14.03.1966
Efri deild: 49. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (2646)

134. mál, framleiðnilánadeild við Framkvæmdabanka Íslands

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ásamt öðrum hv. þm. Framsfl. í þessari d. flyt ég á þskj. 282 frv. til l. um framleiðnilánadeild við Framkvæmdabanka Íslands. Tilgangur okkar með flutningi þessa frv. er að leitast við að móta nokkurn fjárhagslegan grundvöll fyrir umfangsmiklum breytingum á framleiðsluháttum, sem við teljum nauðsynlegar, í þá átt að auka vélvæðingu og hagræðingu og skapa skilyrði fyrir nýtízkulegri vinnubrögðum og auknum afköstum á hverja vinnueiningu. Það má færa rök fyrir nauðsyn þessa út frá ýmsum sjónarmiðum, frá sjónarmiðum launþeganna m.a.

Það er alkunna, að framleiðsluaukning þjóðarinnar á undanförnum árum hefur ekki nema að nokkru leyti átt rót sína að rekja til framleiðniaukningar og fólksfjölgunar. Þar koma líka til greina mikil aflabrögð seinustu ára og svo hitt, að fólk hefur lagt á sig mjög aukna vinnu á undanförnum árum, meira en áður tíðkaðist, og nú er vinnutími hjá mörgum og hefur verið um nokkurra ára skeið lengri en við verður búið til frambúðar. En til þess að hægt sé að stytta vinnutímann án tekjumissis, verður að sjálfsögðu að leggja áherzlu á aukin afköst og aukna framleiðni. Þá má einnig færa rök að þessari nauðsyn frá sjónarmiði atvinnurekstrarins, sem býr við vaxandi erfiðleika vegna óhagstæðrar þróunar tilkostnaðarins í landinu að undanförnu, og að sama skapi að færa rök að þessu frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar, því að meiri framleiðsla þýðir auknar þjóðartekjur, sem móta lífskjörin í landinu hjá þjóðinni allri.

Þær breytingar, sem á undanförnum árum hafa verið gerðar á tollalöggjöfinni, hafa verulega minnkað tollvernd íslenzks iðnaðar. Um þessar breytingar hefur þó í grundvallaratriðum ekki verið ágreiningur hér á hv. Alþ., enda hafa menn gert ráð fyrir, eins og boðað hefur verið, að ráðstafanir væru jafnframt gerðar til þess að efla samkeppnisgetu þessara atvinnugreina, og það er vissulega nauðsynlegt. Fyrir nokkrum árum starfaði hér norskur sérfræðingur á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar einmitt að rannsókn og athugun á þeim vandamálum, sem tengd væru aðlögun iðnaðarins að aukinni samkeppni. Niðurstaða hans var sú, að gera þyrfti öflugt átak til þess að auka framleiðni þessara atvinnugreina, og benti þessi norski sérfræðingur á ýmsar ráðstafanir, sem þyrfti að gera af hálfu hins opinbera til þess að greiða fyrir því. Sumt af því hefur að einhverju leyti komið til framkvæmda, t.d. efling iðnlánasjóðsins árið 1963 og áætlun félmrn. um menntun hagræðingarsérfræðinga frá 1964. Þessar ráðstafanir eru að sjálfsögðu góðra gjalda verðar, svo langt sem þær ná, en það þarf meira til.

Forstjóri Efnahagsstofnunarinnar, Jónas Haralz, gerði á fundi hjá Félagi ísl. iðnrekenda í haust grein fyrir framkvæmd till. þessa norska sérfræðings, sem ég var að tala um, og hann sagði þá m.a.:

