15.02.1966
Neðri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

101. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil þakka síðustu þrem ræðumönnum fyrir þær undirtektir, sem ég hef fengið undir þetta mál. Þeir hafa sérstaklega tekið undir hugmynd mína um, að mál þetta verði tekið upp til athugunar.

Ég vil sérstaklega þakka hæstv. forsrh. fyrir það, að hann gekk lengra en ég hafði sjálfur þorað í minni ræðu um það, hvernig æskilegast væri, að útvarpsumr. frá þinginu væru. Ég hugsa á svipaða lund og hann, og ég get á það bent, að útvarpsráð hefur síðustu ár með þátttöku manna úr öllum flokkum stigið allmörg skref í þá átt að losa hin gömlu höft hræðslunnar við hlutleysisbrot og koma af stað frjálsari umr., eins og nú eiga sér stað, sérstaklega á mánudagskvöldin. Ég hef sem betur fer tekið eftir því, að fólk fagnar þessu og er ekki nærri því eins viðkvæmt fyrir því, sem áður var talið hlutleysisbrot. Hygg ég, að þegar litið er á lengri tíma, muni frelsið jafna metin og þurfi enginn undan því að kvarta, að hinar opnu og frjálsari umr. séu ekki betri en höftin.

Hv. 3. þm. Reykv. minntist á einstök atriði, t.d. að flokkarnir fengju heil útvarpskvöld til að setja upp skemmtidagskrár. Þetta er gert í Ameríku. Þeir kaupa heil kvöld og verða að borga fyrir — oft daginn áður eða kvöldið áður en kosið er. Þá er nokkurn veginn jafnmikið af filmstjörnum og pólitískum stjörnum, sem fram kemur. Ég geng ekki eins langt í þessu efni. (Gripið fram í.) Þeir eru ekkert lakari til þess að skemmta þjóðinni heldur en margir, sem fá borgað fyrir það.

Ég vil að lokum segja út af orðum hv. 3. þm. Reykv. um þá breytingu, sem verður á umr. við sjónvarp. Það er margt sem breytist. Það verður ekki hægt að vera með nefið ofan í handriti og lesa. Það er talað um, að Nixon hafi tapað fyrir Kennedy, af því að hann var ekki rétt málaður í sjónvarpi og fleira slíkt. En við skulum ekki láta svona hluti hræða okkur, því að þetta eru byrjunarörðugleikar sjónvarpsins, sem menn hafa sigrazt á annars staðar og við getum fljótlega komizt yfir. Þessi miðill mun gera okkur alveg eins og við erum. Við eigum sem minnst um hann að hugsa, þegar að því kemur, og það mun koma í ljós, að það er ekki sérstök manntegund, sem lítur betur út í sjónvarpi en önnur. Þar sýnir það sig, að þeir menn, sem hafa persónuleika og skoðanir fram að færa og geta tjáð sig vel í tveggja manna tali eða við stóran hóp, munu njóta sín á nákvæmlega sama hátt í sjónvarpi. Það er því ekki minnsta ástæða til að óttast þennan nýja miðil.

Og að lokum þetta: Ef það hefði verið sjónvarpað til þjóðarinnar frá atburðunum, þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið, þá getur vei verið, að hegðun einhverra manna hefði verið örlítið betri en hún var. Og gæti vel verið, að lærdómur þjóðarinnar á þeim viðburðum, á einn veg eða annan eftir skoðunum, hefði getað orðið jafnvel meiri en hann varð. A.m.k. er ég sannfærður um það, að slíkir viðburðir nái betur og á allt annan hátt til þjóðarinnar, og þarf ekki annað en að taka síðasta dæmið úr Noregi, frá þeim örlagaríku King's Bay umr., sem gengu í sjónvarpi um miðjan dag. Þá var sjónvarpað beint úr þinginu umr., eins og hún kom fyrir, í marga daga, og mátti heita, að þjóðlífið stöðvaðist á meðan.