22.03.1966
Neðri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (2557)

150. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem ég flyt á þskj. 319 um breyt. á l. nr. 78 frá 28. apríl 1962, um lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á farskipum, er til þess að veita frekari heimildir eða rýmka þá heimild um aðíld að sjóðnum, sem er í gildandi lögum. Samkv. frv. þessu er lagt til, að félögum sjómanna sé t.d. heimilt að tryggja starfsmenn sína í sjóði þessum, einnig sé útgerðum farskipa, varðskipa og togara heimilt að tryggja skipverja sína, þótt þeir séu eigi lögskráðir, ef þeir eru að starfi við skip útgerðarinnar, sem eru í viðgerð eða flokkunarviðgerð, eða að öðrum störfum í þágu útgerðarinnar um stundarsakir. Þá er einnig lagt til, að sjómönnum, sem stunda nám í sjómannafræðum, sé heimilt að kaupa sér réttindi í sjóðnum, einnig þeim, sem slasast eða veikjast og eru frá um tíma úr skiprúmi.

Lögin eru þannig nú, að það er aðeins heimilt fyrir þá að kaupa sér lífeyrissjóðsréttindi, sem eru lögskráðir á skip. Það sjá allir, að þessu fylgja ýmsir annmarkar. Það hefur komið fyrir hér jafnvel hjá opinberri útgerð ríkissjóðs, að forstjóri hafi mjög þurft á því að halda að fá einn eða fleiri skipverja til þess að vinna fyrir útgerð í landi um stundarsakir, en þetta hafi ekki tekizt, vegna þess að skipverjarnir hafi ekki viljað gefa kost á sér í það, vegna þess að um leið mundu þeir tapa af þessum réttindum, sem lífeyrissjóðurinn veitir. Sömu sögu er að segja um þá, sem hafa farið í einhvern af sjómannaskólunum. Það hefur heyrzt talað um, að dæmi finnist um, að menn hafi hætt við að fara í þá skóla, vegna þess að þeir hafi ekki talið sér fært að verða af þessum sömu réttindum. Ég þekki dæmi þess sjálfur, að menn, sem óskað var eftir að kæmu í land til þess að vinna fyrir viðkomandi stéttarfélag sjómanna, fengust ekki til þess, einnig af þessum ástæðum, og þessu frv. er m.a. ætlað að bæta úr þessum vanköntum.

Í grg. með frv. eru þessi atriði það vel skýrð, að ég sé ekki ástæðu til þess að skýra þetta frv. nánar. Þetta getur ekki í neinum tilfellum orðið til annars en ágóða fyrir sjóðinn sjálfan, en mun um leið, ef samþ. verður, ráða bót á annmörkum nokkrum, sem sjómenn telja að þurfi að fást lagfæring á. Því er þetta frv. fram komið, og vænti ég þess, að það eigi greiðan gang í gegnum þingið.