„Ég vil að lokum gera nokkra grein fyrir þróun mála, eftir að Haarr lauk skýrslu sinni fyrir um það bil ári síðan. Upphaflega var að sjálfsögðu ætlunin, að reynt væri að fylgja eftir þeim till., sem hann gerði, sem allra fyrst. Það má segja, að tvennar ástæður séu fyrir því, að lítið hefur orðið úr þessu enn sem komið er. Í fyrsta lagi hefur þróunin á alþjóðavettvangi í sambandi við tollalækkanir orðið hægari heldur en menn vonuðust til.“ — Og síðan gerir Jónas Haralz nokkru frekari grein fyrir Kennedy-viðræðunum, ég skal sleppa því úr, en segir síðan : „Hin ástæðan, sem er enn veigameiri, er það ástand, sem skapaðist í efnahagsmálum hér á landi á sumrinu 1963. Það má segja, að síðan hafi ekki verið nein skilyrði til þess fyrir stjórnarvöld í landinu, hvorki ríkisstj. né embættismenn, að vinna að framtíðarverkefnum af því tagi, sem hér um ræðir. Athyglin hefur orðið að beinast að aðkallandi vandamálum á kostnað skipulegs undirbúnings og áætlanagerðar vegna þýðingarmikilla framtíðaráætlana. Á þessu hefur nú aftur orðið nokkur breyting,“ segir Jónas Haralz, „og betri skilyrði skapazt til þess að sinna verkefnum af því tagi. Ég mundi telja þýðingarmikið, að þetta mál væri tekið upp aftur, eins fljótt og tök eru á, og að því stefnt að framkvæma í stórum dráttum þá áætlun, sem hann lagði drög að. Ég mundi telja þetta verkefni eitt hinna allra þýðingarmestu í þjóðfélagi okkar. Það er þýðingarmikið fyrir efnahagsþróun landsins, og það er þýðingarmikið fyrir íslenzkan iðnað og þau fyrirtæki, sem í honum starfa.“

Þetta var úr ræðu, sem Jónas Haralz hélt í iðnrekendafélaginu í haust, og mér þykir ástæða til þess að vekja athygli á henni í þessu sambandi og taka undir það, sem þar er sagt, og óska þess, að þær aðgerðir, sem lagðar voru til í þessari skýrslu, sem þarna er uni rætt, megi sem fljótast koma til framkvæmda, og tel raunar, að samþykkt þessa frv., sem ég er nú að mæla fyrir, mundi verða mjög veigamikið skref í þessa átt.

Það hefur líka af hálfu iðnrekenda verið sérstaklega á það bent, að það sé mikil þörf aukinna lána til þess að koma fram umfangsmikilli endurskipulagningu iðngreina og fyrirtækja og aukinni véltækni og hagræðingu.

Sú tæknibylting, sem oft er talað um að hafi átt sér stað í sjávarútveginum undanfarinn áratug, hefur í rauninni fyrst og fremst og ég vil jafnvel segja aðeins náð til síldveiðanna. Hlutur annarra fiskveiðigreina er enn eftir. En það er ljóst, að í sumum þeirra verður ný tækni að koma til, ef þær eiga ekki algerlega að dragast aftur úr og jafnvel hverfa. Við sjáum, hver þróunin hefur verið á undanförnum árum um línuveiðarnar. Þar hafa ekki átt sér stað nauðsynlegar tækniumbætur með sama hætti og í síldveiðunum og ýmsum öðrum atvinnugreinum, en þær þurfa að koma, til þess að við getum haldið áfram að stunda þessa mikilvægu grein, sem er sú fiskveiðiaðferð, sem aflar okkur bezts hráefnis til fiskiðnaðarins. En það er ljóst, að umfangsmiklar breytingar á tækniútbúnaði skipanna hljóta að verða mjög fjárfrekar, og til þess að þær geti átt sér stað, þarf að opna nýja möguleika til fjáröflunar í þessu skyni.

Á undanförnum árum hefur hraðfrystihúsunum í landinu verið veittur styrkur — og raunar nú síðustu árin einnig skreiðarverkun — af opinberu fé. Þessi styrkur hefur verið nefndur hagræðingarfé. Það hefur verið reynt að tengja það við endurbætur í þessum iðnaði og hafa áhrif á það, að þessu fé sé varið í því skyni. En ef við viljum vera hreinskilnir, verðum við væntanlega að fallast á, að í rauninni er hér um að ræða verðuppbætur til hraðfrystihúsanna frekar en styrk til framkvæmda. Það leiðir raunar beint af þeirri aðferð, sem höfð er við úthlutun þessa fjár. Það er þó ástæða til þess að ætla, að allmörg af frystihúsunum í landinu hafi haft nægilega góða afkomu til þess að geta varið þessu fé í þessu skyni, og það er gott, en hitt er vitað, að þau frystihús eru einnig ófá, sem hafa haft þá rekstrarafkomu, að þeim hefur ekki veitt af þessu fé sem beinum uppbótum eða ekki getað varið því í því skyni, sem æskilegast hefði verið. Og jafnvel þó að þau hefðu gert það, er hér að sjálfsögðu ekki um mikla fjárhæð að ræða í þessu skyni. Það er enn fremur ljóst, að það fé, sem látið er til hagræðingar og endurbóta af þessu tagi, á að skila sér aftur í rekstrinum, — það á að hafa betri skilyrði til þess að skila sér aftur í rekstrinum heldur en annað fé, sem í hann er látið, svo að það virðist þess vegna eðlilegra að opna nýja möguleika til að afla lánsfjár í þessu skyni heldur en að ganga mjög langt á þeirri braut að leggja fram styrki í þessu skyni, og er ég þó ekki með þessu að amast við, að það sé gert. Það var á sínum tíma samstaða hér á Alþ., vegna þess að menn litu svo á, að það væri nauðsyn, að frystihúsin fengju þetta fé, til þess að þau gætu staðið undir því fiskverði, sem ákveðið hefði verið.

