02.11.1965
Efri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (2610)

41. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Með lögum um aðstoð við sjávarútveginn, sem samþ. voru á síðasta Alþingi, var m.a. ákveðið, að ríkissjóður greiddi 25 aura verðuppbót á hvert kíló af fiski, sem veiddur væri með línu eða handfæri. Með þessu lagaákvæði var viðurkennt, að veiðar með linu væru óhagstæðari útgerð en með öðrum veiðarfærum, þ.e.a.s. þegar frá er skilin togaraútgerðin, sem um langt skeið hefur notið mun ríflegri aðstoðar af opinberri hálfu eða nú um sinn styrkja, sem munu svara til um það bil einnar krónu á hvert kíló upp úr sjó, og er hann veittur, hvort sem aflanum er landað hér heima til vinnslu eða siglt með hann ísvarinn á erlendan markað.

Með þessum lögum var í rauninni líka viðurkennt, að hér væri um svo veigamikinn þátt í okkar atvinnulífi og okkar gjaldeyrisöflun að ræða, að hinu opinbera bæri skylda til að koma til hjálpar og tryggja þennan þátt útvegsins. Þessi viðurkenning var og er eðlileg og sjálfsögð, þegar það er haft í huga, bæði hvað mikilvæg þessi grein útgerðar hefur verið, og eins hitt, hve erfitt mundi reynast að fylla það skarð, sem hún mundi skilja eftir, ef hún drægist stórlega saman eða jafnvel legðist niður.

Skv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér, var heildarafli, sem veiddur var á línu og handfæri s.l. ár, sem hér segir: 1962 113570 smál., 1963 110991 smál., 1964 84608 smálestir. Um árið, sem nú er að líða, er auðvitað ekki að fullu vitað af skiljanlegum ástæðum, en það er þó alveg fullvíst, að um mjög verulegan samdrátt hefur enn orðið að ræða frá árinu 1964, þannig að handfæra- og línuaflinn á þessu ári mun sennilega ekki vera nema um það bil helmingur af því, sem eðlilegt gæti talizt.

Ef athugað er, hver hlutur línuveiða hefur verið í vetrarvertíðinni við Suðvesturland og Vestfirði, þá lítur það þannig út, að 1964 var hann rúmlega 54 þús. tonn eða 27% af heildarveiðinni á þeirri vetrarvertíð, en 1964 var þetta komið niður í 39732 smál., eða niður í 14.8%, hafði þannig dregizt saman hlutfallslega um nær því helming á einu ári. Á þessu ári eða síðustu vetrarvertíð befur enn orðið um mjög verulegan samdrátt að ræða, þar sem línuveiðar lögðust að mestu leyti niður hér við Suðvesturlandið, og það eru í raun og veru ekki nema Vestfirðirnir, sem gerðu þá verulega út á línu.

Ég hygg, að þessar tölur sýni tvennt. Í fyrsta lagi það, að línuútgerðin á auðveldlega að geta gefið um eða yfir 100 þús. tonn upp úr sjó á ári, ef hún er rekin með eðlilegum hætti og nokkurn veginn fullri þátttöku þess bátaflota, sem hentar þessum veiðum. En þetta magn hráefnis mundi, ef það væri unnið í frystihúsum, gefa um 600 millj. kr. útflutningsverðmæti a.m.k. En mönnum er það kunnugt hvort tveggja, að frystihúsin og ekki sízt úti á landi, þar sem línuveiðar eru aðallega stundaðar, í sjávarbyggðunum þar, frystihúsin þar skortir mjög hráefni, og hins vegar, að framleiðslan á frystum fiski er algerlega ófullnægjandi miðað við þá markaði, sem fyrir hendi eru. Málið er ekki heldur þannig vaxið, að það sé líklegt, að nokkur önnur útgerð geti komið í stað línuveiða, ef um verulegan samdrátt er þar að ræða, a.m.k. ekki svo að nokkru verulegu nemi. Ástæðurnar fyrir því eru margar, m.a. þær, að veiðar með línu eru einu veiðarnar eða nær því einu veiðarnar á bolfiski, sem unnt er að reka með okkar bátaflota nærri því helming ársins, þ.e.a.s. frá október til febrúarloka, og önnur veiðarfæri eru miklu meira miðuð við fiskigöngur, þegar fiskur þjappast saman í þéttar göngur eða torfur um hrygningartímann, þ.e.a.s. okkar vetrarvertíð. Og yfir sumartímann eru þær einu veiðarnar, sem koma til greina á bolfiski, nema mjög takmarkaðar veiðar með dragnót og handfæri, sem hvort tveggja hlýtur alltaf að vera miklum annmörkum og takmörkunum háð. Við þetta er svo því að bæta, að nýtingin á smærri bátum okkar, nýting á veiðimöguleikum, þ.e.a.s. á miðunum, og nýting fiskvinnslustöðvanna víðs vegar um landið er mjög

háð þessari veiðiaðferð, a.m.k. enn sem komið er, og þetta í raun og veru í svo ríkum mæli, að fjöldi sjávarþorpa í landinu í 3 landsfjórðungum á í raun og veru afkomu sína og atvinnu íbúanna undir því komna að langsamlega mestu leyti, að þessar veiðar séu reknar mikinn hluta ársins. Það er þess vegna auðsætt, að það er eitt mesta hagsmunamál sjávarbyggðanna á Vestfjörðum, á Norðurlandi og að verulegu leyti á Austfjörðum, að þessari útgerð sé haldið í horfinu um sinn a.m.k.

