29.03.1966
Neðri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (2553)

146. mál, Fiskiðja ríkisins

Flm (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 310 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um stofnun fyrirtækis, er beri nafnið Fiskiðja ríkisins. Í stuttu máli er það meginefni frv., að sett verði á stofn Fiskiðja ríkisins, er starfi undir sérstakri, þingkjörinni stjórn, og að ríkið leggi fram fjármagn, svo að unnt sé með einhverri von um árangur að ráðast til atlögu við versta vandamál þessa iðnaðar, markaðsvandamálið. M.a. verði stofnað til sölusambands framleiðenda, er reyni sameinaðir að brjótast inn á frjálsan markað erlendis undir einu auglýstu vörumerki. Í þriðja lagi, að fiskiðjan taki við rekstri niðurlagningarverksmiðjunnar á Siglufirði. Í fjórða lagi, að fiskiðjan reisi nokkrar nýjar verksmiðjur, eftir því sem markaður leyfir, og verði við staðsetningu þeirra einkum haft í huga að bæta atvinnuástand þeirra staða, þar sem vinna er að staðaldri ónóg. Í fimmta lagi, að Fiskiðja ríkisins fái það hlutverk að hafa forustu um hvers konar vísindarannsóknir á þessu sviði, innleiði tækninýjungar og geri tilraunir með nýja matarrétti Og í sjötta lagi, að Fiskiðju ríkisins verði falið að gera ráðstafanir til þess, að Íslendingar eignist fjölmennan hóp sérmenntaðra manna í niðursuðutækni, áhugamenn séu kostaðir til náms erlendis og efnt sé öðru hverju til sérstakra námskeiða fyrir verkstjóra og annað starfslið.

Árið 1960 kom hingað til lands á vegum Iðnaðarmálastofnunar Íslands norskur verkfræðingur í niðursuðutækni, Carl Knut Hansen að nafni, og kynnti sér íslenzkan niðursuðuiðnað, sögu hans og þáverandi ástand. Í skýrslu, sem Iðnaðarmálastofnunin gaf út, rekur þessi sérfræðingur upphaf niðursuðuiðnaðar á Íslandi og segir, að árið 1941 hafi framleiðslan til útflutnings verið komin upp í 700 smál. það ár. En næsta árið, segir sérfræðingurinn, hrapar útflutningurinn á niðursuðuvörum niður í 100 tonn, sem sagt, á einu ári úr 700 tonnum og niður í 100 tonn. Sérfræðingurinn er mjög undrandi á þessu mikla hruni í útflutningi niðursuðuvara og veit bersýnilega ekki, hvort hann á að trúa þeirri skýringu, sem hann fær hjá fróðustu mönnum um þessi mál hér á landi. Og honum er vissulega vorkunn. Skýringin, sem gefin er, er sú, að 5 mikilvægum verzlunarsamningum, sem þá voru gerðir, hafi niðursuðuiðnaðurinn gleymzt. Embættismennirnir gleymdu að semja um sölu á niðursuðuvörum. Og það þarf auðvitað engan að undra, að norski sérfræðingurinn setur sögnina að gleyma innan gæsalappa.

Þessi dæmalausa gleymska, sem átti sér stað fyrir aldarfjórðungi, er í raun og sanni ákaflega einkennandi fyrir þróunarsögu niðursuðuiðnaðarins á Íslands. Raunverulega eru það engar ýkjur að segja, að til skamms tíma hafi Íslendingar gleymt niðursuðuiðnaðinum við uppbyggingu atvinnuvega sinna. Árið 1957 var 15% af útflutningsverðmæti norskra sjávarafurða ýmiss konar fisktegundir lagðar niður og soðnar niður En sama ár var hliðstæð hlutfallstala á Íslandi aðeins 0.4%. Það er vitað, að norskur niðursuðuiðnaður hefur síðan verið í sókn, en þróun þess iðnaðar hefur verið mjög hæg á Íslandi. Árin 1963 og 1964 var hlutfallstala niðursuðuvara miðað við fiskafurðir enn hin sama, þ.e.a.s. um það bil 0.4%. Framleiðslan hafði að vísu aukizt nokkuð, en þó ekki meira að tiltölu en aflamagnið í heild. Árið 1965 er útflutningsmagnið komið upp í 682 tonn, að verðmæti 32.6 millj., og aukningin í krónutölu frá fyrra ári er um 12 millj. Mestu munar um sölu til Sovétríkjanna og annarra Austur-Evrópuríkja, en sú aukning nemur um það bil 10 millj kr. Búast má við, að útflutningur á niðursuðu- og niðurlagningarvörum muni aukast mjög verulega á þessu ári, fyrst og fremst vegna stóraukinnar sölu til Sovétríkjanna. En rétt er að minnast þess, að þrátt fyrir allmikla aukningu útflutningsins á seinustu árum, er hlutfallstalan, sem ég hef hér nefnt, ekki komin upp í nema 0.6% árið 1965, og talinn í tonnum hafði útflutningurinn enn ekki náð því hámarki, sem útflutt var árið 1941.

