16.12.1965
Sameinað þing: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2672)

96. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er nú sýnt, að takast muni að ljúka störfum þingsins nú fyrir jól, hinn 18. des. í síðasta lagi, svo sem samkomulag hafði orðið um milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstæðinga. Þegar það samkomulag var gert, tjáði ég hv. stjórnarandstæðingum, að ríkisstj. mundi leggja til, að þingínu yrði frestað til hins 7. febr., eða réttara sagt til febrúarbyrjunar 1966, og hefur orðið að ráði að leggja til að hafa frestunina til hins 7. febr. Það er miðað við þann dag vegna þess, að í janúarlok á að hefjast fundur í Norðurlandaráði í Kaupmannahöfn og þurfa nokkrir þm. og ráðh. að fara þangað, og þeir koma ekki heim aftur fyrr en seinni hlutann í næstu viku, þ.e.a.s. fyrstu vikunni í febrúar, svo að ekki hefur þótt taka því að reyna að hafa þingfundi þá viku, heldur byrja að öllu forfallalausu þann 7. febr. Þetta er auðvitað að því áskildu, að ekkert það beri að fyrir þennan tíma, sem geri það að verkum, að ríkisstj. þyki ástæða til að kalla þingið saman til fundar. Ef hún metur það rétt, mun þingið að sjálfsögðu kvatt saman eins fljótt og ástæða er til. Eins mun stjórnin í þinghléinu hafa samráð við þm. og þingflokka, eftir því sem hún metur rétt vera. Með þessum skýringum leyfi ég mér að leggja til, að hv. Alþ. samþykki þessa till.