22.02.1966
Efri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (2639)

115. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér breytingu á 17. gr. l. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en þar er fjallað um útreikning og viðmiðun ellilífeyris og örorkulífeyris þess manns, sem lætur í lifandi lífi og af öðrum ástæðum en elli eða örorku af stöðu þeirri, sem veitti honum aðgang að sjóðnum. Í 17. gr., eins og hún er nú, segir svo um þetta efni: „Lífeyrir hans og lífeyrir eftirlátins maka, sbr. 12.

og 14. gr., miðast þá við starfstíma hans og laun þau, er hann hafði, er hann lét af stöðu þeirri, sem veitti aðgang að sjóðnum.“ Í frv. er hins vegar lagt til, að þetta ákvæði verði orðað svo: „Ellilífeyrir hans og lífeyrir eftirlátins maka skal vera hundraðshluti af launum þeim, er á hverjum tíma fylgja starfi því, sem sjóðfélagi gegndi síðast, samkv. 12. og 14. gr.“ M.ö.o., það er lagt til með þessari breytingu, að sama regla gildi um útreikning og viðmiðun lífeyris þess starfsmanns, sem lætur í lifanda lífi af starfi af öðrum ástæðum en elli og örorku, eins og hins, sem lætur af starfi, eftir að lífeyrisaldri er náð, en um það efni segir í 12. gr. l.: „Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af launum þeim, er á hverjum tíma fylgja starfi því, sem sjóðfélagi gegndi síðast.“ Þessi regla um það, að ellilífeyrir skyldi miðaður við hundraðshluta af launum þeim, sem á hverjum tíma fylgja starfi, var lögtekin með lífeyrissjóðsl. síðast. Áður gilti sú regla, eins og kunnugt er, að ellilífeyrir var útreiknaður þannig, að miðað var við meðaltal síðustu 10 starfsára mannsins. Og þegar sú regla gilti, gilti hún einnig um þann, sem lét af starfi af öðrum ástæðum en elli eða örorku.

Breyt., sem gerð var síðast með lífeyrissjóðsl., er til mjög mikils hagræðis fyrir lífeyrisþega, þar sem þeir njóta í raun og veru með því ákvæði kauptryggingar á lífeyri. En hins vegar eru þeir tiltölulega fáu menn, sem láta af starfi í þjónustu ríkisins, áður en lífeyrisaldri er náð, af einhverjum ástæðum, sem geta verið fullgildar, miklu verr settir, eins og augljóst er. Að vísu mætti segja, að þetta skipti ekki svo miklu máli, ef við byggjum við stöðugt verðlag og litlar breytingar á kaupgjaldi. En eins og tímarnir eru nú, þá skiptir þetta geysimiklu máli. En ég fæ satt að segja ekki skilið, hvaða ástæða er til að gera þennan mun. Að vísu mætti orða það, að það væri gert í því skyni að vera eins konar aðhald að mönnum um það að vera áfram í þjónustu ríkisins og fara ekki úr þjónustu ríkisins fyrr en hámarksaldri væri náð. En ég verð að telja heldur óviðkunnanlegt að hafa slíkt ákvæði til þess og vafasamt náttúrlega um verkanir þess, vegna þess að svo getur staðið á, að maður verði, eins og ég sagði áðan, beinlínis af fullgildum ástæðum að skipta um starf.

Eins og ég sagði áðan, getur þetta haft í för með sér mjög mismunandi réttarstöðu þeirra manna, sem þarna eiga hlut að máli, og ég hef beðið tryggingafræðing að gera yfirlit um það, og ég hef hér lauslegt álit frá honum um það efni. Það er of flókið og langdregið til þess, að ég fari að lesa það hér upp, menn hefðu ekki gagn af því, en sjálfsagt gæti n. sú, sem fær þetta til meðferðar, fengið það til afnota. En ég nefni hér aðeins eitt dæmi, sem hann tekur og sýnir, að þarna er um mjög mikinn mun að ræða. Hann tekur dæmi um A og B og segist reikna þar í öðru tilfellinu með 10% árlegri kauphækkun og í öðru tilfellinu með 13% árlegri kauphækkun. Og þá litur þetta dæmi þannig út í hans útreikningi: A og B gerast félagar sjóðsins um tvítugt. Um fimmtugt hafa báðir lokið iðgjaldagreiðslum til sjóðsins og lætur B þá af stöðu sinni, en heldur réttindum sínum samkv. 17. gr. A heldur áfram störfum til 65 ára aldurs. Raunverðmæti iðgjaldagreiðslu beggja er jafnt, þar sem báðir hafa greitt jafnmikið í sjóðinn. Ellilífeyrir A verður 75% af launum á hverjum tíma, ellilífeyrir B verður hins vegar í fyrra tilfellinu, þegar miðað er við 10% kauphækkun, 1 %, en í síðara tilfellinu, þegar miðað er við 13% árlega kauphækkun, 10% af launum. Af þessu sést, að þetta er mjög mikill munur.

Ég held, að hér sé ekki um mikið fjárhagsmál að ræða fyrir sjóðinn, vegna þess að sjálfsagt verða það alltaf tiltölulega fáir, sem þetta kemur til með að eiga við um. En þó er mér kunnugt um nokkur dæmi, þar sem menn hafa látið af störfum, t.d. barnakennarar, sem kannske á miðjum aldri hafa gerzt bændur og hafa þá horfið frá kennarastarfi.

Ég geri ráð fyrir, að frv. þetta verði að sjálfsögðu sent til umsagnar stjórnar lífeyrissjóðs og jafnvel Tryggingastofnunar, og þá muni þetta mál skýrast nánar.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara nánar út í þetta. Ég vona, að hv. m. sé ljóst, hvað hér er um að ræða. Það getur kannske verið álitamál, hvort þetta á að fara til fjhn. eða félmn. Ég held, að ég leggi til, að það fari til félmn.