Svipuð sjónarmið þessum eiga vissulega við í ýmsum öðrum atvinnugreinum, í flutningamálum, í landbúnaði, jafnvel í verzlun og raunar í flestum starfsgreinum. Það er víða nauðsyn að endurbæta vinnubrögð og tæknibúnað, og ég skal ekki tefja tímann á því að rekja það mjög miklu meir. Mér þykir þó rétt að vekja athygli á því, að í erlendum umr. um aðgerðir í peningamálum, sem svo eru kallaðar, sem leið til þess að skapa efnahagslegt jafnvægi, hef ég nú í seinni tíð tekið eftir vaxandi gagnrýni á sparifjárbindingu og lánahöftum á þeim grundvelli, að slíkar ráðstafanir komi harðast niður á þeim fyrirtækjum, sem eru í framsókn og vexti, þ.e.a.s. einmitt á vaxtabroddum atvinnulífsins. Ástandið á lánsfjármarkaðinum hjá okkur hér á landi styður því að nauðsyn þess,að sérstaklega sé séð fyrir fé til þessara þarfa. — Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að stofnaður sé sérstakur sjóður, og það er gert ráð fyrir því, að hann sé deild í Framkvæmdabanka Íslands og nefnist framleiðnilánadeild. Það þykir eðlilegt að tengja þennan sjóð við Framkvæmdabanka Íslands af ýmsum ástæðum. Okkur flm. hefur ekki þótt ástæða til þess að gera ráð fyrir því, að komið væri á fót sérstakri stofnun í þessu skyni. Hins vegar var gert ráð fyrir því árið 1953, þegar Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður, að hann gegndi m.a. svipuðu hlutverki og þeim sjóði, sem hér er gert ráð fyrir, er ætlað. En í l. nr. 17 frá 1953, um Framkvæmdabankann, er hlutverk hans þó ákveðið talsvert viðtækara, og það hefur einnig reynzt það í framkvæmdinni, og þess veg hefur okkur þótt eðlilegt að leggja til, að sérstök lánadeild væri stofnuð á vegum hans, se hefði þetta hlutverk, og gerir 1. gr. frv. ráð fyrir því.

2. gr. frv. gerir svo grein fyrir tilgangi sjóðsins eða tilgangi lánadeildarinnar, og hef ég rakið það nokkuð og skal ekki fara frekar út í það.

Í 3. gr. er svo gerð grein fyrir því hvernig fjár til hans skuli aflað. Það er gert ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði upp á 10 millj. kr. á ári í næstu 10 ár og þetta yrði eigið fé sjóðsins ásamt því fé, sem hann fær samkv. 3. tölulið þessarar gr., en þar er gert ráð fyrir því, að nokkur hluti af tekjuafgangi Framkvæmdabankans gangi til deildarinnar, og þykir það eðlilegt, þar sem gert er ráð fyrir, að hún verði hluti af bankanum. Í 2. tölulið er svo gert ráð fyrir því, Seðlabanki Íslands tryggi sölu á skuldabréf , sem Framkvæmdabankinn gefur út vegna deildarinnar, að upphæð 40 millj. kr. á ári næstu 10 ár. Það er gert ráð fyrir, að bréfin séu til 10 ára og vextirnir ákveðnir af ráðh. og ríkissjóð taki ábyrgð á þessu láni. Í 6. gr. l. um Framkvæmdabankann, nr. 17 frá 1953, er ákveðið, að hann megi ekki stofna til skuldar hjá Seðlabankanum, og þykir eðlilegt að leggja til, að þetta ákvæði nái ekki til þessara lána, sem þarna er um fjallað. Þá er gert ráð fyrir því í 4. tölulið gr., að Framkvæmdabankinn geti tekið lán vegna deildarinnar, og er lánsheimildin, sem í gr. felst, alls að upphæð 300 millj. kr.

4. gr. kveður á um það, hvernig sótt skuli um lán úr deildinni, og er það sniðið eftir því, sem tíðkast um löggjöf um aðra hliðstæða sjóði, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara það mörgum orðum.

En í 5. gr. er gert ráð fyrir því að lánsumsóknir skuli sendar til umsagnar þeirra aðila, sem bezt skilyrði eru taldir hafa til þess að segja til um það, hvort umsóknin sé í samræmi við tilgang þessara l., og þessir umsagnaraðilar er gert ráð fyrir að séu Iðnaðarmálastofnun Íslands, Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands, eftir því sem við á hverju sinni. En það er bankaráð Framkvæmdabankans, sem gert er ráð fyrir að taki endanlega ákvörðun um lánveitingar.

Í 6. gr. er gert ráð fyrir því, að lán úr deildinni geti numið allt að 90% kostnaðar við þær framkvæmdir og endurbætur, sem lánað er til. Þetta er að vísu æðihátt mark, kann mönnum að finnast, en á hinn bóginn er það einmitt tilgangur með þeim sjóði, sem hér er gert ráð fyrir, að hann veiti lán til viðbótar því, sem fáanlegt er frá öðrum stofnlánasjóðum, og þó að hámarkið sé talið svona hátt, væri að sjálfsögðu ekki skylt að fara upp í það hámark, það kæmi að sjálfsögðu til athugunar í hverju einstöku tilfelli. En vegna þess að hámarkið er svona hátt, verður að gera ráð fyrir því, að sett séu viðbótarveð til tryggingar svo háum lánum, enda gerir 8. gr. frv. ráð fyrir því, að lán úr framleiðnilánadeild að viðbættum öðrum stofulánum, sem á veðinu hvíla og hafa betri veðrétt, skuli ekki nema meira en 80% af endurkaupsmatsverði veðsins.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að rekja nánar efni frv. En því er oft haldið fram, að hagræðingaraðgerðir þurfi ekki að kosta mikið fé, það sé hægt með alls konar einföldum skipulags- og starfsaðferðabreytingum að ná mikilli hagræðingu án mikils tilkostnaðar. Þetta er þó öllu frekar teoretískt heldur en þetta fái staðizt allajafna, því að reynslan sýnir það, að þó að ekki sé um að ræða öflun dýrra tækja eða véla, eru aðgerðir í þessum efnum oft fjárfrekar. Þær kosta dýrar rannsóknir, ef þær eiga að vera vel heppnaðar, og fjárfrekar breytingar og oft og tíðum ýmiss konar truflanir á rekstri, meðan þær standa yfir, sem geta orðið ærið kostnaðarsamar.

Ég vonast til þess, að mér hafi tekizt að gera grein fyrir efni frv. og fyrir þeim ástæðum, sem við flm. höfum fyrir flutningi þess. Frv. svipað þessu var flutt hér í þessari hv. d. af mér og nokkrum öðrum þm. úr d. 1964, en þá fékk það ekki afgreiðslu, heldur sofnaði það í hv. fjhn. Ég mun nú eigi að síður, herra forseti, hætta á það að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn., í trausti þess, að það fái þar vinsamlegri viðtökur og betri fyrirgreiðslu en hliðstætt mál fékk þar fyrir tveimur árum. Ég vil beina þeim tilmælum til bv. formanns fjhn., að hann hlutist til um það, að n.. taki frv. til meðferðar, þegar það kemur þangað. Í rauninni eru það óviðunandi starfshættir af hv. n. þingsins, þegar þær veita ekki málunum eðlilega þinglega meðferð. Mér þykir rétt að vekja athygli hv. þdm. á því, að stjórnarandstaðan er allajafna reiðubúin til þess að leggja nokkuð á sig til þess að greiða fyrir, að mál hæstv. ríkisstj. fái þinglega meðferð í n., og væri ekki nema sanngjarnt, að hv. meiri hl. sýndi málefnum stjórnarandstöðunnar svipaða sanngirni.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til, að frv. verði visað til 2. umr. og hv. fjhn.