar, ef eitthvað væri unnið að þeim, standa menn enn þá hér í þessum ræðustóli haustið 1965 og keppast um að lýsa því hver eftir annan, hversu byggingarkostnaður sé hér hár á landinu, hversu við fáum allt of lítið fyrir það mikla fjármagn, sem til byggingar er varið, og hversu brýn nauðsyn það sé nú að gera róttækar ráðstafanir til þess að lækka byggingarkostnaðinn. Þetta sýnir vitanlega það, að við erum enn þá í nákvæmlega sömu sporunum og fyrir 5 árum, þegar þetta litla frv., sem ég flutti, var fellt á þeim forsendum, að vandamálið væri svo stórt, að miklu meira þyrfti að gera.

Ég tel, að hér hafi illa tekizt til um framkvæmdir á þýðingarmiklu máli og að svona vinnubrögð verði dýr, þegar til lengdar lætur. Samt er vissulega gott að vita það, að enn skuli liggja fyrir viðurkenning á því, að byggingarkostnaður þurfi að lækka. En meira þarf til að koma til þess að koma þessum málum í viðunandi horf, og hér hefur hv. 3. þm. Reykv. nú lagt fram frv. um byggingu leiguíbúða, og hann lýsir því í grg., að hann telji, að á þann hátt verði hægt að byggja miklu ódýrara en tekizt hefur til þessa. Það er sem sé ein leiðin til þess að vinna á vandamálinu, hinum háa byggingarkostnaði. Ég er honum sammála um, að það ætti vitanlega að geta lækkað byggingarkostnaðinn mikið að byggja svo margar íbúðir eftir fyrir fram gerðri áætlun, allar eftir sömu teikningu, með stöðlun á ýmsum hlutum, sem til bygginganna þarf, tryggðu fjármagni o.s.frv., og það má vel vera, og ég vil nú vona, að sú gæti raunin orðið á. En þó held ég, því miður, vil ég segja, að það sé rétt, sem fram kom hjá hæstv. forsrh. um daginn, að það sé jafnvel ekki einhlít trygging fyrir lækkuðum byggingarkostnaði, að ríkið eða húsnæðismálastjórn, eins og hér hefur komið til orða, láti framkvæma byggingarnar á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Um þetta atriði vitna ég m.a. til reynslu Reykjavíkurborgar, sem hefur gert talsvert af því undanfarin ár að láta byggja í allstórum áföngum íbúðir, ýmist til sölu eða leigu. Nú síðast hafa verið í smíðum við Kleppsveg og Austurbrún hér í borg á annað hundrað íbúðir, sem boðnar voru út í einu lagi. Nokkur tilboð komu, og tekið var því lægsta. Það var frá harðduglegum og ábyggilegum byggingarmeistara, sem hefur tekizt svo vel framkvæmd verksins, að ég hygg, að það muni vera til fyrirmyndar, og honum hefur líka tekizt að skila verkinu á styttri tíma en samningar hljóða um, a.m.k. fram að þessu. Ég hygg því, að þarna verði að allra dómi sagt, að vel hafi verið að verki staðið. Endanlegt uppgjör mun að vísu ekki liggja fyrir, en þó held ég, að óhætt sé að fullyrða, að þessar íbúðir, og þá á ég fyrst og fremst við þær af þeim, sem verður skilað núna fyrir 1. des., þær, sem eru sem sagt fullbúnar, þessar íbúðir verði ákaflega dýrar. Ég vil ekki nefna tölur á þessu stigi, af því að þær eru ekki endanlegar, en ég hef ástæðu til þess að ætla, að íbúðirnar verði a.m.k. ekki ódýrari en hægt er að kaupa af hinum svokölluðu bröskurum, þær verði ekki ódýrari þrátt fyrir það, hvernig að þeim hefur verið staðið. Þetta segi ég ekki hér til þess að gagnrýna einn eða annan, heldur aðeins af því, að mér finnst áberandi, hvað allar byggingar, sem gerðar eru af opinberum aðilum, verða yfirleitt afar dýrar, þrátt fyrir þau skilyrði, sem ættu að vera fyrir hendi til að spara í stórum stíl á ýmsum útgjaldaliðum umfram það, sem einstaklingar hafa aðstöðu til. Ég held því, að hér þurfi fleira til að koma heldur en þetta eitt, að opinberir aðilar taki að sér byggingarframkvæmdirnar í stórum stíl, hér þurfi til að koma samtök margra aðila og þau séu helzta lausnin.