Þegar spurt er, hver sé skýringin á þessum erfiðleikum niðursuðu- og niðurlagningariðnaðararins, hvernig á því standi, að Íslendingar eru svo langt á eftir Norðmönnum og raunar flestum nágrannaþjóðunum á þessu sviði, er svarið ævinlega það sama: Markaði vantar. Og þetta er að sjálfsögðu alveg rétt. Auðvitað neitar því enginn, að það er erfitt að benda á öruggan markað fyrir þessar vörur. Hins vegar er ekki laust við, að sumir hafi tilhneigingu til að lita á markaðsskortinn eins og einhver óumflýjanleg örlög. Menn standa frammi fyrir þessu vandamáll og segja: Það er enginn markaður til, og við þessu er ekkert að gera. — Menn virðast sem sagt halda, að í þessari einu iðngrein sé markaðsvandamálið nánast óleysanlegt. Þeir virðast ekki gera sér það ljóst, að í raun og veru hefur aldrei verið reynt með stórfelldu og margbrotnu átaki að leysa þetta vandamál, gera ýtarlega markaðskönnun og í kjölfar þess að gera langvinnt og kröftugt söluátak.

Ég vil minna á í þessu sambandi, að í raun og veru er ekki ýkjalangt síðan Íslendingar fóru að flytja út skreið. Þá voru Norðmenn langt á undan okkur. En á tiltölulega fáum árum stórjókst skreiðarsala, og Íslendingar komust inn á markaði, þar sem Norðmenn voru áður búnir að ná góðri fótfestu og miklu forskoti. Á s.l. ári munum við hafa flutt út skreið fyrir um 376 millj. kr.

Þá vil ég minna á, að á saltfiskmarkaðinum munu hafa verið miklir erfiðleikar á sínum tíma, en með dugnaði tókst framleiðendum að brjótast inn á markaði í harðri samkeppni við aðrar þjóðir, og á s.l. ári fluttu Íslendingar út saltfisk fyrir um 525 millj. kr. Þá er ekki síður ástæða til að minna á erfiðleikana í sambandi við útflutning í hraðfrystum fiski, en á s.l. ári seldum við fryst fiskflök fyrir um 1148 millj. ísl. kr. Flestum mun í minni, að fyrir rúmum 10 árum áttum við í miklum erfiðleikum við að koma út frysta fiskinum, og upprunalega var mesta átakið gert með stórfelldum sölusamningum við Sovétríkin, sem veittu nokkra tryggingu fyrir þessa iðngrein. Síðan hófst harðvítugasti slagur á mörkuðum hér í Vestur-Evrópu og sérstaklega Ameríku, — slagur, sem borið hefur mikinn árangur.

Þessi dæmi og mörg önnur sýna það og sanna, að Íslendingar hafa reynzt fullfærir um að brjótast inn á nýjan markað í harðri samkeppni við aðrar þjóðir, þegar þeir hafa reynt af fullum krafti. Þess vegna er ekki óeðlilegt, að niðursuðuvörur og sala á þeim skeri sig algerlega úr í samanburði við útflutning annarra sjávarafurða og prósentutala niðursuðu- og niðurlagningarvara hér á Íslandi miðað við heildarútflutning sé einkennilega lág. Það hefur engin stórfelld sölutilraun verið gerð, og þess vegna hefur engin framför orðið í um það bil aldarfjórðung.

Ég sé ekki ástæðu til að tala langt mál um þetta frv., þar sem því fylgir alllöng grg. En ég vil þó fara nokkrum orðum um fáeinar greinar þess, sem lítið er minnzt á í sjálfri grg.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, er nú verið að reisa í nokkrum áföngum niðurlagningarverksmiðju á Siglufirði. Hún er að vísu ekki hálfbyggð enn þá, en þó það langt á veg komin, að þar er nú þegar hafin nokkur framleiðsla. Þessari verksmiðju hefur alltaf verið ætlað það hlutverk að vera eins konar forustuverksmiðja og tilraunaverksmiðja. Frv. það, sem ég hef lagt hér fram, tekur einmitt mið af þessari verksmiðju, og í því er gert ráð fyrir, að stórefling þessa atvinnuvegar eigi sér stað í framhaldi af byggingu þessarar forustuverksmiðju ríkisins, sem mun verða útbúin með beztu fáanlegum tækjum. Sigló-verksmiðjan hefur átt við nokkra byrjunarörðugleika að stríða, en það mun einungis stafa af markaðsvandræðum, enda virðist frá upphafi hafa verið lítið hugsað um þá hlið málsins. Þessu frv. er m.a. ætlað að reyna að ráða bót á því vandamáli.

