02.11.1965
Efri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í C-deild Alþingistíðinda. (2611)

41. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki gera neina tilraun til að vefengja þau rök, sem hv. frsm. þessa frv. hafði fyrir frv. hér áðan, og kannast við mörg atriði þeirra reyndar úr röksemdafærslum, sem ég hef áður heyrt varðandi þetta mál, og tel þess vegna ekki neina sérstaka ástæðu til að fara út í einstök atriði þeirra. Ég vildi hins vegar nota þetta tækifæri til að skýra frá því, að fyrir þó nokkru kom í kjölfar bréfs, sem sjútvmrn. var sent, nefnd frá L.Í.Ú., sem skýrði frá vanda hinna smærri vélbáta, þó ekki þeirra smæstu, heldur sérstaklega þeirra, sem eru of stórir til að veiða með dragnót og allt upp undir það að vera of litlir til að bera síldveiðar, sér í lagi vetrarsíldveiðar, þ.e.a.s. bátanna á stærðinni frá 45 til allt að 120 tonn, og í þessum hópi eru sér í lagi þeir bátar, sem hv. frsm. og flm. frv. gat um áðan. Frv. er því að mínu viti fyrst og fremst um einn þátt þessa vanda, þ.e.a.s. verðlagið á línufiskinum, sem er að sjálfsögðu eitt af veigamestu atriðunum í vanda þessara báta, en alls ekki allur vandinn, sem nauðsynlegt er að takast á við og glíma við til þess að fá viðunandi úrlausn. Ég vildi þess vegna nota þetta tækifæri, án þess að fara út í frekari röksemdafærslu fyrir nauðsyn þess, að þetta mál verði kannað, sem er vissulega eitt af alvarlegustu vandamálum sjávarútvegsins í dag, til að skýra frá því, að ég fór fram á það við formenn þingflokkanna í s.l. viku, að þeir tilnefndu hver um sig mann í nefnd til þess að rannsaka þennan vanda, og nokkrir þingflokkanna hafa þegar tilkynnt mér þessa tilnefningu sína, þannig að ég vænti þess, að þetta vandamál verði í allra flokka nefnd tekið fyrir nú á allra næstu dögum, eða a.m.k. vonir standa til þess, að nefndin geti sem fyrst hafið störf.

Umfram þann vanda, sem þetta frv. ræðir sérstaklega um, eru þarna, eins og ég minntist á áðan, mörg önnur atriði, sem að vísu hefur verið minnzt hér á áður, en ekki verið útkljáð, þannig að vitað sé, hvort samstaða fæst um þau. Það er t.d. mikið rætt, hvort hleypa eigi þessum bátum á tilteknum svæðum inn í landhelgi með ákveðin veiðarfæri. Það er talað um, að erlendis séu komin ný veiðarfæri, sem væru einmitt hentug fyrir þessa stærð vélbáta, og hvort ekki mætti reyna þau, og ótalmörg fleiri atriði, sem gætu orðið viðkvæm og er því eðlilegt, að allra flokka menn fjalli um.

Eitt af því fyrsta, sem ég tel að nefndin þyrfti að snúa sér að, er sá vandi, sem flm. hyggst leysa með samþykkt þessa frv., og þá um leið að meta það, hvert verð er hægt að greiða fyrir línufiskinn, annars vegar, og eins hitt, hve mikið það kostar að verðbæta hann á þann hátt, sem nauðsynlegt verður talið. Það er enginn vafi og fer sjálfsagt ekki fram hjá neinum, að sá vandi, sem hér um ræðir og frv. vikur réttilega að, er fyrst og fremst kannske afleiðing af því, að þróunin í stærð vélbátanna hefur verið mjög ör hjá okkur á undanförnum árum og menn af eðlilegum ástæðum leita frekar eftir skiprúmi á stærri og betri skipunum, auk þess sem þau hafa gefið mönnum meira i aðra hönd, sér í lagi þrjú s.l. ár með því góðæri, sem verið hefur í síldveiðum. Það er því enginn vafi á því, að endurbætur á afstöðu allri fyrir þessa stærð vélbáta verða að vera æði ríflegar, ef þær eiga að standast samkeppnina um mannskapinn einan, þó að ekki sé tekið tillit til fleiri atriða.

Ég vil gjarnan nota tækifærið til þess að skýra frá því, að það hefur verið athugað, með hvaða hætti bezt yrði komið á rannsókn, sem gæti skilað varanlegum tillögum til úrbóta í þessu efni, og niðurstaðan er sú að setja á stofn þessa nefnd, sem ég áðan skýrði frá og ég vænti að geti hafið störf hið allra bráðasta.