Hæstv. forsrh. sagði hér um daginn efnislega eitthvað á þá leið, að bezt væri að láta reyna á það, hverjir vildu raunverulega vinna að lækkun byggingarkostnaðar og leggja eitthvað á sig til þess. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að minna á ályktanir, sem síðasti aðalfundur Meistarasambands byggingarmanna gerði um þessi mál, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Meistarasamband byggingarmanna lítur svo á, að nauðsyn beri til að skipuleggja byggingariðnaðinn þannig, að fjármagn og vinnuafl, sem í hann er lagt, nýtist betur en nú gerist.“ Og síðar segir: „Aðalfundur Meistarasambands byggingarmanna harmar, að n. sú, sem viðskmrh. skipaði árið 1959 til þess að semja reglur um útboð og tilboð, hefur enn ekki lokið störfum og skilað áliti. Þar sem brýna nauðsyn ber til, að slíkar reglur verði settar hér á landi, beinir fundurinn þeim tilmælum til hæstv. viðskmrh., að hann hlutist til um, að n. hraði störfum eftir föngum.“ Og enn segir: „Meistarasamband byggingarmanna harmar þann drátt, sem orðið hefur í stöðlunarmálum byggingariðnaðarins, og vill vekja athygli á þeirri lækkun byggingarkostnaðar, sem viðtæk stöðlun gæti haft í för með sér. Meistarasambandið skorar á viðkomandi yfirvöld að taka mál þetta upp aftur og beita sér fyrir því, að skipulega verði unnið að því í framtíðinni.“

Og svo er hér að lokum fjórða tilvitnunin, sem ég ætla að leyfa mér að gera í þessar ályktanir, og hún er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Meistarasambandið telur, að nauðsynlegt sé að framkvæma rannsókn á ýmiss konar byggingargöllum í því augnamiði að koma í veg fyrir þá, og bendir á, að fyrir tilstuðlan Meistarasambandsins hefur þegar verið hafinn undirbúningur að rannsókn á sprungumyndunum í steinsteyptum húsum. Skorar Meistarasambandið á iðnmrn. og Iðnaðarmálastofnun Íslands að fylgja því máli eftir.“

Það er ýmislegt fleira í þessum ályktunum, sem ég skal ekki tefja þingheim á að rifja upp nú, en er þó athyglisvert. En ég hygg, að þessar tilvitnanir sýni, að þessir menn hafi opin augun fyrir því, sem hægt er að gera og verður að gera til lækkunar á byggingarkostnaði og til betri hagnýtingar fjármagns og vinnuafls í byggingariðnaðinum, og þeir séu fúsir til þess samstarfs um þessi atriði, sem til þarf að koma.

Það, sem fyrst og fremst vantar, er forusta. Húsnæðismálastofnunin verður að gera miklu meira að því framvegis en hingað til að framkvæma ákvæði 2. gr. l. frá 1957 um ráðstafanir til lækkunar á byggingarkostnaði, og Alþ. og ríkisvald verða að skapa henni nauðsynleg skilyrði til þess. Ég veit, að það er nokkur vandi á höndum fyrir þá menn, sem starfa í húsnæðismálastofnun, að skipta því fé, sem þeir fá til ráðstöfunar, milli þessara tveggja höfuðverkefna: annars vegar að lána húsbyggjendum og hins vegar að styrkja og gangast fyrir rannsóknum til lækkunar á byggingarkostnaði. Þegar menn hafa ónógt fjármagn og þegar eftirspurnin og þörfin er eins og hún er í dag og við allir vitum, er nokkur vandi á höndum að taka af því takmarkaða fjármagni miklar fjárhæðir til þess að framkvæma hitt aðalverkefnið. En þetta bara verður að gera, því að höfuðmeinsemdin í byggingariðnaðinum er einmitt þessi hái byggingarkostnaður, og það fjármagn, sem varið verður til rannsókna og raunhæfra aðgerða til lækkunar á honum, mun áreiðanlega skila sér margfalt til baka.

