28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (2566)

163. mál, aðstoð til vatnsveitna

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Mál þetta, sem varðar breyt. á l. nr. 93 1947, um aðstoð til vatnsveitna, er endurflutt af okkur 4 þm. Framsfl. í þessari hv. deild. Síðast þegar það var hér til umræðu, það var á þinginu 1964, var á það fallizt að vísa því til ríkisstj. í trausti þess, að hún léti frekari athugun fara fram og legði málið siðan fyrir næsta reglulegt Alþingi. Þrátt fyrir langan íhugunartíma hefur ekkert heyrzt frá hæstv. ríkisstj., og þykir okkur flm. því ástæða til þess að flytja málið enn að nýju.

Svo sem kunnugt er, er í l. um aðstoð við vatnsveitur frá 1947 kveðið á um fjárhagslega aðstoð ríkissjóðs við sveitarfélög, sem koma sér upp vatnsveitum; enn fremur eiga ákvæði laganna við um svokölluð vatnsveitufélög, sem stofnuð eru skv. vatnalögunum frá 1923. Aðstoðin er fólgin í því, að heimilt er að veita styrk úr ríkissjóði, sem nema má allt að helmingi kostnaðar við stofnæðar, vatnsgeyma, dælur og jarðboranir. Þessi löggjöf frá 1947 hefur orðið að gagni og gert ýmsum sveitarfélögum og vatnsveitufélögum fært að stofna til vatnsveitugerðar, sem að öðrum kosti hefði ógert verið eða reynzt a.m.k. mjög erfitt.

Við framkvæmd laganna hefur reynslan leitt í ljós, að aðstoðin af ríkisins hálfu þarf að koma betur til og löggjöfin að færast til annars horfs um nokkur atriði. Og vil ég nú leyfa mér að víkja nánar að þessum atriðum.

Styrkurinn úr ríkissjóði getur takmarkazt um skör fram og raunar langt fram yfir það, sem löggjafinn mun upphaflega hafa ætlazt til, þegar svokölluð stofnæð er aðeins lítill hluti alls vatnsveitukerfisins. En þegar svo stendur á, geta aðaldreifiæðar, þ.e. æðarnar frá stofnæð, komið snemma til og orðið höfuðhluti alls dreifikerfisins. Miðast þá eigi að síður styrkurinn einungis við kostnaðinn af stofnæðargerðinni. Annar kostnaður við vatnsæðalagnir, sem er þá mestur hluti kostnaðar, fellur þar fyrir utan og tilheyrir framkvæmdaaðilanum einum. Stofnæðin er skilgreind mjög þröngt af hálfu þeirra aðila, sem styrkjum úthluta, að hún sé sá hluti vatnsæðar, sem liggur frá vatnsbóli eða upptökum vatns að fyrstu greiningu. Að þessi túlkun sé rétt, skal ekki dregið í efa út af fyrir sig. En það er auðséð, þegar svo háttar, að stofnæð er stutt, en dreifilínukerfið viðáttumikið, að styrkurinn verður síður að gagni og ef til vill óverulegur. Þessi aðstaða er oft til staðar og ekki hvað sízt í sveitum, þar sem strjálbýlt er. Hér þyrfti hvað mest að koma til aðstoðarinnar, en skortir skýlausa heimild í l. til þess að hjálpa við framkvæmd vatnsveitugerðar, þegar þörfin er hvað brýnust.

Til þess að bæta úr í þessu efni leggjum við flm. frv. til, að styrkur af ríkisins hálfu skuli einnig ná til aðaldreifiæða, og þetta er höfuðbreytingin í okkar frv. frá því, sem í l. frá 1947 greinir. Þá sýnist okkur flm. í annan stað rétt að setja inn í l. ákvæði á þá leið, að ábyrgð sú, sem ríkissjóði er heimilt að veita sveitarstjórnum vegna vatnsveituframkvæmda, verði ákveðin sjálfskuldarábyrgð. Lög um ríkisábyrgðir gera ráð fyrir því, að ábyrgð ríkissjóðs sé einföld, sem svo er kallað, nema sérstaklega sé tekið fram um annan hátt.

Vatnsveitugerðir eru vissulega markverðar framkvæmdir í almannaþágu, sem stuðla ber að á hverja lund, svo sem auðið er. Það er því rík ástæða til þess, að hér beri ríkissjóður þyngri ábyrgð en ella. Svo er álit okkar flm.

Í þriðja lagi er í þessu frv. lagt til, að samanlögð ábyrgðar- og styrksfjárhæð megi ná allt að 90% af stofnkostnaði allrar vatnsveitunnar. Er þar um nokkra hækkun að ræða.

Þessar breytingar þrjár, sem ég hef drepið á, eru þær helztu, sem getur um í frv. Vil ég að lokum taka þetta fram: Það er auðsætt, að frv. þessu, ef að lögum verður, þurfa að fylgja stórhækkaðar fjárveitingar til vatnsveitna. Í fjárlögum fyrir árið 1966 eru í þessu skyni ætlaðar 1.8 millj. kr. Þessi fjárhæð vegur að sjálfsögðu lítt á móti þörfinni eins og er og hvað þá síðar. Hér þarf vissulega að gera stórátak og tillagið að margfaldast. Um það er svo ekki að villast og sjálfsagt flestir um það samdóma, að vatnsveitumál séu ein hin veigamestu hagsmunamál sveitarfélaga og einstaklinga og að ríkissjóði beri að leggja hart að sér að koma slíkum framkvæmdum í sem bezt horf og þá auðvitað fyrst og fremst þar, sem fjárhagsástæður eru þannig, að viðkomandi framkvæmdaaðilum er um megn að koma verki fram af eigin rammleik. Það er því von okkar flm., að þetta frv. megi nú ná fram að ganga og að málinu verði síðan fylgt myndarlega eftir með ríflegum fjárveitingum.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.