09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (2698)

60. mál, lækkun kosningaaldurs

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Nokkrir þm. Alþfl. hafa leyft sér að flytja þáltill. um 18 ára kosningaaldur. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar, að gerð skuli athugun á því, hvort ekki sé tímabært og æskilegt að taka upp 18 ára kosningaaldur á Íslandi. Athugun þessa skal gera 7 manna nefnd kosin af Alþ. N. kýs sér sjálf formann. N. skal skila áliti fyrir setningu reglulegs Alþingis 1966.“

Alþfl. hefur ákveðið að vekja máls á þessari hugmynd við hina flokkana með því að flytja þessa þáltill. Í sjálfu sér væri einfalt mál að flytja frv. um breyt. á stjórnarskránni, þar sem aldrinum 21 væri breytt í 18. En þar eð umr. um þetta mál hafa enn ekki verið mjög miklar í landinu og aðrir flokkar hafa ekki, að því er okkur er kunnugt, látíð í ljós opinberlega skoðun á málinu, þykir eðlilegra að fara fram á skipun n. á þessu stigi til þess að veita þannig svigrúm og tíma til athugunar og umr. Fari svo, að hugmyndin fái stuðning, er óþarft að láta samþykkt stjórnarskrárbreytingar af þessu tagi leiða til þingslita og kosninga, heldur virðist rétt að afgreiða málið þá á síðasta þingi fyrir reglulegar kosningar, en slíkt þing verður að öðru jöfnu veturinn 1966—1967 með þingkosningum vorið 1967, og er við það miðað í tillögugerðinni.

Þegar Alþfl.-menn voru fyrst kosnir á þing fyrir tæplega hálfri öld, höfðu þeir einir atkvæðisrétt við kjördæmakosningar, sem voru 25 ára og stóðu ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Við landskjör giltu þá sömu ákvæði nema 35 ára aldursmark. Það var frá öndverðu eitt af mestu áhugamálum Alþfl. að berjast fyrir rýmkun kosningarréttarins. Var markið sett við 21 ár og afnám skilyrðisins varðandi sveitarstyrk. Var þetta í samræmi við þær reglur, sem þá giltu með frjálslyndum þjóðum og gilda víða enn. hm. eins og Jón Baldvinsson hreyfðu málinu í þessum sal ár eftir ár á fyrstu þingárum sínum. Ég get t.d. nefnt þingið 1922, þegar Jón Baldvinsson flutti þetta mál varðandi sveitarstjórnarkosningar. Hann sagði þá, að ýmsum þætti mikið los á þjóðfélaginu og ekki hreinar línur í landsmálum, jafnvel hið háa Alþingi hefði hlotið ámæli í því efni og væru þó flestir þm. ráðnir og rosknir. Taldi hann unga fólkið vera áhugasamara um opinber mál en hina eldri og benti m.a. á stuðning þess við mörg nauðsynjamál, t.d. þau, sem ungmennafélögin á sínum tíma tóku upp á arma sína, og starf þeirra allt. Taldi hann mikilsverðast, að menn skiptu sér í fylkingar eftir málefnum, og taldi, að unga fólkið stæði síður en svo hinum eldri að baki hvað það snertir. En þrátt fyrir þessar röksemdir, sem kunna að virðast augljósar í dag, var þn., sem um málið fjallaði, einróma á móti till., og frv. hans var fellt með 15:5 atkv. Baráttan um þennan áfanga í mannréttindum hvað kosningarrétt snertir stóð allan áratuginn frá 1920 og raunar fram yfir 1930. En smám saman vannst við málið stuðningur viðsýnna manna í öllum flokkum, og 1929 var lögfestur 21 árs kosningaaldur, en sveitarstyrksákvæðið afnumið að því er varðaði kosningar til sveitarstjórna, og með stjórnarskrárbreytingunni 1934 voru sömu ákvæði tekin upp við þingkosningar.

Síðan hafa miklar breytingar orðið á lífskjörum og lifnaðarháttum menningarþjóða. Velmegun er mun meiri og æskan virðist óneitanlega fá bráðari þroska en áður. Skólaganga er almennari en áður tíðkaðist og mun meira um framhaldsmenntun. Hin hraða uppbygging nútímaþjóðfélags á Íslandi hefur leitt til þess, að margt fólk er kallað til margvíslegra ábyrgðarstarfa mun fyrr en áður var.

Því er haldið fram gegn 18 ára kosningaaldri, að ungt fólk hneigist til ofstækis, öfga og yfirborðsmennsku. Ég tel þetta vera sleggjudóm og mundi ráðlegra að sýna æskunni fullkomið traust. Þá fyrst mun reyna á þroska hennar, og hann mun ekki bregðast í þessu efni frekar en hjá hinum eldri. Mikið er talað um vandamál æskunnar, ekki sízt í svonefndum velferðarríkjum. Í þeim efnum munu fá ráð reynast betri en að veita æskufólki sinn sess í þjóðfélaginu með fullri ábyrgð og trausti.

Mikil hreyfing er nú víða um lönd um að koma á 18 ára kosningaaldri. Víðtækar umr. hafa verið um málið í Norðurlandaráði. Í Vestur-Þýzkalandi hefur ungt fólk í öllum flokkum tekið saman höndum og efnt til ráðstefnu um þetta mál. sem vakið hefur mikla athygli þar í landi. Í Bretlandi hallast stjórnarflokkurinn nú mjög í áttina til þessarar breytingar. En stórveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, hafa riðið á vaðið með framkvæmd á hugmyndinni um 18 ára kosningaaldur. Í Sovétríkjunum er kosningarréttur miðaður við þann aldur, þegar búast má við fullum vinnuafköstum af hverjum borgara, og var 18 ára markið valið frá því sjónarmiði. Í Bandaríkjunum var meira hugsað um margvíslega ábyrgð, sem lögð er á fólk þegar við 18 ára aldurinn. Því er ætlað að berjast og jafnvel fórna lífi sínu fyrir land sitt, og margar aðrar skyldur leggjast á það. Þar var 18 ára kosningaaldur fyrst tekinn upp í einu fylki, Georgíu, en hefur nú verið tekinn upp í mörgum fleiri fylkjum, og sum hafa raunar 19 eða 20 ár, þó að nokkur séu enn með hina gömlu reglu um 21 árs kosningaaldur.

Íslenzka lýðveldið þarf á hverjum manni og konu að halda, og það krefst félagslegs þroska af hverjum einstaklingi. Það er tími kominn til að sýna hinni fjölmennu kynslóð, sem innan skamms á að erfa landið, það traust að veita henni fulla íhlutun um stjórn landsins við 18 ára aldur. Ég vænti þess, að þingflokkarnir taki vinsamlega í þetta mál og meti það, að Alþfl. hefur ákveðið að flytja það í umræðuformi til að byrja með. Ég vænti þess, að það verði umr. um þetta mál, og ég treysti því fullkomlega, að þetta mál muni ná fram að ganga, en spurning sé aðeins hvenær.

Ég legg til, berra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og allshn.