16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

55. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér hefur verið lýst, skýrir sig nú að mestu leyti sjálft og þarf í rauninni ekki mörg orð um það að hafa. Það þarf ekki heldur að spyrja að því, hvers vegna þetta frv. er flutt. Það vita allir hv. þm. um ástæðuna fyrir því, hvers vegna það er flutt, og hún er allt önnur en sagt er í grg. Það, sem lagt er til með þessu frv., er það, að felld verði niður heimild, sem felst í 95. gr. vegal., heimildin fyrir samgmrh. um það að ákveða vegaskatt á einstökum vegum eða brúm. Hv. flm. vill, að þetta vald verði flutt til Alþ., eins og hann orðar það, og vegaskattur hverju sinni verði ákveðinn af Alþ. Valdið er vitanlega hjá Alþ., eins og vegal. eru nú, um það, hvort vegaskattur skuli á lagður eða ekki. Valdið er líka hjá Alþ. að afnema heimild, sem ráðh. hefur samkv. l., ef það sýnir sig, að sú heimild hefur verið misnotuð.

Það er rangt, sem hv. flm. sagði hér áðan, að reynslan hefði sýnt, að það væri óhyggilegt að fela ráðh. þetta vald. Reynslan hefur ekki sýnt það enn. Þetta gjald, sem nú hefur verið ákveðið á Reykjanesbraut, er að flestra dómi sanngjarnt. Það var fyrst í stað gerður talsverður úlfaþytur út af því, hversu hátt þetta gjald væri. Þessar óánægjuraddir eru að þagna, þótt hv. flm. þessa frv. reyni víssulega að halda þeim við. Gjaldið á minni bílum, 4, 5 og 6 manna bílum, er að áliti allra eðlilegt og bílstjórarnir mjög ánægðir með að borga gjaldið og eiga þess kost að fara góða veginn. Gjaldið á bifreiðar upp að 5 tonnum er einnig af öllum talið eðlilegt, og bilstjórar á bifreiðum miðað við þá stærð segja ekki lengur neitt. Stjórn landssambands bifreiðastjóra hefur komið að máli við mig og talið, að gjaldið á hinum stærri bílum væri of hátt. Þeir hafa sagt það. Ég hef beðið þá um að rökstyðja það. Stjórn landssambandsins hefur sent mér grg., þar sem þeir leitast við að rökstyðja skoðanir sínar. Ég hef sagt við þá, að það væri sjálfsagt að kanna þetta mál frekar, hvort þeir hefðu rök að mæla, og þeir skyldu fá grg. um þetta mál, sem annaðhvort afsannaði það, sem þeir halda fram, eða þá að yrði tekið til greina að einhverju leyti það, sem þeir færu fram á. Mér finnst skylt að færa sterk rök fyrir því, að vörubílstjórar séu ekki hlunnfarnir, ef gjaldið á að vera óbreytt. Stjórn landssambandsins hefur orðið ánægð með viðræðurnar á þessum grundvelli, og hún veit, að það verður gefin grg. um málið, sem þeir eiga kost á að fá og mótmæla þá eða koma með ný rök á móti, ef þeim finnst, að það geti ekki staðizt, sem þar verður haldið fram. Að þessu leyti má sjá, að málið horfir allt öðruvísi við en hv. flm. þessa frv. vill halda fram.

Hv. flm. leyfði sér að fullyrða, að skatturinn hafi verið á lagður af handahófi, enda þótt hann skorti öll rök þar til og enda þótt þeir, sem óánægðastir voru í byrjun, biði rólegir eftir úrskurði og sönnunargögnum í þessu máli. Stjórn landssambands vörubílstjóra hefur ekki verið með neinar öfgar eða ólæti út af þessu máli. Þeir vilja aðeins sannfærast um það, hvort það er sanngjarnt, sem þeim er gert að greiða, og ef þeir sannfærast um það, þá greiða þeir það möglunarlaust. Ef það er unnt að leggja spil á borðið, sem sannfæra menn í þessu máli, og eitthvað er, sem þarf að leiðrétta, þá vitanlega verður það gert. En það verður ekki frekar gert með því að flytja ótímabært frv., sem er byggt á skökkum forsendum.