Ég held, að það sé því í raun og veru sama, hvort litið er til almennra hagsmuna varðandi okkar útflutningsframleiðslu eða hagsmuna sjávarplássanna, að niðurstaðan hlýtur að verða sú, að við megum engan veginn við því, að sú þróun haldi áfram, sem nú er orðin viðvarandi, að svo sé að þessari atvinnugrein búið, að þar ríki stöðugur samdráttur. En nú er það svo, að það leikur enginn vafi á því, og ég hygg, að það sé óumdeilt, að þessi þáttur útgerðarinnar á nú í miklum erfiðleikum, og ég hygg, að flestum, sem þekkja eitthvað til útgerðar, þyki sýnt, að ef ekki koma til verulegar lagfæringar á rekstrargrundvelli hennar, þá haldi sá samdráttur áfram með vaxandi hraða, sem hefur gert mjög greinilega vart við sig upp á síðkastið og tölulegar upplýsingar, sem ég fór með, sanna. Verðuppbótin, sem sjálfsagt var allra góðra gjalda verð, á s.l. ári, hefur reynzt algerlega ófullnægjandi til þess að halda hag þessarar útgerðar í horfinu, enda hefur verðbólguþróunin séð fyrir því, að allur tilkostnaður hefur vaxið hraðar en fiskverðið, sem útgerðin byggist á.

Ég hygg, að það sé nokkuð sameiginlegt álit flestra þeirra, sem kunnugir eru útvegsmálum, að rekstrargrundvöllur línuútgerðarinnar sé í raun og veru sízt betri en togaraútgerðarinnar og að raunar hafi svo verið um alllangt skeið. Er ég þá engan veginn að segja, að togaraútgerðin sé ofhaldin af þeirri opinberu aðstoð, sem hún nýtur. Allur munurinn er í raun og veru sá, að togaraútgerðin er í höndum fárra stórra aðila, en línubátaútgerðin margra smárra og févana einstaklinga, sem að verulegu leyti vinna sjálfir hörðum höndum við útgerðina. Glöggt dæmi um hag þessara greina útvegsins er það t.d., að engin endurnýjun á sér lengur stað í hvorugri þessari grein útvegsins. Þær eru algerlega stöðvaðar. Rök gegn því, að línuútgerðin fái svipaðan opinberan styrk og togaraútgerðin, virðast því ekki liggja á lausu. Hins vegar mun mega fullyrða, að ef farið væri að þeim till. eða öðrum líkum, eins og þeim, sem ég flyt hér, og þessum útgerðargreinum báðum væri gert jafnt undir höfði og veitt svipuð aðstoð, þá mundi það reynast athafnasemi hennar til hagsbóta bæði fyrir þjóðina í heild og fyrir alla, sem henni standa nærri.

Ég lít ekki svo á, að hér sé um neina raunverulega útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð að ræða, þegar horft er einnig á tekjuhliðina samtímis, þó að þetta frv. um aukna aðstoð til smáútgerðarinnar yrði samþykkt. Ég held, að þessi aukni styrkur mundi skila sér aftur til baka í auknum tekjum ríkissjóðs vegna meiri gjaldeyrisöflunar. Það er a.m.k. ástæða til að reyna að reikna það dæmi annars vegar, hverjar tekjur ríkissjóðs yrðu af gjaldeyrisöflun línuútvegsins, ef hann yrði í fullum gangi, skilaði yfir 100 þús. tonnum af bolfiski á land og væri um leið undirstaða undir gjaldeyrisöflun upp á 600—700 millj. kr. á ári, og hins vegar, hverjar tekjur hans yrðu af þessari atvinnugrein, ef hún skilaði aðeins helmingi eða jafnvel miklu minna af þessu verðmæti. Ég held þess vegna, að aðstoðin, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, verði ekki of mikil, ef hún er skoðuð í samhengi við útkomuna úr þeim dæmum, sem ég nefndi.

Ég ætla svo ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég vil aðeins vænta þess, að sú hv. n., sem væntanlega mun fjalla um þetta mál, athugi það rækilega, kynni sér allar tiltækar staðreyndir, sem varða málið, og hagi afgreiðslu málsins í samræmi við það. Og ef það er gert, þá er það trú mín, að hún komist að þeirri niðurstöðu, að hér sé ekki um nein yfirboð eða óhóflega kröfugerð að ræða, heldur úrræði í vandamáli, sem Alþ. og ríkisstj. ber vafalaust skylda til að sinna.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði að umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.