30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (2693)

66. mál, garðyrkjuskóli á Akureyri

Frsm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég skil hæstv. landbrh. ekki svo, að hann leggi á móti till., eins og hún er orðuð, og er það vel, enda vil ég vekja athygli á því, að hér er alls ekki um að ræða neina fyrirskipun frá Alþ. um það, að stofna skuli þennan skóla, heldur er farið fram á, að þetta mál verði athugað til næsta þings. Og ég vil geta þess, að í upphafi var till. miklu fortakslausari um þetta, en fjvn. breytti orðalagi hennar í það horf, sem hún er nú, og voru allir fjvn.-menn sammála um það.

Flm. að þessari till. eru allir þm. úr Norðurl. e., 7 talsins, og úr öllum flokkum, og vil ég enn vekja athygli á því, að hér er aðeins farið fram á það, að athugun verði gerð á þessu máli, en alls ekki um að ræða neina fyrirskipun af hálfu Alþingis um það, að þessi skóli skuli stofnaður.