Ein forsendan fyrir því, að reynslan hafi sýnt, að það væri óheyrilegt að láta ráðherra hafa þetta vald, er sú, að áliti flm., að það sé með öllu óvíst, hvort vegagjald verði seinna meir lagt á þá vegi, sem verða með varanlegu slitlagi. Væri nú ekki ástæða til að doka við með flutning frv. eins og þessa, þar til það kæmi á daginn, að það ætti að gera eitthvað, sem væri ekki eðlilegt og sjálfsagt miðað við þær aðstæður, sem þá væru? En því er svo varið, og því er nú verr, að Reykjanesbrautin er í dag eini vegurinn með varanlegu slitlagi, eini vegurinn, sem til mála kemur að leggja umferðargjald á. Ég býst við, að ýmsir landsmenn væru þakklátir, ef þeir mættu greiða vegagjald fyrir það að eiga nú þegar jafnágætan veg og Reykjanesbrautina. En þegar við höfum lagt aðra vegi með varanlegu slitlagi, verður vitanlega að meta ástæðurnar, sem þá eru fyrir hendi : Var þessi vegur lagður fyrir lánsfé eins og Reykjanesbrautin? Var hann lagður á skömmum tíma eða á mörgum árum? Og hvað er með umferðarmagnið á þessum vegi? Og ef sá ráðh. sem þá fer með vegamálin, er í vafa um, hvað beri að gera við þann veg eða þá vegi, þá er það vitanlega Alþingis að gripa inn í, t.d. með flutningi frv., sem tæki valdið af ráðh. En það er með öllu rangt, að reynslan hafi nú sýnt, að það sé ekki eðlilegt að hafa valdið hjá ráðh.

Hv. flm. kemur með sleggjudóma og segir, að gjaldið mætti vera helmingi lægra, með því væri hægt að greiða veginn upp á 20 árum. Hann gleymdi að vísu að geta þess, hvaða vextir ættu að vera af láninu. Hann gleymdi að geta þess, að kannske væri ekki svo auðvelt að fá 20 ára lán út á vegina, eða það þyrfti að taka lán til þess að leggja fleiri vegi. Og hann gleymdi að geta þess, að það er gert ráð fyrir því, að frá vegasjóði verði árlega teknar 7.1 millj. kr. til Reykjanesbrautar og það hefði þurft að vera með í dæminu, til þess að vegurinn greiddist upp á 20 árum með helmingi lægra gjaldi, jafnvei þó að vextirnir hefðu verið lágir. Til viðbótar því þykir hv. þm. illa á málunum haldið, að gamla veginum skuli ekki vera við haldið líka og þeim, sem fara til Suðurnesja og þaðan, skuli ekki gefast kostur á því að hafa tvo vegi. Hann minnir á, að víða erlendis geti menn haft val, farið steyptan veg eða malbikaðan eða malarveg. Þetta er rétt, það er víða erlendis. En það er nú víða erlendis, sem er meira fjármagn og meiri umferð heldur en hér, og það væri til lítils að segja við Suðurnesjamenn: Þarna er gamli vegurinn. Gerið þið svo vel að fara hann, — ef það væri látið undir höfuð leggjast að halda honum við. Vitanlega meinar hv. þm., að það bæri einnig, þrátt fyrir steypta veginn þarna suður eftir, að láta nokkrar millj. í viðhald á gamla veginum jafnhliða. En hv. þm. verður að gera sér grein fyrir því, að það eru takmörk fyrir öllu, líka því, hverju er hægt að veifa framan í kjósendur, og ég gæti bezt trúað því, að Suðurnesjabúar fái velgju af þessum málflutningi hv. þm. Og þótt þessi hv. þm. tali hér í dag eins og það séu ekki aðrir búsettir í landinu en þeir, sem þurfa að fara þennan veg, þá veit ég, að þeir, sem búa á Suðurnesjum, gera sér alveg fyllilega grein fyrir því, að það þarf víðar að leggja vegi en þar.

