15.04.1966
Efri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (2655)

169. mál, sala eyðijarðarinnar Selárdals í Súgandafirði

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. að selja eyðijörðina Selárdal er flutt af hv. 1. þm. Vestf., Hermanni Jónassyni.

Jörðin Selárdalur í Súgandafirði hefur verið í eyði um alllangt skeið, og það eru engin mannvirki eða ræktun á jörðinni og ræktanlegt land mjög lítið, svo að það verður að teljast mjög fráleitt, að Selárdalur muni endurbyggjast. Með tilliti til nærliggjandi byggðar mætti ætla, að eðlilegt væri, að jörðin yrði sameinuð Botni í Súgandafirði. Hefði verið rétt, að leitað hefði verið álits héraðsráðunautar í Vestur-Ísafjarðarsýslu um þetta atriði, og vildi ég beina því til þeirrar n., sem fær málið til athugunar, að þetta yrði gert. Hins vegar er frv. flutt að ósk áhugamanns um skógrækt, en í landi Selárdals er kjarri vaxið daldrag, þar sem skilyrði eru sæmileg til skógræktar. Hreppsnefnd Suðureyrarhrepps hefur mælt með sölu á jörð þessari, eins og fram kemur í grg.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn.