03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (2678)

17. mál, markaðsrannsóknir í þágu útflutningsatvinnuveganna

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 17 hef ég ásamt 8 öðrum þm. Framsfl. leyft mér að flytja till. til þál. um markaðsrannsóknir og sölustarfsemi í þágu útflutningsatvinnuveganna, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að kjósa 5 manna mþn. til þess að athuga í samráði við fulltrúa atvinnuveganna, á hvern hátt megi efla markaðsrannsóknir og sölustarfsemi í þágu útflutningsatvinnuvega þjóðarinnar, svo og bæta gæðaeftirlit, þannig að sem beztum árangri verði náð með minnstum tilkostnaði, og leggja niðurstöður fyrir næsta reglulegt Alþ.“

Ekki eru liðnir nema rúmir 2 áratugir frá því, er Íslendingar tóku stjórn eigin mála að fullu í sínar hendur. Margt framfarasporið hefur síðan verið stigið í sögu landsins, en játa verður þó, að margt eigum við enn þá eftir að læra af öðrum, sem framar okkur standa á vissum sviðum. En í heimi nútímans er það fyrst og fremst þekkingin, sem sköpum skiptir um afkomu þjóðanna. Íslendingar eiga mikil verzlunarviðskipti við aðrar þjóðir og hlutfallslega meiri miðað við þjóðarframleiðslu og mannfjölda en flestar menningarþjóðir. Útflutningur landsmanna er nær eingöngu sjávarafurðir, enda eru Íslendingar stórtækustu fiskimenn í heimi og flytja meginmagnið út, því að við erum ekki að sama skapi duglegir fiskneytendur. Á hinn bóginn er Ísland kaupandi að margs kyns varningi erlendis frá í óvenjuríkum mæli miðað við fólksfjölda, því að enn þá er innlendur iðnaður vanmáttugur og stenzt í fáum tilfellum óhefta samkeppni frá stóriðjufyrirtækjum iðnaðarlandanna, er byggja framleiðsluna á þörfum stórs markaðar og nota mikla tækni og dýran vélakost í rekstri sínum. Af báðum þessum ástæðum er ljóst, að utanríkisverzlun landsmanna ræður miklu um afkomu þeirra á hverjum tíma, þannig að það á ekkert síður að kappkosta að efla skipulagningu hennar og bæta á allan máta heldur en að auka sjálfar fiskveiðarnar.

Sjávarafurðir hafa undanfarandi ár numið um 90—95% af heildarútflutningi landsmanna. Sölumeðferð þeirra befur að mestu leyti verið á höndum samtaka framleiðenda eða hálfopinberra aðila með þátttöku fulltrúa framleiðenda, eins og er t.d. um síldarútvegsnefnd. Yfirleitt hefur sölustarfsemi þessi gengið sæmilega, þótt ekki sé þar með sagt, að hún hefði ekki getað gengið betur í ýmsum tilfellum. Og áberandi er að minnsta kosti, hversu miklu betur samtökin hafa staðið í ístaðinu fyrir umbjóðendur sína heldur en t.d. þeir 20 eða 30 aðilar, sem annast, eða hafa að minnsta kosti annazt sölu á skreiðarframleiðslu landsmanna með umboðsþóknunina eina að leiðarljósi.

En Íslendingar hljóta að keppa að meiri fjölhreytni í útflutningi, og nýjum útflutningsgreinum þarf að afla markaða og bæta markaðsaðstöðu þeirra eldri. Það er því knýjandi að móta stefnu í markaðsmálum, er byggist á viðtæku samstarfi hins opinbera og þeirra einstaklinga og samtaka, sem markaðsmálefnin varða sérstaklega, svo að kraftarnir og fjármagnið, sem varið er til þessara mála, nýtist sem bezt. Hef ég þá fyrst og fremst í huga stórfellda eflingu hvers kyns markaðsrannsókna, markaðsupplýsingaþjónustu og kynningarstarfsemi á innlendri framleiðslu erlendis. Með markaðsrannsóknum á að reyna að finna út, hvort hefja skuli framleiðslu ákveðinnar vöru og hvernig hún skuli gerð. Það er ekki einasta nauðsynlegt, að gæði vörunnar falli ákveðnum hópi manna í geð, heldur þarf sá hópur að vera svo stór og geta borgað svo vei, að tryggt sé, að framleiðslan gangi fjárhagslega. Við stofnun nýrra útflutningsfyrirtækja verður að hafa þetta sjónarmið enn betur í huga en gert hefur verið. Það er ótækt að ráðast í stórfellda fjárfestingu og dýra framleiðslu til útflutnings, sem svo ekki selst, þegar á reynir, eins og mörg dæmi eru um í atvinnusögu okkar.

En til þess að þetta geti orðið, þurfum við menntað fólk, fjármagn og vinnuskipulag, sem ekki er á færi einstakra framleiðenda, hvers út af fyrir sig, að standa fjárhagslegan straum af. En með samvinnu ríkisvaldsins og samtaka atvinnuveganna væri unnt að leysa þennan vanda. Eðlilegt er við uppbyggingu útflutningsiðngreina að líta til þeirra í fyrstu röð, sem vinna úr innlendu hráefni. Þetta hefur verið gert með miklum árangri í fiskiðnaðinum og ullar- og gæruiðnaði landsmanna. og má vafalítið auka þennan iðnað mjög verulega.

Ég veit, að öllum hv. þm. er ljóst mikilvægi þess, að ýtarleg rannsókn verði látin fara fram ú þessum málum öllum, enda ber samhljóða samþykkt hv. allshn. frá því í fyrra á þessari þáltill. því vitni. Tími þingsins entist ekki þá til, að málið fengi fullnaðarafgreiðslu, en ég vona, að það takist nú. Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til síðari umr. og hv. allshn.