Ég sagði áðan, að það mundu allir eða flestir hv. þm. vita um hina raunverulegu ástæðu fyrir flutningi frv. Ef hv. þm. er sjálfur í vafa um það, hver er hin raunverulega ástæða, þá er velkomið að upplýsa hann um það á seinna stigi málsins.

Hv. þm. talaði hér um það áður, að því hefði verið lofað að stilla gjaldinu í hóf og það hefði verið talað um það, að þeir, sem borga gjaldið, muni jafnhliða spara fé með því að fara þennan góða veg. Og það hefur ekki verið hrakið, að svo er. Gjaldinu hefur verið stillt svo í hóf, að útreikningar sýna, að það sparast jafnvel helmingur við það að fara þennan veg, miðað við það að fara vondan malarveg, í sliti á ökutækjum, varahlutakaupum og benzíneyðslu. Og síðast, en ekki sízt, er talsverður sparnaður í því, að vegurinn hefur stytzt um 3 km. Vegurinn yfir Strandarheiði hefur stytzt um 2 km, en þegar krókarnir eru dregnir frá á gamla veginum, þá verður heildarstytting 3 km. Þetta nemur 6% í sparnaði, aðeins vegalengdin ein. Þá sparast einnig tími, en um þetta þýðir sjálfsagt ekkert að rökræða við hv. flm. Þetta er nokkuð, sem honum kemur ekkert við, og þetta er nokkuð, sem hann vildi helzt halda leyndu fyrir íbúum Suðurnesja. En áreiðanlega uppgötva þeir það með öðrum bætti, og ég hef talað við marga íbúa Suðurnesja, síðan vegurinn var tekinn í notkun, og þeir hafa gert sér grein fyrir því, að vegatollurinn er sanngjarn, að það borgar sig að greiða þennan toll, og það verður talsverður sparnaður, þótt þeir rengi það, að hann sé eins mikill og tollupphæðin við það að fara steypta veginn. Það eru aðeins vörubílstjórarnir á stóru bílunum, sem eru ekki enn orðnir sannfærðir, enda eiga þeir inni að fá ýtarlegri grg. frá vegamálastjórninni heldur en þeir hafa enn í höndum.

Um Vatnsleysustrandarbúa er ekkert að segja annað en það, að ég efast um, að þeir hafi beðið þennan hv. þm. um að kvarta fyrir sig. Ég efast um það. Og mér þætti gott að vita um nafn eða nöfn á þeim mönnum, sem hafa snúið sér til þessa hv. þm. með óánægju út af þeirri framkvæmd, sem vegamálastjórnin hefur ákveðið. (Gripið fram í.) Hvað á að gera við þá? Ég efast fyllilega um það, og ég hef ekki hitt þann Vatnsleysustrandarbúa, sem telur, að hann hafi verið ósanngirni beittur. Hitt er svo annað mál, að þeir vildu á sínum tíma, á meðan verið var að ákveða lagningu vegarins, að steypti vegurinn lægi með byggðinni. En þeir hafa séð það síðan, eins og vitanlega alltaf var hægt að sjá frá því fyrsta, að það var útilokað annað en fara stytztu leiðina með þennan dýra veg. Og það vill til, að á Vatnsleysuströndinni eru sanngjarnir menn, sem geta metið hlutina á réttan hátt. Og hv. flm. þessa frv. ætti að gera sér grein fyrir því, að íbúar Suðurnesja láta ekki æsa sig upp, — þeir láta ekki æsa sig upp, eftir að þeir hafa kynnt sér málin af eigin raun. Og nú er svo komið, að þrátt fyrir tilraunir þessa þm. til þess að skapa óánægju, til að skapa sér atkv. út á óánægju, þá eru þessar óánægjuraddir, sem hv. þm. hefur bundið vonir sínar við, að þagna.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. að svo stöddu. Ég tel um þær forsendur, sem hv. flm. reynir að byggja frv. á, að reynslan hafi sýnt, að það sé óheppilegt, að þetta vald skv. 95. gr. vegalaganna sé hjá ráðherra, hafi alls ekki sýnt sig og þess vegna sé frv. með öllu ótímabært.