06.12.1965
Neðri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (2499)

50. mál, afnám laga um verkfall opinberra starfsmanna o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þegar l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna voru til afgreiðslu hér í hv. d. vorið 1962, benti ég sérstaklega á það, að þau byggðust á bráðabirgðasamkomulagi milli BSRB og ríkisstj. og það væri takmark opinberra starfsmanna að fá enn þá fyllri rétt en þann, sem fælist í þessu frv., sem þá var til umr. Ég benti enn fremur á, að það, hvort þessi lög yrðu langlíf eða ekki, mundi fara eftir því, hvernig sú ríkisstj. eða þær ríkisstj., sem kæmu til með að fjalla um launamál opinberra starfsmanna, héldu á því máli. Ef þessi lög leiddu til þess, að ríkisstj. héldu yfirleitt þannig á launamálum opinberra starfsmanna, að það næðist samkomulag milli ríkisins og þeirra, væru líkur til þess, að þetta fyrirkomulag gæti reynzt farsælt. Ef ríkisstj. héldu hins vegar þannig á launamálum opinberra starfsmanna og kæmu svo lítið til móts við kröfur þeirra, að málið þyrfti að ganga til gerðardóms, væri ekki líklegt, að þessi löggjöf yrði langlíf, því að reynslan af gerðardómum hefði yfirleitt orðið sú, að þeir hefðu gefizt illa, og það mætti vænta hins sama á þessu sviði og öðrum.

Nú hefur þróunin í þessum málum illu heilli orðið sú, að ríkisstj., sem hefur samið við opinbera starfsmenn á undanförnum árum, hefur gengið svo skammt til móts við óskir þeirra og réttmætar kröfur, að málið hefur farið til kjaradóms til að úrskurða um það, hver laun opinberra starfsmanna ættu að vera. Og það er skemmst að segja, að þeir úrskurðir, sem kjaradómur hefur fellt, að undanteknum fyrsta úrskurðinum, hafa verið mjög misheppnaðir og gengið mjög gegn opinberum starfsmönnum og það svo mjög, að það er alveg óhætt að fullyrða, að meginþorri opinberra starfsmanna kemur til með að búa við lakari kjör en aðrar sambærilegar stéttir samkv. þeim úrskurði, sem kjaradómur hefur nú nýlega fellt. Það gefur auga leið, að það er ekki hægt fyrir opinbera starfsmenn að búa við slíkt skipulag til frambúðar, og þess vegna hljóta þeir að heimta breytingar á því skipulagi, sem sett var um þessi mál samkv. l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá árinu 1962. Og að sjálfsögðu verður þetta til þess, að opinberir starfsmenn herða baráttuna fyrir því, sem alltaf hefur verið aðalkrafa þeirra og þeir hafa frá fyrstu tíð stefnt að, síðan þeir bundust samtökum, en það er að fá fullan samningsrétt, eins og aðrar stéttir hafa nú í landinu. Og satt að segja er ekki með góðu móti hægt að finna röksemdir fyrir því, að það megi ekki treysta opinberum starfsmönnum til að hafa þennan rétt, sem allar aðrar launastéttir hafa nú tryggt sér. Ég held, að það sé ekki með neinum rétti eða neinum rökum hægt að balda því fram, að opinberir starfsmenn séu ólíklegri til þess en aðrar launastéttir að halda með sanngirni á sínu máli og vera ekki óbilgjarnari í skiptum við sinn atvinnurekanda en aðrar stéttir eru.

Ég vil jafnframt segja það, að ég álit, að það sé, úr því sem komið er, mikil nauðsyn fyrir báða aðila, ekki aðeins fyrir opinbera starfsmenn, heldur engu síður fyrir ríkið sjálft, að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt og aðstöðu til þess að knýja fram sanngjarnar kröfur sínar á þann hátt, því að það er alveg augljóst, eins og síðasti ræðumaður drap mjög rækilega á, að ef búið verður að opinberum starfsmönnum eins og nú er gert og mun verða gert áfram næstu missirin, ef úrskurður kjaradóms kemur til með að gilda, verður það til þess, að ríkið missir meira eða minna beztu starfskraftana, sem það hefur nú, og veitist alltaf verr og verr að fá nýtt fólk í þjónustu sína. Þess vegna er það áreiðanlega ekki síður hagsmunamál ríkisins, þegar rétt er á þessi mál litið, en opinberra starfsmanna sjálfra, að þeir fái fullan samningsrétt og þannig aðstöðu til þess að tryggja hlut sinn til samræmis við aðrar stéttir.

Satt að segja er það ekki annað en úreltur fornaldarhugsunarháttur, að opinberir starfsmenn eigi að búa við einhvern annan rétt í þessum efnum heldur en aðrar launastéttir, enda má benda á það, að þær þjóðir, sem eru forustuþjóðir í félagsmálum, eins og t.d. Norðmenn og Svíar, hafa fyrir ekki löngu veitt opinberum starfsmönnum fullan samningsrétt, hliðstæðan því, sem aðrar stéttir hafa. Þetta var fyrst gert í Noregi, en á síðasta ári samþykkti sænska þingið löggjöf, sem veitir opinberum starfsmönnum þar fullan samningsrétt.

Ég vil nota það tækifæri, að þetta frv. liggur hér fyrir, þó að e.t.v. séu ýmis atriði þess, sem þurfi nánari athugunar við, til að lýsa yfir fullum stuðningi mínum við það, að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt, og ég vil taka undir það, að það væri mjög æskilegt að fá úr því skorið nú á þessu þingi, hver afstaða Alþ. er í því máli.