Í 2. gr. frv. er því slegið föstu, að hafin verði stórfelld markaðskönnun. Þar segir: „Fiskiðja ríkisins hefur forustu um öflun markaða erlendis. Fiskiðjan beitir sér fyrir myndun sölusamtaka, er annast sölu á fullunnum fiskréttum í ýmsum tegundum umbúða og undir einu vörumerki.“ Ég held, að ástæðulaust sé að fjölyrða um þetta atriði. Ég tel, að þarna sé um sjálfsagt mál að ræða og raunar einkennilegt, að þessu verkefni skuli ekki hafa verið sinnt fyrr En ég vil benda á, að orðalagið á þessari mgr. er ekki algerlega fastbundið. Þar er fyrst og fremst bent á tvær leiðir: að fiskiðjan sjálf hafi forustu um öflun markaða og hins vegar þá leið, að hún beiti sér fyrir myndun sölusamtaka, enda ekki ósennilegt, að einmitt sú leiðin yrði gæfulegust fyrir niðursuðuiðnaðinn í heild. En eins og ég sagði áðan, tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta atriði. Ég mun víst áreiðanlega ekki vera sá fyrsti, sem minni á þetta mál hér í þinginu. Það hefur hvað eftir annað komið fram í umr. um niðursuðumál, að meginástæðan til þess, hve illa hefur gengið með þessa iðngrein, er sú, að enginn aðili hefur haft forustu um sölu vörunnar á erlendum markaði.

Í 6. gr. frv. segir, að stjórn fiskiðjunnar skuli skipuð 7 mönnum og jafnmörgum til vara og skuli þeir kosnir hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi. Ég vil taka það fram, að þessi hugmynd er alls ekki ný og alls ekki frá mér komin sérstaklega. Upphaflega, þegar lög voru sett um þessa forustuverksmiðju ríkisins, var ráð fyrir því gert, að sérstök stjórn yrði sett yfir hana, en því var síðar breytt og stjórn síldarverksmiðja ríkisins falið að annast stjórn verksmiðjuna;. Mér er kunnugt um, að í stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefur þeirri hugmynd hvað eftir annað verið hreyft, að verksmiðjan yrði sett undir sérstaka stjórn og tekin undan starfssviði síldarverksmiðjanna. Á fundi stjórnarinnar 2. okt. 1963 var samþ. till. þess efnis að mælast til við ráðh., að niðursuðuverksmiðjunni yrði skipuð sérstök stjórn og ákveðið yrði 10 millj. kr. stofnframlag til verksmiðjunnar af ríkisfé. Þessi till. var samþ. með 5 atkv. Undirtektir ráðh. voru þá ekki nægilega jákvæðar, og ekkert varð úr þessum hugmyndum verksmiðjustjórnarinnar. Hér í Nd. eiga nú sæti tveir af stjórnarmönnum síldarverksmiðja ríkisins, þ.e. a. s. hv. 1. þm. Austf. Eysteinn Jónsson og hv. 2. þm. Vesturl., Sigurður Ágústsson. Ég teldi æskilegt að fá upplýsingar um það, hvort afstaða þeirra í þessu efni væri ekki óbreytt frá því, sem áður var.

Í 2. gr. frv. er rætt nánar um hlutverk fiskiðjunnar. Það er sem sagt ekki hennar hlutverk að sjá um markaðsöflun. Hún á að hafa forustu um tilraunastarfsemi við frystingu, niðursuðu og hvers konar fullvinnslu matvæla úr síld og öðrum fisktegundum. Ekki er þó gert ráð fyrir, að reksturinn sé einungis bundinn við síldarvinnslu, heldur sé þar um vinnslu á hvers konar fisktegundum að ræða. Einnig skal fiskiðjan hafa samvinnu við rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og miðla reynslu og þekkingu til annarra framleiðenda á þessu sviði. Skal að því stefnt, að komið verði á fót sérstakri rannsóknardeild, sem hafi með höndum vísindalegar athuganir í niðurlagningar- og niðursuðutækni. Loks segir þar, að gera skuli ráðstafanir til þess, að nægilega margir Íslendingar hljóti sérmenntun erlendis í þessari iðngrein, og efnt sé öðru hverju til námskeiða hér á landi fyrir verkstjóra og annað starfslið.