Það ber t.d. að mínum dómi ekki vott um góða samvinnu milli þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, að nm. í húsnæðismálastofnun skuli þurfa að leita sér upplýsinga um það í fyrirspurnatímum á Alþ., hvað n., sem skipuð var árið 1959 til þess að semja reglur um útboð og tilboð, hafi gert eða hvenær megi vænta álits hennar, eins og nú á sér stað. Meðan húsnæðismálastjórnin hefur það verkefni, sem henni er falið í l., og meðan ekki er talið fært, að Alþ. setji lög um aukafjáröflun í þessu skyni, vegna þess að málið heyri allt undir húsnæðismálastjórn, hlýtur sú stofnun að verða að fylgja svona málum fast eftir og halda öllum þráðum í hendi sér. Og þá á hún ekki að þurfa að spyrja frétta af því hér á Alþ. eftir 6 ár, hvað gert hafi verið í máli eins og því, sem ég áðan minntist á. Ég tel óhjákvæmilegt, að öll þessi mál verði tekin föstum tökum og að nú verði af krafti farið að framkvæma annað aðalverkefni húsnæðismálastjórnar, en það er að lækka byggingarkostnaðinn, að vinna að lækkun byggingarkostnaðarins.

Ég gerði um daginn hér á hv. Alþingi örlítinn samanburð á vísitölu byggingarkostnaðar og rifjaði það upp, að á fyrstu 3 árum hinnar svokölluðu viðreisnar, þ.e. frá okt. 1959 til okt. 1962, hafi vísitalan hækkað um 48 stig, eða 16 stig að meðaltali á ári, en síðari 3 árin, þ.e. frá okt. 1962 til okt. 1965, hafi sama vísitala hækkað um 87 stig eða 29 stig á ári, og í prósentum lítur dæmið þannig út, að frá 1/10 1961—1/10 1962 væri hækkunin 7.1%, en 1/10 1964 —1/10 1965 væri hún 21.4%. Út af þessu og þeim orðum, sem ég lét falla í framhaldi af því, sagði hæstv. forsrh., að það væri alls ekki rétt, að hann viðurkenndi ekki verðbólguvandann, og hann vitnaði í samtal, sem hann átti við blaðamenn um daginn, þar sem hann var spurður að því, hvert væri mesta vandamálið, sem hæstv. ríkisstj. ætti við að glíma, og hann hefði þá svarað án umhugsunar: Verðbólgan. — Ég verð að segja, að það er mikill munur að heyra þetta eða ýmsan annan málflutning, sem hér hefur verið hafður undanfarna daga og gengið hefur út á að reyna að sýna fram á, að verðbólgan væri hér stórkostlega minnkandi og að hæstv. ríkisstj. hefði orðið vel ágengt í baráttunni við hana. Nú liggur sem sé fyrir viðurkenning sjálfs forsrh. á því, að verðbólgan sé enn þá höfuðvandamálið, sem hér er við að glíma, eins og við framsóknarmenn höfum haldið fram. Ætti þá ekki lengur að þurfa að karpa um þetta atriði hér, og er það vel. En þessi hækkun byggingarkostnaðar, sem áður greinir og sýnir þróunina óumdellanlega, sem enginn dregur í efa, undirstrikar nauðsyn raunhæfra aðgerða, og þessar aðgerðir þola enga bið. Verður því að ætla, með hliðsjón af umr. í fyrradag, að hæstv. ríkisstj. beiti áhrifum sínum í þá átt, að þetta mikla vandamál verði tekið föstum tökum, og það frv., sem hér er til umr., minnir enn þá rækilega á mikilvægi þess, því að höfuðundirrót húsnæðisvandamálsins og húsnæðiserfiðleikanna er hinn hái byggingarkostnaður.

Ég vil svo að lokum taka undir það með þeim, sem hér hafa talað, að það frv., sem hér er til umr. frá hv. 3. þm. Reykv. o.fl., sé allrar athygli vert. Það fjallar um mikilsvert vandamál og bendir á eina hugsanlega leið til lausnar á því, og því vil ég taka undir það með þeim, sem áður hafa talað, að frv. fái rækilega og ýtarlega athugun í þeirri n., sem það fær til meðferðar.