29.04.1966
Neðri deild: 81. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í C-deild Alþingistíðinda. (2588)

190. mál, stjórnarskipunarlög

Ágúst Þorvaldason:

Herra forseti. Ég hef nú ekki kynnt mér rækilega þetta frv., en mér sýnist, að margt í því sé mjög athyglisvert, og mér finnst nauðsynlegt, að þetta frv. fái ýtarlega athugun. Í því eru fólgin ýmiss konar nýmæli, sem eiga vafalaust sum þeirra mikinn rétt á sér, þó að e.t.v. megi þá frekar deila um önnur. Ég ætla nú ekki að hafa mörg orð um þetta mál hér, en ég kvaddi mér hljóðs aðallega til þess að láta koma fram af minni hálfu nokkrar skoðanir um 6. gr., þar sem rætt er um afréttinn og aðrar lendur og svæði, sem eigi hafa verið í byggð undanfarin 20 ár.

Hv. 3. þm. Reykv., flm. þessa máls, ræddi nokkuð um þetta atriði og taldi, að svæðið á hálendinu væri almenningseign, það væri eign þjóðarinnar eða ætti að vera eign þjóðarinnar allrar. Ég hygg, að til séu fyrir því margir gjörningar og gamlir máldagar, að afréttarsvæðin séu eign vissra hreppa eða héraða eða jafnvel jarða. Ég get nefnt sem dæmi t.d. Úthlíð í Biskupstungum, að hún á land alla leið inn í Langjökul, sú jörð. Þetta er vissulega mikið óbyggt svæði, geysilega stórt landflæmi, sem liggur þarna óbyggt, en er notað fyrir afrétt og beitiland á sumrin, en tilheyrir þó með glöggum landamerkjum sjálfri jörðinni. Ég vil enn fremur segja það um afréttarlönd okkar Árnesinga, að þau eru yfirleitt með landamerkjum á milli svæða. Hver afréttur er afmarkaður með sérstökum landamerkjum, sem skráð eru í máldögum og fornum gjörningum um þessa hluti. Og í fjallskilareglugerðum okkar, a.m.k. sumum og ég held öllum, ég fullyrði það þó ekki, er fram tekið að þeir eigi afrétti, sem að fornu hafi átt þá, og hver jörð eigi í samræmi við sína stærð visst ítak eða vissan hluta í afréttarlandinu. Allt fram á okkar daga hafa þessi svæði verið geysilega þýðingarmikil fyrir búskapinn í landinu vegna beitarréttindanna. En nú er einnig fleira, sem kemur til. Það má nefna t.d. þau veiðivötn, sem liggja á fjöllum uppi og afréttum, eins og t.d. á Landmannaafrétti. Það mun ekki vera langt síðan hæstaréttardómur féll um það, að jarðirnar í Landsveit og að nokkru leyti á Rangárvöllum eiga allan rétt í þessum vötnum, vegna þess að þau liggja á þeirra afrétti og afrétturinn tilheyrir jörðunum.

Ég vildi láta það koma fram hér, að ég lít svo á, að það væri skerðing á eignarrétti þeirra, sem þessar jarðeignir eiga, ef þessi lönd væru af þeim tekin, nema þá í staðinn kæmu fullar bætur til jarðeigenda. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta hér, en eins og ég sagði, vildi láta þennan skilning minn koma fram.