Mér er kunnugt um, að í Noregi er starfræktur sérstakur skóli í niðurlagningar- og niðursuðutækni. Norskir sérfræðingar, sem komið hafa hingað og sagt hafa álit sitt á framtíð þessa iðnaðar, hafa verið sammála um, að viðtæk fræðslustarfsemi væri alger forsenda þess, að góður árangur gæti náðst. Ég býst við því, að of snemmt mundi vera að stofnsetja nú þegar sérstakan skóla, en ég tel alveg nauðsynlegt, að einhverjum ákveðnum aðila og þá þessum aðila verði falið að sjá um, að menn verði sendir utan á erlenda skóla til að kynna sér þennan iðnað, og efni til námskeiða, þegar þörf krefur.

Í 5. gr. frv. er síðan fjallað um fjárhagshlið eða kostnaðarhlið þessarar starfsemi, og er þar gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 8 millj. kr. í 5 ár, samtals 40 millj. kr., til þess að standa undir kostnaði af tilraunum, fræðslustarfsemi og almennri markaðsöflun. Ég vil taka það fram, að þessi upphæð er ekki vandlega útreiknuð. Vel kann að vera, að hún sé of lágt áætluð. Í. 4. gr. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram 6 millj. kr. í 5 ár, þ.e.a.s. 30 millj. kr. samtals, til þess að niðurlagningarverksmiðjan á Siglufirði verði fullgerð og til þess að koma upp nokkrum öðrum verksmiðjum til fullvinnslu matarrétta úr fisktegundum. Í þeirri gr. er sérstaklega tekið fram, eins og ég gat um áðan, að við staðsetningu nýrra verksmiðja verði þeir staðir látnir sitja í fyrirrúmi, þar sem atvinna hefur verið ónóg í seinni tíð.

Frv. þetta fjallar um skipulagningu niðursuðuiðnaðarins. Fyrst og fremst er þetta till. um, að ríkisvaldið leggi fram nægilegt fjármagn, svo að unnt sé að hefja stóriðju í matvælaiðnaði og gera þennan iðnað að einum af grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar í framtíðinni. Ég vil nefna í þessu sambandi smáatburð, sem gerðist fyrir fáum árum og mér finnst að varpi skýru ljósi á ástand þessara mála, eins og það hefur verið að undanförnu. Það gerðist fyrir nokkrum árum, að íslenzkur niðursuðuframleiðandi, sem á litla verksmiðju úti á landi, fór til Þýzkalands með sýnishorn af framleiðslunni. Hann sýndi kaupendum úti í Þýzkalandi ýmsar tegundir af framleiðsluvörum, og þeim líkaði framleiðslan mjög vel. Síðan gerðu þeir pantanir og bentu á ákveðna tegund, sem þeir óskuðu sérstaklega eftir að fá. Þeir gerðu stórar pantanir, pöntuðu nokkur þúsund kassa af þessari ákveðnu vöru, og framleiðandinn kom hingað til lands aftur mjög ánægður. Hann hafði fengið miklar pantanir, enda hafði varan líkað mjög vel. En þegar til átti að taka, gat hann alls ekki fundið það út, hvað hafði verið í dósinni, sem kaupendunum hafði líkað svo vel. Hann var að leita næstu mánuðina að því sýnishorni, sem hann hafði boðið útlendingunum og þeir höfðu sérstaklega pantað, og hvað eftir annað sendi hann þeim nýjar og nýjar dósir, en alltaf fékk hann sama svarið: Þetta er ekki það, sem við báðum um 1 Þetta er allt önnur framleiðsla 1 — Maðurinn fann aldrei þá vöru, sem þeir höfðu pantað, hann fann aldrei uppskriftina. Ég held, að þetta atvik sé að nokkru leyti dæmigert um það, hvernig ástand þessarar iðngreinar hefur verið að undanförnu. Þetta er dæmi um kákið, sem hefur verið ríkjandi hjá smáframleiðendum og er auðvitað eðlilegt, þegar menn hafa ekki fjármagn í höndunum til þess að vinna að þessum málum með þeim hætti, sem gera þarf.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, stefnir einmitt að því, að slíkum vinnubrögðum, slíku rassvasabókhaldi, eins og sumir hafa nefnt það, verði hætt og nútímaskipulagning og stórrekstur hefjist í þessum iðnaði fyrir forgöngu ríkisvaldsins.

Ég held, að ég hafi ekki þessi orð fleiri, en

vil leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn. að lokinni þessari umr.